6. nóvember 2023

Vikurnar 23. október – 5. nóvember.

Sú er þetta ritar verður að viðurkenna messufall í dagbókarskrifum og er því hér fjallað um verkefni tveggja vikna. Annir hafa verið nokkrar og eitthvað þurft undan að láta. Þar sem um tvær vikur er að ræða verður ekki farið yfir hvern dag fyrir sig heldur það helsta dregið saman.

Tveir byggðarráðsfundir hafa verið haldnir síðan síðast var birt dagbókarfærsla. Á þeim fyrri (1194. fundi) var m.a. bókað um ágóðahlutagreiðslu sveitarfélagsins í Brunabótafélagi Íslands upp á 476.500 kr. Á sveitarfélagið lítinn hlut í sjóðnum sem skilar árlegum ágóðahlut. Brunabótafélag Íslands hóf starfemi 1917. Í upphafi var því veittur einkaréttur til að brunatryggja húseignir utan Reykjavíkur sem felldur var úr gildi á sjöunda áratugnum. Í lok níunda áratugarins varð það helmingseigandi að öflugu félagi með stofnun Vátryggingafélags Íslands hf. Með nýrri löggjöf árið 1994 er því breytt í Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Frá upphafi hefur félagið verið rekið í samvinnu við sveitarfélögin. Ég var á aðalfundi nýverið kjörin í varastjórn félagsins.

Á sama fundi var einnig lagt fram minnisblað um dreifnám og tók ráðið jákvætt í að skipaður verði sameiginlegur starfshópur með A-Hún til að fara yfir stöðu og framtíðarhorfur dreifnáms. Er markmiðið fyrst og fremst að skoða leiðir til að efla dreifnámið með tilliti til breytinga sem hafa átt sér stað í umhverfi framhaldsskólanna undanfarin misseri. Einnig var lóðinni Höfðabraut 36 úthlutað til Argu fjárfestingar sem hefur í hyggju að reisa þar atvinnuhúsnæði.

Á seinni byggðarráðsfundinum (1195. fundur) var samþykktur listi yfir störf undanþegin verkfallsheimild sem farið hafði til umsagnar stéttarfélaga. Sveitarfélögunum ber að auglýsa listann í B-deild stjórnartíðinda. Á honum eru tilgreind þau störf sem skv. lögum er heimilt að undanskilja frá verkfallsheimild. Á þeim lista eru m.a. sveitarstjóri, sviðsstjórar, skólastjórar og leikskólastjórar, slökkviliðsstjóri o.fl. Einnig var á fundinum bókað um alvarlega stöðu í landbúnaði.

Framkvæmdaráðsfundir voru á sínum stað báðar vikurnar sem og verkefnafundir með verkefnisstjóra umhverfismála.

Ég fór ásamt rekstrarstjóra á fund með Auði framkvæmdastjóra UMFÍ og Sigurði forstöðumanni skólabúðanna á Reykjum. Fórum við rúnt um húsnæði búðanna bæði til að fara yfir þær framkvæmdir sem þegar hafa farið fram og eins til að skoða hvað brýnast er að vinna í komandi jólafríi. Það er gaman að sjá hversu viðamiklar endurbæturnar hafa verið og hve húsakynnin eru að verða komin í gott ásigkomulag. Nóg er eftir enn en allt í áttina. Aðsókn í búðirnar er mjög góð, starf búðanna gengur vel sem og samstarf okkar við UMFÍ.

Mynd tekin í kennaraðastöðu Skólabúðanna.

Aukafundur sveitarstjórnar vegna fyrri umræðu fjárhagsáætlunar fór fram 24. október. Líkt og með aðrar stærri ákvarðanir þarf fjárhagsáætlunin tvær umræður í sveitarstjórn með að minnsta kosti tveggja vikna millibili. Á fundinum voru líka teknar fyrir gjaldskrár komandi árs og þær sem aðeins þurfa eina umræðu undirritaðar af sveitarstjórn. Síðari umræða fer svo fram á reglubundnum sveitarstjórnarfundi sem fram fer 9. nóvember.

