Skólabúðirnar Reykjaskóla

Heimasíða: Skólabúðir á Reykjum

Forstöðumaður: Sigurður Guðmundsson, netfang: siggi@umfi.is, sími: 861 3379

Forstöðumaður svarar fyrirspurnum um búðirnar og tekur við bókunum.

 

Hátt í 90 ár eru liðin frá upphafi skólastarfs að Reykjum í Hrútafirði. Héraðsskólinn að Reykjum tók til starfa árið 1931 og starfaði til ársins 1988 að undanskyldum árum síðari heimstyrjaldarinnar þegar húsnæði skólans var nýtt af setuliðinu.

Allt frá stofnun héraðsskólans hafa Reykir í Hrútafirði verið mennta- og menningarsetur Húnvetninga og var skólinn ávallt vel sóttur af nemendum víða að af landinu en flestir nemendur hans komu úr Húnavatnssýslum og Strandasýslu.

Eftir að starf héraðsskólans lagðist af rak Staðarhreppur skólabúðir í Reykjaskóla til ársins 1998 þegar Húnaþing vestra tók yfir reksturinn í kjölfar sameiningar sveitarfélaga í Vestur-Húnavatnssýslu. Frá árinu 2001 hafa Skólabúðirnar í Reykjaskóla verið reknar skv. sérstöku samkomulagi milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Húnaþings vestra. 

Samkvæmt samningi frá því í ágúst 2022 eru Skólabúðirnar reknar af UMFÍ. Á hverjum vetri koma yfir 3000 nemendur úr 7. bekk grunnskólanna í landinu til vikudvalar í Skólabúðirnar.

Í Skólabúðunum er unnið í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrá grunnskóla. Sérstök áhersla er á eftirfarandi uppeldis- og félagsleg markmið og að því stefnt að:

  • auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda
  • auka félagslega aðlögun nemenda með óformlegu námi
  • styrkja og efla leiðtogahæfni og sjálfsmynd nemenda
  • þroska sjálfstæði nemenda og skapa þeim vettvang til áhrifa
  • sinna forvörnum og lýðheilsumálum sem varða heilsu og holla lífshætti
  • nemendur fáist við ný og áður óþekkt verkefni og setji sér markmið
  • nemendur kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta
  • örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið og komast að niðurstöðu
  • nemendur sýni hvert öðru vináttu, virðingu og væntumþykju og jafrétti sé virt meðal þeirra
  • kynna sögu og atvinnuhætti á landsbyggðinni með skipulagðri safnakennslu í samstarfi við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna

Var efnið á síðunni hjálplegt?