Sveitarstjórn

396. fundur 18. nóvember 2025 kl. 15:00 - 16:51 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Þorleifur Karl Eggertsson oddviti
  • Magnús Magnússon varaoddviti
  • Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Ingimar Sigurðsson aðalmaður
  • Viktor Ingi Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
  • Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg
Dagskrá
Oddviti setti fund. Oddviti óskaði eftir að setja á dagskrá Viðauka 6 við fjárhagsáætlun 2025 sem 12. dagskrárlið, dagskrárliðir 12-14 á auglýstu fundarboði færast því neðar um einn dagskrárlið og verður Skýrsla sveitarstjóra því 15. dagskrárliður. Samþykkt samhljóða.



Fundargerð 1258. fundar byggðarráðs frá 13. október sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

1.Byggðarráð - 1258

Málsnúmer 2510004FVakta málsnúmer

Magnús Magnússon formaður byggðarráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1258 Byggðarráð samþykkir veitingu afsláttar vegna verkefnis í samfélagsþágu.
  • Byggðarráð - 1258 Framkvæmdastjórn Kvennaárs hefur boðað til kvennaverkfalls þann 24. október þegar 50 ár eru liðin frá því að fyrsti kvennafrídagurinn var haldinn á Íslandi.

    Byggðarráð styður réttindabaráttu kvenna og samþykkir að konum og kvárum sem hjá sveitarfélaginu starfa verði heimilt að leggja niður störf á launum þann dag á tímabilinu kl. 14-16 sem er sá tími sem útifundur mun standa yfir á Arnarhóli. Þess er óskað að þau sem kjósa að leggja niður störf tilkynni forstöðumönnum sinna stofnana þar um eigi síðar en 17. október. Forstöðumönnum er falið að gera ráðstafanir varðandi afleysingar eða lokanir ef ekki tekst að manna starfsstöðvar og tilkynna þjónustuþegum um breytingar á þjónustu í tíma.

  • Byggðarráð - 1258 Áform um breytingar á sveitarstjórnarlögum voru kynnt í Samráðsgátt í maí á þessu ári. Veitti byggðarráð umsögn um málið og fagnaði áformunum en hvatti til þess að nánari útfærslur myndu liggja fyrir sem fyrst. Þær eru nú fram komnar í því frumvarpi sem hér er veitt umsögn um. Byggðarráð vill byrja á að þakka ráðuneytinu fyrir greinargóð fylgigögn með málinu, einkum afar ítarlegt samanburðarskjal sem skýrir vel þær viðamiklu breytingar sem frumvarpið felur í sér.

    Byggðarráð gerir eftirfarandi athugasemdir við einstaka liði frumvarpsins:

    4. gr. a. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ákveði sveitarstjórn í sveitarfélagi með undir 1000 íbúa að hefja ekki sameiningarviðræður skv. 4. gr geti 10% kosningabærra íbúa krafist þess að viðræður hefjist. Í gildandi lögum er kveðið á um að sama hlutfall geti óskað almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnar. Í báðum tilfellum er niðurstaða bindandi. Í nýju frumvarpi er því kveðið mun fastar að orði en gert er í gildandi lögum. Auk þess er bætt við ákvæði í 6. mgr. sem kveður á um að í sveitarfélögum með fleiri en 1000 íbúa geti íbúar innan árs frá kosningum farið fram á að unnið verði álit um stöðu sveitarfélags og þá fari um álitið í skv. 3.-5. mgr. Hér er því verið að færa mikið vald til íbúa. Í 108. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að ef minnst 20% kosningabærra íbúa óski almennrar atkvæðagreiðslu um mál skal sveitarstjórn verða við því. Hér gætir því ákveðins ósamræmis. Sameining sveitarfélaga er flókið ferli og þarf að taka margar breytur með í reikninginn sem hinum almenna íbúa er oft ekki kunnugt um. Því sætir undrun að þegar til sameiningar kemur skuli hlutfallið vera helmingi lægra en þegar krafist er kosninga um önnur mál. Einkum er gerð athugasemd við 6. mgr. sem á við um sveitarfélög sem eru yfir 1000 íbúa markinu. Með því að færa það í lög getur farið svo að lítill minnihluti knýi fram viðræður sem eru meirihluta íbúa ekki að skapi og bindi auk þess hendur nágrannasveitarfélags. Sameiningarviðræður eru auk þess að vera flóknar, afar kostnaðarsamar og því ber að íhuga vel hvort og hvenær í þær er ráðist. Með þessari athugasemd er þó ekki á nokkurn hátt vegið að íbúalýðræði heldur einungis gerð athugasemd við hver þröskuldurinn á að vera til að ekki sé ráðist í samtal sem raunverulega getur orðið til árangurs.