25. október skrapp ég á Akranes og flutti erindi um sameiningu hreppanna sjö í V-Hún árið 1998 á ráðstefnu um eflingu sveitarfélaga á vegum Samtaka sveitarfélaga á vesturlandi. Virkilega áhugaverð ráðstefna þar sem sameiningar sveitarfélaga voru í brennidepli. Við undirbúning erindisins átti ég samtöl við nokkra aðila og var það afar upplýsandi fyrir mig. Ég tel að flest séum við sammála um það í dag að sameiningin hafi verið gæfuspor þó hún hafi vissulega falið í sér áskoranir einkum fyrst eftir að nýtt sveitarfélag var stofnað. Það var augljóst þegar ég grúskaði í gömlum blaðagreinum að sitt sýndist hverjum sem eðlilegt er.

Fundur SSV var haldinn í glæsilegri aðstöðu í Breiðinni á Akranesi. Mynd SSV.

Að kynningu lokinni brunaði ég heim á leið og sat haustfund Félags eldri borgara þar sem húsnæðismál voru í brennidepli. Áttum við gott samtal þar sem ýmsar hugmyndir komu fram. Ég hef sagt það áður á þessum vettvangi að starf félagsins er algjörlega til fyrirmyndar og setur mikinn svip á sveitarfélagið. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka stjórn félagsins og félagsmönnum öllum ötult starf.

Vetrarfrí var í grunnskólanum 26. og 27. október. Við fjölskyldan höfðum ákveðið að verja því í Reykjavík og gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum. Ég nýtti dagana þó til vinnu í bland við samveru með mínu fólki. Á fimmtudeginum átti ég fund með tengiliði okkar hjá Attentus ráðgjöf en við gengum fyrir nokkrum vikum frá samkomulagi um að þau verði svokallaður bakhjarl í mannauðsmálum. Fórum við yfir ítarlegan greiningarlista á stöðu mála og settum niður brýnustu verkefni fyrst um sinn. Lúta þau helst að endurskoðun ýmissa stefna og verkferla sem varða mannauðsmál. Brýn verkefni sem er að mínu mati gæfuspor að fá sérfræðinga með okkur í að vinna. Í framhaldinu mun fara fram vinna með stjórnendum í að styrkja okkur á þessu sviði. Alltaf er hægt að gera betur í þessum málaflokki líkt og öllum öðrum.

Ég sat einnig fyrst ég var í bænum, virkilega góðan fund eftir hádegið á fimmtudeginum sem Samtök ungra bænda stóðu fyrir um alvarlega stöðu í landbúnaði. Ég vil hvetja fólk til að horfa á fundinn sem er aðgengilegur á upptöku hér. Það er engum ofsögum sagt að staðan í landbúnaði er grafalvarlegt mál og brýnt að stjórnvöld bregðist við með ákveðnum hætti. Fyrir samfélag eins og okkar sem byggir afkomu sína að miklu leyti á landbúnaði er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða.

Landbúnaðarmálin voru áfram í brennidepli með þeim skelfilegu fregnum sem bárust um riðutilfelli á Stórhóli. Þó aðstæður séu nú aðrar en þegar riðutilfellin komu upp í vor og tímapressan sem þá var ekki fyrir hendi, er tilfellið engu að síður mikið áfall. Ég hugsa mikið til Maríönnu og Garðars og sendi þeim góðar kveðjur. Það vildi til skipulagður hafði verið fundur í Félagsheimilinu á Hvammstanga sem bar yfirskriftina Ræktun gegn riðu og haldinn var í samvinnu Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, MAST, Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði á Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands. Flutti þar erindi Dr. Vincent Béringue um rannsóknir sínar á verndandi arfgerðum gegn riðu sem gefa til kynna að séu mun fleiri en talið hefur verið. Upptaka af sambærilegum fundi sem haldinn var á Hvanneyri á dögunum er hér. Ég hef síðan tilfellið kom upp verið í góðu sambandi við Maríönnu og er sveitarfélagið boðið og búið til að aðstoða eins og kostur er. Einnig hef ég verið í samandi við MAST um þróun mála en nú er verið að kortleggja möguleika í stöðunni. Það var ánægjulegt að ráðherra undirritaði breytingu á reglugerð þess efnis að yfirdýralæknir hefur nú heimild til að leggja til að ekki verði allt fé fellt og þá horft til þess að verndandi arfgerðum verði hlíft. Það skýrist vonandi sem fyrst hvað það þýðir í framkvæmd og hvaða leið verður farin.

