16. janúar 2023

Vikan 9.-15. janúar 2023

Einhversstaðar segir að mánudagur sé til mæðu. Það má eiginlega segja að það hafi átt við fyrri hluta mánudags þar sem mér hafði tekist að ná mér í óumbeðna magapest. Ég var því heima til að koma í veg fyrir að smita vinnufélaga mína. Ég tók því rólega fram undir morgunkaffi en eftir það sat ég við tölvuna heima og sinnti mínum störfum. Fundur byggðarráðs var á dagskrá eftir hádegið og sat ég hann í gegnum Teams. Í samþykktum sveitarfélagsins er slíkt heimilt og gott að hafa það að hverfa til ef þörf krefur. Að byggðarráðsfundi slepptum þá sinnti ég hinum ýmsum verkefnum. Samþykkti reikninga, undirbjó fundi, skrifaði skýrslu sveitarstjóra sem er jafnan á dagskrá sveitarstjórnarfunda, vann í umsókn sveitarfélagsins í verkefnapott á byggðaáætlun og ýmislegt fleira. Á byggðarráðsfundinum var það helsta fréttnæmt að bókaðar voru sérreglur um byggðakvóta en þau ánægjulegu tíðindi bárust á dögunum að veruleg aukning var á úthlutuðum kvóta þetta árið eða 130 tonn samanborið við 70 tonn árið áður. Úthlutun byggðakvóta fer fram eftir flóknum reglum en misskinlings virðist gæta úthlutun hans í þá átt að um sé að ræða ákvarðanir ráðherra hverju sinni. Svo er ekki heldur er gengið út frá samdrætti í lönduðum afla botnfisks, vinnslu rækju og vinnslu á skel í viðkomandi byggðarlagi allt frá fiskveiðiárinu 2012/2013. Veitt eru stig eftir ákveðnum reglum sem ákvarða úthlutun hverju sinni. Þessi útskýring mín er veruleg einföldun á kerfinu. Þau sem eru áhugasöm geta sökkt sér í reglugerðina sem er aðgengileg hér.

Á byggðarráðsfundinum var einnig farið yfir starfsáætlun byggðarráðs fyrir árið 2023 sem er nýlunda í starfi ráðsins. Í áætluninni eru skráðir fastir liðir í starfi þess yfir árið frá mánuði til mánaðar. Svo sem heimsóknir frá rekstrarstjóra og skipulagsfulltrúa, yfirferðir árshlutauppgjöra, fjárhagsáætlunargerðarvinna, umfjöllun um ársreikning o.s.frv. Birti hér til gamans mynd af starfsáætluninni sem hugsuð er til að tryggja að mál séu tekin fyrir á réttum tíma:

Ég komst sem betur fer á skrifstofuna á þriðjudeginum. Þó það sé gott að geta unnið heima þá er nú líka afar gott að vera í Ráðhúsinu með því góða fólki sem þar starfar. Ég byrjaði daginn á því að funda með oddvita til að fara yfir dagskrá sveitarstjórnarfundar síðar í vikunni. Ég var síðan ekkert bókuð að þeim fundi loknum fyrr en kl. 16 þegar fundur veituráðs fór fram en sveitarstjóri er starfsmaður veituráðs. Ég undirbjó fundargerð fundarins og að því loknu sinnti ég ýmsum verkefnum. Til dæmis kallaði ég eftir tilboðum í nýjan fjarfundabúnað í fundarsal ráðhússins. Það er brýnt að geta með góðu móti haldið fjarfundi en núverandi búnaður er ekki fullnægjandi. Því var gert ráð fyrir þessum kaupum í fjárhagsáætlun þessa árs. Einhver tími fór í undirbúning sveitarstjórnarfundar. Ég var líka í samskiptum við Vegagerðina vegna umsókna um framlög til styrkvega, það þurfti enn og aftur að samþykkja reikninga og sinna ýmsum öðrum smærri verkefnum. Veituráðsfundurinn fór svo fram í lok dags eins og áður segir. Þar var farið yfir þau verkefni sem eru á döfinni í ár og eins stöðu mála og bilanir frá síðasta fundi. Farið var yfir verkáætlun vegna lagningar vatnslagnar frá Hvammstanga fram á Laugarbakka og að síðustu stöðu ljósleiðaraverkefnisins Ísland ljóstengt. Í tengslum við verkefnið voru tengdar 233 ljósleiðaratengingar í sveitarfélaginu á árunum 2016-2022. Verkefnið Ísland ljóstengt er dæmi um afar vel heppnað verkefni í samstarfi ríkis og sveitarfélaga sem hefur skipt sköpum í að bæta búsetugæði til sveita. Fundargerð fundar veituráðs er hér.

