26. febrúar 2024

Vikan 19.-25. febrúar

Mánudagurinn hófst á hefðbundnum fundi framkvæmdaráðs. Þar á eftir tók við undirbúningur byggðarráðsfundar sem fram fór eftir hádegið. Valur Freyr slökkviliðsstjóri kom inn á fundinn og fór yfir ársskýrslu Brunavarna Húnaþings vestra fyrir árið 2023. Á fundinum var meistaraflokksráði Kormáks Hvatar veitt heimild til að selja nafnarétt Hvammstangavallar til fjáröflunar fyrir starf meistaraflokks til eins árs. Þá var krafa óbyggðanefndar um eyjar og sker einnig lögð fyrir og sveitarstjóra falið að kalla landeigendur til fundar. Sá fundur hefur verið boðaður, sjá hér. Það er óhætt að segja að margt ef ekki flest í kröfunum sem fram eru lagðar veki undrun og því nauðsynlegt að kalla landeigendur saman til skrafs og ráðagerða. Mun Ólafur Björnsson lögmaður fara yfir hvaða gagna þarf að afla og einnig mun Bogi skipulagsfulltrúi vera til samtals. Á byggðarráðsfundinum var jafnframt bókað um afar ánægjulega styrkveitingu til sveitarfélagsins úr byggðaáætlun til kaupa á tækjum í tæknismiðju í anda Fab Lab smiðja. Nemur styrkfjárhæðin 10,5 milljónum. Sjá nánar hér.

Þriðjudagsmorguninn fór í námskeið sem haldið var fyrir forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og fram fór í Félagsheimilinu. Viðfangsefnið var endurgjöf til starfsmanna, bæði hvatning og leiðbeinandi endurgjöf. Fengum við mannauðsrágjafa hjá Attentus til að fara yfir þetta mikilvæga viðfangsefni sem alltaf er hægt að bæta sig. Afar ánægjulegur morgun með okkar flotta forstöðumannahópi.

Hópurinn á námskeiði í suðursalnum í Félagsheimilinu.

Eftir hádegið á þriðjudeginum sinnti ég ýmsum verkefnum við skrifborðið og átti auk þess fund með ráðgjafa sambandsins í úrgangsmálum um verkefnið Borgað þegar hent er. Góður og gagnlegur fundur sem varð upptaktur að fundi með Terra daginn eftir.

Miðvikudagurinn var óvenju mikill fundadagur. Fyrst sat ég áhugaverðan fund á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um ráðstöfun dýraleifa sem hefur verið vandamál um nokkurt skeið. Áhöld eru uppi um hver ber ábyrgð á förgun dýraleifa en nokkuð skýrt er í reglugerð málaflokksins að sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á förgun þessa úrgangsflokks. Það var því ánægjulegt að sjá að vinna er að fara af stað á vegum tveggja ráðuneyta við útfærslu á samræmdu söfnunarkerfi dýraleifa. Sjá hér. Það er ljóst að við munum ekki ná árangri í þessum hluta úrgangsmála nema með kerfi sem nær yfir stærra svæði en einstaka sveitarfélög því framkvæmdin við þetta er eitt, kostnaðurinn er annað og er ansi mikill sem leggst á bændur. Því er til mikils að vinna að ná fram hagkvæmni í þessum málaflokki. Í þessu samhengi vil ég benda á afar upplýsandi minnisblað unnu af Stefáni Gíslasyni um málið.

