1.–7. september 2025
Haustið er komið með sínum verkefnum og fjárragi. Enn ein annasöm og áhugaverð vika er að baki. Hér er stiklað á stóru um það sem á daga sveitarstjóra dreif síðustu vikuna.
Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs þar sem farið var yfir helstu verkefni sviðanna. Að því loknu tók við innanhússfundur þar sem rætt var um fjárhagsáætlun næsta árs og tölvumál. Við höfum stigið stór skref í stafrænu þróuninni á undanförnum misserum og erum hvergi nærri hætt. Markmiðið er að tryggja að við séum vel undirbúin fyrir sífellt flóknari verkefni og að stafrænar lausnir styðji sem best við þjónustu við íbúa. Dagurinn endaði á yfirferð starfsáætlana forstöðumanna í tengslum við fjárhagsáætlunargerðina. Hver forstöðumaður vinnur sína áætlun fyrir komandi ár með skýrum markmiðum og áherslum. Þessar áætlanir eru lagðar til grundvallar í fjárhagsáætlunargerðinni.
Þriðjudagurinn hófst á áframhaldandi yfirferð starfsáætlana forstöðumanna. Eftir það átti ég gagnlegt spjall við reynslubolta í sameiningarmálum sveitarfélaga. Slíkar samræður gefa dýrmæta innsýn í tækifæri og áskoranir sem felast í samstarfi og sameiningu. Seinni hluta dagsins heimsótti ég Reykjaskóla ásamt sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs og verkefnisstjóra umhverfismála. Þar fórum við yfir það sem unnið hefur verið við viðhald húsanna. Síðan UMFÍ tók við rekstrinum haustið 2022 hefur aðstaðan batnað til mikilla muna. Enn er þó mikið verk óunnið, en við höldum ótrauð áfram að bæta umhverfið og aðstöðuna fyrir nemendur alls staðar af landinu sem sækja búðirnar heim.
Miðvikudagurinn var helgaður fundum með forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Þar var farið yfir starfsáætlanir í samhengi við fjárhagsáætlunina. Með hverju árinu verða áætlanirnar markvissari og skýrari. Forstöðumenn skila þeim inn skriflega og framkvæmdaráð fer yfir þær áður en fundað er með hverjum og einum. Það var virkilega uppbyggilegt að ræða við okkar góða fólk um áherslur og framtíðarsýn sem móta þjónustu sveitarfélagsins dag frá degi og ég er alltaf jafn stolt af okkar fólki. Að þessari maraþon-fundatörn lokinni lá leiðin suður á fundi sem ég hafði verið boðuð á daginn eftir.
Fimmtudagurinn hófst á kynningarfundi um atvinnustefnu Íslands. Kristrún Frostadóttir flutti þar drífandi ávarp og ásamt henni sátu Hanna Katrín Friðriksson og Inga Sæland fyrir svörum. Það var bæði fróðlegt og hvetjandi að heyra sjónarmið þeirra og ræða framtíð atvinnumála á Íslandi. Seinni hluta dagsins tók ég þátt í vinnustofu á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra í Iðnó. Þar var farið yfir fjölmörg mikilvæg mál er tengjast velferð og húsnæðismálum. Ég gat miðlað reynslu sveitarfélagsins okkar og heyrt frá öðrum sveitarfélögum og hagsmunaaðilum. Á Hvammstanga hefur gengið afar vel að stuðla að uppbyggingu húsnæðis. Nú eru í byggingu 15 íbúðir í rað- og fjölbýlishúsum, auk a.m.k. tveggja einbýlishúsa. Þá hefur verið úthlutað lóðum á hverjum framkvæmdir eru ekki hafnar og áhugi er á fleiri lóðum. Allt bendir því til áframhaldandi uppbyggingar á næstunni.

Frá húsnæðismálafundi í Iðnó.
Á fimmtudeginum var svo opnuð upplýsingasíðan www.dalhun.is, þar sem saman eru dregnar upplýsingar um viðræður sveitarfélaganna um hugsanlega sameiningu. Ég hvet íbúa til að kynna sér efnið og mæta á fundi sem verða boðaðir fljótlega. Lokaákvörðunin um sameiningu er í höndum íbúa – því er mikilvægt að draga saman nauðsynlegar upplýsingar svo hver og einn geti tekið upplýsta ákvörðun.
Föstudagurinn hófst á vikulegum fundi með oddvita þar sem farið var yfir helstu mál sveitarfélagsins og forgangsröðun verkefna. Ég vann einnig að uppsetningu dagskrár fyrir næsta byggðarráðsfund og yfirfór minnisblöð og gögn fyrir fjárhagsáætlunarvinnuna. Fyrsti fundur aukins byggðarráðs vegna fjárhagsáætlunarvinnu verður í vikunni og því mikilvægt að undirbúningur sé vandaður og gögn tilbúin í tíma. Að auki nýtti ég tíma í dagbókarskrif, samþykkt reikninga, svörun tölvupósta og ýmislegt fleira. Ég skuldaði líka nokkur símtöl sem ég lauk við. Seinni hluti dagsins fór í ferð á Borðeyri þar sem ég hitti fulltrúa tónlistarhátíðarinnar Hátíðni. Þeir afhentu mér undirskriftarlista þar sem skorað er á sveitarfélagið og innviðaráðherra að ráðist verði í uppbyggingu á Borðeyri. Það var ánægjulegt að sjá hve margir gestir hátíðarinnar sýna staðnum hlýhug og vilja sjá hann dafna og eflast – sem ég skil vel. Ég er sjálf ein þeirra sem á sterkar taugar til Borðeyrar. Ég man enn eftir ferðum úr Laxárdal í kaupfélagið þar – og er nokkuð viss um að ég fékk einhvern tíma gúmmískó þaðan. Frumkvæðið sem gestir hátíðarinnar sýna með undirskriftarlistanum er dýrmætt og gefur sterka vísbendingu um bjarta framtíð Borðeyrar ef vel er haldið á málum.

Tekið við undirskriftalistanum frá fulltrúum Hátíðini í góðum félagsskap Riis kvenna.
Eins og sjá má var vikan fjölbreytt og gefandi. Samtöl við forstöðumenn, heimsóknir og fundir á landsvísu og mýmörg smærri verkefni minna á að verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru bæði stór og smá – en öll skipta þau máli fyrir samfélagið okkar. Ég er þakklát fyrir að fá að vinna með ykkur öllum að eflingu Húnaþings vestra – saman gerum við samfélagið okkar enn sterkara og betra.