    4. gr. b. Frumkvæði ráðherra að sameiningu
    Ákvæðið er nýtt og felur í sér að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 250 skuli ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það aðliggjandi sveitarfélagi. Er ráðherra veitt heimild til að veita undanþágu frá ákvæðinu ef sérstakar aðstæður mæla gegn að hans mati. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um þá þætti sem ráðherra skal hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína. Byggðarráð telur að með þessu ákvæði sé of mikið vald fært á hendur ráðherra auk þess sem um þvingaðar sameiningar yrði að ræða sem eru að mati ráðsins ekki vænlegar til árangurs. Þær geta orðið til þess að sundrung skapist innan þeirra sveitarfélaga sem nauðugt er að sameinast. Með þessu ákvæði er að mati byggðarráðs vegið alvarlega gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga sem bundinn er í stjórnarskrá. Byggðarráð leggst því alfarið gegn því að þetta ákvæði nái fram að ganga. Í samhengi við framangreint er gerð athugasemd við 120. gr. frumvarpsins í heild sinni sem nær til framkvæmdar sameininga að frumkvæði ráðherra. Fari hins vegar svo að ákvæðið nái fram að ganga vill byggðarráð leggja til að tækniinnviðir og samstarf um stafræna þjónustu verði tiltekin sem sérstakar aðstæður sem mæla gegn sameiningu, þar sem sýnt er fram á að tæknin tryggi þegar nægilega gott þjónustustig, svo sem í skóla- og félagsþjónustu.

    11. gr. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórnum
    Með þeirri breytingu sem fram kemur í frumvarpinu er lögfest skýr málsmeðferð sem sveitarstjórnum ber að fylgja þegar teknar eru ákvarðanir um að breyta fjölda fulltrúa sveitarstjórnar. Einnig eru sett tímamörk á slíkar breytingar. Byggðarráð sér ástæðu til að fagna ákvæðinu sérstaklega þar sem það skýrir ferlið sem fara þarf fram við breytingu á fjölda í sveitarstjórn sem var óljóst fyrir og bauð upp á ólíka túlkun.

    14. gr. Skylda til að halda fundi
    Í ákvæðinu er sett inn skylda til að fundir sveitarstjórnar séu haldnir innan staðarmarka sveitarfélags nema ef óviðráðanlegar ástæður gera fundahald innan sveitarfélagsins ómögulegt. Byggðarráð telur það tímaskekkju að bundið sé í lög að fundi verði að halda innan staðarmarka sveitarfélags. Komið geta upp aðstæður sem kalla á fundahöld utan svæðis sem ekki teljast til óviðráðanlegra aðstæðna. T.d. ef meirihluti sveitarstjórnar er staddur utan sveitarfélags af einhverjum ástæðum. Á tímum þegar tækni leyfir fundahöld hvar sem er ætti að vera óþarfi að binda fundi við staðsetningu innan sveitarfélags.

    28. gr. Aðgangur að gögnum og þagnarskylda
    Ekki eru gerðar athugasemdir við þær breytingar sem gerðar eru á greininni. Hins vegar vill byggðarráð benda á að í skýringum kemur fram að þrátt fyrir að felld sé á brott málsgrein um eðlilegan aðgang að skrifstofu og stofnunum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi sveitarfélagsins og rekstur geti kjörnir fulltrúar sem fyrr óskað eftir að kynna sér starfsstöðvar sveitarfélagsins í samráði við stjórnendur. Að mati ráðsins væri eðlilegt að það ákvæði væri inni í lagagreinininni eins og það er orðað í skýringum. Með því væri skýrt að kjörnir fulltrúar skuli hafa samráð við stjórnendur um slíkar heimsóknir.

    30. gr. Lausn frá störfum
    Í ákvæðinu er þeim sveitarstjórnarmanni sem óskar lausnar heimilað að taka sæti fyrsta varamanns. Byggðarráð sér sérstaka ástæðu til að fagna þessari breytingu sem eins og fram kemur í skýringu með ákvæðinu eykur sveigjanleika kjörinna fulltrúa.

    32. gr. Réttur til þóknunar o.fl.
    Í ákvæðinu er skýrar kveðið á um greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar auk þess að setja má nánari reglur um réttindi sveitarstjórnarmanna svo sem um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar og tapaðra launatekna. Byggðarráð sér ástæðu til að fagna ákvæðinu sérstaklega. Sveitarstjórnarmenn þurfa oft að nýta orlofsdaga eða taka launalaust leyfi til að taka þátt í verkefnum sveitarstjórnar sem getur takmarkað tækifæri fólks til að taka þátt í slíkum störfum. Ákvæðið er að mati ráðsins vel til þess fallið að bæta starfsaðstæður sveitarstjórnarmanna.

    35. gr. a. Framsal á valdi sveitarstjórnar til byggðarráðs
    Í ákvæðinu er skýrt hvaða skilyrði þurfa að liggja fyrir til að byggðarráð geti fullnaðarafgreitt mál. Byggðarráð sér ástæðu til að fagna ákvæðinu þar sem það leiðir til styttri málsmeðferðartíma auk þess sem það getur létt á álagi á sveitarstjórnarmenn.

    64. gr. Viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga
    Í greininni er lagt til að heildarskuldir og skuldbindingar A-hluta séu ekki hærri en 110%. Byggðarráð gerir athugasemd við ákvæðið þar sem einsýnt er að það muni hafa íþyngjandi áhrif á sveitarfélög einkum þau sem eru í örum vexti með mikla þörf á innviðauppbyggingu. Jafnframt er líklegt að það íþyngi þeim sveitarfélögum sem standa frammi fyrir stórum en brýnum viðhaldsverkefnum. Fjármálareglur sveitarfélaga verða að styðja við getu sveitarfélaga til að veita grunnþjónustu fremur en að hamla henni líkt og kemur fram í umsögn byggðarráðs Skagafjarðar um málið og byggðarráð tekur heilshugar undir.

