8. maí 2023

Þrítugasta dagbók sveitarstjóra lítur hér dagsins ljós. Tíminn flýgur svo sannarlega. Nýliðin vika var að vanda fjölbreytt og annasöm þó vinnuvikan hafi verið styttri en vanalegt er. Eins og áður er hér stiklað á stóru í verkefnum vikunnar. Upptalningin hér er sjaldnast tæmandi en gefur engu að síður góða mynd af því sem sveitarstjóri sýslar við í sínum störfum.

Vinnuvikan hófst á þriðjudegi með fundi með atvinnuveganefnd Alþingis um umsagnir sveitarfélagsins um landbúaðar- og matvælastefnur sem sendar voru inn á dögunum. Ásamt mér sat Sigríður Ólafsdóttir formaður landbúnaðarráðs fundinn en við sátum hann í fjarfundi. Það er að mínu mati afar mikilvægt að veita umsagnir um þau þingmál sem okkur varða, við erum því farin að taka allar umsagnarbeiðnir inn á fundi byggðarráðs þar sem bókaðar eru umsagnir ef við á. Einnig er mikilvægt að eiga samtal við nefndir Alþingis um okkar helstu hagsmunamál. Matvæla- og landbúnaðarstefnur eru svo sannarlega slík mál. Umsögn okkar um landbúnaðarstefnu er að finna hér og matvælastefnu hér. Ég vil vekja athygli áhugasamra á að öll mál sem eru til umræðu í nefndum Alþingis er að finna á svæðum nefndanna á heimasíðu Alþingis, þar má auk málanna sjá skjöl sem tengjast þeim, hverjir hafa verið beðnir um umsagnir og innsendar umsagnir. Að fundi með nefndinni loknum fengum við formann fjallskiladeildar Víðdælinga á fund þar sem rædd voru ýmis málefni deildarinnar.

Eftir hádegið á þriðjudeginum litu Arnheiður og Jóhannes frá Markaðsstofu Norðurlands við og áttum við gott spjall um ferðamál í víðtæku samhengi. Sveitarfélagið er aðili að Markaðsstofunni í gegnum Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Þá tók við byggðarráðsfundur sem hliðraðist um einn dag vegna frídags deginum áður. Dagskráin var þétt. Meðal annars var samþykkt tillaga vinnustyttingarhóps kennara grunnskólans um styttingu vinnuviku, lagt fram bréf vegna urðunar dýrahræja og tilkynning um bann við búfjárbeit. Einnig var fjallað um úthlutun byggðakvóta og sömuleiðis raunsnarlega gjöf frá Sigurvald Ívari til félagsheimilisins sem við þökkum kærlega fyrir. Einnig var lagt fram bréf með athugasemdum um skólaakstur og samþykkt var beiðni grunnskólans um að mála aftur regnbogagangstéttina við Fífusundið og til viðbótar framhlið trappa frá leikvelli upp að Kirkjuvegi. Þessar skreytingar lífga ekki bara upp á umhverfið heldur sýna líka áherslur skólans á fjölbreytileikann og að við erum allskonar. Tvær bókanir um sauðfjárveikivarnir voru lagðar fram til kynningar. Það hefur verið gott að finna hlýhug víða að í þeim áföllum sem riðu yfir í Miðfirðinum. Fundargerð byggðarráðs er að finna hér.

Á þriðjudeginum fór dágóður tími á milli verka í að ganga frá undirbúningi heimsóknar góðra gesta á miðvikudeginum. Frú Eliza Reid ásamt fulltrúum Listahátíðar og bakhjarla Eyrarrósarinnar komu til að afhenda Eyrarrósina. Handbendi hlaut viðurkenninguna árið 2021 og fór afhendingin því fram hér. Sjálf afhendingin var í glæsilegum húsakynnum Handbendis í Eyrarlandi og móttaka að henni lokinni var haldin á Sjávarborg. Áður en til afhendingarinnar kom heimsótti hópurinn nokkra vel valda staði með menningarlega skírskotun í sveitarfélaginu. Byrjað var á Byggðasafninu á Reykjum, þar sem líka var sýning á Heimferð, verðlaunasýningu Handbendis sem ég mæli svo sannarlega með. Ein allra áhrifamesta leiksýning sem ég hef séð. Frá Byggðasafninu lá leið til Jóns Eiríkssonar listmálara á Búrfelli þar sem hann sagði frá list sinni og sýndi okkur nokkur verka sinna. Jón er afkastamikill listamaður sem skemmtilegt er heim að sækja. Þaðan lá leið í Leirhús Grétu þar sem Gréta sagði stuttlega frá sinni listsköpun. Við getum svo sannarlega verið stolt af lista- og handverksfólkinu okkar. Nánar er sagt frá heimsókninni í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Það fór vel á með Frú Elizu Reid og Jóni á Búrfelli í vinnustofu hans.

