Húnaþing vestra

Sveitarfélagið Húnaþing vestra er blómlegt hérað með fagra strandlengju og víð heiðarlönd. Það nær í suðri frá miðri Holtavörðuheiði og Arnarvatni norður Strandir að Stikuhálsi og að Gljúfurá í austri sem skilur sveitarfélagið frá Austur-Húnavatnssýslu.

Sveitarfélagið var stofnað árið 1998 við sameiningu hinna sjö gömlu hreppa Vestur-Húnavatnssýslu og árið 2012 stækkaði það með sameiningu þess við fyrrum Bæjarhrepp í Strandasýslu. Íbúar 1. febrúar voru 1251. Með víðlend heiðarlönd og Vatnsnesið er svæðið eitt gjöfulasta sauðfjárræktarsvæði landsins og er landbúnaður ein helsta meginstoð atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu. Stærsti þéttbýlisstaðurinn er Hvammstangi þar sem er að finna fjölbreytta þjónustu og atvinnustarfsemi.

Húnaþing vestra er staðsett miðsvæðis á milli Reykjavíkur og Akureyrar, þjóðvegurinn liggur í gegnum héraðið og því samgöngur og flutningsleiðir mjög greiðar.

Sveitarfélagið er ríkt af jarðvarma. Hitaveita er á Borðeyri, Reykjaskóla og á Laugarbakka sem veitir heitu vatni víða. Sundlaugar eru á Reykjaskóla og á Hvammstanga, og á Laugarbakka eru heitir pottar byggðir yfir þar sem áður var gömul sundlaug. Víða í sveitarfélaginu er að finna heitt vatn og hveri og má þar nefna Skarðshver á Vatnsnesi, uppsprettu í landi Sigríðarstaða og heitan hver í Hveraborg í Hrútafirði. 

Húnaþing vestra er fjölskylduvænt samfélag með hátt þjónustustig og metnaðarfullt leik- og grunnskólastig rekið undir slagorðinu Góður skóli – Gjöful framtíð. Leikskólinn Ásgarður á Hvammstanga er þriggja deilda leikskóli og unnið er að undirbúningi stækkun skólahúss Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga. Tónlistarskóli Vestur Húnavatnssýslu býður upp á fölbreytt tónlistarnám fyrir alla aldurshópa. Í boði eru aksturs- og tómstundastyrkir fyrir barnafólk. Margvíslega opinbera þjónustu er að finna í sveitarfélaginu svo sem öfluga heilsugæslu, lyfsölu, tannlæknaþjónustu, öldrunarheimili og þjónustuíbúðir. Á Hvammstanga er einnig aðsetur Fæðingarorlofssjóðs, auk þess sem starfsmaður Vinnumálstofnunar þjónustar íbúa part úr viku.

Í Húnaþingi vestra er mikið framboð af tómstunda- og íþróttastarfi þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sem dæmi má nefna leikfélög, fjölda kóra og sönghópa, ungmennafélög, kvenfélög, ýmis líknarfélög, björgunarsveit, spilaklúbba, hestamannafélag og kvæðamannafélag.

Í sveitarfélaginu er einnig mikið um handverks- og listafólk, margir selja sínar vörur í Verslunarminjasafninu Bardúsu á Hvammstanga og Langafiti á Laugarbakka ásamt því að í Leirhúsi Grétu er vinnustofa og búð þar sem seldar eru vandaðar leirvörur.

Þéttbýliskjarnar eru þrír í sveitarfélaginu. Hvammstangi, Laugarbakki og Borðeyri. Hvammstangi er stærstur þeirra með ríflega 550 íbúa og þar er að finna alla helstu þjónustu og atvinnustarfsemi héraðsins. Um helmingur íbúa sveitarfélagsins býr í dreifbýli og er landbúnaður ein helsta meginstoð atvinnuuppbyggingar sveitarfélagsins. Húnaþing vestra er eitt gjöfulasta sauðfjárræktarsvæði landsins, með mikil heiðar- og fjalllendi. Kúabúskapur er einnig öflugur á svæðinu og margir að taka þátt í þeirri miklu tækniþróun sem orðið hefur í aðbúnaði fyrir nautgripi og mjólkurkýr. Húnaþing vestra er einnig mikið hestasvæði, hér eru glæsileg ræktunarbú og margir félagsmenn í Hestamannafélaginu Þyt. Einnig eru vinsælar hjá ferðamönnum hestaferðir um sveitina og upp um heiðarlöndin. Stóð bænda ganga svo mörg upp á heiðar yfir sumartímann og eru stóðréttir ómissandi atburður fyrir marga.

Verið velkomin í
Húnaþing vestra!

Var efnið á síðunni hjálplegt?