7. nóvember 2022

Vikan hófst hrollvekjandi hátt þar sem hrekkjavökuna bar upp á mánudegi. Ég og Elín Jóna, sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslusviðs tókum okkur til og skreyttum aðeins í starfsmannahluta Ráðhússins og buðum upp á ógnvekjandi veitingar með morgunkaffinu.

Höndin á myndinni er parmaskinka vafin um osta :) ostabakkinn hefðbundni í hrollvekjandi búningi.

Við náðum þó ekki að njóta veitinganna með samstarfsfólki vegna stífra fundahalda en fyrsti fundur dagsins tengdist fjárhagsáætlunarvinnu. Aukið byggðarráð kom saman til að fara yfir stöðu áætlunargerðarinnar. Eftir fundinn sáum við fyrir endann á vinnunni við áætlunina þó vikan öll hafi verið undirlögð undir hana, sérstaklega hjá sviðsstjóra fjármála- og stjórnslusviðs. Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga þurfa að fá tvær umræður í sveitarstjórn með að minnsta kosti tveggja vikna millibili. Gert er ráð fyrir að fyrri umræða fari fram á reglulegum fundi sveitarstjórnar 10. nóvember og síðari umræðan á aukafundi tveimur vikum seinna. Allt útlit er fyrir að þau áform gangi eftir þökk sé samstilltu átaki sviðsstjóra og forstöðumanna sveitarfélagsins. Samhliða fundi aukins byggðarráðs var haldinn aukafundur sveitarstjórnar til að ganga frá lokauppgjöri vegna skólabúðanna á Reykjaskóla og viðauka við fjárhagsáætlun vegna ýmissa liða hennar. Í kjölfar funda byggðarráðs- og sveitarstjórnar fundaði starfshópur um eignir og jarðir sveitarfélagsins í fyrsta skiptið og var farið yfir samantekt yfir eignirnar. Ýmsar spurningar komu upp sem við starfsmenn munum finna út úr á milli funda. Hópurinn á að taka saman heildaryfirlit yfir fasteignir, jarðir og lendur í eigu sveitarfélagsins. Leggja mat á þær, móta tillögu að framtíðarsýn um ráðstöfun þeirra og leggja fyrir sveitarstjórn. Erindisbréf hópsins er hér og fundargerðin hér.

Eftir hádegi var hefðbundinn byggðarráðsfundur. Auk kunnuglegra mála og mála til kynningar var bókað um áform um vinnu við endurnýjun aðalskipulags en gildandi skipulag gildir til ársins 2026. Gert er ráð fyrir að vinna við endurskoðunina hefjist í lok næsta árs. Gríðarlega spennandi vinna sem mun varða leiðina sem við viljum fara á komandi áratugum. Ég vil benda áhugasömum á að á kortasjá sveitarfélagsins sem er aðgengileg á heimasíðu þess eru tenglar inn á gildandi skipulagsáætlanir. Á fundinum var einnig samþykktur samningur um snjómokstur á Laugarbakka til eins árs og mun verkið í framhaldinu fara í útboð í samræmi við annan snjómokstur í sveitarfélaginu fyrir veturinn 2023-2024 og árin þar á eftir. Úrgangsmál voru sömuleiðis til umfjöllunar og áform um sameiginlegt útboð sveitarfélaganna í Húnavatnssýslum. Miklar breytingar eru að eiga sér stað á regluverki sorpmála sem meðal annars fela í sér stórauknar kröfur. Var mér falið að vinna málið áfram og vonandi verður hægt að ljúka við gerð útboðsgagna sem fyrst.

Að lokinni langri fundatörn náði ég góðri stund við tölvuna til að sinna hinum ýmsu verkefnum. M.a. skýrslu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna Leigufélagsins Bústaðar hses., samskiptum við lögfræðing sveitarfélagsins um hin ýmsu mál, skrif frétta á heimasíðuna um hitt og þetta, úrvinnslu fundar starfshópsins um eignir sveitarfélagsins og svo framvegis.

Þriðjudagurinn hófst á fundi framkvæmdaráðs sem alla jafna fer fram á mánudögum. Fram til hádegis voru aldrei slíku vant ekki bókaðir fundir sem gaf gott tóm til að sinna ýmsum málum. Eftir hádegið átti ég svo góðan fund með sviðsstjóra fjölskyldusviðs og fulltrúum Skagafjarðar um málefni fatlaðs fólks. Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í samstarfi sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra í þeim málaflokki. Að fundi loknum náði ég góðum tíma við skrifborði og fór í gegnum opin mál sem skráð eru á mig í málakerfi sveitarfélagsins og náði að loka nokkrum. Ég samþykkti einnig nokkra reikninga, svaraði tölvupóstum og svo framvegis.

