„Og tíminn líður, hljóður og hraður.“
— Steinn Steinarr
Með þessum orðum fangar Steinn Steinarr kjarna þeirra tímamóta sem áramótin eru. Á mörkum ára gefst okkur tækifæri til að staldra við, líta um öxl og gera upp liðið ár – ár sem bar með sér bæði áskoranir og dýrmætan lærdóm. Tíminn líður áfram, hljótt og hratt, hvort sem við stöndum kyrr eða tökum skref fram á við, og því skiptir máli hvernig við nýtum augnablikið sem nú er.
Árið sem leið var viðburðarríkt í rekstri sveitarfélagsins. Það má glöggt sjá á stuttri samantekt sem tekin var saman á áramótum og birt á heimasíðu Húnaþings vestra eins og unfanfarin ár. Viðburðirnir voru ófáir og fjölbreytni í þeim málum sem sinnt var. Af framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins má nefna klæðningu Félagsheimilisins Hvammstanga, aðstöðuhús í Kirkjuhvammi sem reist var síðari hluta ársins, malbikunarframkvæmdir á Hvammstanga í meira magni en mörg undanfarin ár, hitaveituframkvæmdir, endurnýjun tveggja íbúða í Nestúni svo fátt eitt sé talið. Á Borðeyri var sett upp nýtt sturtuhús á tjaldsvæðið og fest voru kaup á nýju leiktæki á tjaldsvæðið á Laugarbakka. Einnig ákvað sveitarstjórn að ráðast í endurgerð á listaverkinu Þróun eftir Marínó Björnsson sem stóð á steyptum stólpa við Félagsheimilið Hvammstanga. Sú vinna er nú á lokametrunum og verkið verður afhjúpað að nýju í sumar. Settir voru upp þrír fjólubláir bekkir, á Hvammstanga, á gönguleið við Laugarbakka og á Borðeyri til að auka vitund um heilabilunarsjúkdóma, verkefni sem þeirri er þetta skrifar þykir einkar vænt um. Einnig var lögð áhersla á fegrun umhverfisins og má í því sambandi nefna listaverk á vegg við Brúarhvamm og verkið Veðurgluggann í fjörunni neðan við Selasetrið. Bæði verkin eftir listamanninn Juan Arctic. Ekki er þessi upptalning tæmandi og eins og gengur var eitthvað sem stóð út af borðinu. Til dæmis stóð til að ráðast í endurbætur á gangstéttum sem ekki náðist, ekki náðist að klára frágang eftir hitaveituframkvæmdir á Höfðabrautinni sem er afar miður og eitt og annað til viðbótar stóð út af borðinu af því sem áformað var. Það er nefnilega ekki nóg að setja háar fjárhæðir á fjárhagsáætlun í verkefni heldur þarf líka að vera til mannskapur til að vinna verkefnin. Til dæmis gekk ekki að fá verktaka í endurnýjun hitaveitulagna á Hvammstangabraut. Í einhverjum tilfellum reyndust verk svo umfangsmeiri en ætlað var eins og gengur. Þrátt fyrir allt voru framkvæmdir á síðasta ári þó margfalt meiri en árið þar á undan.
Við héldum áfram að vinna með hinar ýmsu stefnur og áætlanir og lögðum okkur fram um að setja slík mál í opið samráð meðal íbúa. Má þar nefna endurskoðun menntastefnu, þjónustustefnu og stefnu um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna auk árlegrar endurskoðunar á húsnæðisáætlun og jafnréttisáætlun. Ekki má gleyma samtalinu við Dalabyggð um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Samtal sem var í senn lærdómsríkt og krefjandi. Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að fara í formlegar viðræður til þess að gefa íbúum tækifæri til að taka endanlega ákvörðun en samkvæmt lögum lýkur formlegum viðræðum alltaf með íbúakosningu. Það er nefnilega ábyrgðarhluti að flauta slíkar hugmyndir út af borðinu án þess að gefa íbúum tækifæri til að segja sitt álit. Það gerðu íbúar með góðri þátttöku í kosningunni. Niðurstaðan er öllum kunn og var skýr og afdráttarlaus í báðum sveitarfélögum sem er vel. Mörgum fannst skoðanaskiptin í aðdraganda kosninga hörð. Það kann að vera en þau voru að mínu mati gagnleg. Það má ekki gleyma því að svo stórar breytingar þarf að ígrunda vel og þær þurfa gagnrýna umræðu. Sameiningarsamtalið var mikil vinna og var unnin ítarleg greining á báðum sveitarfélögunum. Sú vinna var afar gagnleg rýni á rekstur sveitarfélagsins sem mun nýtast í framtíðar verkefnum. Við höldum ótrauð fram veginn, reynslunni ríkari og vinnum áfram af krafti að uppbyggingu í sveitarfélaginu og eflingu þess.
Um áramót lítum við jafnframt gjarnan fram á veg. Framundan er nýtt ár, „óskráð blað í bókinni um manninn“ eins og Gunnar Dal orðaði það. Með reynslu liðinna ára að baki og sameiginlega framtíðarsýn að leiðarljósi höldum við áfram að vinna að öflugu og traustu samfélagi, þar sem kjarkmikil en ígrunduð ákvörðunartaka, mannleg nálgun og trú á eigin styrk skipta sköpum. Árið sem nýhafið er verður breytingaár. Sveitarstjórnarkosningar eru framundan og ný sveitarstjórn mun taka til starfa í upphafi sumars. Hvað verður að afloknum kosningum er ómögulegt að segja til um en ég veit þó að þau sem kjörin verða til að stýra sveitarfélaginu mun verða gott fólk sem mun leggja sig fram um að vinna okkur íbúum gagn. Þannig hefur það verið í okkar samfélagi og þannig mun það verða áfram.
