Mat á áhrifum og þörf á endurbyggingu Vatnsnesvegar

Frá afhendingu skýrslunnar. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðhe…
Frá afhendingu skýrslunnar. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri og Magnús Magnússon formaður byggðarráðs.

Út er komin skýrsla um mat á áhrifum og þörf á endurbyggingu Vatnsnesvegar með tilliti til samfélagsáhrifa. Skýrslan er unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Húnaþing vestra. 

Sigurði Inga Jóhannssyni var afhent skýrslan formlega á dögunum með áskorun um að framkvæmdum við veginn verði þokað framar á samgönguáætlun.

Í skýrslunni eru tekin saman fyrirliggjandi gögn um þróun umferðar, umferðaróhöpp, ferðamannafjölda, skólaakstur, vinnusókn og fleira. Einnig var rætt við einstaklinga á svæðinu og sérfræðinga, svo sem kennara og skólastjórnendur, ferðaþjónustuaðila, sérfræðinga Vegagerðarinnar, bændur og íbúa við Vatnsnes sem sækja vinnu af bæ.

Í skýrslunni eru færð rök fyrir því að endurbygging vegarins falli vel að megin markmiðum samgönguáætlunar um greiðfærni, öryggi,
hagkvæmni, umhverfislega sjálfbærni og byggðaþróun. Endurbætur styðja markmið byggðaáætlunar um vinnu- og þjónustusókn og bæta aðstæður til að íbúar getið valið sér sem víðast búsetu við hæfi.

Í skýrslunni kemur fram að vegurinn um Vatnsnes sé í raun lífæð sem ætlað er að þjóna fjölbreyttum þörfum samfélagsins. Umferð um veginn hefur aukist mikið undanfarin ár og er vegurinn nú kominn að þolmörkum. Ýmsar ástæður gera það að verkum að erfitt er að halda veginum við og hann henti því í raun ekki við þær aðstæður sem oft koma upp, svo sem í vætutíð þegar slitlagið skolast af veginum og holur myndast, sérstaklega á þeim köflum þar sem umferðin er mest. Vísbendingar eru um að mesta sólarhringsúrkoma hafi verið að aukast á Vatnsnesi á undanförnum árum. Með hlýnandi veðurfari má einnig búast við að úrkoma falli oftar sem rigning. Erfitt er að halda við malarvegum við þessar aðstæður og í raun henta þeir þá ekki lengur aðstæðunum.

Umferð ferðamanna sem ekki þekkja til þeirra aðstæðna sem á veginum geta myndast felur í sér viðbótar áskorun. Þeir aka yfirleitt hægar en heimamenn, víkja illa fyrir umferð sem kemur á móti, kunna oft ekki að nota útskot til mætinga og hleypa síður fram úr sér. Þetta getur valdið verulegum töfum hjá heimamönnnum sem nota veginn til daglegra til að sækja vinnu eða þjónustu. Dæmi eru um að ferðatími vegna daglegrar vinnusóknar meira en tvöfaldist milli árstíða þegar lítil ferðamannaumferð er og þegar ferðamenn eru flestir á veginum. Mjór malarvegur hentar því illa hópum notenda sem hafa eins mismunandi þarfir og ferðahegðun. Það fellur því vel að  markmiðum byggðaáætlunar og samgönguáætlunar um greiðfærni og jákvæða byggðaþróun að endurbyggja veginn.

Slysahætta á veginum er tvöfalt hærri en á vegum á norðursvæði Vegagerðarinnar að meðaltali. Endurbygging vegarins fellur því vel að markmiðum samgönguáætlunar um öruggar samgöngur. 

Einnig kemur fram að kostnaður vegfarenda vegna tafa og slits á ökutækjum er talsvert meiri en á vegi með bundnu  slitlagi. Þá er viðhaldskostnaður á malarvegi umtalsverður og tengd umhverfisáhrif.  Rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna fram á hagkvæmni þess að leggja bundið slitlag á malarvegi.  Gögn benda til þess að það geti átt við þegar vegur er kominn með 100 bíla ÁDU og jafnvel við nokkru lægri umferðarmörk eða eftir aðstæðum hverju sinni, svo sem veðurfari (einkum úrkomu), gæða slitlagsefnis og viðhaldi. Flest bendir til þess að umferð á Vatnsnesvegi sé komin yfir þau „sársaukamörk“ sem malarvegur ræður við að þjóna með góðu móti. Gögn benda til þess að umferð um veginn sé orðin það mikil og vandkvæði við viðhald hans slík, að endurnýjun sé hagkvæm til lengri tíma litið og falli því að markmiði um hagkvæmar samgöngur.

Skýrsluna er að finna hér.

Var efnið á síðunni hjálplegt?