9. október 2023

2.-8. október 2023

Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs eins og svo oft áður þar sem farið var yfir helstu mál á dagskrá. Þar á eftir fundaði ég með verkefnisstjóra umhverfismála þar sem við fórum yfir verkefnalistann og hvaða verkefni ber hæst. Þar næst var svo fundur með Terra sem bauð lægst í sorphirðu í sveitarfélaginu en nú standa yfir samningaviðræður um framkvæmdina. Langt var liðið á morguninn þegar þeim fundi sleppti og tíminn fram að byggðarráðsfundi eftir hádegið nýttur í ýmis skrifborðsverkefni. Á byggðarráðsfundinum kenndi ýmissa grasa. Erindi frá Félagi eldri borgara í Húnaþingi vestra, umsagnarbeiðni og fundargerðir eins og vant er. Einnig var lagt fram erindi frá nemendum grunnskólans í kjölfar umhverfisdags skólanna í sveitarfélaginu sem fram fór vikunni áður. Mikið óskaplega var gaman að lesa í gegnum það plagg og sjá hversu vel meðvituð krakkarnir okkar eru um umhverfismál. Ég mun funda með þeim fljótlega til að fara yfir þau mál sem þau settu fram. Ég hlakka til þess fundar. Fundargerð byggðarráðs er hér.

Þriðjudagurinn var óvenju stuttur hjá mér þar sem eftir hádegið fékk ég góðar vinkonur frá Kanada og Bretlandi í heimsókn. Þær komu um hádegisbil og byrjuðum við á því að borða á Sjávarborg. Fór ég svo með þær fyrir Vatnsnes og á helstu ferðamannastaði í sveitarfélaginu. Það er alltaf gaman að sjá hvað fólk verður heillað af sveitarfélaginu okkar. Ég sagði þeim sögur hér og þar og þær nefndu að á Íslandi væri alltaf saga – alveg sama um hvað. Borgarvirki, Hvítserkur, Illugastaðir, Kolugljúfur o.s.frv. Alls staðar er saga sem þær höfðu gaman af því að heyra. Ég keyrði þær svo á Hótel Laugarbakka þar sem þær gistu eina nótt áður en þær héldu áfram ferð sinni. Fram að heimsókn þeirra nýtti ég tímann í ýmis skrifborðsverkefni svo sem samþykkt reikninga, starfsmannamál ýmiskonar, símtöl við hina og þessa o.s.frv.

Á miðvikudeginum voru tveir fundir á dagskrá sem þörfnuðust undirbúnings sem ég sinnti fyrir hádegið. Strax eftir hádegi var landbúnaðarráðsfundur þar sem á dagskrá voru minka og refaveiðar en samningar um grenjavinnslu eru að renna út auk þess sem mér var falið að auglýsa eftir aðilum til vetrarveiða. Fundargerð landbúnaðarráðs er hér. Seinnipart dags komu þingmenn kjördæmisins til fundar við sveitarstjórn í kjördæmaviku. Þá vikuna eru ekki hefðbundin þingstörf og ætlast til þess að þingmenn fari um kjördæmið og hitti fólk. Fjórir þingmanna kjördæmisins mættu og áttum við gott spjall um stöðu og horfur í sveitarfélaginu. Ýmislegt bar á góma, Vatnsnesvegur og samgöngumál í sveitarfélaginu almennt, félagsheimilið, heilbrigðisþjónusta þar sem við lýstum áhyggjum af því að augnlæknir kemur ekki lengur í reglulegar heimsóknir. Við fórum yfir helstu framkvæmdir sem hafa átt sér stað í sveitarfélaginu undanfarið og þær sem á döfinni eru, atvinnumál, húsnæðismál o.s.frv. Hinn ágætasti fundur og mikilvægur þar sem gott samband við þingmenn er brýnt til að þeir séu upplýstir um stöðu og brýnustu verkefni í sveitarfélaginu.

Skrafað við þingmenn kjördæmisins.

