20. október 2025

13.-19. október

Þegar þetta er skrifað er hvítt á að líta úti við og orðið ansi kalt. Það er ekki hægt að þræta fyrir það lengur að veturinn er kominn eftir ákaflega gott sumar og haust. Vonandi fer hann mildum höndum um okkur.

Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs eins og alltaf. Að þeim fundi loknum funduðu sveitarstjórar ásamt framkvæmdastjóra SSNV og ráðgjafa um vinnu við gerð samskiptastefnu landshlutans. Að því loknu hringdi ég nokkur símtöl og undirbjó fund byggðarráðs ásamt því að huga að undirbúningi funda síðar í vikunni. Byggðarráð fundaði svo eftir hádegið. Þar bar hæst bókun ráðsins vegna kvennaverkfalls sem fyrirhugað er komandi föstudag. Sveitarfélagið styður að sjálfsögðu réttindabaráttu kvenna og kvára og var í bókunni farið yfir fyrirkomulagið. Einnig var bókuð umsögn sveitarfélagsins um frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Löng og ítarleg umsögn sem nokkuð mikil vinna liggur á bak við. Umsögnin er aðgengileg hér. Það er í þessu samhengi ekki úr vegi að minna á að allar umsagnir sem sveitarfélagið sendir frá sér eru aðgengilegar á einum stað á heimasíðunni. Ég hvet áhugasöm um að kynna sér þær. Eins hvet ég fólk til að hafa samband ef það hefur áhyggjur af einhverjum málum sem eru í meðförum þingsins og telur að þarfnist viðbragða af hálfu sveitarfélagsins. Að byggðarráðsfundi loknum fundaði ég með ráðningarstofuni sem er að aðstoða okkur við ráðningu sviðsstjóra umhverfis-, veitu og framkvæmdasviðs en það ferli er í fullum gangi og skýrist vonandi á næstu dögum.

Á þriðjudagsmorgni kláraði ég að skrifa dagbókarfærslu síðustu viku. Þó þær séu tímafrekar lít ég á þær sem nauðsynlegan hluta af starfi mínu. Það er mikilvægt að fólk hafi innsýn inn í störf sveitarstjóra þó eðli málsins samkvæmt sé ekki unnt að greina frá hverjum einasta fundi. Það er líka gott fyrir mig að draga saman helstu verkefni hverju sinni og um leið velta fyrir sér hvort tíminn sé að fara í réttu verkefnin. Síðar um morguninn sat ég fund út af lokum lóðaleigusamnings ásamt því að sinna tölvupóstunum. Eftir hádegið sat ég svo ákaflega spennandi fund um sniglarækt sem haldinn var á Hlöðunni. Eftir fundinn er ég enn sannfærðari um að sniglarækt sé fýsilegur valkostur fyrir bændur, sérstaklega þar sem glatvarmi er til staðar. Eimur stendur að þessu verkefni og mun verða farið í kynnisferð til Írlands til að skoða betur út á hvað ræktunin gengur á næsta ári og mun ég fara með í þá ferð. Að sniglafundinum loknum lá leið í Búðardal þar sem var haldinn íbúafundur vegna hugsanlegrar sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Á fundinum var farið yfir helstu staðreyndir sem komið hafa fram í vinnunni hingað til og einnig var leitað í smiðju fundargesta um hugmyndir varðandi útfærslu þjónustu og stjórnsýslu sameinaðs sveitarfélags ef af verður. Umræður voru góðar og eðlilega sýnist sitt hverjum. Eftir fundinn í Búðardal heyrði ég athugasemd í þá veru að á fundinum hefði verið talað eins og það væri búið að ákveða sameiningu þar sem verið var að tala um útfærslu þjónustunar og fyrirkomulag stjórnsýslu. Það er vissulega ekki svo enda er síðasta orðið í höndum íbúa í íbúakosningu. Sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga tóku ákvörðun um að fara í formlegar viðræður í júní og þeim lýkur samkvæmt lögum í öllum tilfellum með íbúakosningu. Það að verið er að kalla eftir hugmyndum íbúa er gert til þess að betur verði hægt að átta sig á hvað það er sem þarf að huga að ef til sameiningar kemur og að sameiningarnefnd geti gert tillögur til nýrrar sveitarstjórnar fari svo að kosningar verði sameininlegar næsta vor. Það er því ekkert búið að ákveða hvort sameinað verður eða ekki – það verða íbúar sem gera það.

