18. mars 2024

Vikan 11.-17. mars 2024

Sveitarstjóri er kominn til baka eftir vikufrí og stökk beint inn í annasama viku. Mánudagsmorguninn var með hefðbundnu sniði með fundi framkvæmdaráðs. Eins og gjarnan eftir frí fór dágóður tími í að komast niður úr tölvupóstbingnum og vann ég að því fram að hádegi. Eftir hádegið sat ég ásamt sveitarstjórnarfulltrúum fund með forsvarsmönnum Póstins um fyrirhugaðar breytingu á póstþjónustu á Hvammstanga. Ég mun láta Póstinum það eftir að kynna í hverju þær breytingar felast en óhætt er að segja að þeim hafi verið mótmælt harðlega á fundinum. Verður óskað eftir því að Pósturinn haldi fund til að kynna breytingarnar fljótlega. Í kjölfarið sat ég fund með fulltrúum Orkustofnunar og ráðuneytis orkumála um hitaveitu í Hrútafirði. Þar á eftir sat ég fund með KPMG í upphafi vinnu við gerð loftslagsstefnu sveitarfélagsins. Á mánudeginum fór einnig nokkur stund í að undirbúa fund sveitarstjórnar sem var haldinn á þriðjudeginum. Alla jafna eru sveitarstjórnarfundir á fimmtudögum en vegna landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem bar upp á fimmtudeginum var fundurinn fluttur til þriðjudags.

Þá daga sem sveitarstjórnarfundir eru á dagskrá fer mestur hluti dagsins í undirbúning. Þó sat ég einn fund stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða á milli þess sem ég undirbjó skýrslu sveitarstjóra fyrir fundinn. Hann var svo haldinn eftir hádegið í Riishúsi á Borðeyri. Fundurinn var afar ánægjulegur þar sem tekin voru fyrir mál sem hafa verið í vinnslu lengi. Má þar nefna staðfestingu samkomulags vegna stuðnings fjárlaganefndar við framkvæmdir á Félagsheimilinu Hvammstanga, staðfestingu á samningi um stuðning mennta- og barnamálaráðuneytis vegna innleiðingar farsældarlaga sem felur í sér ráðningu tengslafulltrúa sem vinnur með ungu fólki. Síðast en ekki síst samþykkt á samkomulagi við innviðaráðuneytið og HMS um stórfellda húsnæðisuppbyggingu í sveitarfélaginu. Það samkomulag var svo undirritað síðar í vikunni. Öll þessi verkefni hafa verið í vinnslu um nokkurt skeið og einsaklega ánægjulegt að þau eru að raungerast. Starf tengslafulltrúans hefur þegar verið auglýst, undirbúningur framkvæmda við þak félagsheimilið er í gangi og næstu skref með HMS vegna íbúðauppbyggingarinnar verða tekin á næstunni. Fundargerð sveitarstjórnarfundarins er aðgengileg hér. Eftir fundinn tók svo við úrvinnsla, tilkynningar um afgreiðslur o.s.frv. sem ávallt tekur dágóða stund.

Vel fór um sveitarstjórn í Riishúsi.

Úrvinnsla sveitarstjórnarfundar hélt áfram á miðvikudagsmorgni áður en fundir dagsins tóku við. Fyrstur var fundur á vegum Jafnréttisstofu um skóla og jafnrétti, þá átti ég góðan fund með forstöðumanni Nátttúrustofu Norðurlands vestra um starfsemi stofunnar. Strax í kjölfarið voru opnuð tilboð í endurnýjun hitaveitulagna á Hvammstanga í kjölfar verðfyrirspurnar. Úrvinnsla úr þeim tilboðum stendur yfir og verður niðurstaðan lögð fyrir byggðarráð fljótlega. Eftir hádegið fór ég svo á upplestrarkeppni 7. bekkjar í grunnskólanum. Ég var ekki dómari í þetta skiptið vegna vanhæfis en sonur minn, Guðni Þór, tók þátt. Krakkarnir stóðu sig frábærlega öll sem eitt. Eftir keppnina sat ég fund um kostnaðarmat úrgangsstjórnunar sveitarfélaga sem Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir en þar var farið yfir vinnu sem er að fara af stað í tengslum við þetta viðamikla og kostnaðarsama verkefni. Síðasti fundur dagsins var með KPMG ásamt Boga skipulagsfulltrúa og Ólöfu Rún verkefnisstjóra umhverfismála vegna vinnu við gerð loftslagsstefnu.

Snemma á fimmtudagsmorgun fór ég af stað ásamt Kalla oddvita og Magnúsi formanni byggðarráðs á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga í Hörpu. Fókusinn á þinginu var á hamfarir og hlutverk sveitarfélaga í þeim. Katrín Jakobsdóttir hélt frábæra ræðu, Víðir Reynisson sömuleiðis og þá voru pallborðsumræður sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra Heiða Björk Hilmisdóttir framkvæmdastjóri sambandsins, Víðir Reynisson og margir fleiri tóku þátt í. Virkilega gott þing og þörf umræða. Það sem þó stóð upp úr var undirritun samningsins við innviðaráðuneytið og HMS sem ég kom inn á hér að framan.

Frá undirrituninni í Hörpu, undirrituð ásamt Sigurði Inga innviðaráðherra og Önnu Guðmundu aðstoðarforstjóra HMS.

Að þingi loknu sat ég aðalfund Lánasjóðs sveitarfélaga.

Við gistum í bænum til að nýta föstudaginn í heimsóknir og fundi. Litum við hjá Vegagerðinni og fórum yfir helstu áherslumál sem í meginatriðum koma fram í umsögn sveitarfélagsins um drög að samgönguáætlun. Virkilega góður fundur með forsvarsmönnum stofnunarinnar. Við héldum að þeim fundi loknum niður á Alþingi og áttum samtal við Stefán Vagn fyrsta þingmann kjördæmisins og formann fjárlaganefndar um hin ýmsu áherslumál áður en við héldum heim á leið. Góðir og gagnlegir fundir.

Ég fór aðeins á skrifstofuna á laugardagsmorgninum, vann m.a. í umsókn í styrkvegapott Vegagerðarinnar, samþykkti reikninga, skrifaði dagbókarfærslu, vann í auglýsingu eftir veiðimönnum til minkaveiða og grenjavinnslu o.fl.

Var efnið á síðunni hjálplegt?