28. nóvember 2022

Vikan 21. – 27. nóvember 2022

Stórum áfanga var náð í vikunni þegar seinni umræða fjárhagsáætlunar ársins 2023 og þriggja ára áætlunar áranna 2024-2026 fór fram og var samþykkt samhljóða. Eins og ég hef áður komið inn á er gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélags mjög umfangsmikil og flókin vinna sem krefst aðkomu mjög margra og lýtur ströngum kröfum. Ég vil þakka sviðsstjórum, rekstrarstjóra og forstöðumönnum stofnana fyrir afar gott samstarf í vinnunni sem og kjörnum fulltrúum. Sérstakar þakkir fær sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fyrir að leiða vinnuna af öryggi og festu.

En byrjum á byrjuninni. Mánudagurinn var með hefðbundnu sniði þ.e. fundir með framkvæmdaráði og byggðarráði. Á byggðarráðsfundinum bar hæst umræða um sameiginlega barnaverndarnefnd á Norðurlandi vestra að viðbættum sveitarfélögunum Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Byggðarráð samþykkti að veita sveitarstjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs umboð til að taka þátt í vinnu við gerð samstarfssamnings um verkefnið. Einnig var sviðsstjóra og starfsmönnum barnaverndar veitt umboð til afgreiðslu barnaverndarmála frá og með 1. janúar 2023 þegar eldri barnaverndarlög taka gildi. Er þessi breyting liður í innleiðingu svokallaðra farsældarlaga sem miða að aukinni farsæld barna. Á fundinum voru einnig samþykktar nýjar reglur um úthlutun byggingarlóða sem eru ítarlegri og skýrari en þær sem fyrir eru. Reglurnar fara í kynningu að lokinni afgreiðslu sveitarstjórnar.

Á mánudeginum afgreiddi ég nokkra tölvupósta sem höfðu safnast upp eftir helgina. Ábendingar frá íbúum um atriði sem betur mega fara, stöðu mála í fjölmenningarverkefni sem Þórunn Ýr starfsmaður okkar í Ráðhúsinu heldur utan um, leiðir til að ljúka vinnu við gerð loftslagsstefnu sveitarfélagsins, húsnæðismál, refa- og minkaveiði, reglur um skólaakstur og fleira. Undirbúningur sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá á fimmtudeginum kom líka við sögu og ýmislegt fleira smálegt.

Á mánudagskvöldið lögðum við svo land undir fót, ég, oddviti og formaður byggðarráðs á fund í Árbliki í Dölum (þar sem þríeykið er nú frátekið um ókomna tíð kallar Alli minn okkur “Three amigos” :)). Umfjöllunarefnið var ný hugsun í samgöngumálum. Sambærilegur fundur og haldinn var í Húnaþingi vestra fyrir nokkrum vikum. Sjá nánar hér. Það er alltaf gaman að koma í Dalina og ánægjulegt að hitta nágranna okkar og spjalla um sameiginlega hagsmuni í samgöngumálum.

Á þriðjudeginum vann ég áfram úr hugmyndum krakkanna í Húnaklúbbnum um hvernig má betur styðja við ungenni í sveitarfélaginu. Jessica, forsvarsmaður klúbbsins, kom til mín og við settum saman yfirlit yfir þá þjónustu sem í boði er í sveitarfélaginu fyrir ungt fólk. Það er nú heilmikið en betur má ef duga skal. Síðari hluta dags sat ég svo fund Verkefnaráðs Holtavörðuheiðarlínu 3 sem fram fór á Hótel Laugarbakka. Um er að ræða fyrirhugaða lagningu línu frá nýju tengivirki á Holtavörðuheiði yfir í Blöndu sem er hluti af framkvæmdum við endurnýjun byggðalínunnar. Landsnet hefur um nokkurt skeið beitt umfangsmiklu samráðsferli í tengslum við raflínuframkvæmdir. Þessi framkvæmd verður engin undantekning á því. Hluti af því er opnun sérstaks vefsvæðis þar sem tengdum gögnum verður safnað saman. Vefsvæðið er öllum opið og við hvetjum fólk til að kynna sér framvindu verkefnisins. Enn sem komið er hafa engar ákvarðanir verið teknar varðandi legu línunnar en nokkrar hugmyndir hafa komið fram. Þær munu áreiðanlega taka breytingum eftir því sem líður á samráðið. Vefsvæði verkefnisins er hér þar má meðal annars finna kynningar frá því á fundi verkefnaráðs en líka fundi með landeigendum sem fram fór um kvöldið og ég sat líka.