Á fimmtudeginum lagði ég land undir fót ásamt oddvita og formanni byggðaráðs. Leið lá til Reykjavíkur þar sem við byrjuðum á að funda með nokkrum þingmönnum kjördæmisins í Alþingishúsinu. Ræddum við hin ýmsu hagsmunamál, reglugerðir er tengjast riðu, vegamál og ýmislegt fleira.

Sjálfa við Alþingishúsið.

Að þingmannafundi loknum röltum við yfir Arnarhól í innviðaráðuneytið þar sem við áttum fund með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra. Þar voru samgöngumálin til umræðu eins og oft áður. Megin erindið í þetta skiptið var að kynna ráðherra nýja skýrslu um Vatnsnesveginn sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir sveitarfélagið. Í henni er lagt mat á áhrif og þörf á endurbyggingu vegarins, einkum með tilliti til samfélagsáhrifa. Í henni eru á einum stað upplýsingar um stöðu vegarins og hvernig ástand hans talar inn í ýmsar stefnur og áætlanir hins opinbera. Hið fínasta plagg sem klárlega mun leggja lið í baráttunni við að þoka framkvæmdum við veginn framar í samgönguáætlun. Hér er vert að taka fram að þó Vatnsnesvegurinn sé mest áberandi í opinberri umræðu um vegamál í sveitarfélaginu þá eru aðrar brýnar framkvæmdir ekki gleymdar. Í Samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra sem unnin var í minni tíð hjá SSNV eru m.a. listaðir 5 vegkaflar sem áhersla er lögð á (bls. 32). Sá listi er engan veginn tæmandi – verkefnin eru ærin.

Þorleifur Karl oddviti, Sigurður Ingi innviðaráðherra, undirrituð og Magnús Magnússon formaður byggðarráðs í ráðuneytinu.

Að fundi með ráðherra loknum lá leiðin heim að nýju. Ég náði stuttri stund á skrifstofunni við heimkomu til að svara tölvupóstumm og ganga á verkefnalistann.

Að afloknum fundi með oddvita og formanni byggðarráðs á föstudeginum átti ég kærkominn skrifborðsdag en slíkir hafa ekki verið algengir síðustu vikur. Það var gott að geta unnið aðeins í verkefnalistanum og gömlum syndum. M.a. þá auglýsti ég eina íbúð á Lindarveginum sem losnar í júlí. Íbúðirnar eru í eigu Bústaðar hses. en sveitarstjóri er framkvæmdstjóri þess félags. Þar sem um aðskilið leigufélag er að ræða verða þeir sem eiga inni umsóknir um almenna leiguíbúð hjá sveitarfélaginu að senda inn sérstaka umsókn til Bústaðar með þeim fylgigögnum sem áskilin eru. Nánari upplýsingar er að finna hér. Ég skoðaði líka aðeins málefni vinnuskólans og framlengdi umsóknarfrest fyrir störf flokksstjóra. Ég hvet áhugasöm til að sækja um fyrir 15. maí. Umsóknarfrestur í vinnuskólans er svo til 26. maí. Vinnuskólinn er fyrir ungmenni á aldrinum 13-17 ára og fer vinnutímabil eftir aldri þeirra.

Á föstudeginum skrifaði ég einnig nokkrar fréttir fyrir heimasíðuna, átti góð samtöl við nokkra starfsmenn, vann í ráðningarmálum vegna verkefnisstjóra umhverfismála sem fara nú vonandi að skýrast og ýmsum starfsmannamálum. Ég skoðaði líka nýja Brunavarnaráætlun sem Kári, fráfarandi slökkviliðsstjóri, hefur unnið ötullega að síðustu mánuði. Hún verður vonandi afgreidd mjög fljótlega. Eins og vanalega á föstudögum undirbjó ég fund byggðarráðs eftir helgina en fundarboð þarf að senda út með að minnsta kosti 2ja sólarhringa fyrirvara og geri ég það vanalega á föstudögum.

Ég leit aðeins í vinnuna fyrripart laugardags. Meðal annars til dagbókarskrifa en einnig ýmissa annarra verka. Það þurfti að ganga frá tveimur ráðningarsamningum, ég skrifaði líka kort með heillaóskum fyrir fermingarbörn í sveitarfélaginu, svaraði bréfum og erindum, samþykkti reikninga, undirbjó matsblöð fyrir útleigu íbúðarinnar á Lindarvegi, skoðaði ýmis mál sem tengjast fjallskilum, skrifaði fréttir á heimasíðuna og ýmislegt fleira.

Ég lýk þessari færslu á fallegri mynd (þó ég segi sjálf frá) sem ég tók við Byggðasafnið á Reykjum á miðvikudaginn. Ég hvet íbúa sveitarfélagsins og aðra til að sækja safnið heim. Þar er margt virkilega áhugaverðra muna.

Var efnið á síðunni hjálplegt?