21. nóvember 2022

Vikan 14. – 20. nóvember 2022

Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs eins og vant er. Að honum loknum undirbjó ég nokkra fundi sem voru á dagskrá vikunnar og svaraði ýmsum erindum. Rétt undir hádegið fundaði ég með fulltrúum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um nýja gátt húsnæðisáætlana. Sveitarfélögum er skylt að gera húsnæðisáætlanir en með þessari vefgátt verður sú vinna einfaldari. Gildandi áætlun var samþykkt í janúar á þessu ári og kominn tími til að uppfæra hana. Fyrir fundinn gluggaði ég í gildandi áætlun og var sérstaklega ánægð að sá að fjölgun íbúa í sveitarfélaginu hefur verið í takt við háspá og sömuleiðis hefur fjöldi íbúða sem byggðar hafa verið í takt við áætlunina. Gildandi húsnæðisáætlun er aðgengileg hér.

Eftir hádegið var byggðarráðsfundur. Þar bar hæst úthlutun lóðarinnar Kirkjuhvammsvegar 4 til Reykjahöfða ehf. Þar hyggjast þau reisa smáhýsi eins og þau sem fyrir eru. Lóðin er skipulögð með sama hætti og sú sem fyrir er, allt að níu hús sem mynda hring. Á fundinum var jafnframt samþykkt að taka áfram þátt í samstarfi um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra og mér falið að taka þátt í lokafrágangi samnings þar um. Á fundinum var mér einnig falið að tilkynna lóðarleiguhöfum að Norðurbraut 30 og 32 að samningar um lóðarleiguna verði ekki endurnýjaðir þegar þeir renna út í lok janúar 2024. Á reitnum sem þessi hús standa á er skipulögð íbúðabyggð sem rúmar að hámarki 23 íbúðaeiningar, þrjú 5 íbúða fjölbýlishús og átta einbýlishús. Í lok fundar komu fulltrúar Kormáks og USVH til fundar við ráðið til að ræða hugyndir um byggingu aðstöðuhúss í Kirkjuhvammi. Á skipulagi er gert ráð fyrir slíku húsi við norðaustur enda fótboltavallarins. Samtalið var upplýsandi og gott nesti inn í umræðu um fjármögnun þess.

Í kringum kvöldmat lagði ég ásamt oddvita og formanni byggðarráðs af stað til Reykjavíkur. Á þriðjudeginum áttum við bókaða nokkra fundi þar. Fyrsti fundur var netfundur um drög að Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Í því plaggi er mörkuð stefna í úrgangsmálum fyrir Norðurland allt þar sem tekið er mið af þeim stórauknu kröfum sem taka gildi um áramót. Að þeim fundi loknum lá leið á nefndasvið Alþingis við Austurvöll en við höfðum verið kölluð fyrir umhverfis- og samgöngunefnd til að gera grein fyrir umsögn okkar um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum. Í því frumvarpi er að okkar mati vegið að skipulagsvaldi sveitarfélaganna sem skapar hættulegt fordæmi. Því leggjumst við gegn því að frumvarpið nái fram að ganga í óbreyttri mynd. Umsögn Húnaþings vestra er aðgengileg hér.

Eftir fund með nefndinni settumst við niður með hluta af þingmönnum kjördæmisins til að fara yfir helstu mál. Það er nauðsynlegt að heyra reglulega í þingmönnum okkar til að þeir séu vel meðvitaðir um hvað er að gerast heima í héraði. Að því spjalli loknu röltum við yfir Arnarhólinn í innviðaráðuneytið þar sem við áttum bókaðan fund með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra. Áttum við gott spjall við ráðherra þar sem Vatnsnesveginn bar auðvitað á góma enda hann ráðherra samgöngumála. Ekki gengum við með nein loforð af fundi, því miður, en komum skilaboðum um mikilvægi framkvæmda við veginn á framfæri enn og aftur. Endurskoðun samgönguáætlunar er að hefjast og eitt helsta baráttumál sveitarstjórnar er að vegurinn verði færður framar á áætlun en hann er nú á síðasta tímabili hennar.

