22. maí 2023

Einn ein vikan liðin. Manni finnst nú að sumarið eigi að vera farið að sýna sig en það hlýtur að koma á endanum. Mánudagurinn hófst með hefðbundnum hætti á fundi framkvæmdaráðs. Að honum loknum hóf ég undirbúning kynningar sem ég hafði tekið að mér á aðalfundi Markaðsstofu Norðurlands sem haldinn var á þriðjudeginum. Fram að byggðarráðsfundi sinnti ég hinu og þessu, fréttaskrifum fyrir heimasíðu, samþykkt reikninga o.fl.

Byggðarráð fundaði svo eins og jafnan eftir hádegið. Þar kenndi ýmissa grasa. Erindi frá Vinum íslenskrar náttúru (sem hafa skemmtilega skammstöfun – VÍN), lóðaúthlutun, ársskýrsla Félags eldri borgara, tvö erindi frá Húsfélaginu Höfðabraut 6, erindi frá Pílufélaginu um framlenginu á leigusamningi í Félagsheimilinu, erindi frá SSNV vegna ungmennaþings. Einnig lagði sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fram milliuppgjör fyrsta ársfjórðungs þar sem fram kom að rekstur er almennt samkvæmt áætlun. Fundargerð byggðarráðs er hér.

Í lok dags fór ég á vortónleika tónlistarskólans sem haldnir voru í sal Grunnskólans. Nýstofnaður barnakór tónlistarskólans söng og nokkrir nemendur léku á hljóðfæri. Mikið sem ég verð alltaf montin af unga fólkinu okkar þegar ég fer á tónleika sem þessa. Ég þreytist seint á því að tala um mikilvægi tónlistarnáms og er stolt af því að þeir sem eftir því sækjast fá tækifæri til þess á mjög hagstæðu verði hér í sveitarfélaginu. Ég þakka starfsfólki tónlistarskólans fyrir vel unnin störf í vetur.

Þriðjudagurinn hófst á mánaðarlegum fundi með stjórnendum stofnana sveitarfélagsins. Þar fórum við yfir það sem efst er á baugi á hverjum stað, ég fór yfir helstu mál síðasta sveitarstjórnarfundar og hópurinn miðlaði upplýsingum sín á milli. Gagnlegur fundur eins og alltaf. Að honum loknum hélt ég áfram með undirbúningu kynningar á aðalfundi Markaðsstofunnar sem var haldinn eftir hádegið á Hótel Laugarbakka. Auk þess að halda kynningu á samspili sveitarfélaga og ferðaþjónstunnar stýrði ég fundi. Ég vil vekja sérstaka athygli á Áfangastaðaáætlun Norðurlands þar sem áherslur eru markaðar, m.a. varðandi uppbyggingu ferðamannastaða. Áhugaverð lesning sem er að finna hér.

Þó það hafi nú ekki tengst vinnunni langar mig að nefna fyrirlestur með Siggu Dögg kynfræðingi sem var haldinn fyrir foreldra eftir vinnu á þriðjudeginum. Auk þess að vera mjög áhugaverður var gaman að heyra að fyrirlesturinn var haldinn að frumkvæði nemenda á unglingastigi. Daginn eftir var Sigga Dögg svo með fræðslu fyrir krakkana. Virkilega gott og þarft framtak hjá krökkunum og ekki síður hjá skólastjórnendum að bregðast vel við ósk þeirra.

Miðvikudagsmorgun lagði ég svo land undir fót með Kalla oddvita og Magnúsi formanni byggðarráðs. Áttum við bókaða fundi með matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráherra í Reykjavík. Umræðuefni beggja funda voru eftirmálar riðutilfellanna sem upp komu í Miðfirði á dögunum. Fórum við yfir málin eins og þau blasa við okkur og lögðum áherslu á að við myndum öll læra af þessum tilfellum svo við, eða nokkrir aðrir, lendum ekki í sömu aðstæðum aftur. Báðir ráðherrar tóku vel á móti okkur og sýndu máli okkar fullan skilning. Ég vona að sá lærdómur sem við tökum frá þessu verði okkur og öðrum til gagns. Fyrst og fremst vona ég þó að svona tilfelli eigi ekki eftir að koma upp aftur.

Þorleifur Karl oddviti, undirrituð, Magnús formaður byggðarráðs, Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Stefán ráðuneytisstjóri.

Föstudagurinn var stuttur dagur, aldrei slíku vant. Hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Mikilvægir fundir eins og ég hef oft komið inn á til að leggja línur og miðla upplýsingum. Ég er afskaplega þakklát fyrir það góða samstarf sem ég á við þá og sveitarstjórnina í heild. Það er gott að vinna með góðu fólki.

Að þeim fund loknum undirbjó ég fund byggðarráðs sem á dagskrá var á komandi mánudegi, sendi út fundarboð, undirbjó komu nýs starfsmanns, verkefnisstjóra umhverfismála og sinnti hinu og þessu við skrifborðið áður en ég fór í snemmbúið en kærkomið helgarfrí. Óvenju stutt en engu að síður snörp vika.

Var efnið á síðunni hjálplegt?