Við bjóðum ykkur velkomin í Húnaþing vestra
Hér eru ýmsar nytsamlegar upplýsingar fyrir þau sem eru að hugsa um eða ætla sér að flytja í Húnaþing vestra.
Skólar
Grunnskóli Húnaþings vestra staðsettur á Hvammstanga. Við skólann eru um 130 nemendur í 10 bekkjardeildum. Skólastarfið er metnaðarfullt og er skólinn rekinn í glæsilegu og rúmgóðu húsnæði. Nemendum í 1. til 4. bekk býðst lengd viðvera í frístund sem er opin alla virka daga frá lokum skóladags og til kl. 16:00. Nemendur Grunnskólans hafa náð frábærum árangri í hvers kyns keppnum og borið hróður skólastarfsins víða. Má þar nefna sigur í Fiðringi hæfileikakeppni skóla á Norðurlandi árið 2025, þátttöku stúlkahljómsveitar í Málæði árið 2024,
þátttaka í úrslitum Skólahreysti ár eftir ár með góðum árangri svo fátt eitt sé talið. Menntastefna Grunnskóla Húnaþings vestra.
Tónlistarskóli Húnaþings vestra er staðsettur í Grunnskólanum í glæsilegu nýju húsnæði. Kennt er á öll helstu hljóðfæri auk söngs. Einnig gefst ungum nemendum kostur á að vera í forskóla þar sem fleiri en einn nemandi stunda nám á sama tíma. Samkvæmt íbúakönnun er ánægja íbúa með tónlistarskólann önnur mesta á landinu.
Leikskólinn Ásgarður er þriggja deilda leikskóli með fjölbreytta vistunarmöguleika, allt frá 4 til 8 klst. daglega. Börn eru tekin inn í skólann við 12 mánaða aldur. Engir biðlistar! Samkvæmt íbúakönnun er ánægja íbúa með leikskólann sú sjöunda mesta á landinu.
Dreifnám. Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra starfrækir framhaldsdeild á Hvammstanga. Nemendur geta stundað dreifnám við FNV frá Hvammstanga. Markmiðið er að nemendur geti lokið almennum greinum iðnbrauta og kjarnagreinum stúdentsbrauta í heimabyggð.
Á sumrin er starfræktur vinnuskóli fyrir ungmenni.
Á sumrin er starfrækt Krakkasveifla með metnaðarfullu og fjölbreyttu starf fyrir öll börn á aldrinum 6-13 ára (1. - 7. bekkur) þar sem skapandi starf, hreyfing og útivera eru í forgrunni
Farskóli Norðurlands vestra sinnir endur- og símenntun.
Fjarnámsstofa og námsver er rekið á Hvammstanga.
Íþrótta- og tómstundastarf
Í Húnaþingi vestra er rekið mjög fjölbreytt og þróttmikið íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarf. Sjá HÉR.
Hjá Ungmennafélaginu Kormáki greiða börn aðeins eitt gjald en geta mætt á æfingar í eins mörgum greinum og þau vilja. Er gjaldi fyrir hvert barn stillt í hóf og var veturinn 2024-2025 kr. 15.000 á misseri.
Rafíþróttadeild er starfandi í nýju og glæsilegu húsnæði í Tæknismiðjunni í Félagsheimilinu Hvammstanga.
Dansskóli Menningarfélags Húnaþings vestra býður upp á dansnám fyrir börn, ungmenni og fullorðna með kennurum á heimsmælikvarða. Skólinn hefur náð frábærum árangri og náði afrekshópur skólans þeim árangri sumarið 2025 að fá keppnisrétt í úrslitum Dance World Cup á Spáni.
Húnaþing vestra greiðir frístundastyrk fyrir börn frá fæðingu til 18 ára aldurs.
Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra er glæsileg með íþróttasal, tækjasal, sundlaug, heitum pottum og köldu kari.
Félagsmiðstöðin Órion er fyrir ungmenni í 5.-10. bekk.
Starf fyrir börn og ungmenni í Hvammstangakirkju er fjölbreytt, kirkjuskóli, TTT og æskulýðsstarf.
Unnið er að uppsetningu samfélagsmiðstöðvar í Félagsheimilinu Hvammstanga þar sem verður aðstaða fyrir fjölbreytt félags- og tómstundastarf. Fyrirmyndir að verkefninu eru Oodi samfélagsmiðstöðin í Helsinki og Möbelfabrikken á Bornholm. Verður starfsemin þróuð í skrefum á næstu misserum samhliða umfangsmiklum framkvæmdum og endurbótum á húsakynnum Félagsheimilisins.
