25. september 2023

Vikan 18.-24. september 2023

Eftir fallega daga undanfarið leynist ekki að haustið er farið að láta verulega á sér kræla. Reynitréið í garðinum hjá mér gulnar með hverjum deginum. Haustlitirnir eru allsráðandi. Haustið er að mínu mati alltaf góður tími, annasamur en um leið tími kertaljósa.

Það voru þó engin kertaljós í nýliðinni viku heldur hefðbundnar annir sem mörkuðust af fjarveru vegna fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem fram fór 21. og 22. september.

Vikan hófst þó eins og oftast á fundi framkvæmdaráðs. Til upprifjunar þá sitja í ráðinu ásamt sveitarstjóra sviðsstjórar fjölskyldusviðs og fjármála- og stjórnsýslusviðs. Þar á eftir tók við sömuleiðis fastur mánudagsfundur með verkefnisstjóra umhverfismála þar sem við fórum yfir helstu mál á dagskrá. Þar á eftir tók við skrifborðsvinna, m.a. tilkynningar á afgreiðslum sveitarstjórnarfundar vikunnar á undan, svör við ýmsum tölvupóstum, skoðun á sorpmálum o.s.frv. Eftir hádegið var svo byggðarráðsfundur. Þar voru að mestu ýmis mál til kynningar á dagskrá en einnig var samþykkt að fela sveitarstjóra að auglýsa eftir tilboðum í eignina að Lindarvegi 3a. Höfum við hafið undirbúning þeirrar auglýsingar og verður hún birt á næstunni. Fundargerð byggðarráðs er hér.

Þriðjudagurinn hófst á afar góðum fundi með forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Á dagskrá var yfirferð starfsáætlana þeirra í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnuna sem nú stendur sem hæst. Ég er óskaplega stolt af þessum hópi sem skilaði inn vel unnum áætlunum sem sýna augljósan metnað fyrir sínum starfstöðvum. Ég nota þetta tækifæri til að ítreka þakkir  til þeirra allra.

Sviðsstjórar, forstöðumenn og stjórnendur stofnana sveitarfélagsins. 

Aðrir fundir þriðjudagsins voru kynning á þjónustu ráðgjafa, fundur með aðilum sem hyggja á húsbyggingar og fundur veituráðs. Á milli funda undirbjó ég veituráðsfundinn og sinnti ýmsum erindum. Á veituráðsfundinum var farið yfir stöðu framkvæmda, gjaldskrá vatnsveitu var til umræðu o.fl. Fundargerðin er hér. Eftir fundinn fór ég svo af stað suður til að eiga miðvikudaginn heilan til vinnu þar.

Eins og fram kom hér fyrr í færslunni snérist vikan að miklu leyti um fjármálaráðstefnuna. Þó hún hafi formlega ekki hafist fyrr en á fimmtudagsmorgni er ýmsum fundum raðað fyrir framan hana, m.a. ársfundi jöfnunarsjóðs. Hlutverk Jöfnunarsjóðs er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna hér.  Innviðaráðherra tilkynnti á fundinum að í ljósi góðrar afkomu sjóðsins yrðu framlög til sveitarfélaga hækkuð um samtals 1 milljarð á árinu. Afar ánægjulegar fréttir.

Eiginleg fjármálaráðstefna hófst svo á fimmtudeginum. Þann dag voru flutt ýmis erindi sem varða fjármál sveitarfélaga, t.d. frá Bjarna Benediktssyn fjármálaráðherra. Einnig fluttu erindi þau Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Arnar Þór Sævarsson framkvæmdastjóri Sambandsins, Sigurður Á. Snævarr sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambandsins og fulltrúar Eftirlitsnefndar sveitarfélaga. Þá fengu ráðstefnugestir kynningu á lífeyrismálum og þeim kostnaði sem er að leggjast á sveitarfélögin nú vegna þeirra og eins á kjarasamningum. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir hélt einnig mjög áhugavert erindi um Velsældarhagkerfi. Öll erindi dagsins eru aðgengileg á heimasíðu Sambandsins fyrir áhugasöm.

Á föstudeginum voru haldnar tvær málstofur með yfirskriftunum fjármál og rekstur annars vegar og fjármál og fræðslumál hins vegar. Ég sat að mestu málstofuna um fjármál og fræðslumál en stökk yfir í hina málstofuna til að hlusta á erindi um úrgangsmál. Ég nýtti svo tímann á heimleiðinni til að hlusta á nokkur erindi af málstofunni sem ég sat ekki. Erindin á málstofunum eru sömuleiðis aðgengileg á heimasíðu Sambandsins

Heilt yfir var þeitta ákaflega áhugaverð ráðstefna og ekki síður gagnlegt að hitta kollega annarsstaðar að af landinu.

Hluti fulltrúa Húnaþings vestra á fjármálaráðstefnunni.

Eftir ráðstefnu sat ég fund með lögmanni sveitarfélagsins um hin ýmsu mál og brunaði í kjölfarið heim á leið.

Vegna fjarveru frá skrifstofu í vikunni fór svolítill tími í vinnu á laugardeginum. Undirbúningur fundar aukins byggðarráðs sem var á dagskrá komandi mánudags, yfirferð starfsáætlana forstöðumanna og styrkbeiðna o.s.frv. Á sunnudeginum tók ég þátt í skemmtilegu kaffihúsaspjalli við gesti á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem UMFÍ stóð fyrir í skólabúðunum á Reykjaskóla. Yfirskrift ráðstefnunnar var umhverfis- og loftslagsmál og var afar lærdómsríkt að heyra hugleiðingar ungmennanna um þau mál. Ég notaði líka tækifærið til að spyrja þau spurninga um hvað sveitarfélög þurfi að gera til að laða ungt fólk aftur heim að loknu námi. Það var heiður að fá að eiga þetta samtal við krakkana og segir mér svo hugur um að ég hafi spjallað við einhverja af framtíðarleiðtogum þessa lands.

Á spjalli við unga fólkið. Er greinilega að segja eitthvað ákaflega merkilegt :)

Var efnið á síðunni hjálplegt?