31. október 2022

Vikan 24.-30. október

Þótt ótrúlegt megi virðast miðað við dagskrá síðustu vikna þá var ég heima í héraði við störf alla vikuna. Ég sat þó ekki við skrifborðið allan tímann heldur nýtti tækifærið til að fara í góðar heimsóknir innan svæðis.

Sem fyrr hófst vikan á fundi framkvæmdaráðs þar sem farið er yfir uppsafnaðan lista mála frá síðasta fundi. Að honum loknum sinnti ég ýmsum skrifborðsverkefnum, það þurfti að samþykkja reikninga, fara yfir tímaskráningar vegna launaútreikninga og senda nokkrar fyrirspurnir um alls kyns mál. Eftir hádegið var byggðarráðsfundur eins og alla jafna. Á fundinum voru m.a. bókaðar þakkir til fyrrverandi rekstraraðila skólabúðanna að Reykjum fyrir samstarf undangenginna 20 ára. Þar var einnig samþykktur listi yfir þau störf í sveitarfélaginu sem eru undanþegin verkfallsheimildum. Slíkan lista þarf að bera undir stéttarfélög, samþykkja og birta árlega. Fundargerð fundarins er hér.

Að byggðarráðsfundi loknum fékk ég forsvarsmenn Pílufélagsins á Hvammstanga til fundar þar sem við ræddum félagið og húsnæðisþörf þess en byggðarráð hafði fengið erindi þar um á dögunum. Það var gaman að hitta þessa kraftmiklu ungu menn sem hafa sett upp píluaðstöðu sem nýtur mikilla vinsælda. Í því framtaki kristallast svo margt sem einkennir samfélagið í Húnaþingi vestra. Frumkvæði, kraftur og vilji til að bæta samfélagið.

Þriðjudagsmorgun sat ég við skrifborðið og fundaði meðal annars með sviðsstjóra fjármála og stjórnslusviðs vegna fjárhagsáætlunar en vinnan við hana er núna í hámarki. Eins og ég hef áður sagt í dagbókarfærslum er ekki einfalt mál að stilla upp fjárhagsáætlun fyrir eins viðamikinn rekstur og rekstur sveitarfélags er auk þeirra reglna sem fylgja þarf við vinnuna. Það eru fjölmörg púsl sem þurfa að raðast saman svo vinnan gangi upp og í þeirri vinnu leikur fjármálastjórinn lykilhutverk. Hún heldur utan um þræðina og fær forstöðumenn til samstarfs og gerir það listavel. Samtal milli fjármálastjóra og sveitarstjóra er mikið á meðan á vinnunni stendur. Ég bý að því í þessari vinnu að þekkja málaflokkana flesta ágætlega bæði sem kjörinn fulltrúi á árum áður en líka úr störfum mínum hjá landshlutasamtökum. 

Eftir hádegið á þriðjudeginum renndi ég í Hrútafjörðinn hvar ég heimsótti Þórarinn forsvarsmann Veraldarvina í Brú. Það var ákaflega skemmtileg heimsókn. Ég eins og margir aðrir í sveitarfélaginu (og víðar) hef taugar til þessa húss. Amma, Unnur Jóhannsdóttir, vann þar um áratuga skeið sem talsímavörður. Mamma, Aðalheiður Gunnarsdóttir, vann þar líka lengi. Ég kom þar oft sem barn og í minningunni er símstöðin Brú sveipuð dýrðarljóma. Ég man enn lyktina sem var í húsinu og tækin sem voru um allt voru spennandi. Ég fékk leiðsögn um húsið og kynningu á starfsemi Veraldarvina en þau taka að sér ýmiskonar umhverfisverkefni, hreinsun strandlengjunnar, skógræktarverkefni og margt fleira. Þau hafa m.a. tekið þátt í Selatalningunni miklu á vegum Selasetursins og eru tilbúin til að taka til hendinni í nærumhverfinu. Í Brú er aðstaða fyrir allt að 30 sjálfboðaliða en þegar ég leit við voru um 20 í húsi. Veraldarvinir hafa unnið að því undanfarin ár að gera upp húsið og hafa lyft grettistaki þó enn sé heilmikið óunnið. Ég er þakklát fyrir að þau komu í húsið og að þar er nú líf að nýju.