Á þriðjudagskvöldinu sat ég svo mjög áhugaverðan fyrirlestur sem Grunnskólinn bauð foreldrum upp á. Ég má til með að láta hans getið hér þó ég hafi ekki setið hann sem sveitarstjóri heldur sem foreldri barna í Grunnskólanum. Fyrirlesturinn fjallaði um hætturnar sem að börnum steðja í hinum stafræna heimi. Það er óhætt að segja að ég hafi veri þungt hugsi að honum loknum. Ég vil þakka skólastjórnendum fyrir þetta þarfa framtak. Daginn eftir, á miðvikudeginum, var efni fyrirlestursins fylgt eftir með bekkjarþingi miðstigs í Grunnskólanum. Krakkarnir og foreldrar áttu þar opið samtal um umgengni um snjallsíma og tölvuleiki. Að þeim fundi var virkilega vel staðið að hálfu skólans. Óhætt er að segja að ég hafi verið montin af okkar fólki eftir þessa tvo viðburði. Takk fyrir mig.

Á miðvikudeginum sat ég fund með KPMG þar sem ég var spurð spjörunum úr um stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sérfræðingur í þeim málum tekur árlega viðtal við sveitarstjóra eftir ítarlega skoðun á fundargerðum, samþykktum, reglum, gjaldskrám, birtingum í Stjórnartíðindum, framlagninu viðauka o.m.fl. Er þessi vinna unnin í tengslum við endurskoðun sveitarfélagsins. Í framhaldinu er svo unnin skýrsla þar sem tilteknar eru þær úrbætur sem gera þarf, ef nokkrar. Þessi skoðun hefur um langt árabil komið vel út og ekki útlit fyrir annað en að svo verði áfram. Ég átti nokkra styttri fundi um ýmis mál yfir daginn, undirbjó sveitarstjórnarfund sem og skoðaði hvaða mál lægju fyrir næsta byggðarráðsfundi og undirbjó það fundarboð.

Í lok dags sat ég fund e-Rótarýklúbbsins sem ég er félagi í. Ég hafði verið beðin um að halda erindi fyrir félaga mína í klúbbnum um starfið mitt en Rótarý gengur að hluta til út á að fræðast um starfsgreinar. Ég tók saman stutt erindi þar sem ég fór yfir það helsta sem varðar sveitarfélagið og starf sveitarstjóra. Ég fékk góðar spurningar frá félögum mínum, bæði um sveitarfélagið og starfið. Ég fyllist alltaf stolti af sveitarfélaginu þegar ég tala um það og segi frá því sem einkennir samfélagið okkar hér. Það er fjölmargt sem vera má stoltur af þó það sé auðvitað hægt að gera betur á mörgum sviðum. Það er gott að minna sig á það reglulega. 