Heilbrigðis- og félagsþjónusta
Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) rekur heilsugæslustöð og dvalarheimili á Hvammstanga. Tveir læknar eru búsettir á staðnum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu heilbrigðisstofnunarinnar. Samkvæmt íbúakönnunum eru íbúar Húnaþings vestra þeir ánægðustu á landinu með heilbrigðisþjónustu.
Lyfja rekur útibú frá starfsstöð sinni á Sauðárkróki í húsnæði Heilsugæslunnar á Hvammstanga.
Tannlæknir kemur reglulega á Hvammstanga og er með aðstöðu í húsnæði Heilsugæslustöðvarinnar.
Kvensjúkdómalæknar hafa nýverið hafið komur á Heilsugæslustöðina.
Skimun fyrir brjóstakrabbameini fer fram á Heilsugæslustöðinni með reglulegu millibili.
Húnaþing vestra og HVE voru með þeim fyrstu á landinu til að samþætta þjónustu fyrir eldri borgara í Snældunni heimaþjónustu. Samkvæmt íbúakönnun er ánægja íbúa með þjónustu við aldraða sú þriðja mesta á landinu og með dvalarheimili sú fimmta mesta á landinu. Sveitarfélagið í samvinnu við HVE er aðili að verkefninu Gott að eldast.
Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í samstarfi sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlað fólk.
Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í samstarfi sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og Fjallabyggðar um Barnavernd Mið Norðurlands.
Verslun og þjónusta
Á Hvammstanga rekur Kaupfélag Vestur-Húnvetninga verslun, byggingar- og búvöruverslun ásamt pakkhúsi. Í pakkhúsi er pakkaafgreiðsla fyrir Dropp. Samkvæmt íbúakönnun voru íbúar í sveitarfélaginu þeir þriðju ánægðustu á landinu með vöruúrval í sveitarfélaginu.
Á Hvammstanga er Verslunin Hlín þar sem boðið er upp á blóm, hannyrða-, föndur- og gjafavörur.
Langafit handverkshús er á Laugarbakka þar sem boðið er upp á handverk og hægt að fá vöfflur og kaffi.
Bardúsa á Hvammstanga hefur til sölu ýmiskonar handverk og gjafavöru.
Í sveitarfélaginu er fjöldi veitingastaða. Má þar nefna Sjávarborg á Hvammstanga, North West í Víðidal, veitingastaðurinn Bakki á Hótel Laugarbakka, Sel matstofu á Hvammstanga, Hlöðuna á Hvammstanga að ógleymdum Staðarskála.
Tvær hárgreiðslustofur auk sjálfstætt starfandi hárgreiðslufólks eru á Hvammstanga auk snyrtistofu.
Þrjú bifreiðaverkstæði eru í sveitarfélaginu. Vélaverkstæði Hjartar Eiríkssonar og Bílver Ós á Hvammstanga og S.G. Vélaverkstæði á Borðeyri.
Póstbox frá Íslandspósti er á Hvammstanga. Póstbíll kemur daglega og dreifir bréfum og heimsendum pökkum á Hvammstanga. Landpóstur sér um dreifingu pósts í dreifbýli.
Húsnæði
Umhverfissvið veitir allar upplýsingar um lóðir og framkvæmdir.
Lausar lóðir sem tilbúnar eru til úthlutunar á deiliskipulögðum svæðum í Bakka- og Grundartúni og á Lindarvegi á Hvammstanga.
Húnaþing vestra rekur leiguíbúðakerfi og eru leiguíbúðir sveitarfélagsins alls 40. Þar er um að ræða 22 leiguíbúðir fyrir aldraða, 14 félagslegar leiguíbúðir og 4 almennar leiguíbúðir.
Brák íbúðafélag á og rekur 6 íbúðir við Lindarveg á Hvammstanga. Félagið mun hefja hefja framkvæmdir við byggingu 10 íbúða fjölbýlishúss á við Norðurbraut á Hvammstanga sumarið 2025.
Leigufélagið Bríet á og rekur 4 íbúðir við Gilsbakka á Laugarbakka.
Berg verktakar hefja framkvæmdir við byggingu 5 íbúða raðhúss við Lindarveg á Hvammstanga sumarið 2025.
Áform eru uppi um byggingu lífsgæðakjarna fyrir 50 ára og eldri á svokölluðum Miðtúnsreit. Unnið er að deiliskipulagi en gert er ráð fyrir allt að 15 íbúðaeiningum á svæðinu. Reiturinn er miðsvæðis á Hvammstanga og er stutt í alla þjónustu.
Fasteignasölur - Húsnæðiskaup í Húnaþingi vestra.