Brú í Hrútafirði

Miðvikudagsmorguninn hófst á fundi með sveitarstjórum í landshlutanum og Stefáni Gíslasyni hjá Environice um vinnuna við gerð nýrrar svæðisáætlunar fyrir meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Viðamikil og mikilvæg vinna, einkum í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á regluverki málaflokksins. Að þeim fundi loknum hitti ég fulltrúa Ferðamálafélags V-Hún en við ræddum m.a. upplýsingaskilti við Norðurbraut sem þörf er á að uppfæra. Ég er ánægð með að félagið tók að minni beiðni að sér að vinna þá vinnu og sjá um skiltið. Ég er þess fullviss að þau eiga eftir að sinna því verkefni vel og skilmerkilega.

Næsti fundur var með slökkviliðsstjóra, Jóhannesi Kára Bragasyni. Ég er að setja mig inn í málefni liðsins og fékk Kára til að setjast niður með mér til að fá dýpri skilning á því sem fram kemur í lögum og reglugerðum. Starfsemi slökkviliðsins er þónokkuð viðamikil en eðli starfseminnar er ólík öðrum stofnunum sveitarfélagsins einkum þar sem við óskum þess heitast að engin þörf sé fyrir þjónustu þess. Liðið þarf engu að síður að vera til taks og með tæki og tól í lagi. Eitt af því sem við Kári ræddum voru drög að auglýsingu eftir fólki í liðið og var hún sett inn á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum. Hvetjum áhugasama einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um. Við ræddum einnig brunavarnaáætlun sveitarfélagsins sem hefur verið uppfærð og er hjá HMS til umsagnar.

Það sem eftir lifði dags var varið í ýmis verkefni. Ég vann til dæmis í greinargerð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um Leigufélagið Bústað hses. en sveitarstjóri er framkvæmdastjóri þess. Félagið á og rekur raðhúsið að Lindarvegi 5. Var HMS að kalla eftir hefðbundnum upplýsingum um starfsemina sem ég tíndi saman og setti upp í skýrslu og sendi á formann stjórnar til umsagnar.

Ég átti því næst símtöl við nokkra kollega um hin ýmsu mál. Það er gott að heyra í sveitarstjórum annarra sveitarfélaga reglulega til að bera saman bækur og læra af öðrum. Það er nú einu sinni þannig að ekkert er nýtt undir sólinni. Við erum lang flest að glíma við sömu áskoranirnar og mikill fengur af því að hafa nokkra aðila í kringum sig sem hægt er að leita til. Ég hef allan minn starfsferil verið óhrædd við að leita ráða og læra af mér reynslumeira fólki. Ég er þakklát fyrir það og segi takk við þetta fólk allt – þið vitið hver þið eruð.

Fimmtudagurinn hófst á fundahöldum um fjárhagsáætlun (hvað eru mörg f í því :) ). Að þeim loknum sat ég vefkaffi á vegum Stafræns ráðs sveitarfélaga. Ráðið vinnur að sameiginlegum lausnum sveitarfélaga með tilliti til starfrænnar vegferðar. Öll sveitarfélög eru að stíga skref í þeirri vegferð og því var tekinn upp þessi sameiginlegi vettvangur til að leita sameiginlegra lausna. Umræðuefni þessa vefkaffis var skjalamál og kynnt áhugaverð lausn í þeim efnum. Þó ekki standi til að svo komnu að gera breytingar á kerfi sveitarfélagsins er gott að sjá hvað er í boði. Á teikniborðinu er aukin nýting á því kerfi sem sveitarfélagið notar og innleiðing á fundagátt sem auðveldar uppsetningu fundarboða og fundargerða. Með þeirri innleiðingu fækkar handtökum þeirra sem starfa með nefndum og um leið eykst öryggi gagnasendinga. Ég bind vonir við að við náum að hefja þessa vinnu á árinu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kom aftur við sögu að vefkaffi loknu. Í þetta skiptið í tengslum við rammasamning ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu sem kynntur var á dögunum. Fulltrúi HMS fór yfir stöðu húsbygginga í sveitarfélaginu samanborið við húsnæðisáætlun þá er skilað var inn fyrr á árinu. Gaman er að sjá að við erum á pari við þá spá sem þar var sett fram. Miðað við téðan rammasamning þarf þó að blása í og eru nokkur verkefni á teikniborðinu sem gaman verður að segja frá síðar. Í þessu samhengi er vert að nefna þá fjölgun íbúða sem verið hefur í sveitarfélaginu síðustu ár. Hana má sjá á eftirfarandi mynd:

Eins og sjá má hefur fjölgað um 26 íbúðaeiningar síðan árið 2017 en fjöldinn hafði þá staðið í stað í nokkur ár þar á undan. Er full ástæða til að fagna þessari þróun og gaman að segja frá því að enn er von á fjölgun íbúða á komandi misserum.