Í kynningu minni fyrir Rótarýfélaga fór ég meðal annar yfir niðurstöðu nokkurra spurninga úr íbúakönnun sem unnin var árið 2020. Þar var Húnaþing vestra í 8. sæti samantekið yfir sveitarfélögin á landsvísu. Það er að mínu viti býsna góður árangur. Nokkrir þættir skáru sig sérstaklega út, svo sem að ánægja með heilsugæslu er hér mest á landinu, ánægja með menningarstarf þriðja besta á landinu á eftir Akureyri og höfuðborgarsvæðinu, þjónusta við aldraða hæst á landinu, annað sæti með tilliti til vöruúrvals í verslun (á eftir höfuðborgarsvæðinu) og fleira mætti tína til. Allt þetta þarf að standa vörð um og auðvitað stefna að því að gera betur í þeim þáttum sem ekki koma eins vel út. Íbúakönnunina í heild sinni er að finna hér fyrir áhugasöm. 

Fimmtudagurinn var sveitarstjórnarfundardagur. Hann hófst þó á föstudagsfundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Föstudagsfundur á fimmtudegi er eitthvað :) Eins og jafnan fórum við um víðan völl og ræddum hin ýmsu málefni. Fyrir hádegið sat ég ásamt sviðsstjóra fjölskyldusviðs og forstöðumanni íþróttamiðstöðvar áhugaverðan fund með fulltrúum frá ÍSÍ og Landssambandi eldri borgara um verkefni sem ber heitið Bjartur lífsstíll og fjallar um heilsueflingu eldra fólks. Virkilega áhugavert verkefni sem rímar vel við þá vinnu sem er að fara af stað í stefnumótun um þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu. Í tengslum við það verkefni eru á döfinni þrír vinnufundir næstu þrjár vikurnar þar sem upplýsingum verður safnað um núverandi stöðu, óskir eldri borgara um áherslur í þjónustu ásamt umræðum um tækifæri til breytinga. Við viljum endilega fá fram sjónarmið sem allra flestra til að þjónustan verði sem best sniðin að þörfum heldri borgara sveitarfélagsins. Við viljum nefnilega öll að það sé gott að eldast í sveitarfélaginu okkar. Nánari upplýsingar um fundina eru hér.

Það var eitt og annað sem farið var yfir á sveitarstjórnarfundinum auk hefðbundinnar yfirferðar fundargerða. Uppfærð húsnæðisáætlun sveitarfélagsins var samþykkt en í henni er dregin upp mynd af stöðu húsnæðismála er í sveitarfélaginu, framboð og eftirspurn margvíslega húsnæðisforma er greind og sett fram áætlun um hvernig mæta á húsnæðisþörf til lengri og skemmri tíma. Áætlunin er aðgengileg hér. Á fundinum var einnig samþykkt ný menntastefna sveitarfélagsins sem unnin hefur verið í viðamiklu samráði. Ástæða er til að fagna þeirri vinnu og því plaggi sem samþykkt hefur verið. Lokafrágangur skjalsins stendur yfir og má gera ráð fyrir að stefnan verði kynnt á allra næstu dögum. Að síðustu var breyting á samþykktum sveitarfélagsins í tengslum við breytt fyrirkomulag barnaverndarmála tekin til annarrar umræðu og samþykkt. Breytingar á samþykktum þurfa tvær umræður í sveitarstjórn og fara í kjölfarið til ráðuneytis til staðfestingar og birtingar í Stjórnartíðindum.

Í kjölfar sveitarstjórnarfunda fer ávallt drjúgur tími í að vinna úr fundinum. Senda þarf tilkynningar um afgreiðslu mála, útbúa fréttir á heimasíðu ef það á við, senda tilkynningar á ráðuneyti o.s.frv. Föstudagurinn fór að hluta í þá vinnu. Auk þess átti ég nokkra styttri fundi með starfsmönnum, íbúum vegna skipulagsmála og kollegum um ýmis mál. Einnig funduðum við um framkvæmdaáætlun vegna framkvæmda á fjárhagsáætlun ársins á vegum sveitarfélagsins. Góð áætlanagerð skiptir sköpum til að góður árangur náist.

Þetta var vikan í hnotskurn. Komandi vika er þéttbókuð – alveg eins og við viljum hafa það. Okkur leiðist þá ekki á meðan.

Var efnið á síðunni hjálplegt?