4. mars 2024

Vikan 26. febrúar til 1. mars 2024

Það er óhætt að segja að það sé viðburðarrík vika að baki. Hún fór þó rólega af stað því hefðbundnir mánudagsmorgunfundir féllu niður vegna veikinda. Byggðarráðsfundi sem vera átti eftir hádegið var svo frestað – en það gerum við þegar ekki er þörf á fundi og í þetta skiptið voru engin aðkallandi mál sem biðu afgreiðslu. Það má því segja að ég hafi grætt einn dag sem var kærkomið. Ég byrjaði á því að skrifa dagbókarfærslu liðinnar viku og birta hana á heimasíðu sveitarfélagsins. Ég undirbjó heimsókn mennta- og barnamálaráðherra en hann kom við á fimmtudeginum ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins í kjördæminu. Ég byrjaði að vinna að umsókn í styrkvegapott Vegagerðarinnar, samþykkti reikninga, skoðaði nokkur mál í samráðsgátt, var í samskiptum við óbyggðanefnd vegna þeirra krafna sem nú eru uppi um eyjar og sker, hugaði að starfsmannamálum og einu og öðru. Ágætis skrifborðsdagur þar sem ég kom ýmsu frá.

Á þriðjudagsmorgni fundaði ég með forstöðumönnum héraðsskjalasafnanna í Skagafirði og V-Hún vegna móttöku rafrænna gagna. Fyrir dyrum er mikil vinna við að búa svo um hnútana að héraðsskjalasöfnin geti tekið við rafrænum gögnum. Þar á eftir sat ég fund með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um úrgangsmál. Eftir hádegið var svo danssýning í íþróttamiðstöðinni sem Jón Pétur leiddi af sinni alkunnu snilld. Honum telst til að hann hafi nú verið hjá okkur í 39. árið í röð. Við erum einstaklega heppin að njóta krafta hans og krakkarnir stóðu sig frábærlega á danssýningunni. Eftir það sat ég kynningarfund Markaðsstofu Norðurlands á verkefninu um flugklasann en það gengur út á að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Á milli þessa funda yfirfór ég drög að viðverustefnu fyrir sveitarfélagið sem hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Ég sinnti jafnframt undirbúningi fulltrúaráðsfundar Leigufélagsins Bústaðar en þar þarf að kjósa nýja stjórn þó félagið eigi ekki lengur íbúðir til útleigu eftir að Íbúðafélagið Brák tók yfir íbúðir félagsins á Lindarvegi. Einnig gengum við frá innihaldi starfsauglýsingar sem sagt verður betur frá rétt á eftir og undirbjó heimsóknir í Reykjavík með oddvita og formanni byggðarráðs í tengslum við landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga seinna í mars. Einnig fékk ég íbúa til fundar um ýmis mál, svo sem fjarskiptamál í Hrútafirði og fleira sem þarf að huga að.

Á miðvikudeginum byrjaði ég á að undirbúa fund með landeigendum í sveitarfélaginu sem verða fyrir kröfum óbyggðanefndar sem mikið hefur verið fjallað um upp á síðkastið. Ákveðið var að sveitarfélagið hefði frumkvæði að því að kalla saman fund til að fólk fengi skýrari mynd af því hvernig bregðast ætti við. Fundurinn var haldinn seinnipartinn og var hinn ágætasti. Ólafur Björnsson lögmaður sat fundinn og fór yfir helstu skref sem þarf að stíga til að bregðast við þessum undarlegu kröfum. Áfram vann ég í viðverustefnunni, sorpmál fengu athygli og sömuleiðis umsóknin í styrkvegapott Vegagerðarinnar. Seinnipart dags fór ég svo í heimsókn í Leiðangursskipið Sjovejen sem lá við norðurgarð Hvammstangahafnar. Skipið var hér til að taka upp farþega á leið til Grænlands. Það fór hins vegar svo að veðurspá gerði það að verkum að ferðinni var breytt og í stað Grænlandsferðar siglt meðfram ströndinni áleiðis til Akureyrar. Skipið rúmar 12 farþega ásamt áhöfn og mun það koma tvær ferðir til viðbótar til að taka upp farþeg hér í byrjun mars. Farþegarnir voru franskir og svissneskir og fékk ég tækifæri til að segja þeim frá sveitarfélaginu. Ánægjuleg heimsókn. Að henni lokinni var svo fundurinn með landeigendum sem ég hef þegar sagt frá.

Sjovejen í Hvammstangahöfn.