Því næst tók við fundur með Landsneti þar sem farið var yfir niðurstöðu vinnustofu sem haldin var með sveitarstjórnarfólki seinni hluta síðasta árs um kosti og galla valkosta vegna lagningar Holtavörðuheiðarlínu 3 sem liggja á frá Holtavörðuheiði að Blöndu. Að honum loknum tók við stjórnarfundur Íslandsstofu. Þvínæst fórum við, Björn rekstrarstjóri og Þorbergur leiðtogi veitna í Meleyri og fengum kynningu á endurnýjun tækja sem þar á sér stað. Heljarinnar framkvæmd sem gaman var að fá smá innsýn í. Þar á eftir fundaði ég ásamt oddvita, formanni byggðarráðs og oddvita minnihluta sveitarstjórnar með forsvarsmönnum Terra vegna niðurstöðu sorpsútboðs. Mikil vinna hefur farið í að finna hagkvæmustu leiðir til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til okkar með lagasetningu sem tók gildi á síðasta ári. Kröurnar gera það að verkum að kostnaður við sorphirðu og förgun í dreifbýlli sveitarfélögum rýkur upp úr öllu valdi. Það er ótækt og því erum við að velta við öllum steinum til að finna lausnir. Miklar hækkanir til viðbótar við þær sem komu til vegna laganna þess efnis um að sveitarfélögum sé óheimilt að greiða með málaflokknum eru bara hreinlega ekki í boði. Að vinnudegi loknum fór ég svo á Rótarýfund en ég er meðlimur í e-Rótarý klúbbi sem hittist hálfsmánaðarlega á Zoom. Rótarý er afar gefandi starf sem gengur út á tengsl og fræðslu. Á þessum fundi fengum við fræðslu um starfsemi Heilaheilla sem var afar upplýsandi. Þau sem eru áhugasöm um starf Rótarýklúbbsins geta kynnt sér það hér eða haft samband við mig.

Á fimmtudeginum hélt ég svo áfram verkefni mínu starfsmaður í þjálfun í stofnunum sveitarfélagsins. Ég leit við á Slökkvistöðinni og fékk kynningu á helstu tækjum liðsins og aðstöðunni. Valur slökkviliðsstjóri tók vel á móti mér. Ég mun svo líta við á næstu æfingu liðsins til að kynnast starfinu betur. Að heimsókninni í slökvistöðina lokinni settist ég við skrifborðið og sinnti ýmsum málum. Svo sem skipulagningu fundar um kröfu óbyggðanefndar, skipulagningar heimsóknar mennta- og barnamálaráðherra og nokkurra þingmanna framsóknarflokssins sem fyrirhuguð er í vikunni, samskiptum við lögmann sveitarfélagsins. Við byrjuðum einnig að huga að skipulagningu á hátíðarhöldum á sumardaginn fyrsta og eitt og annað.

Á föstudeginum leit formaður byggðarráðs við til hefðbundins föstudagsfundar. Ekkert aðkallandi lá fyrir byggðarráðsfundi svo við frestuðum honum og sendi ég tilkynningu út þar um. Því næst fór ég ásamt Ólöfu verkefnisstjóra umhverfismála á Borðeyri þar sem við funduðum í Riis húsi með Ingu á Kollsá. Fórum við yfir verkefnið um verndarsvæði í byggð, sjóvarnir á Borðeyrartanganum og málefni tjaldsvæðisins í undirbúningi að samningi um rekstur þess á komandi sumri. Við Ólöf náðum svo að versla smávegis á nytjamarkaðnum hjá hollvinafélagi Riishúss sem var óvænt ánægja. Eftir hádegið hélt ég svo á Bessastaði þar sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom í heimsókn. Fengu þau kynningu frá Guðnýju og formanni byggðarráðs og svo gafst færi á spjalli við þingmenn. Náði ég að fara yfir nokkur mál með nokkrum þeirra og bóka fundi með öðrum. Hagsmunagæsla er eitt mikilvægasta verkefni sveitarstjóra og þar leika þingmenn lykilhlutverk. Vegamál, orkumál, löggæslumál og auðvitað óbyggðanefndin voru m.a. mál sem bar á góma. Málefni hitaveitu sömuleiðis ásamt fleiru.

Þett var vikan í hnotskurn. Þessu til viðbótar þá fá starfsmannamál alltaf tíma dag hvern, fjármálin sömuleiðis svo sem samþykktir reikninga, samskipti við íbúa hvot sem eru símtöl eða erindi bréfleiðis o.s.frv.

Það er ekki úr vegi að láta fallega mynd sem ég tók á Borðeyri í sumar fylgja með í lokin. Síðan hún var tekin er búið að mála Riis húsið í dekkri grænum lit. Það er til fyrirmyndar hvað félagið sem heldur utan um endurbygginguna á húsinu sinnir því af mikilli natni.

Var efnið á síðunni hjálplegt?