6. mars 2023

Enn einn mánuðurinn á enda runninn og nýr tekinn við. Það er athyglisvert að manni finnst febrúar hafa verið að minnsta kosti hálfum mánuði styttri en janúar þó aðeins muni þremur dögum. Líklega hefur það eitthvað að gera með lengri og bjartari daga.

Vikan var með hefðbundnu sniði. Hófst á fundi framkvæmdaráðs á mánudeginum og fundi byggðarráðs eftir hádegi sama dag. Á byggðarráðsfundinum kenndi ýmisa grasa. Meðal annars lögð fram drög að brunavarnaráætlun fyrir árin 2023-2028, einnig var ákveðið að ráðast í að gera mat á samfélagslegum áhrifum af ástandi Vatnsnesvegar í samstarfi við Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri. Einnig var samþykkt starfslýsing fyrir starf verkefnisstjóra umhverfismála sem er starf sem áður var kallað umhverfisstjóri með litillegum áherslubreytingum. Einnig var ákveðið að ráðast í framkvæmdir við sundlaug sem gert var ráð fyrir á fjárhagsáætlun og rekstrarjóra falið að gera verðfyrirspurn vegna lagningu vatnslagnar frá Hvamsmtanga að Laugarbakka.

Vegna framkvæmda við sundlaug hefur verið auglýst óumflýjanleg lokun á sundlaug og sundlaugarsvæði. Framkvæmdirnar kalla á mikið rask milli húss og laugar þar sem gera á lagnakjallara til að auðvelda endurnýjun og í framhaldi viðhald lagna. Undanfarin ár hafa lagnamál verið til vandræða með tilheyrandi óþægindum. Með bættu aðgengi að lögnunum í kjallara má komast fyrir þau óþægindi. Einnig verður skipt um dúk á sundlauginni sem er kominn langt fram yfir útgefinn endingartíma frá framleiðanda. Vegna þessara nauðsynlegu framkvæmda er því miður óhjákvæmilegt að loka lauginni og laugarsvæðinu í allt að 3 mánuði. Byrjað verður á framkvæmdum 27. mars og áætlað að þær standi að hámarki út júní. Ef aðstæður leyfa opnun potta fyrr þá verður það gert en aðeins þegar öryggi sundlaugargesta er tryggt á framkvæmdasvæðinu. Óvíst er hvort og þá hvenær það verður. Framkvæmdirnar hafa ekki áhrif á rækt eða íþróttasalinn og sturtur verða opnar. Ég veit að þessar breytingar munu valda okkar tryggu laugargestum óþægindum auk annarra gesta en bið alla um að sýna okkur skilning og biðlund vegna þessa. Laugin er komin til ára sinna og mikilvægt að hún fái nauðsynlegt viðhald svo hún geti haldið áfram að þjóna okkur vel á komandi árum.

Á þriðjudeginum fundaði ég með Jessicu Aquino vegna næstu skrefa í samstarfi Húnaklúbbsins og finnskra ungmenna sem staðið hefur yfir undanfarin misseri. Mun ég ásamt henni eiga fund með bæjarstóra Pyhtaa um möguleika á frekara samstarfi. Það verður spennandi að sjá hvernig það þróast. Það er aðdáunarvert að finna áhuga Jessicu á samfélagsuppbyggingu í þágu ungmenna og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Í kjölfar fundar með Jessicu fundaði ég ásamt rekstarstjóra með Tönju forstöðumanni íþróttamiðstöðvar um þær framkvæmdi sem á döfinni eru. Við unnum í framhaldinu í sameiningu auglýsingar um lokun laugarinnar sem hafa verið settar upp á nokkrum stöðum, frétt á heimasíðu og í næsta Sjónauka.

Eftir hádegið á þriðjudeginum var haldinn aukafundur sveitarstjórnar vegna ráðningarferlis sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Það er mikilvægt að sveitarstjórn sé upplýst um allt ferlið þar sem ráðningin er á ábyrgð hennar. Ráðgjafi sem aðstoðar við ráðninguna fór yfir umsóknir, fyrsta mat sem ákvarðar hverjir boðaðir voru í viðtöl og matskvarða fyrir viðtöl.

Miðvikudagsmorgunn fór svo í viðtöl við umsækjendur um starf sviðsstjóra. Við fengum góðar umsóknir og voru þrír af fjórum boðaðir til viðtals. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Í kjölfar viðtala bárum við saman bækur okkar, ég og ráðgjafinn, og lukum við matsblað. Ráðgjafar við ráðninguna tóku svo að sér að hafa samband við umsagnaraðila. Eftir hádegi á þriðjudeginum fundaði landbúnaðarráð. Þar voru minkaveiðar og grenjavinnsla til umfjöllunar. Enn vantar aðila í minkaeyðingu í Víðidal. Áhugasamir geta haft samband við mig :) Einnig var ákvarðað um skiptingu fjármagns til heiðagirðinga og reglur um fjallagrasanytjar samþykktar.

Á fimmtudaginn lagðist ég yfir verkefnalistann og gekk í nokkur mál sem hafa setið á hakanum. Það vill nefnilega þannig til að vikuna 6. – 10. mars verð ég í fríi og því nokkur mál sem nauðsynlegt var að ganga frá fyrir frí. Það er oft drjúgt sem kemst í verk síðustu dagana fyrir frí. Ég gaf mér þó tíma til að fara á danssýningu Grunnskólans eftir hádegið. Jón Pétur danskennari talaði þar um að þetta ár væri 38. árið sem hann kæmi til danskennslu við skólann. Enn og aftur sýndi Jón Pétur hvað hann nær frábærlega til krakkanna okkar og hversu mikilvægur þáttur danskennsla er í skólastarfinu. Takk Jón Pétur fyrir allt þitt í gegnum árin og haltu endilega áfram að koma.

Frá danssýningunni. 

Í lok dags á fimmtudag sat ég áhugaverðan fund á vegum SSNV um stefnumótun í ferðaþjónustu í landshlutanum. Verkefni sem fór af stað á meðan ég var enn hjá SSNV. Vinnunni er ekki lokið og verður gaman að sjá hvernig henni vindur fram.

Vel valið myndefni á forsíðuglæru fyrirlesarans, Hjartar Smárasonar.

Föstudagurinn hófst eins og vanalega með oddvita og formanni byggðarráðs. Að afloknu föstudagskaffi í Ráðhúsinu fundaði ég ásamt sveitarstjórum sveitarfélaganna í Húnavatnssýslum um sameiginlegt sorpútboð. Við þokumst í átt að því að ljúka útboðsgögnum í þessu flókna verkefni. Í lok dags sat ég svo fjarfund þar sem kynnt var hagkvæmnimat á uppsetningu líforkuvers í Eyjafirði. Verkefni sem hefur verið nokkuð í umræðunni á Norðurlandi eystra. Metnaðarfullt en um leið afar kostnaðarsamt. Að öðru leyti fór föstudagurinn í undirbúning byggðarráðsfundar, undirbúning sveitarstjórnarfundar í næstu viku, dagbókarskrif og annan frágang fyrir frí. Vegna frís í næstu viku verður engin dagbók eftir viku en hún verður að sjálfsögðu á sínum stað vikuna eftir það.

Góðar stundir!

Var efnið á síðunni hjálplegt?