15. maí 2023

Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs þar sem við fórum yfir það sem efst er á baugi þessa vikuna. Til upprifjunar þá sitja sviðsstjórar fjármála- og stjórnsýslusviðs og fjölskyldusviðs í ráðinu ásamt sveitarstjóra. Að þeim fundi loknum og fram að byggðarráðsfundi eftir hádegið sinnti ég ýmsum verkefnum, dagbókarskrifum, yfirferð úthlutunarreglna Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs, samþykkti reikninga o.fl. Byggðarráð fundaði eftir hádegið. Þar voru framangreindar úthlutunarreglur samþykktar. Fundargerðin er hér.

Að kvöldi mánudags skrapp ég yfir í Búðardal þar sem ég sat fund með umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um vindmyllur. Ráðherra skipaði starfshóp til að fjalla um málefnið og hefur hann nú skilað stöðuskýrslu um málið. Í henni eru dregin saman þau álitamál sem upp hafa komið og kunna að koma upp í tengslum við orkuframleiðslu úr vindorku. Fjölmennur og mjög upplýsandi fundur. Fyrir þau sem eru áhugasöm er umrædd skýrsla hér.

Á þriðjudagsmorgni hófust leikar á undirbúningi sveitarstjórnarfundar. Því næst fundaði ég ásamt rekstrastjóra, forstöðumanni íþróttamiðstöðvar og sviðsstjóra fjölskyldusviðs um framkvæmdir við sundlaug. Góður gangur er í framkvæmdunum og bind ég vonir við að svo verði áfram svo unnt verði að opna laugina innan þeirra tímamarka sem auglýst hafa verið. Að framkvæmdaumræðum loknum kláraði ég fundarboð sveitarstjórnarfundar og sendi út ásamt því að birta á heimasíðu sveitarfélagsins. Samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins skulu fundaboð sendast út a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir fund og brýnt að svo sé til að fundir séu löglegir. Því næst tók við opnun tilboða í lagningu vatnslagnar frá Hvammstanga að Laugarbakka. Fjögur tilboð bárust og stendur mú yfir mat á þeim. Í hádeginu skrapp ég á Sjávarborg og sat fund með Kristúnu Frostadóttur um heilbrigðismál. Góðar umræður voru um þetta mikilvæga málefni á fundinum. Að þeim fundi loknum gekk ég frá ráðningarsamningum við tvo nýráðna starfsmenn og sinnti hinum ýmsu málum til loka dags. Fjölbreyttur dagur sem gerir starf sveitarstjóra einmitt svo skemmtilegt.

Miðvikudagurinn var að mestu fundalaus – sem gerist ekki oft. Slíkir dagar eru kærkomnir og gefa tóm til að vinna í ýmsum málum sem krefjast yfirlegu. Auk þeirra þá gekk ég frá ráðningu í starf verkefnisstjóra umhverfismála. Ólöf Rún Skúladóttir frá Sólbakka í Víðidal var ráðin. Nánari upplýsingar má finna hér. Ólöf byrjar innan tíðar og verður hennar fyrsta verkefni að setja sig inn í málefni Vinnuskólans sem hefst innan tíðar. Ég hlakka til samstarfsins. Ég varði líka nokkrum tíma í að undirbúa júní fund sveitarstjórnar en til stendur að hann verði sérstakur hátíðarfundur þar sem í júní eru einmitt liðin 25 ár frá stofnun sveitarfélagsins. Meira um það síðar. Auk þessa sinnti ég málum tengdum fjallskilum, útleigu íbúðar á Lindarvegi í eigu Bústaðar hses., útboði sorphirðu o.m.fl.

Fimmtudagurinn var svo meira eða minna undirlagður vegna sveitarstjórnarfundar eftir hádegið. Fundaði þó um morguninn með framkvæmdastjórum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra en við hittumst reglulega á netinu til að spjalla um sameiginleg málefni. Undirbúningsfundir vegna sveitarstjórnarfunda hefjast alla jafna kl. 13 og fundurinn sjálfur svo kl. 15. Megin efni þessa fundar var samþykkt ársreiknings ársins 2022. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 85,9 milljónir króna, sem þó var um 40 millj. minna tap en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þrátt fyrir tap þá er almennur rekstur sveitarfélagsins í jafnvægi og stendur vel undir skuldbindingum. Tapið kemur fyrst og fremst til vegna fjármagnskostnaðar sem var 45,7 milljónum umfram það sem áætlað var og tapi á rekstri málaflokks vegna vanfjármögnunar af hálfu ríkisins, kr. 39,5 milljónir. Þrátt fyrir að reksturinn sé í jafnvægi verður brýnt að sýna fyllstu aðgæslu í rekstri á meðan efnahagsástandið er eins og það er. Fundargerð sveitarstjórnarfundarins er að finna hér en í henni er ítarleg bókun um hestu lykiltölur úr ársreikningi. Ársreikningurinn í heild sinni er svo aðgengilegur hér.

Á föstudeginum hófst dagurinn á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og jafnan. Að honum loknum hófst ég handa við að vinna úr sveitarstjórnarfundinum en í kjölfar þeirra þarf að senda afgreiðslur og ganga frá málum. T.d. auglýsti ég úthlutun úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra, sendi fjölmargar tilkynningar á afgreiðslu mála o.s.frv. Auk þess undirbjó ég byggðarráðsfund komandi mánudags eins og vanalega á föstudögum. Ýmislegt annað smálegt kom við sögu, starfsmannamál, fjallskilamál o.s.frv.

Við hjónin skruppum á Hótel Laugarbakka til að fá okkur að borða á föstudagskvöldið. Sem er nú ekki í frásögur færandi. Í því sem við göngum þar inn fór rafmagnið af og reyndist svo í meira eða minna öllu sveitarfélaginu. Ég hringdi strax í RARIK og fékk þær upplýsingar að slegið hefði út í Hrútatungu og að ekki yrði hægt að slá inn aftur fyrr en eftir 10-15 mínútur. Rafmagnsleysi takmarkar vissulega valmöguleika á matseðli veitingastaða. Við pöntuðum okkur því gamla góða rækjukokteilinn í forrétt. Þegar við vorum búin að sporðrenna honum var rafmagnið komið á aftur og við gátum því pantað okkur lambaskanka sem voru gómsætir. 

Ég leit aðeins í vinnuna á laugardeginum einkum til að halda áfram að undirbúa hátíðarfund sveitarstjórnar í júní. Þar verða boðsgestir sem þarf að senda boð í tíma. Einnig fór ég í gegnum umsóknir um  styrki til lokatenginga ljósleiðara í dreifbýli í tengslum við verkefnið Ísland ljóstengt. Fundur veituráðs þar sem umsóknirnar verða teknar fyrir verður í byrjun júní. Einnig gekk ég frá dagbókarskrifum vikunnar en þau er gott að vinna um helgar í góðu næði.

Mér eins og flestum öðrum brá svo í brún á sunnudeginum þegar ég leit út um gluggann. Brumið á reynitrénu í garðinum er farið að springa út svo það er öfugsnúið að snjóföl sé á greinunum. Svona er þetta nú stundum samt. Á meðan þetta er ekki meira en það varð og varir ekki lengi á gróðri ekki að verða meint af….svo er komið sumar.

Var efnið á síðunni hjálplegt?