    96. gr. Samningur um að sveitarfélag taki að sér verkefni fyrir önnur sveitarfélög
    Í meginatriðum fagnar byggðarráð þeim breytingum sem lagðar eru til á lagagreininni og telur þær vel til þess fallnar að skýra samstarf sveitarfélaga. Hins vegar gerir ráðið athugasemd við kaflann um kostnaðarskiptingu þar sem sveitarfélaginu sem annast verkefni annars sveitarfélags er heimilað að leggja álag á raunkostnað. Eðlilegt er að viðkomandi sveitarfélag innheimti kostnað sem af umsýslu hlýst en að heimila innheimtu álags án skýringa í lagagreininni er að mati byggðarráðs of opið. Í skýringu með greininni er ágætlega farið yfir það sem við er átt og væri að mati ráðsins eðlilegt að sú skýring kæmi fram í lagagreininni til að koma í veg fyrir ólíka túlkun ákvæðisins. Einnig væri eðlilegt að sett væri hámark á þann kostnað sem innheimta má í þessum tilfellum.

    97. gr. Landshlutasamtök sveitarfélaga
    Í greininni er gerð sú grundvallarbreyting að sveitarfélögum er gert skylt að vera aðilar að landshlutasamtökum. Byggðarráð sér ekki ástæðu til þess að aðild að landshlutasamtökum sé lögbundin og telur að með því sé vegið að stjórnarskrárvörðu félagafrelsi. Það hlýtur að vera val hvers sveitarfélags fyrir sig hvort það sér hag sinn í að taka þátt í slíku starfi í takt við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Byggðarráð fagnar hins vegar nýjum málsgreinum lagagreinarinnar sem skilgreina hvernig verkefni heimilt er að fela landshlutasamtökum og með hvaða hætti. Einkum telur ráðið mikilvægt að viðhaft sé samráð við sveitarfélög feli Alþingi landshlutasamtökum ný verkefni eins og fram kemur í 5. mgr.

    Ekki eru gerðar athugasemdir við þá liði sem taka breytingum í frumvarpinu sem ekki eru tilgreindir hér að framan.

    Almennt um frumvarpið
    Í frumvarpsdrögunum er mikil áhersla lögð á landfræðilega nálægð og íbúafjölda sem forsendu fyrir getu sveitarfélaga til að veita lögbundna þjónustu, sérstaklega rekstur grunnskóla. Til dæmis er rekstur grunnskóla nefndur sem mikilvægur þáttur í mati ráðherra á því hvort heimila eigi undanþágu frá sameiningu sveitarfélags með færri en 250 íbúa. Þessi nálgun er gagnrýniverð vegna þess að hún takmarkar valkosti og möguleika sveitarfélaga til að nýta tækni til að leysa þjónustuvanda, sérstaklega í dreifbýli.

    Frumvarpsdrögin stuðla að því að samvinna og þjónustukaup eigi sér stað á milli landfræðilega tengdra sveitarfélaga. Með tilliti til hraðrar tækniþróunar undanfarinna ára, þar sem hægt er að bjóða upp á kennslu, sérfræðiþjónustu (þ.m.t. til grunnskóla og almennrar félagsþjónustu) og stjórnsýslustuðning með stafrænum hætti, er landfræðileg nálægð ekki lengur forsenda fyrir skilvirkni. Tæknin gerir sveitarfélagi í dreifbýli til dæmis kleift að kaupa sérhæfða skólaþjónustu (t.d. sérkennara, sálfræðinga eða tæknilausnir) frá besta veitanda á landinu, óháð því hvort sá aðili er í sama landshluta eða er aðliggjandi. Ef rík áhersla er lögð á að samstarf skuli eiga sér stað við landfræðilega aðliggjandi sveitarfélög takmarkar það frelsi sveitarfélaganna til að leita hagkvæmustu og bestu þjónustulausna.

    Samkvæmt frumvarpsdrögunum er eitt af markmiðunum að draga úr nauðsyn þess að minni sveitarfélög framselji vald til annarra stjórnsýslueininga eins og byggðasamlaga. Með því að beita tæknilegum lausnum, eins og rafrænum skólarekstri og fjarþjónustu frá bestu þjónustuveitendum (óháð landfræðilegri legu), væri hægt að styrkja sjálfræði sveitarfélaga til muna, þar sem þau þyrftu ekki endilega að vera hluti af landfræðilega bundnu samstarfi til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar. Slíkt kallar á frekari lagabreytingar t.d. með tilliti til skólaþjónustu.

    Byggðarráð áskilur sér rétt til umsagnar um málið á seinni stigum og lýsir sig tilbúið til samtals við innviðaráðuneyti um málið.
  • Byggðarráð - 1258
Fundargerð 1259. fundar byggðarráðs frá 20. október sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

2.Byggðarráð - 1259

Málsnúmer 2510007FVakta málsnúmer

Magnús Magnússon formaður byggðarráðs kynnti fundargerð.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1259 Í minnisblaðinu kemur fram að húsnæðisáætlanir sveitarfélagsins hafi leitt í ljós útlit fyrir aukningu í nemendafjölda Leikskólans Ásgarðs á komandi árum. Útlit er fyrir að sú þróun sé hraðari en áætlanir hafa gefið til kynna en í vetur eru 69 nemendur við leikskólann. Miðað hefur verið við að hámarksfjöldi nemenda sé 70. Einnig kemur fram í minnisblaðinu þörf á endurnýjun leiktækja og breytinga á útisvæði.