Menning
Sveitarfélagið leggur áherslu á að styðja við og hvetja til sjálfsprottins menningarstarfs. Í Húnaþingi vestra er lifandi og fjölbreytt menningarlíf. Samkvæmt íbúakönnunum er ánægja með menningarlíf í sveitarfélaginu sú næst mesta á landinu á eftir Akureyri. Einnig er ánægja íbúa með afþreyingu sú fjórða mesta á landinu.
Leikflokkur Húnaþings vestra setur reglulega upp sýningar og hafa uppfærslur flokksins í tvígang fengið viðurkenningu sem áhugamannaleiksýning ársins og verið sýndar á fjölum Þjóðleikhússins.
Stúdíó Handbendi er starfrækt á Hvammstanga. Handbendi er alþjóðlegt brúðuleikhús sem setur upp fjölbreyttar sýningar og stendur fyrir alþjóðlegri brúðulistahátíð á nokkurra ára fresti. Í Stúdíóinu fer fram fjölbreytt menningarstarf annað, m.a. listasmiðjur fyrir börn, ýmiskonar leiksýningar, upplestrar og margt fleira. Auk þess er þar "residensía" fyrir alþjóðlega listamenn.
Kórastarf er afar fjölbreytt í sveitarfélaginu. Má þar nefna Karlakórinn Lóuþræla, Rokkkórinn, Kór eldri borgara og kirkjukór.
Fjölskylduhátíðin Eldur í Húnaþingi er haldin ár hvert síðustu helgina í júlí.
Aðrar hátíðir eru t.d. Harmonikkuhátíð á Laugarbakka, Paunkhátíð á Laugarbakka, hátíðin Hátíðni á Borðeyri og Rímnahátíð.
Bóka- og skjalasafn Húnaþings vestra er staðsett á Hvammstanga með góðan bókakost og aðstöðu fyrir börn.
Byggðarsafn Húnaþings og Stranda er staðsett á Reykjum í Hrútafirði.
Selasetur Íslands er starfrækt á Hvammstanga.
Allar frekari upplýsingar á VISIT HUNATHING
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra styrkja list- og menningarviðburði af ýmsu tagi.
Félagsstarf
Félagsstarf er afar fjölbreytt í sveitarfélaginu. Félag eldri borgara heldur úti mjög öflugu starfi fyrir sína félagsmenn. Einnig er starfræktur Soroptimistaklúbbur við Húnaflóa, Lionsklúbbur er starfandi í sveitarfélaginu sem og björgunarsveit.
Skrifstofuaðstaða
Skrifstofusetrið Útibúið er rekið á Hvammstanga. Þar er boðið upp á vandaða aðstöðu og gott samfélag til dæmis fyrir þau sem vinna störf án staðsetningar.
Stjórnsýsla, Ráðhúsi Húnaþings vestra
Í Ráðhúsinu eru skrifstofur og sameiginleg símsvörun fyrir fjármála- og stjórnsýslusvið, fjölskyldusvið og framkvæmda-og umhverfissvið.
Í Ráðhúsi Húnaþings vestra er hægt að fá allar almennar upplýsingar um þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins en allar þær upplýsingar er líka að finna víðs vegar á heimasíðu sveitarfélagsins, til dæmis undir síðunni þjónusta.
Hér er hægt að panta viðtalstíma hjá starfsmönnum Ráðhússins.
Heimilisfang: Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstangi
Sími: 455-2400
Netfang: skrifstofa@hunathing.is
Hiti og rafmagn
Hitaveita Húnaþings vestra annast öflun, dreifingu og sölu á heitu vatni til íbúa.
Um orkudreifingu í Húnaþingi vestra sjá Rarik og Orkubú Vestfjarða (vestanverður Hrútafjörður).
Sorpþjónusta
Sorphirða í Húnaþingi vestra er með þeim hætti að tvær tunnur eru við hvert heimili, í þéttbýli og dreifbýli, önnur tunnan er fyrir almennt heimilissorp og hin tunnan er fyrir endurvinnsluefni. Tunnurnar er hirtar á þriggja vikna fresti allt árið um kring nema í júlí og ágúst þá er hirt á tveggja vikna fresti. Unnið er að uppfærslu á sorphirðukerfi með áherslu á aukna flokkun.
Gámastöðin Hirða er staðsett við Höfðabraut 34a á Hvammstanga og þar er opið fyrir móttöku úrgangs frá almenningi og fyrirtækjum þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 14:00 til 17:00 og á laugardögum frá kl. 11:00 til 15:00. Frekari upplýsingar HÉR
Fatagámar rauða krossins eru staðsettir fyrir utan girðingu Hirðu.
Dósa- og flöskumóttaka er í pakkhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga.

Hér má sjá útkomu Húnaþings vestra á nokkrum þáttum íbúakönnunar sem unnin var árið 2023. Sjá nánar hér.