Á fimmtudeginum voru ýmsir fundir á dagskrá og þess á milli sinnti ég skrifborðsverkfnum. Má þar nefna fundur með oddvita og formanni byggðarráðs en vegna ráðstefnu á föstudeginum fluttum við fund okkar til fimmtudags eins og stundum áður. Ég fundaði með slökkviliðsstjóra og vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á auglýsingu eftir áhugasömum aðilum til að slást í hóp okkar ágætu slökkviliðsmanna. Ég settist líka niður með leikskólastjóra í góða stund. Eftir hádegið skrapp ég í foreldraviðtöl með kennurum barna minna í grunnskólanum og fengum okkur vöfflur á eftir í matsalnum eins og alltaf er gert á foreldradögum. Í lok dags voru svo veittar umhverfisviðurkenningar sem er afar ánægjulegt embættisverk. Ég hafði orð á því við það tilefni að í fyrra var þetta eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem var vel því ég hef þá trú að þegar umhverfi okkar er fallegt og snyrtilegt verðum við stoltari af sveitarfélaginu okkar og fólk vill búa í sveitarfélagi þar sem íbúarnir eru stoltir og ánægðir. Þetta eru því mikilvægar viðurkenningar. Nefnd um umhverfisviðurkenningar tók við tilnefningum og vann í kjölfarið úr þeim. All nokkrar tilnefningar bárust og hefur varla verið auðvelt verk að velja úr þeim. Þau sem fengu umhverfisviðurkenningu í ár voru eigendur Lækjarbakka, eigendur Tjarnarkots og eigendur Mánagötu 8. Nánari upplýsingar er að finna hér. Ég uppgötvaði eftir athöfnina að ég þakkaði nefndinni ekki nægilega vel fyrir sín góðu störf en í henni sitja Birgir Þór Þorbjörnsson, Borghildur H. Haraldsdóttir og Fríða Marý Halldórsdóttir. Með nefndinni starfaði Ólöf Rún Skúladóttir, verkefnisstjóri umhverfismála. Kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Afhending viðurkenninganna fór fram á Sjávarborg og áttum við notalega stund saman yfir kaffiveitingum.

Viðtakendur umhverfisviðurkenninga 2023 ásamtvalnefnd, verkefnisstjóra umhverfismála og sveitarstjóra.

Á föstudeginum fór ég ásamt Ellu Jónu sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs til Reykjavíkur til að sitja ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræn málefni sveitarfélaga. Afar brýnt viðfangsefni. Hlýddum við á góðar kynningar sem margar voru mjög gagnlegar. Stafvæðing verður verkefni næstu missera og að ýmsu að hyggja í þeim efnum.

Ég var stóran hluta laugardags við vinnu enda var eitt og annað sem beið úrlausnar. Ég fór líka í Miðfjörðinn til að sitja fund í Minningarsjóði Ágústu og Daníels en sjóðurinn heldur utan um skógrækt í Bjargshólslundi. Þar hef ég sinnt formennsku stjórnar en á fundinum tók Björn Líndal við formennsku. Í stjórninni sitja líka fulltrúar afkomenda Ágústu og Daníels ásamt fulltrúa Skógræktarinnar. Sá hefur um langt skeið verið Karl Sigurgeirsson sem hefur nú beðist lausnar eftir áratuga vel unnin störf. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Seinnipart dags á laugardaginn og líka á sunnudag fékk ég svo ömmustelpunar mína, hana Sóldísi Yrju í heimsókn. Við sinntum m.a. haustverkum í garðinum og rökuðum saman laufum. Eitthvað í veðurfarinu síðustu vikur gerði það að verkum að reynitréið í garðinum var óvenju fallegt í haustlitunum og tók ég nokkrar myndir af því sem ég læt fylgja með. Líklega hefur það verið svona fallegt af því að rokið var minna en vanalega svo litirnir voru áberandi í lengri tíma en ella.

Eins og sjá má var vikan annasöm eins og ég hef oft nefnt að er einkennandi fyrir haustið. Fjárhagsáætlunarvinnan er á góðu skriði undir styrkri stjórn Ellu Jónu. Stefnt er að fyrri umræðu 24. október og seinni umræðu á reglubundnum sveitarstjórnarfundi í nóvember. Erum við þá 3 vikum fyrr á ferðinni en á síðasta ári sem losar dýrmætan tíma í nóvember og desember. Vönduð fjárhagsáætlanagerð er mikilvæg, ekki bara til að standast þær kröfur sem settar eru á sveitarfélagið með lögum heldur líka til að tryggja góðan rekstur. Ég mun segja betur frá niðurstöðu þeirrar vinnu þegar henni er lokið.

Var efnið á síðunni hjálplegt?