    Í ljósi þess að teikn eru á lofti um atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu og af þeim ástæðum sem taldar eru upp hér að framan samþykkir byggðarráð að starfshópur verði stofnaður um framtíðarþróun húsnæðis og útisvæðis leikskólans. Í hópnum sitji formaður fræðsluráðs sem jafnframt er formaður, fulltrúi minnihluta í sveitarstjórn og fulltrúi foreldrafélags Leikskólans Ásgarðs. Með hópnum starfi sviðsstjóri fjölskyldusviðs, leikskólastjóri og verkefnisstjóri umhverfismála.

    Einnig lögð fram drög að erindisbréfi hópsins. Byggðarráð samþykkir framlagt erindisbréf og felur sveitarstjóra að kalla eftir tilnefningum í hópinn.


    Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1259 Í minnisblaðinu er farið yfir tillögur sem lúta að mögulegum breytingum á gjaldskrá til að mæta styttingu vinnuviku starfsmanna leikskólans án þess að komi til hækkana á gjaldskrá á hópa sem ekki geta stytt vistunartíma. Byggðarráð samþykkir að kalla saman að nýju starfshóp um opnunartíma leikskóla og grunnskóla sem skilaði tillögum sínum í apríl til að yfirfara framkomnar hugmyndir. Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1259 Hljóðar tilboðið upp á kr. 83.326.464 sem er miðgildi síðastu tilboða Húnaþings vestra og eiganda eignarinnar.

    Lögð fram eftirfarandi tillaga:

    „Byggðarráð samþykkir framlagt tilboð, með þeim skilyrðum að uppgjör fari fram í einu lagi og að eigandi rými húsnæðið og allt annað lausafé og mannvirki á lóðinni innan þriggja mánaða frá staðfestingu sveitarstjórnar. Sveitarfélagið tekur að sér að fjarlægja húsið, niðurgrafnar þrær og efnishaug við síló á lóðinni. Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við framangreint í samvinnu við lögmenn sveitarfélagsins.“

    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 2 atkvæðum. Magnús Vignir Eðvaldsson sat hjá við afgreiðslu málsins.
    Bókun fundar Mál þegar afgreitt á 395. fundi sveitarstjórnar þann 23. október sl.
  • Byggðarráð - 1259 Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
  • Byggðarráð - 1259 Byggðarráð ítrekar þakkir til umsjónarmanna hátíðarinnar fyrir gott utanumhald og vel heppnaða hátíð.
  • Byggðarráð - 1259
  • Byggðarráð - 1259 Lögð fram eftirfarandi tillaga að Viðauka 6 við fjárhagsáætlun 2025:

    „Eignasjóður, götur kr. 83.326.464.
    Hækkun eignfærðrar fjárfestingar er mætt með lækkun handbærs fjár. Viðaukinn er gerður vegna samkomulags milli eiganda eignarinnar Norðurbrautar 32 og sveitarfélagsins í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Viðaukinn hefur ekki áhrif á áætlaða rekstrarniðurstöðu og því er ekki lagt fram málaflokkayfirlit samhliða framlagningu hans.“

    Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 2 atkvæðum. Magnús Vignir Eðvaldsson sat hjá við afgreiðslu málsins.
Fundargerð 1260. fundar byggðarráðs frá 27. október sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

3.Byggðarráð - 1260

Málsnúmer 2510010FVakta málsnúmer

Magnús Magnússon formaður byggðarráðs kynnti fundargerð.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1260 Starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs Húnaþings vestra var auglýst laust til umsóknar með umsóknarfresti til 1. október sl. Alls bárust 8 umsóknir. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Eftirtalin sóttu um:
    Anne Herzog,
    Atli Arason,
    Egill Gestsson,
    Einar Torfi Einarsson,
    Frank Bowers,
    Guðni Þór Skúlason,
    Ingimar Ingimarsson.
    Helga Birna fór yfir ráðningarferlið, matskvarða, forsendur mats og mat á þeim umsóknum sem bárust. Byggðarráð hefur kynnt sér öll gögn málsins. Byggðarráð samþykkir að ráða Ingimar Ingimarsson í starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs Húnaþings vestra.
    Sveitarstjóra er falið að ganga frá og undirrita ráðningarsamning við Ingimar.
    Þorgils Magnússon lætur af störfum 1. desember nk. Byggðarráð þakkar Þorgils vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum.
    Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1260 Byggðarráð skipar Heiðu Jack verkefnisstjóra umhverfismála sem aðgengisfulltrúa Húnaþings vestra. Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1260 Í samræmi við erindisbréf starfshópsins skipar byggðarráð eftirtalin í hópinn:
    Elín Lilja Gunnarsdóttir, formaður fræðsluráðs, formaður,
    Viktor Ingi Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi,
    Rannvá Björk Þorleifsdóttir, formaður foreldrafélags Leikskólans Ásgarðs.
    Bókun fundar Þorleifur Karl Eggertsson vék af fundi kl. 15:17. Magnús Magnússon varaoddviti tók við fundarstjórn.

    Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.

    Þorleifur Karl Eggertsson kom aftur til fundar kl. 15:19 og tók við fundarstjórn að nýju.