Jólalegt um að litast á fundi Landsnets með landeigendum vegna Holtavörðuheiðarlínu 3.

Á miðvikudeginu þurfti ég að sinna einkaerindum í Reykjavík en nýtti engu að síður tímann á leiðinni fram og til baka til að hringja nokkur símtöl (með handfrjálsan búnað að sjálfsögðu). Tíminn á akstri er oft góður til að hringja í fólk eins og ég hef komið inn á í dagbókarfærslum áður. Ég átti líka fund með verkefnisstjóra fjárfestinga hjá SSNV á netinu og sat hann í bílastæði við Smáralind. Það er magnað hvað tæknin gerir manni kleift.

Sveitarstjórnarfundurinn var það verkefni sem hæst bar á fimmtudeginum. Ég náði þó að fara á Sjávarborg í hádeginu og borða með hóp úr viðskiptahraðlinum Hringiðu hjá Klak nýsköpunarmiðstöð sem var á leið á Akureyri. Þau stoppuðu hér á leiðinni til að borða og fá kynningu á Útibúinu í húsnæði Landsbankans. Að sveitarstjórnarfundi loknum var vinnufundur sveitarstjórnar um svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi. Ég fór yfir drög áætlunarinnar fyrr í vikunni og gerði athugasemdir við nokkra liði sem sveitarstjórn svo ræddi og bætti við. Mikilvæg vinna sem hefur áhrif á hvernig þessum málum verður háttað á Norðurlandi á komandi árum. Eins og fram hefur komið í fréttum er málaflokkur úrgangsmála að taka miklum breytingum vegna lagasetningar sem tekur gildi um áramót. Sú breyting felur í sér stórauknar kröfur til flokkunar og meðhöndlunar úrgangs. Einnig felur breytingin í sér að sveitarfélögum er frá og með áramótum óheimilt samkvæmt lögum að greiða með sorphirðu. Húnaþing vestra hefur á undanförnum árum greitt um 18-20 milljónir með málaflokknum á ári en er það ekki heimilt lengur. Hækkun sorphirðugjalda var því óumflýjanleg og fara þau úr kr. 46.100 á íbúðarhúsnæði í kr. 100.000. Vinna við sorphirðuútboð stendur yfir en gert er ráð fyrir sameiginlegu útboði sveitarfélaganna í Húnavatnssýslum. Eins og fram kemur í bókun sveitarstjórnar má vera að útboð leiði í ljós að taka þurfi upp gjaldskrá að nýju á næsta ári.

Eins og fram kemur í greinargerð sveitarstjórnar má sjá á fjárhagsáætluninni að sveitarfélagið glímir við erfiða fjárhagsstöðu líkt og mörg önnur sveitarfélög. Gert er ráð fyrir neikvæðri rekstrarafkomu upp á kr. 80,6 milljónir. Einkum má rekja tapið til hækkandi fjármagnskostnaðar og hallarekstrar málefna fatlaðs fólks. Fjármagnskostnaður næsta árs er áætlaður um 105 milljónir króna. Væri verðbólga á pari við markmið Seðlabankans, eða 2,5%, væri fjármagsnkostnaðurinn um 58 milljónir króna. Sýnir þetta skýrt hversu viðkvæmur rekstur sveitarfélagsins er fyrir áhrifum verðbólgu. Vegna vaxtar og mikilla framkvæmda í sveitarfélaginu undanfarin misseri hefur lántaka reynst nauðsynleg, m.a. í tengslum við viðbyggingu grunnskólans. Í hefðbundnu árferði hefði sá fjármagnskostnaður sem slíku fylgir verið mun lægri og ekki haft eins mikil áhrif á rekstur sveitarfélagsins og raun ber vitni. Þessi staða gerði það að verkum að ákveðið var að álagningarprósenta fasteignagjalda yrði óbreytt 0,4% sem þó er nokkuð lægra en almennt gerist hjá nágrannasveitarfélögunum.