Eftir hádegið vann ég svo í undirbúningi funda, byggðaráðsfunda mánudagsins, landbúnaðarráðsfundar á miðvikudag o.fl. Mér finnst alltaf gott að vera tímanlega í því með föst verkefni. Það er aldrei að vita hvað kemur upp á sem getur sett dagskrána úr skorðum svo það er gott að vera við öllu búinn til að forðast að lenda í tímahraki. Að því loknu fór ég til fundar við Húnaklúbbinn og finnska gesti þeirra í Grunnskólanum. Kynntu þau vinnuna sem þau hafa unnið síðastliðin ár í Erasmus+ verkefni sem leitt hefur verið af Jessicu Aquino. Mikið óskaplega verð ég stolt þegar ég sé unga fólkið okkar tala um samfélagið sitt og hvað þau telja að megi gera til að bæta það enn frekar. Þau settu fram virkilega áhugaverðar hugmyndir sem þau höfðu kynnt fyrir ráðherra barnamála fyrr í vikunni. Það var líka gaman að heyra frá finnsku gestunum að þau fyndu glöggt þá miklu samheldni og þátttöku sem einkennir samfélagið okkar í Húnaþingi vestra. Ég var því óskaplega montin þegar ég gekk aftur í Ráðhúsið að fundi loknum.

Í lok dags átti ég gott samtal við Þorleif forsvarsmann verkefnisins Römpum upp Ísland. Kom á daginn að hann er frá Fossi í Hrútafirði og því samfélaginu góðu kunnur. Verkefnið gengur út á að það að bæta aðgengi fatlaðs fólks með því að styðja einkafyrirtæki til að bæta aðgengismál. Sveitarfélögin eru hvött til að leggja lið með því að einfalda leyfisveitingaferli og annað sem liðkað getur fyrir framkvæmdum. Ég fékk góðar upplýsingar á fundinum um hvað við getum gert til að gera betur í þessum málum. Ég hvet þá aðila sem reka fyrirtæki í sveitarfélaginu til að skoða aðgengismál hjá sér og hafa samband við mig ef þau vilja fá aðstoð við að sækja um í Römpum upp Ísland.

Föstudagurinn var erilsamur með fjölda funda. Þeir helstu að ég hóf daginn á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og ovant er á föstudögum. Ég fór ásamt Boga skipulagsfulltrúa í heimsókn að Ósum á Vatnsnesi þar sem við hittum landeigendur á Ósum og Súluvöllum vegna deiliskipulagsmála við Hvítserk. Áttum gott og uppbyggilegt spjall um málið. Við Bogi kíktum svo niður að Hvítserk og tókum nokkrar myndir. Það var þónokkur umferð af fólki við Hvítserk. Vegurinn var með besta móti enda sáum við sjaldséðan hvítan hrafn á leiðinni, veghefilinn.

Þegar til baka í Ráðhúsið var komið hitti ég Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra örstutt á leið hans á Siglufjörð. Við ræddum löggæslumál og málefni sýslumanns, mál sem við höfum rætt nokkrum sinnum áður. Það þarf að hamra járnið.

Því næst átti ég fund með Unicef og fékk kynningu á verkefninu um Barnvæn sveitarfélög. Verkefnið gengur út á að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í störfum sveitarfélaga. Samþykkt hefur verið að Húnaþing vestra verði þátttakandi í verkefninu og var ég að viða að mér nauðsynlegum upplýsingum um verkefnið til að geta metið hvernig það verður best unnið. Ég varð margs vísari á fundinum og er enn spenntari fyrir verkefninu að honum loknum.

Vinnuvikunni lauk ekki á föstudeginum. Fyrir skemmstu fékk ég skriflegt erindi frá fjórum ungum konum í sveitarfélaginu sem tóku að sér að skipuleggja hrekkjavökugleði fyrir krakka í sveitarfélaginu. Fóru þær þess á leit við mig að ég tæki að mér dómgæslu í búningakeppni í gleðinni. Ég var nú aldeilis til í það og svaraði þeim með formlegum hætti eins og öllum öðrum erindum. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að kynna ferli stjórnsýslunnar fyrir krökkunum okkar. Mér er minnisstætt þegar börnin mín sendu þáverandi sveitarstjóra erindi þegar þau var farið að lengja eftir því að kveikt yrði á ærslabelgnum eitt árið. Þau fengu til baka formlegt svar á bréfsefni sem þeim fannst ansi merkilegt. Mér þóttu þau vinnubrögð til fyrirmyndar og hef einsett mér að bregðast með sambærilegum hætti við erindum barna meðan ég starfa sem sveitarstjóri.

