3. október 2022

Fyrsti mánuður minn í starfi hefur þotið hjá á ljóshraða. Nýliðin vika leið á meiri hraða en allar hinar sem á undan komu. Verkefnin voru þess eðlis en ég var mestmegnis við störf utan héraðs.

Vikan hófst á fundi aukins byggðarráðs þar sem fjárfestingar áranna 2023-2026 voru til umfjöllunar í tengslum við vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Farið var yfir þau verkefni sem komu fram í starfsáætlunum forstöðumanna og áætlun rekstrarstjóra. Þarna undir falla vel flestar framkvæmdir sveitarfélagsins, margar hverjar í mikilvægum og kostnaðarsömum málaflokkum. Óskir koma um fjölmörg brýn verkefni og er það verkefni sveitarstjórnar að taka afstöðu til þeirra og forgangsraða þeim í takt við fjárheimildir. Á fundinum fór fram fyrsta yfirferð.

Byggðarráð hélt sinn hefðbundna fund strax í kjölfar fundarins um fjárfestingarnar. Ýmis mál voru þar lögð fram til kynningar. Nokkuð var um beiðnir um afslátt af leigu Félagsheimilisins Hvammstanga. Það er ánægjulegt að sjá að mikið verður um viðburði í Félagsheimilinu nú á haustdögum. Einnig úthlutaði ráðið einni lóð og staðfesti framlenginu á samningi um snjómokstur fyrir veturinn. Samhliða því var sveitarstjóra falið að undirbúa útboð á snjómokstri frá hausti 2023 og mun sú vinna fara í gang fljótlega í samstarfi við rekstrarstjóra.

Á fundinum ákvað ráðið einnig að leigja Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra íbúð sveitarfélagsins að Lindarvegi 3a.  Eru það ákaflega góðar fréttir þar sem þá hefur lögreglumaður, sem starfar að hluta til á Norðurlandi vestra, aðsetur hér í sveitarfélaginu, auk þess sem embættið hefur þá aðstöðu fyrir mannskap þegar upp koma aðstæður sem geta hamlað færð og kalla á að lögreglumaður sé á staðnum. Til dæmis ef gefnar eru út alvarlegar veðurviðvaranir.

Framkvæmdaráðið fundaði svo líkt og alla mánudaga og fór yfir það helsta sem er á döfinni og miðlaði upplýsingum sín á milli. Nauðsynlegt samtal sem sparar okkur tíma og eykur upplýsingaflæði.

Til viðbótar við þessi hefðbundnu störf sat ég fund stjórnar Íslandsstofu en ég sit þar skipuð af ráðherra nýsköpunarmála. Það er mikill heiður að fá að starfa á þessum vettvangi og fá innsýn inn í kynningu á landinu á erlendri grundu. Hjá Íslandsstofu vinna miklir fagmenn metnaðarfullt starf við að koma landinu á kortið, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna, heldur allar útflutningsgreinar. Orku og grænar lausnir, hugvit og tækni, listir og skapandi greinar, sjávarútveg og matvæli og náttúruafurðir auk ferðaþjónustunnar.

Þriðjudagurinn var nær allur skrifborðsdagur – ef svo má segja. Slíkir dagar eru nauðsynlegir til að ná að „vinna“. Þá er ég ekki að segja að fundir séu ekki vinna en það þarf að vinna úr öllum þessum fundum og þoka málum áfram. Átti tvo stutta fundi um morguninn. Annan við sérfræðing hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna um forsendur framlaga sjóðsins. Var sá fundur afar upplýsandi og mikilvægur inn í fjárhagsáætlunargerðina sem nú er í fullum gangi. Hlutverk sjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna hér. Stundum er sagt að enginn þekki reglur sjóðsins til hlítar. Ekki ætla ég að segja að ég geri það eftir þennan fund en ég get þó sagt að ég skil þær mun betur og hvað býr að baki framlaga sjóðsins. Eftir hádegið leit ég svo inn á fund veitu- og rekstrarstjóra. Þeir voru að fara yfir helstu mál sem eru í gangi og á döfinni þar sem Benedikt Rafnsson hefur nú látið af störfum sem veitustjóri. Ég þakkaði Benedikt fyrir góð störf og óskaði honum alls hins besta. Þar til ákveðið hefur verið hvernig starfinu verður best fyrir komið mun Björn rekstrarstjóri halda utan um verkefni veitna.

Ég má til með að segja frá fundi sem ég sat um kvöldmatarleytið á þriðjudeginum á vegum USVH í Grunnskólanum. Alfa Dröfn Jóhannsdóttir forvarnarfulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fór yfir forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Ég sat fundinn fyrst og síðast sem foreldri en það var ekki síður mikilvægt fyrir sveitarstjórann að sitja fundinn. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir af starfsmönnum íþróttahreyfingarinnar í sveitarfélaginu voru mættir enda um að ræða afar mikilvægt fundarefni.