Magnús Magnússon formaður byggðarráðs, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Þorleifur Karl Egge…

Magnús Magnússon formaður byggðarráðs, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Þorleifur Karl Eggertsson oddviti og undirrituð.

Því næst lá leið upp á Akranes þar sem við höfðum mælt okkur mót við Gísla Gíslason formann stjórnar Breiðar, þróunarfélags. Fengum við kynnisferð um Breiðina, samvinnurými í gömlu frystihúsi Brims þar sem nú starfa hátt í 100 manns hjá ólíkum fyrirtækjum sem aðstöðu hafa í rýminu. Afar áhugavert verkefni sem gaman var að kynna sér. Þarna var hugsað út fyrir kassann og með aðkomu einkaaðila, sveitarfélagsins og samtaka er nú kominn suðupottur nýsköpunar og þróunar.

Heim var komið um kvöldmatarleytið en þar með var ferðalögum vikunnar ekki lokið. Ég fór á skrifstofuna á þriðjudagsmorgni og var þar til rúmlega 9 þegar ég lagði af stað aftur suður. Í þetta skiptið til að fara á fund stjórnar Íslandsstofu. Ég var svo í bænum yfir nótt þar sem ég hafði skráð mig á Skipulagsdaginn sem haldinn var á vegum Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á fimmtudeginum. Síðari hluta miðvikudags nýtti ég til að sinna ýmsum verkefnum í tölvunni. Lang stærsti hluti vinnu minnar fer fram í gegnum tölvuna og því gott að geta sinnt verkefnunum hvar sem er þegar svo ber undir. Enn og aftur var kominn tími til að samþykkja tímaskýrslur fyrir nýliðið launatímabil. Mér finnst eins og ég hafi verið að samþykkja skýrslur síðasta mánaðar fyrir viku. Svona flýgur tíminn áfram. Ég las líka yfir drög að nýrri menntastefnu Grunnskólans. Vinna að henni hefur staðið yfir um nokkurt skeið með aðkomu fjölmargra undir stjórn Guðrúnar Óskar Steinbjörnsdóttur. Virkilega góð vinna sem verður gaman að sjá fara í kynningu og raungerast á næstunni. Ég fór því næst yfir minnisblað um hugsanlegt fyrirkomulag barnaverndarmála en sá málaflokkur er að taka nokkrum breytingum í samhengi við farsældarlögin svokölluðu.

Skipulagsdagurinn var mjög upplýsandi en þar var fjallað um skipulagsmál á mjög breiðum grunni. Fæðuöryggi, landnotkun, stafrænt skipulag og vindmyllur var meðal þess sem bar á góma. Ásamt mér sátu Bogi skipulagsfulltrúi okkar og Elísa Ýr aðstoðarmaður byggingafulltrúa fundinn. Ég fór beint heim að fundi loknum og náði að vera komin heim í tæka tíð til að elda kvöldmat fyrir krakkana.

Föstudagurinn var óvenju stuttur í annan endann. Ég mætti snemma og fór yfir helstu mál með sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs auk þess að svara spurningum nokkurra nemenda í Grunnskólanum um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í sveitarfélaginu. Næst fundaði ég með oddvita og formanni byggðarráðs líkt og vant er, sendi út fundarboð byggðarráðsfundar mánudagins og undirritaði nokkur skjöl sem höfðu safnast upp á skrifborðinu. Ég rétt náði gómsætu föstudagskaffi áður en ég lokaði tölvunni og hélt heim á leið. Ég tók mér frí það sem eftir lifði dags enda vetrarfrí í Grunnskólanum og krakkarnir því heima. Upp úr hádegi fórum við af stað í Borgarfjörðinn. Á leiðinni svaraði ég nokkrum símtölum sem tengdust vinnunni en að þeim loknum tók við rólegheita helgi með fjölskyldunni. Það er nauðsynlegt að hlaða rafhlöðurnar reglulega og ég náði því svo sannarlega undir snarki Sólóeldavélar í Hvítársíðunni. Með fullhlaðin batterí tekst ég á við komandi vinnuviku og það sem hún ber í skauti sér.

Var efnið á síðunni hjálplegt?