Vikurnar 12.-25. janúar 2026
Allt í einu eru rúmar þrjár vikur liðnar af nýju ári. Því er ekki seinna vænna að setjast niður og skrifa fyrstu eiginlegu dagbókarfærslu nýs ár.
Fyrstu dagar nýs árs fara gjarnan í að hreinsa upp og skipuleggja árið. Fyrri vikan sem hér er undir var nákvæmlega þannig. Óvenju fáir fundir boðaðir og því gafst tími til að sinna ýmsu sem setið hafði á hakanum. Það er nú einu sinni þannig að verkefnalistinn er aldrei tæmdur og nauðsynlegt að forgangsraða honum og því eru fundaléttar vikur kærkomnar.
Vikan hófst þó á fundi, eins og jafnan, með framkvæmdaráði. Sá fundur var fyrsta verk nýs sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs, Ingimars Ingimarssonar sem hóf störf þennan mánudaginn. Um leið og ég býð Ingimar velkominn til starfa vil ég þakka forvera hans, Þorgils Magnússyni fyrir gott samstarf. Ingimar hefur góða reynslu af störfum sveitarfélags nú síðast sem sviðsstjóri framkvæmdasviðs Þingeyjasveitar. Að framkvæmdaráðsfundi loknum átti ég fund með starfsmanni sveitarfélagsins um ýmis mál. Það er dýrmætt að fá okkar góða fólk til skrafs og ráðagerða. Því næst fundaði ég með forsvarsmönnum Veraldarvina sem nýverið festu kaup á Kaupfélagshúsinu á Borðeyri. Kynntu þeir áform sín sem eru metnaðarfull og áhugaverð. Eftir hádegið sinnti ég ýmsum verkefnum, svaraði tölvupóstum, vann í stjórnendahandbók og leiðbeiningum vegna ráðninga sem við erum að taka saman fyrir stjórnendur sveitarfélagsins. Einnig vann ég í greiningu á leiguíbúðum sveitarfélagsins sem verður lögð fyrir byggðarráð fljólega, samþykkti reikninga o.fl.
Seinnipart dags sótti ég úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra sem haldin var á Sjávarborg. Þar komu styrkþegar saman og veittu styrkjum viðtöku. Fyrir hönd sveitarfélagsins tók ég á móti styrk í verkefnið Ljóðastíg sem gengur út á að setja upp skilti með ljóðum eftir Eyrúnu Ingadóttur með myndskreytingum Auðar Þórhallsdóttur við göngustíginn frá Kaupfélaginu upp í Kirkjuhvamm. Skemmtilegt verkefni sem bætir ásýndina.
Á þriðjudeginum og miðvikudeginum hélt ég áfram uppsópi gamalla synda ásamt ýmsum hlutum sem fylgja þegar nýr starfsmaður kemur til starfa, tölvumál, stofnun aðganga í hin ýmsu kerfi o.s.frv. Einnig skoðaði ég nýja útgáfu af One skjalakerfinu sem verið er að setja upp hjá notendum sveitarfélagsins en einhverjir tæknilegir örðugleikar eru við þá uppsetningu eins og gengur. Þegar hún kemst í gagnið mun hún verða til mikilla bóta fyrir starfsmenn okkar sem vinna með kerfið. Ég hélt einnig áfram að vinna í greiningu á íbúðum sveitarfélagsins og ýmislegt fleira.
Fimmtudagurinn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs en á vikulegum fundum okkar förum við yfir það sem efst er á baugi hverju sinni. Í kjölfar þess fundar fór ég ásamt sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs í heimsókn á Reykjaskóla þar sem við hittum forsvarsmann skólabúðanna og skoðuðum húseignirnar sem búðirnar eru í. Þar hefur á undanförnum árum verið lyft Grettistaki í viðhaldi og framkvæmdum en nóg eftir. Eftir hádegið skoðaði ég útboðsgögn vegna losunar rotþróa í sveitarfélaginu en til stendur að sveitarfélögin á Norðurlandi vestra bjóði verkefnið út saman. Ég vann jafnframt í fundarboði byggðarráðs sem send eru út á föstudögum vegna fundar mánudaginn eftir. Föstudaginn var ég svo í fríi.
Seinni vikan hófst á framkvæmdaráðsfundi eins og alla jafna. Eftir það sat ég fyrirlestur á vegum Mannauðs – félags mannauðsfólks en ég hef lagt mig fram um að setja aukna athygli á mannauðsmálin. Þvínæst var upphafsfundur úttektar á umhverfis-, veitu og framkvæmdasviðs sem samþykkt var að ráðast í lok síðasta árs. KPMG vinnur úttektina fyrir okkur og þarf að byrja á að tína til gögn um starfsemi sviðsins. Eftir hádegið var byggðarráðsfundur. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs kom inn á fundinn og fór yfir annars vegar leiðbeiningar til sveitarfélaga um tilhögun sérstaks húsnæðisstuðnings og tillögur að breytingum á úthlutun samfélagsviðurkenninga. Auk þess var m.a. samþykktur listi yfir störf undaþegin verkfallsheimild og viðauki við fjárhagsáætlun vegna beiðnar um aukið stöðugildi við leikskólann Ásgarð. Fundargerð fundarins er aðgengileg hér.
