Inngangur í Húna 2022

Fyrir nokkrum árum hlotnaðist mér sá heiður að halda hátíðarræðu á 17. júní hátíðarhöldum á Hvammstanga. Ég hóf ræðuna á orðum sem rituð voru á silfursveig sem lagður var á kistu Jóns Sigurðssonar eftir lát hans 1879: „Óskabarn þjóðarinnar, sómi þess, sverð og skjöldur“. Jón var það svo sannarlega og fyrir hans baráttu hlaut þjóðin sjálfstæði. Síðan eru liðin mörg ár. Á þessum árum öllum hefur oft reynt á í lífi þjóðar. Brimskaflarnir sem á okkur hafa skollið eru ófáir. Það hefur reynt á samtakamáttinn. Gefið á bátinn. Í gegnum tíðina má þó segja að alltaf hefur okkur fyrir rest tekist að líta á það sem þjappar okkur saman í stað þess sem sundrar okkur. Við höfum ekki gleymt því þegar á reynir að við stöndum saman sem þjóð, við erum saman í baráttunni og við hjálpumst að. Við höfum ekki gleymt því hvaðan við komum og hvað sameinar okkur.

Þegar ég hugsa um sveitarfélagið mitt, Húnaþing vestra, upplifi ég einmitt svo sterkt þessa samstöðu sem einkennir okkur Íslendinga sem þjóð. Íbúar Húnaþings vestra hafa svo sannarlega ekki gleymt því hvaðan þeir eru að koma. Hvað það er sem sameinar okkur og gerir okkur að samfélagi. Hvergi hef ég fundið þann samtakamátt sem í samfélaginu býr jafn sterkt og áþreifanlega og hér. Þann stuðning sem er vís frá samferðafólki þegar á brattann er að sækja. Þegar allir þurfa að leggjast á árar til að bjarga málum. Í mínum huga er þetta helsti styrkur samfélagsins okkar. Sá styrkur sem við getum sótt hvert til annars. Þeim samtakamætti megum við aldrei gleyma, sama þó að á brattann sé að sækja.

Í samtakamættinum býr mikill kraftur. Kraftur sem við getum í ríkara mæli virkjað til góðar verka. Krafturinn sem verður til þegar allir leggjast á eitt. Sá kraftur getur leitt af sér ótrúlegustu framfarir. Í Húnaþingi vestra er fólk með góðar hugmyndir, víðtæka og mikla reynslu. Hér er fólk sem þorir að taka af skarið, fólk sem stendur saman og myndar sterkt og öflugt samfélag. Ég leyfi mér að segja „óskabörn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur“.

Í Húnaþingi vestra er allt sem við þurfum til að blása byr í seglin og byggja upp enn sterkara samfélag en áður á þeim styrka grunni sem hér er að finna. Grunni samstöðunnar og samhygðarinnar. Samhjálpar og staðfestu. Af því að við munum hvaðan við erum að koma og hver við erum.

Eitt af því sem gerir það að verkum að við munum hvaðan við erum að koma og hver við erum er rækt okkar við ræturnar. Sögurnar af fólkinu sem er gengið. Arfleifð okkar. Fátt hefur haldið henni eins vel á lofti síðustu áratugi og útgáfa Húna. Þar er haldið til haga sögum af fólki úr sveitinni okkar. Vísur og ljóð. Látinnar er minnst. Fermingarbörn upp talin að ógleymdum annálum hreppanna sem mynda sveitarfélagið sem stofnað var fyrir næstum 25 árum. Það er því mikilvægt að við stöndum vörð um Húna og þá um leið vörð um arfleifð okkar. Því aðeins með því að vita hvaðan við erum að koma getum við sameinast um hvert á að stefna.

Ég þakka ritnefnd Húna í gegnum árin fyrir sín óeignigjörnu störf í þágu Húnaþings vestra. Í ritnefndina hafa valist afar öflugir einstaklingar sem með störfum sínum hafa stutt við okkar góða samfélag. Samfélags sem litið er til fyrir samstöðu og samhygð. Ég er stolt af samfélaginu mínu og að fá tækifæri til að vinna í þágu þess og íbúa. Ég er stolt af Húna.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Var efnið á síðunni hjálplegt?