Þrátt fyrir að sveitarstjórnarkosningar séu í nánd halda hjólin áfram að snúast í rekstri sveitarfélagsins. Við vinnum eftir nýsamþykktri fjárhagsáætlun þar sem áfram er gert ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum. Til stendur að klára aðstöðuhúsið í Kirkjuhvammi, halda áfram með framkvæmdir við Félagsheimilið, malbika meira á Hvammstanga og ráðast í stórfellda endurnýjun á leiksvæðinu við Grunnskólann með nýjum leiktækjum og aðstöðu sem stenst allar öryggiskröfur. Gengið verður frá Höfðabrautinni eftir veituframkvæmdir síðustu tveggja ára og áfram verður haldið við endurnýjun hitaveitulagna. Einnig stendur til að hefjast handa við að hefja fyrsta stigs hreinsun á skólpi, verkefni sem mun standa yfir í skrefum í nokkur ár. Einnig verður farið í að taka niður kanta á gangstéttum, gera stíg frá Lindarvegi niður að Kirkjuvegi o.m.fl.
Eins og flest vita þá er mikil húsnæðisuppbygging í gangi á Hvammstanga. Verið er að ljúka við 5 íbúða raðhús sem byggt er af einkaaðilum á Lindarvegi og í sumarbyrjun mun leigufélagið Brák fá íbúðir að Norðurbraut 15 afhentar til útleigu. Bygging beggja húsanna hefur gengið vel og þau risið á methraða. Enn eru fáanlegar nokkrar lóðir á Lindarvegi, Bakka- og Grundartúni ásamt 3 lóðum á Laugarbakka. Næsta uppbyggingarsvæði verður steypustöðvarreiturinn en þar er gert ráð fyrir 15 íbúðaeiningum í fjölbýlishúsum auk 8 íbúðaeininga í einbýlishúsum. Á árinu verður hafist handa við að hreinsa reitinn til að unnt verði að hefja framkvæmdir á honum. Þegar sá reitur er fullbyggður má gera ráð fyrir að Sætún og Ártún (norðan við Grundar- og Bakkatún) fari næst í uppbyggingu en þar er gert ráð fyrir allt að 30 íbúðaeiningum í einbýlis-, rað- eða parhúsum. Einnig er vert að nefna að vinna við gerð nýs aðalskipulags er að fara af stað og einboðið að í henni verði skipulögð ný íbúðahverfi á Hvammstanga, Laugarbakka og hugsanlega Borðeyri ef vilji stendur til þess. Ég vil hvetja íbúa til að taka virkan þátt í samtalinu sem mun fara fram í aðalsipulagsvinnunni á komandi mánuðum. Í því gildir það sama og jafnan, betur sjá augu en auga.
Þó uppsöfnuð húsnæðisþörf á Hvammstanga sé nokkur þá stendur hún ekki undir þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er á komandi árum. Hún er hins vegar mikilvægur undirbúningur undir aukin umsvif sem útlit er fyrir að felist í spennandi atvinnutækifærum sem eru í vinnslu. Má þar fyrst nefna áform um þararæktun norður af Heggstaðanesi en ef af því verkefni verður má gera ráð fyrir tugum starfa við vinnslu þarans. Útlit er fyrir umfangsmikla uppbyggingu í ferðaþjónustu og er hún raunar þegar komin af stað með byggingu kúluhúsa við Víðihlíð og uppbyggingu við Skrúðvang á Laugarbakka. Fleiri ferðaþjónustuverkefni eru í skipulagsferli og einnig eru fleiri spennandi atvinnuuppbyggingarverkefni önnur í farvatninu, mis stór en öll mikilvæg sem vonandi verður hægt að segja frá á komandi vikum og mánuðum. Atvinnu- og nýsköpunarsjóður styrkti á síðasta ári nokkur verkefni sem vert er að fylgjast með, Rabarbaron sem er að hefja rabarbararæktun í myrkri, Hret víngerð sem hyggur á framleiðslu á ávaxtavíni, Saunasetrið sem hóf starfsemi síðasliðið haust og hefur slegið í gegn, mótakerfið League Manager og selaskoðun í sýndarveruleika á Selasetrinu. Þegar allt er talið þá ætla ég að leyfa mér að segja að ekki hefur horft eins vel í atvinnumálum um langa hríð í sveitarfélaginu.
Það er óhætt að segja að það sé bjart framundan í Húnaþingi vestra. Við búum við auðlindir sem eru eftirsóttar, við erum vel staðsett miðsvæðis milli Reykjavíkur og Akureyrar á svæði sem er laust við jarðhræringar. Við búum vel að góðum innviðum, grunnskólinn okkar er glæsilegur, íþróttamiðstöðin til sóma, hér er fjölbreytt úrval þjónustufyrirtækja og veitingastaða. Síðast en ekki síst er hér gott fólk sem byggir samheldið og traust samfélag. Þegar allt þetta kemur saman verður til kraftur sem mikilvægt er að nýta til góðra verka. Tíminn nefnilega líður, hljóður og hraður eins og Steinn Steinarr sagði. Við verðum í sameiningu að grípa þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir núna með atorkunni og samheldninni sem löngum hefur einkennt samfélagið okkar. Samstaðan er okkar sterkasta vopn – því megum við aldrei gleyma.
Ég óska íbúum Húnaþings vestra gleðilegs nýs árs með hjartans þökkum fyrir árið sem er að líða. Takk fyrir traustið, samtölin, hvatninguna, brýningarnar og gagnrýnina. Ég ber þá ósk í brjósti að árið verði okkur öllum gjöfult í leik og starfi.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Blessuð nýárssólin var falleg á nýársdag. Mynd tekin af bakkkanum við Bakkatún á Hvammstanga.