  • Byggðarráð - 1260
Fundargerð 1261. fundar byggðarráðs frá 3. nóvember sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

4.Byggðarráð - 1261

Málsnúmer 2510012FVakta málsnúmer

Magnús Magnússon formaður byggðarráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 381. fundar skipulags- og umhverfisráðs frá 13. nóvember sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

5.Skipulags- og umhverfisráð - 381

Málsnúmer 2511003FVakta málsnúmer

Ingimar Sigurðsson formaður skipulags- og umhverfisráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381
    Engar athugasemdir bárust á auglýstum tíma, en tvær ábendingar bárust.
    Skipulags- og umhverfisráð tekur undir ábendingar í umsögnum Brunavarna Húnaþings vestra og sviðsstjóra umhverfis-, veitna- og framkvæmdasviðs.
    Ráðið leggur til að tekið verði mið af framkomnum ábendingum við lokaafgreiðslu málsins, með sérstakri áherslu á:

    - að tryggt verði að komið verði fyrir brunahana í samráði við Brunavarnir Húnaþings vestra,
    - að samráð verði haft við veitusvið sveitarfélagsins áður en framkvæmdir hefjast, vegna lagnakerfa á svæðinu.

    Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjuhvamms.
    Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381
    Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að framangreind sjónarmið á innsendum ábendingum frá umsagnaraðilum og einnig frá Sigríði Klöru og Önnu Rósu Böðvarsdætrum verði skoðuð áður en drög að deiliskipulagi eru lögð fram til auglýsingar.

    þ.e.
    - Samræmingu aðalskipulagsbreytingar VÞ‑9 við deiliskipulag og mat á því hvort leggja skuli fram breytingu á gildandi deiliskipulagi 2013 (mörk/stækkun) í samræmi við ábendingu
    Skipulagsstofnunar;
    - Votlendis- og náttúrufarsúttekt (afmörkun vistgerða, fuglalíf) og flóðahættugreiningu;
    - Grunnvatns- og mengunarvarnagreiningu með hönnun mótvægisaðgerða í samræmi við reglugerðir 796/1999 og 797/1999;
    - Innleiðingu skilmála um brunaöryggi, slökkvivatn og viðbragðsáætlun í samráði við Brunavarnir;
    - Staðfestingu landamerkja og kynningar til aðliggjandi jarðareigenda;


    Bókun fundar Magnús Magnússon vék af fundi kl. 15:25.

    Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.

    Magnús Magnússon kom aftur til fundar kl. 15:27.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framkvæmdaleyfi með þeim fyrirvara að fyrir liggi skrifleg undirritun landeiganda. Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja merkjalýsingu fyrir stofnun nýrrar lóðar úr landi Múlalundar L228874 sem fær staðfangaheitið Múlalundur 2. Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja merkjalýsingu fyrir Höfða L144475 og stofnun nýrrar lóðar úr landi Höfða sem fær staðfangaheitið Litlu-Vellir. Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja merkjalýsingu fyrir Sæból L144189 og Sæból 1 L234854. Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja merkjalýsingu fyrir stofnun nýrrar lóðar og breyttu staðfangi.
    Stóra-Ásgeirsá lóð L200590 fær staðfangið Stóra-Ásgeirsá 2.
    Lóðin stofnuð í landi Stóru-Ásgeirsár L144636 fær staðfangaheitið Stóra-Ásgeirsá 3.

    Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Skipulags- og umhverfisráð - 381 Skipulags- og umhverfisráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja merkjalýsingu fyrir Víðihlíð L144645 og stofnun nýrrar lóðar sem fær staðfangaheitið Víðihlíð 2. Bókun fundar Afgreiðsla skipulags- og umhverfisráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 256. fundar fræðsluráðs frá 30. október sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

6.Fræðsluráð - 256

Málsnúmer 2510011FVakta málsnúmer

Elín Lilja Gunnarsdóttir formaður fræðsluráðs kynnti fundargerð.
Fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Fundargerð 221. fundar landbúnaðarráðs frá 5. nóvember sl. lögð fram til afgreiðslu á 396. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

7.Landbúnaðarráð - 221

Málsnúmer 2509001FVakta málsnúmer

Sigríður Ólafsdóttir formaður landbúnaðarráðs kynnti fundargerð.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Landbúnaðarráð - 221 Eftirfarandi umsóknir bárust:
    Sigfús Heiðar Árdal Jóhannsson, vegna veiða í Víðidal.
    Bjarni Kristmundsson, vegna veiða í austanverðum Hrútafirði.
    Elmar Baldursson, vegna veiða á Vatnsnesi.
    Þorbergur Guðmundsson, vegna veiða á Miðfjarðasvæði.
    Hannes Hilmarsson, vegna veiða í vestanverðum Hrútafirði.
    Björn Viðar Unnsteinsson, vegna veiða í Vesturhópi.
    Landbúnaðarráð felur sveitarstjóra að gera samninga við ofangreinda vegna vetrarveiða á ref veturinn 2025-2026.
    Bókun fundar Elín Lilja Gunnarsdóttir vék af fundi kl. 15:37.

    Afgreiðsla landbúnaðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.

    Elín Lilja Gunnarsdóttir kom til fundar að nýju kl. 15:40.
  • Landbúnaðarráð - 221 Heildarkostnaður vegna styrkvega var kr. 5.677.641,- þar af er framlag frá Vegagerðinni kr. 2.500.000,-. Heildarkostnaður vegna heiðagirðinga var kr. 3.550.893,-.
  • Landbúnaðarráð - 221 Heildarkostnaður vegna refa- og minkaveiði á þessu tímabili er alls kr. 8.461.240. Unnin grendýr voru 91, yrðlingar 196 og hlaupadýr 103. Veiddir minkar voru 35.
  • Landbúnaðarráð - 221 Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti nr. 903/2024 skal fyrirbyggja sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum. Í ljósi þess er þeim tilmælum beint til eigenda hunda í dreifbýli að ormahreinsa hunda sína.
    Sveitarstjóra er falið að vekja athygli á framangreindu á miðlum sveitarfélagsins og með auglýsingu í Sjónauka.