Hrekkjavökugleðin fór fram í félagsmiðstöðinni Óríon á laugardeginum. Ég bakaði nokkrar bollakökur og gerði smávegis hræðilegt snarl kvöldið áður sem við lögðum til á veisluborðið sem var drekkhlaðið hrekkjavökulegum veitingum. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og það var hreint ekki auðvelt verk að velja bestu búningana. En að öllum öðrum ólöstuðum veitti dómnefndin þrjár viðurkenningar. Bríet Anja Birgisdóttir var valin í fyrsta sæti fyrir búning sinn. Hún skartaði magnaðri andlitsmálningu sem pabbi hennar sá um að gera. Í öðru sæti var María Guðrún Theodórsdóttir í mjög sannfærandi nornagervi. Þriðja sætið fékk svo í skaut Matthíasar Faustini de Aquino en hann tók sig mjög vel út í riseðlubúningi. Með mér í dómnefndinni voru mæðgurnar Jóhanna Erla Jóhannsdóttir og Ástríður Halla Reynisdóttir.

Bríet, María og Matthías en þau fengu viðurkenningar fyrir bestu búningana í hrekkjavökugleði í Félagsmiðstöðinni Óríon (foreldrar veittu leyfi fyrir myndbirtingu).

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim Svövu Rán, Jólín Björk, Ágústu Sóley og Tinnu Kristínu fyrir þeirra vinnu í skipulagningu hrekkjavökunnar þetta árið. Þessi hátíð er enn eitt dæmið um styrk samfélagsins okkar. Sjálfssprottið framtak ungmenna sem leggja á sig mikla vinnu til að skemmta sér og öðrum krökkum í sveitarfélaginu. Ég vil líka þakka íbúum sem tóku á móti krökkunum þegar þau gengu á milli húsa í nammileit. Fjölmargir tóku þátt. Ég finn það með mína krakka að þau eru mjög spennt fyrir hrekkjavökunni og við höfum undanfarin ár skreytt heilmikið. Ég held að mér finnist það skemmtilegra en þeim í það minnsta var ég undarlega fljótt orðin ein úti í garði þegar skreytingin stóð yfir á laudardagsmorgninum.

Garðurinn breytist í draugalegan kirkjugarð á hrekkjavökunni.

Á laugardagskvöldinu fór fram sviðamessa. Fjáröflunarsamkoma sem fjölmargir stóðu fyrir til fjáröflunar fyrir endurgerð Norðurbrautar, fyrstu vegasjoppunnar á Íslandi. Svo margir komu að samkomunni að ég legg ekki í að þakka þeim öllum af ótta við að gleyma einhverjum. Ég þakka þeim öllum kærlega fyrir þá miklu vinnu sem hefur farið í að skipuleggja viðburðinn. Þegar sviðamessan var auglýst var ég fljót að bjóða bóndanum þar sem hann er mjög hrifinn af sviðum. Ég get vel án þeirra verið en fékk mér þó einn neðri kjamma og fór býsna langt með hann. Bóndinn dró mig svo að landi. Vinur minn, Ingimar Sigurðsson á Kjörseyri, var veislustjóri og fórst það einkar vel úr hendi. Flutt var tónlist enda státum við af framúrskarandi tónlistarfólki hér í héraðinu. Kynntar voru hugmyndir um endurbyggingu Norðurbrautar og staðsetningu hennar norðan við Verslunarminjasafnið og tengibyggingu á milli þar sem bátur Bangsa verður til sýnis. Ég fékk kynningu á þessum áformum á dögunum og finnst þau ákaflega spennandi. Ekki bara vegna varðveislugildis hússins heldur líka vegna fegurðarinnar í því að minnast Bangsa með þessum hætti. Ég leyfi mér að láta fylgja með mynd af allra fyrstu hugmyndum sem sýndar voru á sviðamessunni sem Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir arkitekt á veg og vanda af. Þar sést hvernig áætlað er að koma húsinu fyrir á reitnum þar sem Verslunarminjasafnið er og tengja húsin saman með tengibyggingu þar sem báturinn hans Bangsa verður til sýnis. Ítreka það að hér er aðeins um fyrstu hugmyndir að ræða og verkefnið getur og mun alveg örugglega taka breytingum. 

Sunnudagurinn fór að mestu í hvíld en ég skrapp þó aðeins á skrifstofuna til að ljúka undirbúningi funda mánudagsins og gera smá hrekkjavökusprell fyrir samstarfsfólk í Ráðhúsinu með sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs. Meira um það í næstu viku.

Var efnið á síðunni hjálplegt?