29. september 2025

Vikan 22-28. september

Mánudagurinn hófst á stuttum fundi framkvæmdaráðs og strax í kjölfarið fundi aukins byggðarráðs þar sem farið var yfir styrkbeiðnir til atvinnu- og menningarmála. Fjöldi umsókna barst og tók byggðarráð afstöðu til þeirra inn í fjárhagsáætlunargerðina. Einnig var farið yfir áætlun um fjárfestingar komandi árs og næstu þriggja ára. Eftir hádegið fundaði hefðbundið byggðarráð. Þar var tekinn fyrir undirskriftarlisti gesta hátíðarinnar Hátíðni þar sem skorað er á sveitarstjórn og innviðaráðherra að stuðla að enduruppbyggingu húsa og eflingu innviða á Borðeyri. Tók ráðið undir sögu- og menningarlegt mikilvægi staðarins. Því næst var tekinn fyrir viðauki við fjárhagsáætlun vegna kaupa á þjónustubiftreið fyrir dagþjónustu eldri borgara og ferðaþjónustu fatlaðra en núverandi bifreið er komin á mikið viðhald sem ekki er skynsamlegt að ráðast í. Eins og ég hef fjallað um á þessum vettvandi áður þurfa öll frávik frá fjárhagsáætlun að færast á svokallaða viðauka til að ljóst sé hvaða áhrif viðbótarútgjöld hafa á rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins. Einnig var samþykkt geðheilsustefna fyrir starfsstöðvar sveitarfélagsins sem unnin er í samvinnu við Mental ráðgjöf. Verkefni sem staðið hefur yfir allt þetta ár. Stefnan verður birt á heimasíðu þegar sveitarstjórn hefur samþykkt hana. Að vinnudegi loknum fór ég í Jóga Nidra hjá Pálínu en við tókum upp á því að bjóða starfsfólki sveitarfélagsins upp á slíkan tíma einu sinni í viku þangað til í desember. Vil ég nota tækifærið hér til að hvetja starfsmenn til að nýta sér tímana.

Á þriðjudagsmorgni hófust leikar á fundi með skipulags- og byggingafulltrúa vegna ýmissa lóðamála. Því næst fékk sveitarstjórn kynningu á afar spennandi atvinnuuppbyggingarverkefni sem er í farvatninu og hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Vonandi verður hægt að skýra betur frá því innan fárra daga. Eftir hádegið sat ég fund ráðgefandi nefndar um rannsóknir í ferðaþjónustu en þar sit ég sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í lok dags fundaði ég með verkefnisstjóra stjórnsýslu-, atvinnu og kynningarmála til undirbúnings á umsóknum í Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra. Inn á milli þessara funda allra sinnti ég ýmsum verkefnum, svo sem fréttaskrifum á heimasíðu, samþykkt reikninga, starfsmannamálum, tölvupóstum o.m.fl.

Á miðvikudeginum byrjaði ég á því að skoða nokkur þingmál sem óskað hefur verið eftir umsögnum sveitarfélagsins um. Ég hef lagt á það mikla áherslu að skoða vel öll þau mál sem eru í meðförum þingsins með tilliti til hagsmuna sveitarfélagsins og það verður engin breyting á því í vetur þó tímafrekt sé. Um miðjan morgun átti ég ásamt Heiðu, verkefnisstjóra umhverfismála fund með Juan, listamanninum sem gerði listaverkið á vigtarskúrnum. Til stendur til að fá hann til að skreyta vegg við Brúarhvamm og er að hefjast hugmyndavinna vegna þess verkefnis. Við fengum styrk til þess úr styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Næst lá leið í Snældu heimaþjónustu sem staðsett er á sjúkrahúsinu til að vera viðstödd afhendingu félagsmálaráðs á samfélagsviðurkenningum. Þar hlutu fjórir einstaklingar viðurkenningu fyrir framlag sitt til samfélagsins.

Viðurkenningarhafar ásamt Gerði Rósu Sigurðardóttur formanni félagsmálaráðs, frá vinstri, Gerður Rósa, Kathrin Schmitt, Kristín Guðmundsdóttir, Ólöf Sigurbjartsdóttir og Sigurður Líndal.