Almennar gjaldskrárhækkanir voru um 5,4% sem er nokkuð lægra en hjá flestum öðrum sveitarfélögum þar sem þær eru 7-10%. Sorphirða hækkar þó mun meira eins og fram hefur komið og hreinsun rotþróa sömuleiðis. Sveitarstjórn veitir félagasamtökum og menningarverkefnum styrki upp á kr. 20,6 milljónir. Áfram verða settir fjármunir í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð. Fjárfestingar næsta árs verða samkvæmt áætluninni um 175 milljónir. Þar bera hæst endurnýjun vatnsveitu á Laugarbakka og endurnýjun lagnakerfis í sundlaug. Einnig er áformað að setja upp 9 körfu frisbígolfvöll í Kirkjuhvammi.

Það er ljóst að þegar staða sveitarfélagsins er með þeim hætti sem hún er verða mörg brýn verkefni að bíða. Sveitarstjórn nefnir sérstaklega byggingu aðstöðuhúss í Kirkjuhvammi sem er mikilvægt verkefni sem því miður er ekki svigrúm til nema aðstæður breytist.

Á sveitarstjórnarfundinum var jafnframt samþykkt lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á kr. 45 milljónir sem er 100 milljónum lægra en gert var ráð fyrir og lánaheimild fjárhagsáætlunar þessa árs því ekki nýtt að fullu. Lántakan kemur til út af viðbyggingu við Grunnskólans sem verður að fullu lokið við á þessu ári. Fundargerð fundarins er að finna hér.

Ég verð að viðurkenna að það var spennufall á föstudeginum eftir umræðu og samþykkt fjárhagsáætlunar deginum áður. Ég átti hefðbundinn fund með oddvita og formanni byggðarráðs, gekk frá fundarboði byggðarráðsfundar mánudagsins, vann í minnisblaði með athugasemdum sveitarstjórnar við svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem rædd var í kjölfar sveitarstjórnarfundar deginum áður. Eftir hádegið tókum við starfsmenn í ráðhúsinu okkur svo til og skreyttum húsið. Við byrjuðum á að borða jólalegan hádegismat og settum svo upp skraut í glugga og víðar.

Ráðhúsið komið í jólabúning.

Vinnuvikunni var ekki alveg lokið. Ég sinnti nokkrum verkefnum á laugardeginum en embættisskyldur sunnudagsins voru afar ánægjulegar. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Elíza Reid forsetafrú, heimsóttu okkur. Þau byrjuðu á að sitja aðventustund í setustofunni á sjúkrahúsinu með heimilisfólki og öðrum gestum. Að þeirri stund lokinni buðum við þeim í heimsókn í Verslunarminjasafnið þar sem Þuríður tók á móti okkur og sagði frá starfseminni. Að því loknu sátu þau með okkur aðventustund í Hvammstangakirkju sem í þetta sinn var sameiginleg stund allra kirkna í sveitarfélaginu. Eliza flutti einstaklega fallega hugvekju þar sem hún vitnaði m.a. í eina af predikunum afa síns sem var prestur. Dagskrá aðventustundarinnar var hlaðin tónlistarflutningi okkar frábæra tónlistarfólks. Valdimar Gunnlaugsson og Rannveig Erla Magnúsdóttir fluttu eitt lag í upphafi stundar við undirleik Guðmundar Grétars Magnússonar. Kirkjukórinn söng nokkur lög og gerði það listavel við undirleik og stjórn Pálínu Fanneyjar og lék Kristín Guðmundsdóttir undir í einu laganna á þverflautu. Rokkkórinn söng nokkur lög undir stjórn Ingibjargar Jónsdóttur og er ég nokkuð viss um að hróður kórsins á eftir að berast víða. Algerlega frábær flutningur hjá þeim. Auk þess tóku börn í 6-9 ára starfi kirkjunnar sem og TTT starfinu þátt í athöfninni að ógleymdum fermingarbörnunum. Séra Magnús var kynnir á stundinni. Það er óhætt að segja að ég hafi komist í jólaskapið þegar kveikt var á kertum í lok athafnar, rafljós kirkjunnar slökkt og gestir sungu Heims um ból. Ég vil þakka öllum sem tóku þátt í stundinni fyrir þeirra góða framlag. Við erum sannarlega rík af hæfileikaríku fólki hér í sveitarfélaginu.

Með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Elizu Reid forsetafrú.

Næsta vika verður óhefðbundin þar sem ég ætla að bregða mér til Svíþjóðar í embættiserindum sem tengjast atvinnumálum og ég segi ykkur betur frá í næstu viku.

Var efnið á síðunni hjálplegt?