Á miðvikudagsmorgni var svo haustþing SSNV á dagskrá ásamt aukaársþingi vegna breytinga á samþykktum samtakanna. Fundirnir voru að þessu sinni haldnir á netinu en almennt séð eru umræður um mál minni á slíkum fundum enda kom það á daginn að þinginu lauk mun fyrr en áætlað hafði verið. Strax að loknu þingi fundaði ég með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna húsnæðisáætlunar en vinna við áætlun næsta árs er að hefjast. Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á kerfinu sem áætlanirnar eru unnar í og fóru fulltrúar HMS yfir þær. Ég hef sagt það áður á þessum vettvangi að áætlanirnar hafa sýnt sig vera ákaflega gott stuðningstæki til stefnumótunar og framtíðarhugsunar varðandi húsbyggingar, innviði o.s.frv. Til upplýsingar er gildandi húsnæðisáætlun hér.  Í framhaldinu yfirfór ég skjal um stjórnskipulag almannavarna í Húnavatnssýslum en nefndin hefur tekið breytingum sem að mínu mati eru afar jákvæðar. Áður var nefndin eingöngu skipuð sveitarstjórum sveitarfélaganna en ásamt þeim sitja nú í nefndinni þeir viðbragðsaðilar sem kallaðir eru til þegar til almannavarnaástands kemur. Að þessu loknu fundaði ég með þjónustuaðila skjalakerfis sveitarfélagsins um breytingar á kerfinu sem hafa verið í vinnslu. Leist okkur vel á þær breytingar og gerum ráð fyrir að innleiða þær á næstunni.

Seinnipart miðvikudagsins var svo íbúafundur í Félagsheimilinu Hvammstanga vegna sameiningarsamtalsins. Samskonar fundur og haldinn var degi áður í Búðardal. Fundurinn var góður að mínu mati, fram komu nokkur áhyggjuefni sem sameiningarnefndin fær þá tækifæri til að skoða og bregðast við áður en hún leggur álit sitt fyrir sveitarstjórnir. Eðlilega sýnist sitt hverjum okkar megin eins og í Búðardal og ég spjallaði við fólk sem var alfarið á móti sameiningu en eins líka fólk sem er algerlega keyrt á að sameina. Á komandi vikum fram að kosningum verður vinna sameiningarnefndar kynnt betur. M.a. verða haldnir íbúafundir þar sem fólki gefst kostur á að spyrja út í vinnuna og koma með athugasemdir. Gert er ráð fyrir að fundirnir verði í byrjun nóvember. Einnig verður borið út dreifibréf og upplýsingar á vefsvæðinu www.dalhun.is uppfærðar reglulega. Ég vil sömuleiðis hvetja fólk til að vera í sambandi við mig eða einhverja úr sameiningarnefndinni eða sveitarstjórnunum vilji það spyrja nánar út í einhver atriði. Við erum boðin og búin til að fara yfir málin.

Ég mun mjög líklega fjalla nokkuð um sameiningarsamtalið áfram einkum með því að ávarpa atriði sem fram koma í umræðunni og misskilningur ríkir um. Ég gerði mína afstöðu ljósa í viðtali í nýjasta Feyki þar sem ég skýrði frá því að ég horfði á málið fyrst og síðast út frá rekstrarlegu sjónarmiði sem felur líka í sér stjórnsýsluna. Ég álít það skyldu mína sem ábyrgðaraðili daglegs reksturs sveitarfélagsins að horfa á málið frá því sjónarhorni. Framlög þau sem fylgja sameiningu munu hafa verulega þýðingu fyrir rekstur sveitarfélagsins komi til sameiningar. Um er að ræða tæplega 100 milljónir á ári næstu 7 árin í sameiningarframlög ásamt því að framlög til sameinaðs sveitarfélags úr Jöfnunarsjóði verða tæpum 80 milljónum hærri en sveitarfélögin fengju samanlagt í sitthvoru lagi. 180 milljónir á ári í 7 ár hafa verulega þýðingu í rekstri sveitarfélags og má nýta til að bæta þjónustu, lækka álögur og/eða minnka lántökur svo eitthvað sem talið upp. Hið síðastnefnda bætir hag sveitarfélags til all margra ára með því að minnka fjármagnskostnað, peninga sem þá er hægt að nýta til góðra verka í stað þess að borga vexti.  Ég og Stefán heitinn vinur minn á Mýrum vorum nefnilega sammála um það að okur leiddist að borga vexti, við vildum miklu frekar nýta peningana í að gera eitthvað uppbyggilegt :) Með sameiningu sé ég líka fyrir mér tækifæri til að gera stjórnsýslu sveitarfélagsins enn öflugri. Á þessum forsendum mun ég kjósa með sameiningu þó svo að það minnki líkur að ég fái áframhaldandi ráðningu sem sveitarstjóri enda alveg gefið að það verður aðeins einn sveitarstjóri í sameinuðu sveitarfélagi. Ég mun ekki líta á það sem persónulegan ósigur verði sameining felld. Ég mun einfaldlega halda áfram að gera sveitarfélaginu mínu eins mikið gagn og ég mögulega get eins og ég hef lagt mig fram um hingað til.