  • Landbúnaðarráð - 221 Landbúnaðarráð samþykkir framlagða áætlun.

8.Þjónustustefna Húnaþings vestra

Málsnúmer 2403070Vakta málsnúmer

Þjónustustefna Húnaþings vestra lögð fram til annarrar umræðu. Fyrri umræða fór fram á 394. fundi sveitarstjórnar þann 9. október sl.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir Þjónustustefnu Húnaþings vestra.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

9.Samstarfssamningur um og samstarfsyfirlýsing um farsældarráð á Norðurlandi vestra

Málsnúmer 2510070Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir samsstarfssamning og samstarfsyfirlýsingu um stofnun farsældarráðs á Norðurlandi vestra.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

10.Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka

Málsnúmer 2510065Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

11.Reglur um niðurgreiðslu á garðslætti 2026

Málsnúmer 2510072Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir Reglur um niðurgreiðslu á garðslætti 2026.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

12.Viðauki 6 við fjárhagsáætlun 2025

Málsnúmer 2510044Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga að Viðauka 6 við fjárhagsáætlun 2025:

„Eignasjóður, götur kr. 83.326.464.

Hækkun eignfærðrar fjárfestingar er mætt með lækkun handbærs fjár. Viðaukinn er gerður vegna samkomulags milli eiganda eignarinnar Norðurbrautar 32 og sveitarfélagsins í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Viðaukinn hefur ekki áhrif á áætlaða rekstrarniðurstöðu og því er ekki lagt fram málaflokkayfirlit samhliða framlagningu hans.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum. Magnús Vignir Eðvaldsson og Viktor Ingi Jónsson sátu hjá við afgreiðslu málsins.

13.Gjaldskrár 2026

Málsnúmer 2507019Vakta málsnúmer

GJALDSKRÁ FASTEIGNAGJALDA OG ÚTSVARS
Lögð fram eftirfarandi tillaga að gjaldskrá fasteignagjalda og útsvars, ásamt reglum um afslátt af fasteignaskatti árið 2026:

Útsvar 14,97 %
Fasteignaskattur A-gjald 0,45 % af fm. húss og lóðar
Fasteignaskattur B-gjald 1,32 % af fm. húss og lóðar
Fasteignaskattur C-gjald 1,42 % af fm. húss og lóðar

Lóðarleiga, almennt gjald 11,32 kr. pr. m2
Lóðarleiga, ræktað land 1,58 kr. pr. m2

Fráveitugjald 0,20 % af fm.húss og lóðar

Vatnsgjald 0,25 % af fm. húss og lóðar

Aukavatnsgjald 35 kr. pr. m3

Hreinsun rotþróa:
0-2000 lítra 18.825 kr. pr. þró
2001-4000 lítra 23.190 kr. pr. þró
4001-6000 lítra 25.350 kr. pr. þró
6001 lítra og stærri 6.400 kr. pr. m3

Sorpgjald á íbúðarhúsnæði, regluleg sorphirða 100.000 kr.
Sorpeyðingargjald, sumarbústaðir og íbúðir í dreifbýli þar sem ekki er hirt sorp 44.375 kr.

Lóðarleigu og fasteignaskatt skv. A-, B- og C- gjaldi skal innheimta frá fyrstu skráningu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld skal innheimta frá þeim tíma að fasteign hefur verið skráð með byggingarstig BS 2.

Gjalddagar
Gjalddagi gjalda undir kr. 20.000 er 1. maí.
Gjalddagar gjalda sem eru á bilinu kr. 20.001 - 38.000 eru 1. apríl og 1. júlí.
Fasteignagjöld eigna sem eru hærri en kr. 38.000 hafa 8 gjalddaga, frá 1. febrúar 2026 til 1. september 2026.

Reglur um afslátt af fasteignaskatti árið 2026.
Reglur um afslátt af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega eru vegna íbúðarhúsnæðis þeirra til eigin nota og fyrir þá sem eiga lögheimili í Húnaþingi vestra. Afslátturinn er tekjutengdur og miðaður við árstekjur 2024 samkvæmt skattframtali 2025, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekjur og tekur einungis til fasteignaskatts.

Hámark afsláttar er 115.000 kr.

Tekjuviðmiðun:
Fyrir einstaklinga:
a) Með heildartekjur allt að 5.670.000 kr. fær 100% afslátt, þó að hámarki 115.000 kr.
b) Með tekjur umfram 7.650.000 kr. enginn afsláttur.

Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk:
a) Með heildartekjur allt að 7.650.000 kr. fær 100% afslátt, þó að hámarki 115.000 kr.
b) Með heildartekjur umfram 10.117.000 kr. enginn afsláttur.

Hlutfallslegur afsláttur er veittur samkvæmt framangreindu tekjubili.

Skilyrði fyrir afslætti er að viðkomandi búi sjálfur í húsnæðinu og hafi ekki af því leigutekjur. Sé fasteign skráð með leyfi til heimagistingar fellur afsláttur af fasteignagjöldum með öllu niður árið 2026. Í tilfelli hjóna eða sambýlisfólks, ræður aldur þess sem fyrr verður 67 ára án tillits til þess hvort þeirra er skráð fyrir eigninni.

