3. apríl 2023

Síðasta vika var viðburðarrík. Tvær ferðir utan svæðis auk hefðbundinnar viðveru á skrifstofunni. Á mánudeginum fundaði byggðarráð eins og vant er. Á fundinum var lögð fram staðfesting matvælaráðuneytis á sérreglum um byggðakvóta frá 1163. fundi ráðsins. Byggðakvótinn var auglýstur 23. mars með umsóknarfrest til 6. apríl. Einnig var undirritaðri falið að ganga til samninga við Dictum ehf vegna ræstinga í stofnunum sveitarfélagsins. Reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar vegna barnaverndarmála. Sambærilegar reglur hafa verið í gildi hjá sveitarfélaginu en nauðsynlegt að endurnýja þær með nýju samstarfi um málaflokkinn. Að síðustu var lögð fram til kynningar stefna á hendur sveitarfélagsins vegna ráðningar í starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs í apríl 2022. Lögmönnum sveitarfélagsins hefur verið falið að taka til varna og annast málið fyrir hönd sveitarfélagsins. Það er alltaf leitt þegar ekki nást sættir og mál fara þessa leið. Ég get lítið sagt um málið enda það í meðferð okkar lögmanna og dómstóla. Fundargerð byggðarráðs er hér.

Á mánudaginn hófust framkvæmdir við gerð lagnakjallara við sundlaugina. Eins og fram hefur komið mun sundlaugin verða lokuð um nokkurn tíma vegna þeirra. Sjá nánar hér. Ég vil ítreka að við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem lokunin kann að valda. Sundlaugaferðir eru stór þáttur í lífi margra íbúa en til að tryggja öruggan rekstur laugarinnar og pottanna til langs tíma eru þessar framkvæmdir nauðsynlegar.

Framkvæmdir hafnar við gerð lagnakjallara við sundlaug.

Á mánudagskvöldinu fór ég á skemmtilegan körfuboltaleik í íþróttamiðstöðinni. Úrvalslið Pílufélagsins lék við meistaraflokk Kormáks kvenna í körfubolta. Leikurinn var afar skemmtilegur – skotnýtingin kannski ekki sú besta enda leikurinn leikinn í fjáröflunarskyni og til skemmtunar þó keppnisskapið hafi verið augljóst hjá nokkrum leikmanna. Alls söfnuðust 185.500 krónur sem renna til Krabbameinsfélags Hvammstangalæknishéraðs. Ég þakka kærlega öllum þeim sem að leiknum komu fyrir þetta frábæra framtak og virkilega góða skemmtun.

Þriðjudagurinn var skrifborðsdagur. Um morguninn funduðum við með þjónustuaðila tölvumála sveitarfélagsins og fórum yfir stöðuna. Eftir hádegið fundaði ég með nokkrum íbúum um ýmis málefni. Að öðru leyti sinnti ég ýmsum málum sem m.a. tengdust skipulagsmálum, sorpmálum, skólaakstri, heimsmarkmiðum, ræstingu, launamálum o.m.fl.

Á miðvikudeginum tók ég daginn snemma og ók sem leið lá á Siglufjörð þar sem Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin. Þar var fjallað um ýmiskonar nýsköpun og fjármögnun verkefna á landsbyggðinni auk þess að 13 verkefni kynntu hugmyndir sínar fyrir fjárfestum. Fulltrúi Húnaþings vestra var Björn Líndal kaupfélagsstjóri sem kynnti áform um skógarplöntuframleiðslu. Virkilega áhugavert verkefni sem við sjáum vonandi raungerast á komandi misserum. Mikil þörf er á aukinni framleiðslu skógarplantna til að mæta síaukinni skógrækt í landinu. Við getum vonandi flutt frekari fréttir af verkefninu innan tíðar. Ég var komin heim um kvöldmatarleitið eftir upplífgandi en langan dag.

Björn Línda kynnir Skógarplöntuverkefnið.

Á fimmtudeginum hófst dagurinn á fundi með EFLU verkfræðistofu vegna fyrirhugaðs sorpútboðs. Við færumst hægt en örugglega nær því að gögnin verði tilbúin til útboðs. Að þeim fundi loknum fundaði ég með oddvita og formanni byggðarráðs. Okkar vikulegi föstudagsfundur á fimmtudegi í þetta skiptið þar sem við lögðum land undir fót á föstudeginum. Undirbúningur landbúnaðarráðsfundar í komandi viku og einnig veituráðsfundar fengu nokkra athygli. Við funduðum jafnframt með Dictum ræstingu vegna samnings um ræstingu stofnana sveitarfélagsins og gengum frá samningi þar um sem undirritaður verður á næstu dögum. Í lok dags átti ég svo stuttan fund með Úrvinnslusjóði vegna greiðslna fyrir endurvinnsluefni frá sjóðnum. Regluverk sjóðsins breyttist um áramót og sveitarfélög að feta sig áfram í breyttu umhverfi.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á föstudeginum í Reykjavík. Ég sat þingið ásamt oddvita og formanni byggðarráðs. Dagskráin var góð þar sem meðal annars var fjallað um stöðu kjaraviðræðna og breytt regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem ég minntist á í síðustu dagbókarfærslu. Einnig var fjallað um húsnæðismál og málefni flóttafólks. Að þingi loknu var ársfundur Lánasjóðs sveitarfélaga sem ég sat fyrir hönd sveitarfélagsins. Sjóðurinn hefur það megin hlutverk að tryggja íslenskum sveitarfélögum og stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum. Sjóðurinn er í eigu sveitarfélaganna í landinu.

Við komum seint heim, lentum eins og margir í töfum við Melahverfi vegna umferðaróhapps. Við komumst þó heim að lokum. Ég leit svo aðeins á skrifstofuna á laugardeginum. Ég kíkti á auglýsingar eftir flokkstjórum í vinnuskóla sumarsins og setti inn á vefinn. Hvet öll áhugasöm til að sækja um. Ég vann líka undirbúningsvinnu fyrir byggðarráðsfund komandi mánudags, sendi út fundarboð landbúnaðarráðs í komandi viku, vann aðeins í skemmtilegu verkefni sem tengist nýfæddum íbúum sveitarfélagsins sem ég segi aðeins betur frá í næstu viku auk ýmissa annarra verkefna. Uppsóp vikunnar þegar tveir dagar fara í ferðalög verður aðeins meira en vanalega. Á sunnudeginum fengum við svo okkar nánasta fólk í vöfflukaffi í tilefni afmælis Birtu minnar og eiginmannsins. Ég var á landsþingi Sambandsins á afmælisdegi hennar og samdi því við hana um frestun hefðbundinna afmælisveitinga. Eiginmaðurinn var að heiman að mestu á afmælisdaginn sinn svo við slógum þessu saman á sunnudeginum. Afmælismaraþoni þessa árs er því lokið og allir sáttir með sitt.

Var efnið á síðunni hjálplegt?