Miðvikudagurinn var aðeins fundaþyngri en þriðjudagurinn. Ég fundaði með fyrrum samstarfsmanni mínum, Magúsi Barðdal hjá SSNV, um ýmis fjárfestingatengd verkefni í sveitarfélaginu. Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara og Guðmundur Haukur Sigurðsson formaður félags eldri borgara í Húnaþingi vestra og formaður öldungaráðs komu í heimsókn. Áttum við gott og gagnlegt spjall um málefni eldri borgara.

Ég og heiðursmennirnir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara og Guðmundur Haukur Sigurðsson, formaður félags eldri borgara í Húnaþingi vestra og formaður öldungaráðs. 

Ingimar Sigurðsson varaformaður landbúnaðarráðs kom því næst til fundar við mig og við fórum yfir drög að fundargerð fundar landbúnaðarráðs sem var á dagskrá eftir hádegið. Sinnti hann skyldum formanns í fjarveru hennar. Á dagskrá voru ýmis mál, fjallskil, ákvörðun um aðila á vetrarveiði á ref, ormahreinsun hunda, fjallagrasanytjar og m.fl. Fundargerðin er hér.

Að fundi loknum vann ég úr því sem fram kom á fundinum eins og hægt var. Til dæmis setti ég inn frétt á heimasíðuna vegna hundahreinsunar hunda í dreifbýli og sendi samskonar auglýsingu í Sjónaukann. Hins vegar er alla jafna ekki gengið frá tilkynningum eftir fundi nefnda og ráða fyrr en sveitarstjórn hefur samþykkt fundargerðirnar. Ég hef fengið spurningar um af hverju tilkynningar um afgreiðslur berist ekki strax að loknum fundum ráða og nefnda en þetta er sem sagt ástæðan. Fullnaðarafgreiðsla mála fer ekki fram fyrr en sveitarstjórn staðfestir fundargerðir svo ekki er hægt að tilkynna um afgreiðslur fyrr en sú staðfesting hefur farið fram.

Fimmtudag og föstudag er að þessu sinni hægt að afgreiða samhliða. Báða dagana var ég að mestu í ýmsu "uppsópi" eftir annir síðustu vikna enda fáir fundir bókaðir. Þó var kynningarfundur vegna svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi á fimmtudeginum sem kallaði á nokkurn undirbúning á formi lestrar en drögin sem fyrir liggja eru í kringum 100 blaðsíður. Svæðisáætluninni er ætlað að vera sameginleg stefna sveitarfélaganna í úrgangsmálum. Á föstudeginum fundaði ég sem vant er með oddvita og formanni byggðarráðs. Þann dag var komið að mér að sjá um föstudagskaffi ásamt Þórunni Ýr á skrifstofu sveitarfélagsins. Buðum við samstarfsfólki upp á vöfflur með morgunkaffinu. Starfsmenn Ráðhússins skiptast á að sjá um föstudagskaffið sem er að mínu mati skemmtilegur siður og gefur tækifæri til gefandi samveru á kaffistofunni. Önnur verkefni fimmtudags og föstudags má nefna samþykktir reikninga, skrif frétta á heimasíðu, undirbúningur byggðarráðsfundar mánudagsins, yfirferð draga að samningi við Samtökin 78 um fræðslu, stutt spjall við Vegagerðina um fyrirhugaðar framkvæmdir á Vatnesvegi, samtal um skipulagsmál í vinnslu við Boga skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, símtöl við hina ýmsu aðila og margt fleira. Dágóður tími fór í að undirbúa kynningu fyrir hagsmunaráð Landsnets um áhrif orkuleysis á samfélög. Sú kynning fer fram í vikunni og ég segi betur frá henni í næstu dagbókarfærslu.

Eins og eftir septembermánuð þá læt ég fylgja hér með samantekt yfir fundi októbermánaðar. Tek aftur fram að lengd fundanna er afar mismunandi. Allt frá því að vera hálftími upp í tvo daga. Hér eru ekki talin ófá styttri símtöl og samtöl um hin ýmsu mál sem í starfinu felast. Ég held nákvæmt bókhald yfir í hvað ég ver tímanum í vinnunni líkt og ég hef gert í áraraðir. Þannig fæ ég betri yfirsýn yfir í hvað tíminn fer og tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar ef hann er ekki að nýtast sem best. Tíminn er takmörkuð auðlind og því mikilvægt að fara vel með hann.

Var efnið á síðunni hjálplegt?