Við andlát maka styrkir sveitarsjóður eftirlifandi um sömu upphæð og nemur álögðum fasteignaskatti ársins að fullu.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

GJALDSKRÁR TIL EINNAR UMRÆÐU
Lögð fram tillaga að gjaldskrá Grunnskóla Húnaþings vestra, dreifnáms og fjarnámsstofu.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Leikskólans Ásgarðs.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Tónlistarskóla Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá bóka- og héraðsskjalasafns Húnaþings vestra og Félagsmiðstöðvarinnar Óríon.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá geymslusvæða í Grænulaut.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Félagsheimilisins Hvammstanga.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá þjónustumiðstöðvar.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


GJALDSKRÁR TIL SEINNI UMRÆÐU
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hirðu, móttöku- og flokkunarstöð úrgangs í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá sorphirðu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hreinsun og losun rotþróa í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hvammstangahöfn, hafnarsjóð.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Hitaveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Vatnsveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Brunavarna Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


14.Fjárhagsáætlun árins 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki

Málsnúmer 2507019Vakta málsnúmer

Lögð fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun árins 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.
Lögð fram svohljóðandi tillaga:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2027 - 2029.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


Greinargerð með fjárhagsáætlun 2026
Óvissa um þróun verðbólgu og óhagstætt vaxtaumhverfi heldur áfram að vera áskorun í rekstri Húnaþings vestra. Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að verðbólga verði 3,4% og að fjármagnskostnaður sveitarfélagsins verði 51,4 milljónir. Ársverðbólga var nú í októbermánuði 4,3%, en héldist hún óbreytt út árið 2026 yrði fjármagnskostnaður 10 milljónum hærri. Viðbrögð sveitarstjórnar við þessu óhagstæða fjármálaumhverfi hefur sem fyrr verið að draga úr lántökum, en ekki hefur verið tekið lán hjá sveitarfélaginu síðan árið 2022. Þá var í boði að taka verðtryggð lán með 3% vöxtum hjá Lánasjóði sveitarfélaga, en lánakjör sambærilegra lána eru nú 4%. Í fjárhagsáætlun ársins 2025 er lánsheimild fyrir 150 milljónum, en stefnt er að því að nýta heimildina ekki líkt og fyrri ár.

Sveitarstjórn fagnar því að nú er loks búið að gera langtímakjarasamninga við alla starfsmenn sveitarfélagsins. Þó er óvissa um virðismatsvegferð KÍ á haustmánuðum 2026 og ef ekki næst sátt um hana gætu samningar losnað 1. mars 2027. Auk þess er ákveðin óvissa um hvað verður um framlög frá Jöfnunarsjóði en fjármálaráðuneytið hefur nú lækkað útsvarsspá sveitarfélaga í 5,3% en var fyrr í haust áætluð 5,8% frá árinu 2025. Ræður þar mestu bilun álvers Norðuráls á Grundartanga, gjaldþrot Play og minni aflaheimildir í uppsjávarveiði. Lækkun útsvarstekna lækkar framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Með lækkandi fjármagnskostnaði var nú árið 2025 bætt mjög í langvarandi innviðaskuld, m.a. í viðhald gatna og gangstétta og viðhaldi á veitum sveitarfélagsins. Áfram verður haldið á þeirri vegferð árið 2026. Þannig er viðhaldskostnaður sveitarfélagsins áætlaður 174,6 milljónir þar sem áfram er gert ráð fyrir endurbótum á veitum sveitarfélagsins, malbiksframkvæmdum og lagfæringum á gangstéttum. Eignfærð fjárfesting er áætluð 360,5 milljónir, þar sem verður m.a. ráðist í frágang á skólalóð, haldið áfram við endurbætur á Félagsheimilinu Hvammstanga og aðstöðuhúsið í Kirkjuhvammi verður klárað. Jafnframt verður haldið áfram endurnýjun dreifikerfis hitaveitunnar á Hvammstanga og hafin vinna við nauðsynlegar endurbætur á fráveitu í samræmi við auknar kröfur hins opinbera.

Útsvarsprósenta ársins 2026 verður óbreytt frá núlíðandi ári, eða 14,97%. Verkefni sveitarstjórnar mun áfram verða finna leiðir til eflingar atvinnulífs svo útsvarstekjur ársins hækki, en Húnaþing vestra heldur áfram að raða sér í neðstu sæti þeirra sveitarfélaga sem lægst útsvar hafa pr. íbúa. Hækkun útsvarstekna frá árinu 2025 er áætluð 3,9% sem er lægra en meðaltalshækkun á landinu öllu. Það er því afar ánægjulegt að sjá að útlitið í atvinnumálum er bjartara nú en oft áður með uppbyggingu í ferðaþjónustu, tilraunir með þaragarða, áform um skógarplöntuverksmiðju og fleira. Vonir standa til að þessi verkefni leiði til fjölgunar starfa og þar með hækkunar útsvarstekna. Undirbúningur þessara verkefna af hálfu sveitarstjórnar hefur meðal annars falist í húsnæðisuppbyggingu sem hefur ekki verið meiri um langa hríð. Inniðviðir til fjölgunar íbúa eru því til staðar þegar að því kemur að tækifærin sem nefnd voru raungerast.