Þvínæst fengum við kynningu á fráveitulausnum en fráveitan er verkefni sem þarf að fara að huga á úrbótum á. Nú eru komnar lausnir sem gera það verk einfaldara og viðráðanlegra kostnaðarlega séð. Aldrei slíku vant voru engir fundir boðaðir eftir hádegið á miðvikudeginum sem gaf kærkominn tíma til ýmissa verkefna við skrifborðið. Ég skoðaði m.a. úthlutun Umhverfis- og orkustofnunar á styrkjum úr jarðhitaleitarátaki stjórnvalda en hún var mikil vonbrigði. Sendum við inn 3 umsóknir sem ekki hlutu brautargengi. Var um að ræða dýpkun á borholu við Borðeyri, jarðhitaleit við Laugarvöll í Hrútafirði ásamt langingu hitaveitu suður Hrútafjörð. Eins og ég nefndi í færslu fyrir stuttu hefur vinna við það síðastnefnda verið nokkur undanfarin misseri. Kostnaður við þá lagningu er mikill og hefði styrkur til hennar skipt sköpum. Raunar var það svo að engin verkefni á Norðurlandi vestra hlutu styrk sem verð að teljast kaldar kveðjur inn í landshlutann.

Snemma dags á fimmtudeginum fór ég yfir Skagafjörð og sat þar fund á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræn mál. Þó við höfum verið að stíga stór skref í þá átt á undanförnum misserum er enn heilmargt sem hægt er að bæta. Þegar heim var komið tók við fimmti fundur sameiningarnefndar vegna hugsanlegrar sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Á þeim fundi bar undirbúning íbúafunda hæst en þeir verða auglýstir á allra næstu dögum. Á fundunum gefst fólki tækifæri til að setja fram sínar hugmyndir að fyrirkomulagi sameinaðs sveitarfélags ef til sameiningar kemur. Ég hvet fólk til að mæta og láta í sér heyra. Þátttaka íbúa í vinnu sem þessari skiptir sköpum. Útkoma þessara funda verður svo kynnt á öðrum fundi sem verður haldinn áður en til kosninga kemur. Það gefast því næg tækifæri á komandi vikum, bæði til að hafa áhrif á vinnuna og eins til að kynna sér málið svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. 

Föstudagurinn hófst eins og jafnan á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Því næst tók við undirbúningur landbúnaðarráðsfundar sem síðan var ákveðið að fresta þar sem fá mál lágu fyrir. Því næst fundaði ég með ráðgjafa sem ætlar að taka að sér að yfirfara og endurskoða hitaveitureglugerð sveitarfélagsins sem komin er til ára sinna og nauðsynlegt að yfirfara.

Þetta var það helsta sem á dagana dreif í vikunni. Eru þá ótalin ýmis reglubundin verkefni svo ekki sé minnst á fjárhagsáætlunarvinnu sem nú stendur sem hæst. Vinnan gengur vel en gert er ráð fyrir að fyrri umræða um áætlunina fari fram á fundi sveitarstjórnar í október og hin síðari í nóvember.

Ég leit við á skrifstofunni á laugardeginum til að hreinsa upp ýmis skrifborðsverkefni. Eitt þeirra var undirbúningur kynningar fyrir þingmenn kjördæmisins sem koma í heimsókn í vikunni í kjördæmaviku. Á þeim fundum er venja að fara yfir stöðu og horfur og ræða helstu áherslumál sveitarfélagsins.

Að öðru leyti var helgin mjög góð. Við fjölskyldan skelltum okkur á kántrý tónleika í Hörpu á föstudagskvöldinu og svo fór ég ásamt Birtu minni og eldri ömmustelpunni að sjá Línu Langsokk í þjóðleikhúsinu á sunnudeginum. Maður verður aldrei of gamall fyrir Línu. Helgin var því góð blanda vinnu og menningar.

Læt fylgja með í lokin mynd af framkvæmdum við raðhús á Lindarvegi.

Var efnið á síðunni hjálplegt?