Húnaþing vestra

Sveitarfélagið Húnaþing vestra er grösugt og blómlegt hérað með fagra strandlengju og víð heiðarlönd. Það nær í suðri frá miðri Holtavörðuheiði og Arnarvatni norður Strandir að Stikuhálsi og út á Vatnsnestá og að Gljúfurá í austri sem skilur sveitarfélagið frá Austur-Húnavatnssýslu.

Sveitarfélagið var stofnað árið 1998 við sameiningu hinna sjö gömlu hreppa Vestur-Húnavatnssýslu og árið 2012 stækkaði það með sameiningu þess við fyrrum Bæjarhrepp í Strandasýslu. Íbúar 1. janúar 2017  voru 1178. Með víðlend heiðarlönd og Vatnsnesið er svæðið eitt gjöfulasta sauðfjárræktarsvæði landsins og er landbúnaður ein helsta meginstoð atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu. Stærsti þéttbýlisstaðurinn er Hvammstangi þar sem er að finna fjölbreytta þjónustu og atvinnustarfsemi.

Húnaþing vestra er staðsett miðsvæðis á milli Reykjavíkur og Akureyrar og liggur þjóðvegurinn í gegnum héraðið og því eru samgöngur og flutningsleiðir mjög greiðar.

Héraðið er ríkt af jarðvarma. Hitaveita er á Borðeyri, Reykjaskóla og Laugarbakka sem veitir heitu vatni á þessa staði og til Hvammstanga og nágrennis. Sundlaugar eru á Reykjaskóla og á Hvammstanga og á Laugarbakka var gamalli sundlaug breytt í heita potta sem eru nýttir fyrir ferðaþjónustu á staðnum. Víða í sveitarfélaginu er að finna heitt vatn og hveri og má þar nefna Skarðshver á Vatnsnesi, uppsprettu í landi Sigríðarstaða, heitan hver í Hveraborg í Hrútafirði. Þá er unnið að uppsetningu náttúrulaugar á Borðeyri. 

Húnaþing vestra er fjölskylduvænt samfélag með hátt þjónustustig og metnaðarfullt leik- og grunnskólastig rekið undir slagorðinu Góður skóli – Gjöful framtíð. Leikskólinn Ásgarður á Hvammstanga er þriggja deilda leikskóli og í Grunnskóla Húnaþings vestra er kennt á tveimur kennslustöðum á Hvammstanga og Borðeyri. Tónlistarskóli Vestur Húnavatnssýslu býður upp á fölbreytt tónlistarnám fyrir alla aldurshópa. Í boði eru aksturs- og tómstundastyrkir fyrir barnafólk. Margvíslega opinbera þjónustu er að finna í sveitarfélaginu svo sem öfluga heilsugæslu, lyfsölu, tannlæknaþjónustu, öldrunarheimili og þjónustuíbúðir. Á Hvammstanga er einnig aðsetur Fæðingarorlofssjóðs, auk þess sem starfsmaður Vinnumálstofnunar þjónustar íbúa part úr viku.

Í Húnaþingi vestra er mikið framboð af tómstunda- og íþróttastarfi þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sem dæmi má nefna leikfélög, fjölda kóra og sönghópa, ungmennafélög, kvenfélög, ýmis líknarfélög, björgunarsveit, spilaklúbba og hestamannafélag og kvæðamannafélag

Í héraðinu er einnig mikið um handverks- og listafólk sem flest selur afurðir sínar í Verslunarminjasafninu Bardúsu á Hvammstanga og Langafiti á Laugarbakka ásamt því að Leirhús Grétu býður upp á vandaðar leirvörur.

Þéttbýliskjarnar eru þrír í sveitarfélaginu. Hvammstangi, Laugarbakki og Borðeyri. Hvammstangi er stærstur þeirra með ríflega 550 íbúa og þar er að finna alla helstu þjónustu og atvinnustarfsemi héraðsins. Á Laugarbakka er hitaveita fyrir Laugarbakka, Hvammstanga, Miðfjörð og Víðidal og er þar einnig 56 herbergja þriggja stjörnu hótel. Borðeyri er einn af minni þéttbýliskjörnum landsins. Þar er m.a. að finna skóla  verkstæði og verið byggð upp ferðaþjónusta á síðustu árum. 

 

Verið velkomin í
Húnaþing vestra!

Var efnið á síðunni hjálplegt?