Álagning fasteignaskatts íbúðarhúsnæði lækkar frá árinu 2025 og fer niður í 0,45% árið 2026. Gjaldskrá atvinnuhúsnæðis (C-hluta) fer hins vegar í 1,42% í stað þess að vera 1,32% en um langt árabil hefur álagning atvinnuhúsnæðis verið mun lægri en í þeim sveitarfélögum sem við berum okkur saman við. Hækkun tekna vegna fasteignaskatts er áætluð 11,3%. Tekjuviðmið reglna um afslátt af tekjuskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega voru hækkuð umfram hækkun launavísitölu fyrir árið 2024 sem og hámarksafslátturinn um 15%. Sorphirðugjöld íbúðarhúsnæðis þar sem er föst búseta verður óbreytt á milli ára, fjórða árið í röð.

Fráveitugjald lækkar í 0,20% (var 0,21%) og vatnsgjald lækkar í 0,25% (var 0,27%).

Almennar gjaldskrárhækkanir eru 3,2% sem er með því lægsta sem gerist á landinu. Vert er að taka fram að ákveðnir liðir gjaldskrár íþróttamiðstöðvar eru óbreyttir á milli ára, má þar nefna árskort sem er í anda áherslu á heilsueflandi samfélag.

Samkvæmt þeirri áætlun sem hér er lögð fram er rekstrarafkoma sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja áætluð jákvæð um 1,4 milljónir fyrir árið 2026.

Sveitarstjórn heldur áfram að styðja myndarlega við íþrótta- og tómstundastarf barna. Er það gert með því að greiða fjárframlag til USVH sem útdeilir því til íþróttafélaganna. Hefur íþróttafélögum á svæðinu vegna þessa tekist að hafa þátttökugjöldin afar lág sem leiðir til þess að kostnaður foreldra vegna íþróttaiðkunar er með því lægsta sem gerist á landinu. Fjárhæð frístundastyrks verður áfram kr. 25.000 árið 2026 og nær til barna frá fæðingu og til átjánda aldursárs. Íþróttafélögin munu áfram njóta gjaldfrjálsra afnota af íþróttamannvirkjum fyrir íþróttastörf barna. Jafnframt verða áfram greiddir akstursstyrkir til foreldra barna í dreifbýli sem þurfa að keyra börn sín sérstaklega til og frá æfingum.

Sveitarfélagið styður einnig við félagsstarf eldri borgara með gjaldfrjálsri notkun á húsnæði í samfélagsmiðstöðinni í Félagsheimilinu Hvammstanga.

Húnaþing vestra veitir hinum ýmsu félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2026, samtals 30,79 milljónir. Þeir sem hljóta m.a. styrk er Félag eldri borgara, Verslunarminjasafnið, Eldur í Húnaþingi, Handbendi brúðuleikhús, USVH bæði í formi fjárstyrks og reiknaðra afnota af íþróttamannvirkjum, Húnaklúbburinn og Björgunarsveitin Húnar. Auk þess er fjármagn sett í styrkvega-, rétta- og heiðagirðingapott sem landbúnaðarráð úthlutar til fjallskiladeilda.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins tekur um 4 mánuði í vinnslu. Á upphafsmetrunum eru settar fram helstu forsendur og áskoranir sem forstöðumenn eru beðnir um að taka tillit til við gerð sinna starfsáætlana. Fjölmargir fundir eru haldnir, þar sem stjórnendur hafa allir sem einn séð stóru myndina og lagt hönd á plóg til að ná að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Eru þeim færðar hinar bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag í fjárhagsáætlunarvinnunni. Verkefnið er ekki alltaf auðvelt en rekstrarlegar áskoranir eru oft tíðum miklar, oftar en ekki vegna ákvarðana ríkisvaldsins. Ríkisvaldið færir verkefni yfir til sveitarfélaga og/eða gerir auknar kröfur til þeirra, án þess að fjármagn hafi fylgt með. Í því samhengi er meðal annars hægt að nefna málefni fatlaðs fólks, lög um farsæld barna og merkjalýsingar eigna svo fátt eitt sé talið.

Þrátt fyrir að fjárhagsáætlun A- og B- hluta sveitarsjóðs sé skilað með hagnaði fyrir árið 2026 og næstu 3 ár á eftir er ljóst að ekki má mikið út af bregða í rekstrinum. Lækkaðar álögur án þess að gera breytingar á þjónustustigi eru ekki sjálfsagðar og kalla á aukið aðhald í rekstri svo hann uppfylli þær kröfur sem Eftirlitsnefnd sveitafélaga gerir. Aðalsmerki sveitarfélagsins hefur verið hátt þjónustustig og mikill vilji til að svo verði áfram en mikil og góð þjónusta er kostnaðarsöm. Einnig hefur verið lögð áhersla á að ganga á innviðaskuld sveitarfélagsins með auknum framkvæmdum sem felur í sér áskoranir, ekki aðeins fjárhagslegar heldur líka framkvæmdalegar, þar sem á tímum hefur verið erfitt að fá verktaka til að vinna verkin. Ytri aðstæður, eins og verðbólga og fjármagskostnaður gera rekstrarumhverfið svo enn óstöðugra eins og fram hefur komið. Það verður því verkefni sveitarstjórnar áfram að hafa vökult auga með rekstrinum til að tryggja stöðugleika eins og hægt er.

Sveitarstjórn ítrekar þakkir til stjórnenda fyrir sína miklu vinnu við gerð fjárhagsáætlunar sem og í rekstri sveitarfélagsins.

15.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 2311018Vakta málsnúmer

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni sín frá síðasta reglulega sveitarstjórnarfundi. Skýrslan var flutt munnlega og til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:51.

Var efnið á síðunni hjálplegt?