Fjölmenni kom á fundinn Ræktun gegn riðu í Félagsheimilinu.

Sorpmál hafa á síðustu vikum verið í brennidepli eftir útboð sem fór fram fyrr í haust og svo hefur verið síðustu tvær vikur. Samtal við lægstbjóðanda er enn í gangi og hafa farið fram ýmsir fundir við aðila í svipaðri stöðu og við og með ráðgjöfum okkar. Ég vona að það skýrist sem fyrst hvernig málum verður háttað en afar snúið er að koma þessu saman svo kostnaður rjúki ekki upp úr öllu valdi. Það er í forgrunni í þessari vinnu en auknar kröfur af hálfu hins opinbera eru að leiða til aukins kostnaðar víða um land einkum í hinum dreifðari byggðum. Við það er erfitt að una og ætla ég að leyfa mér að halda því fram að hér sé um enn einn landsbyggðarskattinn að ræða.

Ég átti góðan fund með forsvarsmönnum Menningarfélags Húnaþings vestra um áform um að setja upp styttu af Vatnsenda Rósu á Hvammstanga. Þau leiða það verkefni og mun ég eftir föngum aðstoða við það sem kostur er. Áformin eru mjög spennandi og ég hlakka til að sjá verkefnið verða að veruleika.

Fimmtudaginn 2. nóvember sat ég góðan fund UNICEF um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Fyrri hluta dags var fundað með umsjónarmönnum verkefnisins hjá aðildarsveitarfélögum þar sem farið var yfir nokkur fyrirmyndarverkefni í innleiðingunni. Virkilega gagnlegar upplýsingar fyrir okkur í upphafi innleiðingaferilsins. Eftir hádegið funduðu svo bæjar- og sveitarstjórar sveitarfélaganna sem taka þátt í verkefninu með ráðherra mennta- og barnamála. Á báðum fundunum var lögð áhersla á samþættingu innleiðingarinnar við innleiðingu farsældarlaga sem felur í sér augljósa samlegð. Á næstunni munum við skipa starfshóp skv. leiðbeiningum UNICEF um innleiðinguna sem mun leiða verkefnið í sveitarfélaginu. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og er þess fullviss að það mun bæta umhverfi barnanna okkar og okkar allra.

Bæjar- og sveitarstjórar sveitarfélaga í verkefninu Barnvæn sveitarfélög ásamt framkvæmdastjóra UNICEF. Mynd. UNICEF.

Síðasta vers í síðasliðinni vinnuviku var svo fundur með ráðgjafanefnd um endurskoðun Landsskipulagsstefnu en þar sit ég sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Endurskoðun stefnunnar stendur nú yfir og er áhersla ráðherra í þeirri vinnu á þjóðhagslega mikilvæga innviði, samgöngur á miðhálendinu, landnýtingu í dreifbýli, landslag, jafnvægi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, skipulag í þágu loftslagsmála, vindorku, fjölbreytta ferðamáta og orkuskipti í samgöngum og skipulag haf- og strandsvæða. Allt eru þetta brýn viðfangsefni en ég hef lagt á það áherslu í vinnunni að taka verður tillit til ólíkra gerða sveitarfélaga og forðast að gera ferli við skipulag svo flókið og viðamikið að kostnaður við það rjúki upp úr öllu valdi og eins að smærri sveitarfélög verði stöðugt að semja sig frá kröfum með tilheyrandi kostnaðarauka og töfum við skipulagsvinnu. Einnig er brýnt að með stefnunni sé ekki gengið á skipulagsvald sveitarfélaga. Vinnan við þetta er leidd af ráðuneytinu og er leiðarljós í henni eins og í fleirum stefnumótandi verkefnum þar að samþætta stefnur sem ég tel til mikillar fyrirmyndar.

Þessi umfjöllun er á engan hátt tæmandi fyrir verkefni síðustu tveggja vikna og aðeins drepið á því allra helsta. Ótaldir eru fjöldi funda með starfsmönnum og stjórnendum um hin ýmsu mál, fundir með oddvita og formanni byggðarráðs, fjármál, starfsmannamál, samtöl og fundir með íbúum o.s.frv. Í mörg horn er að líta og það er akkúrat það sem ég kann að meta við starf sveitarstjóra.

Var efnið á síðunni hjálplegt?