Frá íbúafundinum á Hvammstanga.

Á fimmtudagsmorgni hófust leikar á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs sem vanalega er á föstudegi en ég var fjarverandi á föstudeginum vegna útfarar. Að þeim fundi loknum sat ég fund í stjórn Orkubús Vestfjarða en þar sit ég fyrir hönd fjármálaráðherra. Eftir hádegið sinnti ég svo ýmsum verkefnum við skrifborðið, m.a. vegna umhverfisviðurkenninga sem afhentar verða í komandi viku, yfirliti yfir húsaleigu húseigna sveitarfélagsins ásamt því að svara spurningum frá Feyki vegna sameiningarviðræðna og hinu og þessu.

Á föstudeginum fór ég svo til Keflavíkur til að vera við útför mætrar konu. Á leiðinni sat ég einn fund um lýðheilsukort fyrir Norðurland vestra ásamt sveitarstjórum og starfsmönnum SSNV. Á heimleiðinni sat ég jafnframt fund sameiningarnefndar þar sem niðurstaða íbúafunda var rædd sem og álit nefndarinnar. Á leiðinni suður hringdi ég svo fjölda símtala. Það er eitt og annað hægt að gera þó maður sé á ferðinni. Hvort sem það er gott eða slæmt.

Ég leit við í vinnunni á laugardeginum og vann meðal annars í beiðni sveitarfélagsins um áframhaldandi stuðning við endurbætur á Félagsheimilinu Hvammstanga sem eru afar brýnar og mjög kostnaðarsamar. Það er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með þeim þessa dagana þegar klæðningin er að komast upp og húsið smátt og smátt að taka á sig endanlega mynd. Að klæðningu lokinni er nauðsynlegt að ráðast í vinnu innanhúss sem verður mjög umfangsmikil. Á laugardeginum undirbjó ég sömuleiðis byggðarráðsfund komandi viku ásamt því að ljúka við spurningarnar fyrir Feyki. Einnig las ég yfir gögn fyrir sameiningarnefndina og eitt og annað sem beið á skrifborðinu.

Verktakarnir eru byrjaðir að setja klæðninguna á Félagsheimilið. Hún er hvít eins og sjá má en aðrir fletir verða dökkgráir.

Fyrir helgina hóf vegglistamaðurinn Juan vinnu við listaverk á auða vegginn við Brúarhvamm. Hann vann fyrir okkur skreytingar á vigtarhúsið í fyrrasumar og við fengum hann til að fara með okkur í hugmyndavinnu vegna verks á fyrrnefndan vegg. Það sem okkur leist best á var stór mynd af sel sem tók á sig mynd yfir helgina og ég verð að segja fór fram úr mínum björtustu vonum. Juan er jafnframt að vinna fyrir okkur nokkurskonar ramma þar sem hægt verður að stilla sér upp og taka myndir, nokkuð sem er hægt að finna í mörgum sveitarfélögum í ýmsum myndum, svo sem hjörtu. Við hins vegar ætlum að gera okkar eigin útgáfu af myndaramma, úr rekavið sem okkur finnst einkennandi fyrir svæðið. Staðsetningin hefur ekki verið endanlega ákveðin en vinnan við verkið er hafið. Mjög spennandi allt saman en við fengum styrk úr styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands fyrir hluta kostnaðar við þetta hvoru tveggja. Ásýndin í sveitarfélaginu er afar mikilvægur þáttur í staðarandanum. Ég mun sannarlega halda áfram að leita styrkja til verkefna af þessum toga og tek fagnandi við öllum hugmyndum.

Listamaðurinn Juan að störfum.

Var efnið á síðunni hjálplegt?