Skólabúðirnar Reykjaskóla

Heimasíða: http://www.skolabudir.is

sími: 451-1000

netfang: skolabudir@skolabudir.is

 

Hátt í 90 ár eru liðin frá upphafi skólastarfs að Reykjum í Hrútafirði. Héraðsskólinn að Reykjum tók til starfa árið 1931 og starfaði til ársins 1988 að undanskyldum árum síðari heimstyrjaldarinnar þegar húsnæði skólans var nýtt af setuliðinu.

Allt frá stofnun héraðsskólans hafa Reykir í Hrútafirði verið mennta- og menningarsetur Húnvetninga og var skólinn ávallt vel sóttur af nemendum víða að af landinu en flestir nemendur hans komu úr Húnavatnssýslum og Strandasýslu.

Eftir að starf héraðsskólans lagðist af rak Staðarhreppur skólabúðir í Reykjaskóla til ársins 1998 þegar Húnaþing vestra tók yfir reksturinn í kjölfar sameiningar sveitarfélaga í Vestur-Húnavatnssýslu. Frá árinu 2001 hafa Skólabúðirnar í Reykjaskóla verið reknar skv. sérstöku samkomulagi milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Húnaþings vestra. Um 3000 nemendur grunnskóla víða að af landinu sækja Skólabúðirnar í Reykjaskóla heim á ári hverju.

Skólabúðirnar í Reykjaskóla eru reknar af fyrirtækinu Reykjatangi ehf, sem er í eigu hjónanna Karls B. Örvarssonar og Halldóru Árnadóttur en þau hafa starfað við Skólabúðirnar frá árinu 2001. Á hverjum vetri koma u.þ.b. 3000 nemendur úr 7. bekk grunnskólanna í landinu til vikudvalar í Skólabúðirnar.

Starfið í skólabúðunum á í öllum aðalatriðum að beinast að sömu markmiðum og starfið í almennum grunnskólum.
Í skólabúðunum er lögð sérstök áhersla á eftirfarandi uppeldis- og félagsleg markmið og að því stefnt:

- að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda
- að auka félagslega aðlögun nemenda
- að þroska sjálfstæði nemenda
- að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni
- að nemendur kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta
- að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið og komast að niðurstöðu
- að auka athyglisgáfu nemenda
Eitt af markmiðum skólabúðanna er að venja nemendur við að búa fjarri foreldrahúsum, sofa á ókunnum stað, sjá um sig, hafa reglu á fötum og farangri sínum og hirða herbergið sitt. Við þetta njóta nemendur tilsagnar kennara síns og starfsfólks skólabúðanna.

Var efnið á síðunni hjálplegt?