Á fimmtudeginum dró til tíðinda í verkefni sem unnið hefur verið í í meira en ár. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra kom í heimsókn ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins í kjördæminu til að undirrita samstarfssamning milli sveitarfélagsins og ráðuneytisins um tilraunaverkefni í tengslum við innleiðingu farsældarlaga. Felst það í ráðningu svokallaðs tengslafulltrúa sem hefur það hlutverk að vinna með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu, vera tengiliður þeirra og vinna að því að auka virkni þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi. Tengslafulltrúinn mun einnig vinna að uppsetningu aðstöðu fyrir þau, og aðra íbúa, í Félagsheimilinu Hvammstanga en hugmyndin er að þar verði sett upp nokkurs konar samfélagsmiðstöð. Ég vinn alla jafna að mörgum spennandi verkefnum en ég verð að segja að þetta er eitt það mest spennandi og frábært að sjá það raungerast með þessum hætti. Starf tengslafulltrúans hefur þegar verið auglýst laust til umsóknar og hvet ég öll áhugasöm um að sækja um. Við munum jafnframt boða til íbúafundar fljótlega til að fá fram hugmyndir að því hvað fólk vill að verði til staðar í samfélagsmiðstöðinni. Á dögunum fengum við styrk til tækjakaupa í tæknismiðju sem planið er að verði í Félagsheimilinu. Miðað við allt sem er í gangi, og á döfinni, í tengslum við þessi verkefni er það von mín að Félagsheimilið muni ganga í endurnýjun lífdaga á komandi misserum. Ég vil þó taka fram að það verður þó áfram til þeirra nota sem við þekkjum eins og menningarviðburða og skemmtana – fundnar verða leiðir til meiri samnýtingar enda er það synd að þetta merkilega hús standi autt meira eða minna. Plássið má nýta mun betur með samnýtingu rýma og góðu skipulagi. Ég hlakka til að heyra hugmyndir íbúa í þeim efnum. Fleira spennandi er á döfinni sem verður gaman að segja frá síðar. Það sem mér finnst skemmtilegast við þetta verkefni er að hugmyndin að starfi tengslafulltrúans er komin frá ungmennum sem tóku þátt í verkefni Húnaklúbbsins Back to the roots sem unnið var í samstarfi við sveitarfélagið Pythaa í Finnlandi. Þarna er því verið að bregðast við ákalli ungmenna um hvað þeim finnst vanta í sveitarfélagið – sem var nokkurskonar talsmaður sem og betri aðstaða til tómstundaiðkunar. Það er frábært að geta brugðist við því með eins afgerandi hætti og verkefnið mun verða öllum íbúum til hagsbóta með uppsetningu samfélagsmiðstöðvarinnar sem verður öllum opin.

Frá undirritun samstarfssamningsins. Standandi frá vinstri: Stefán Vagn Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður, Luís Aquino, fulltrúi Húnaklúbbsins, Magnús Magnússon, formaður byggðarráðs, Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti sveitarstjórnar, Magnús Eðvaldsson, sveitarstjórnarfulltrúi og Sigurður Þór Ágústsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs. Sitjandi: Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Eftir undirritun í Félagsheimilinu fórum við með ráðherra og föruneyti í heimsókn í leikskólann, grunnskólann og íþróttamiðstöðina. Gestirnir fengu kynningu á starfinu og spjölluðu við nemendur. Ég er óskaplega stolt af starfi skólanna og íþróttamiðstöðvarinnar og öllu því fólki sem þar starfar. Það var því ákaflega ánægjulegt að fara með gestina í heimsókn á þessa staði þar sem þau fengu kynningu á því góða starfi sem þar er unnið.

Eftir hádegið á fimmtudeginum undirbjó ég byggðarráðsfund og landbúnaðarráðsfund komandi viku og hóf jafnframt undirbúning sveitarstjórnarfundar í þar næstu viku. Ég fundaði einnig stuttlega með formanni Félags eldri borgara um ýmis mál. Um kvöldið sat ég fund Veiðifélags Víðidalsár í Víðihlíð þar sem samþykktur var samningur við leigutaka árinnar. Langur dagur en ákafleag ánægjulegur.

Föstudagurinn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og vanalega. Fórum við yfir dagskrá byggðarráðsfundar komandi viku og þau mál sem ratað höfðu á lista yfir vikuna. Í kjölfarið fundaði ég aftur með Sambandinu út af sorpmálum. Ég hélt áfram undirbúningi funda komandi viku og gekk frá fréttum til birtingar á heimasíðu og eitt og annað uppsóp. Ég verð í fríi vikuna 4.-8. mars og því þurfti að huga að ýmsu. Allt hafðist þetta þó með smá vinnu á laugardagsmorgni áður en ég setti sjálfvirka frímeldingu á tölvupóstinn. Vegna fjarveru mun því falla niður dagbókarfærsla næstu viku en ég kem fílefld til baka vikuna á eftir.

Var efnið á síðunni hjálplegt?