1. maí 2023

Vikan varð í styttra lagi í þetta skiptið þó ekki væri um lögbundinn frídag að ræða. Ég tók mér frí á mánudeginum og kom galvösk til leiks á þriðjudegi. Hófum við leika á starfsmannafundi starfsmanna ráðhússins sem alla jafna eru haldnir í kjölfar sveitarstjórnarfunda. Honum varð hins vegar að fresta á sínum tíma vegna anna í tengslum við riðumál. Á þessum fundum förum við yfir helstu mál sem fram koma á sveitarstjórnarfundum og ræðum það sem efst er á baugi. Í kjölfarið hófst ég handa við að hreinsa upp tölvupósta og erindi sem setið hafa á hakanum. Atvinnumál komu til tals, vegamál og í lok dags átti ég fund með nokkrum sveitarstjórum í landshlutanum um lausn á förgun sláturúrgangs. Í lok dags tók ég svo starfsviðtal vegna starf verkefnisstjóra umhverfismála sem auglýst var á dögunum en viðtölum varð að fresta í vikunni áður. Sjö umsóknir bárust.

Á miðvikudeginum hófum við leika á fundi um sorpmál en útboðsmálin eru að skýrast og vonandi verður hægt að bjóða út innan tíðar. Þar á eftir var ég viðstödd úthlutun samfélagsviðurkenninga sveitarsfélagsins sem fram fóru á fundi félagsmálaráðs. Viðurkenningarhafarnir í þetta skipti voru allt konur, Ingibjörg Pálsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Greta Clough fyrir hönd Handbendis og Kristín Árnadóttir. Sómakonur allar saman og óska ég þeim til hamingju með viðurkenninguna um leið og ég þakka þeim sitt mikla framlag til samfélagsins okkar.

Samfélagsviðurkenningarhafar ásamt Gerði Rósu formanni félagsmálaráðs.

Eftir hádegið sat ég kynningu á innleiðingu farsældarlaga í Húnavatnssýslum þar sem fulltrúar Barna og fjölskyldustofu kynntu þær breytingar sem lagabreytingar hafa í för með sér. Allar miða þær að því að auka farsæld barna. Það er ánægjulegt frá því að segja að vinnan við innleiðinguna gengur vel og við erum þegar farin að finna farsældina virka með jákvæðum hætti á meðhöndlun mála. Á miðvikudeginum fékk ég tvo aðila til viðbótar í viðtöl vegna starfs verkefnisstjóra umhverfismála. Vonandi verður hægt að ganga frá ráðningu innan tíðar.

Á fimmtudeginum lagði ég land undir fót og sat ársfund Byggðastofnunar á Húsavík. Stofnunin veitti mér styrk þegar ég var að skrifa meistararitgerð mína og hafði beðið mig um að kynna ritgerðina á fundinum. Það var mér ljúft og skylt og áhugavert að sitja fundinn. Hlutverk Byggðastofnunar í eflingu byggða í landinu er afar mikilvægt. Þar sem ég átti góðan tíma á akstri þennan daginn þá hringdi ég nokkur símtöl sem setið höfðu á hakanum undanfarna daga.

Föstudagurinn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs þar sem við að venju fórum yfir dagskrá komandi byggðarráðsfundar og hin ýmsu mál. Góður og gagnlegur fundur að vanda. Að honum loknum gekk ég frá fundarboðinu og að því loknu var komið að því að opna tilboð í snjómokstur næstu ára. Við gerðum verðkönnun í samvinnu við Vegagerðina þar sem örlítill hluti gatna á Hvammstanga er svokallaður þjóðvegur í þéttbýli sem Vegagerðin ber ábyrgð á að moka. Þetta fyrirkomulag hefur verið viðhaft um nokkurt skeið og virkað vel. All nokkur tilboð bárust og verða þau metin með tilliti til tækjakosts á næstu dögum og þvínæst lögð fyrir byggðarráð. Að þessum embættisverkum loknum settist ég yfir tilboðsgögn sorpútboðsins enda mikilvægt að þau séu rétt og ítarleg. Það tók dágóða stund.

Eftir hádegið skilaði Kaupfélagið inn lokaskýrslu vegna verkefnis sem Atvinnu- og nýsköpunarsjóður sveitarfélagsins veitti á síðasta ári til undirbúnings á verkefni sem hefur verið í umræðunni upp á síðkastið – ræktun skógarplantna í sveitarfélaginu. Spennandi verkefni í hverju fjármunirnir nýttust augljóslega vel. Að því loknu leit ég við á aðalfund Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra þar sem þau afhentu mér fyrir hönd sveitarfélagsins nýja búninga fyrir hátíðarhöldin sem munu koma til með að nýtast lengi og vel. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir þeirra góðu vinnu.

Nýir og glæsilegir búningar Sumardísarinnar og Veturs konungs sjást hér vel. Fánaberarnir í nýjum skikkjum og börnin á pallinum sömuleiðis. 

Það var nú ekki fyrr en á föstudaginn sem ég áttaði mig á því að komandi vika er líka stutt vegna frídags 1. maí. Ég vann því aðeins um helgina, enn að vinna upp gamlar syndir vegna anna síðustu 2ja vikna, en er farin að sjá til botns. Við náðum líka um helgina loksins að halda upp á afmæli Birtu Agnar dóttur minnar en ekki hafði gefist tími til þess síðan hún átti afmæli í lok mars. Það kallaði á kökubakstur og undirbúning. Við héldum afmælið á laugardagsmorgninum í Óríon og var eðlilega mikið fjör – hressandi að taka nokkur dansspor undir dúndrandi tónlist kl. 10 á laugardagsmorgni. Við hjónin tókum snúning og uppskárum hneykslunarsvip hjá dótturinni. Aðspurð sagði hún okkur mjög hallærisleg :) Á sunnudagsmorgninum fór ég ásamt krökkunum og tíndi dálítið rusl á Bangsatúni, meðfram ánni og í kringum Félagsheimilið. Ég var með Ráðhúsið opið á milli 10 og 11 og komu nokkrir og náðu sér í ruslapoka til að „plokka“ í. Ruslakarið sem við komum fyrir á Ráðhúsplaninu var óspart nýtt. Ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í Stóra plokk deginum og lögðu þannig sitt af mörkum við að halda sveitarfélaginu okkar hreinu og snyrtilegu.

Á mánudeginum vann ég framundir miðjan dag og fékk svo loksins Sóldísi Yrju ömmustelpuna mína í smá heimsókn en ég hef lítið getað hitt hana upp á síðkastið. Helgin var því bland af vinnu og nærandi samveru með mínu besta fólki.

Vek að lokum athygli á nýrri menntastefnu Húnaþings vestra sem hefur verið í vinnslu um nokkra hríð. Virkilega metnaðarfull og vönduð vinna sem leidd var af Guðrúnu Ósk Steinbjörnsdóttur. Hvet öll til að skoða þessa vönduðu stefnu. Sjá hér.

Var efnið á síðunni hjálplegt?