Þriðjudagurinn hófst á stjórnendafundi þar sem forstöðumenn stofnana fóru yfir það sem efst er á baugi á þeirra starfsstöðum. Mánaðarlegir fundi sem nýtast afar vel. Þvínæst settist ég niður með nýjum sviðsstjóra og við fórum yfir fjárfestingar sem áformaðar eru á þessu ári. Það er eitt og annað sem er á döfinni, til dæmis malbikunarframkvæmdir, aðstöðuhúsið í Kirkjuhvammi, áframhaldandi vinna við Félagsheimilið, alger endurnýjun á leikvelli við grunnskólann, endurnýjun hitaveitulagna á Hvammstanga o.fl. Það þarf því að skipuleggja verkefni vel og tryggja mannskap í að vinna þau. Síðar um daginn átti ég fund með lögmanni sveitarfélagsins vegna ýmssa mála, einkum sem snúa að lóðamálum. Auk þessa var ég í samskiptum við Mílu vegna fyrirhugaðra ljósleiðaraframkvæmda á Hvammstanga en að þeim loknum verður ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins lokið. Slíkar framkvæmdir þarf að auglýsa sérstaklega og tilkynna til fjarskiptastofu til að gefa öðrum framkvæmdaðilum tækifæri til að samnýta framkvæmdir ef um slíkt er að ræða. Frétt þessa efnis er að finna hér.

Aðstöðuhúsið Kirkjuhvammi.
Á þriðjudagskvöldið fór ég suður til Reykjavíkur en ég þurfti að sitja fund þar í einkaerindum á miðvikudeginum. Með því að fara kvöldið áður gat ég nýtt daginn til vinnu og fór svo heim seinnipartinn. Ég sinnti ýmsum skrifborðsverkefnum í fjarvinnu þann daginn.
Á fimmtudeginum hófust leikar á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs til að leggja línurnar fyrir byggðarráðsfund komandi viku og fara yfir ýmis mál. Að honum loknum átti ég fund með þjónustuaðila sem býður upp á lausn til að auðvelda starfsmönnum aðgengi að sálfræðiþjónstu og annarri ráðgjöf sem er nokkuð sem ég hef haft áhuga á að taka í gagnið hjá sveitarfélaginu um nokkurt skeið. Vonandi gengur það eftir fljótlega. Eftir hádegið sat ég svo kynningu á lausn fyrir sveitarfélög og fyrirtæki til að halda utan um aðgerðir tengdum loftslagsstefnu o.fl. Fundurinn var á vegum SSNV.
Á föstudagsmorguninn hitti ég bændur vegna Holtavörðuheiðarlínu 3. Eins og kunnugt eru skiptar skoðanir á legu línunnar en sveitarstjórn Húnaþings vestra lagði í ferli valkostagreiningar áherslu á að farin yrði svokölluð heiðaleið en stjórn Landsnets valdi að fara byggðaleiðina, meðfram núverandi byggðalínu. Sú leið fer í gegnum fjölmargar bújarðir og í einhverjum tilfellum mun stór hluti þeirra fara undir línuna. Eðlilega hefur fólk af því áhyggjur. Á dögunum voru stofnuð hagsmunasamtök landeiganda á línuleiðinni. Eftir það samtal fór ég í verkefni sem er meðal ánægjulegustu verkefna sveitarstjóra. Það er að fara með gjafir til yngstu íbúa sveitarfélagsins. Í þetta sinnið var það síðasta barnið sem fæddist á árinu 2025 í sveitarfélaginu sem ég fór með gjöf til. Gjöfin samanstendur af ullarlambúshettu frá 66 norður, sérmerktri samfellu, smekk, bleijupakka, snuði, barnabók, bókinni Fyrstu mánuðirnir – Ráðin hennar Önnu ljósu ásamt ýmsum vörum sem gagnast móður og barni.

Ungbarnagjöfin.
Ég hætti óvenju snemma á föstudeginum til að vera við útför eftir hádegið. Ég bætti það upp með því að líta við í Ráðhúsinu á laugardeginum til að sinna ýmsum verkefnum. M.a. dagbókarskrifum, vinnu við umsögn um samgönguáætlun, undirbúning byggðarráðsfundar, tiltekt á skrifstofunni og margt fleira. Stöku laugardagar í vinnu eru drjúgir í uppsóp og létta á vikunni sem í hönd fer.
Eins og jafnan er það sem hér að framan er talið alls ekki tæmandi yfirlit yfir störf sveitarstjóra. Verkefnin eru fjölmörg og mismunandi og fara ekki öll fram á skrifstofunni né á vinnutíma. Ýmiskonar samtöl/brýningar/ábendingar/kvartanir við íbúa hér og þar og í síma sem ég er þakklát fyrir. Markmið mitt í starfi er og verður að gera samfélaginu gagn og það næst ekki nema með virku samtali við íbúa.
Ljúkum þessari færslu á mynd sem ég tók af bakkanum heima yfir fjörðinn af mögnuðu sjónarspili náttúrunnar á dögunum.