Alfa Jóhannsdóttir forvarnarfulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Miðvikudagurinn var svo upphafsdagur Landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var á Akureyri. Ég nýtti tímann til brottfarar rétt undir hádegi til að undirbúa fundi í komandi viku þar sem ég yrði fjarverandi þar til miðjan dag á föstudag. Ég þurfti líka að gefa mér smá tíma til að undirbúa þingið sjálft því mér var sýndur sá heiður að vera þingforseti ásamt Heimi Erni Árnasyni, forseta bæjarstjórnar á Akureyri. Fulltrúar Húnaþings vestra á þinginu voru Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar og Magnús Magnússon, formaður byggðarráðs. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga hafa seturétt á þinginu.

Við Magnús og Kalli nýttum ferðina norður og áttum fund með Gunnari svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Norðursvæði og Hauki deildarstjóra áður en þingstörf hófust. Fórum við yfir helstu mál sem á okkur brenna í vegamálunum. Kunnugleg stef og endurtekið efni, því miður, en mál sem við verðum sífellt að halda á lofti. Fundurinn var upplýsandi og gott að fá upplýsingar um orsakir tafa á nokkrum málum. Það er óhætt að upplýsa að stefnt er að því að bjóða framkvæmdir milli Kárastaða og Skarðs út fyrir áramót eftir nokkra töf. Við vonum sannarlega að það gangi eftir.

Landsþingið var hið fyrsta að afloknum sveitarstjórnarkosningum og var því nýtt til að marka stefnu sambandsins næstu 4 árin. Auk þess flutti Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála ávarp, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri fór yfir helstu úrlausnarefni sambandsins. Sigurður Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins flutti erindi um áskoranir í fjármálum sveitarfélaga. Einnig fluttu Hermann Jónasson forstjóri HMS og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri erindi um samstarf ríkis og sveitarfélaga til að mæta áskorunum í húsnæðismálum. Sömuleiðis var flutt erindi um vinnu sem er í gangi í tengslum við starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Auk þessa fór fram stjórnarkjör og ýmis fleiri hefðbundin þingstörf. Nánari upplýsingar um dagskrá þingsins og upptökur frá þinginu er að finna á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heiða Björg Hilmisdóttir, flytur ávarp. 

Það voru ekki margir klukkutímar eftir af vinnuvikunni þegar ég kom til baka um miðjan dag á föstudag. Ég náði þó nokkrum klukkustundum við skrifborðið sem ég nýtti einkum til að hreinsa upp ósvaraða tölvupósta og fara yfir mál sem biðu á borðinu. Það er fljótt að safnast upp nokkur stabbi ef maður er fjarverandi svo það þarf að halda vel á spöðunum. Allt gekk þetta þó vel. Vegna fjarveru í vikunni var nauðsynlegt að vinna svolítið bæði laugardag og sunnudag. Undirbúa fundi komandi viku, klára að vinna úr uppsöfnuðum málum vegna fjarverunnar og svo auðvitað skrifa dagbók sveitarstjóra. Ég hef fengið jákvæð viðbrögð við þessum skrifum mínum en þau eru ekki síður mikilvæg fyrir mig til að ná utan um þau verkefni sem efst eru á baugi hverju sinni.

Á laugardeginum flutti ég svo ávarp á haustfundi Soroptimista sem haldinn var á Hótel Laugarbakka. Lagði ég þar út frá einkunnarorðum landsforseta hreyfingarinnar, Guðrúnar Láru Magnúsdóttur, sem eru Veljum að vaxa. Það var virkilega ánægjulegt að fá tækifæri til að ávarpa gesti haustfundarins. Þegar ég skrifa þessi orð fæ ég þá hugmynd að birta ávörp sem ég held í embætti sem sveitarstjóri. Það er nú bara alveg líklegt að ég láti af því verða á næstunni.

Þrátt fyrir fjarveru hálfa vinnuvikuna komst heilmargt í verk. Þó svo að þessi fjarvera hafi kostað nokkra klukkutíma vinnu yfir helgina náði ég nú samt að eiga góðar stundir með fjölskyldunni og fá ömmustelpuna mína í heimsókn í fyrstu gistipössunina af vonandi fjölmörgum. Ég er því ánægð með vikuna og hlakka til þeirrar sem í hönd fer.

Til gamans fylgir hér smá samantekt yfir fundi septembermánaðar. Keppikeflið er alls ekki að halda sem flesta fundi. Þvert á móti ætti að reyna að fækka þeim eins og kostur er. Hins vegar er gagnlegt að taka upplýsingar sem þessar saman til að ná utan um í hvað tíminn er að fara. Vert er að taka fram að lengd þessara funda er afar mismunandi. Allt frá því að vera hálftími upp í tvo og hálfan dag. Einnig rata ekki inn á þessa samantekt ör fundir – eins og stutt spjall við starfsmenn eða gesti og gangandi.

Var efnið á síðunni hjálplegt?