11. apríl 2023

Það er óhætt að segja að þessu dagbókarfærsla sé skrifuð með trega vegna riðutilfellisins sem kom upp í Miðfjarðarhólfi í upphafi síðustu viku. Hugur okkar allra er hjá Ara, Ellu og börnum þeirra á Bergsstöðum. Þeirra bú er eitt af bestu búum landsins leyfi ég mér að fullyrða og sárt að sjá 25 ára ræktun sem þau hafa unnið svo ötullega að verða fyrir þessum hörmungum. Það sem verst er í þessu öllu saman er að þrátt fyrir áratuga baráttu við riðuna er líkt og við séum á byrjunarreit varðandi orsakir og smitleiðir. Afar brýnt er að kraftur verði settur í rannsóknir á þeim verndandi arfgerðum sem verið hafa í umræðu síðustu misseri. Einnig er brýnt að sauðfjárveikivarnarlínum verði sinnt almennilega en á því hefur verið mikill misbrestur í langan tíma. 

Þó ýmsar ráðstafanir vegna riðunnar hafi verið áberandi í verkefnum vikunnar var þó ýmislegt annað sem fékk athygli sveitarstjóra. Á mánudagsmorgni fundaði ég með formanni Ferðamálafélagsins á svæðinu um málefni tengd ferðaþjónustunni. Þar á eftir fundaði ég með aðilum sem hyggjast hefja skógrækt í sveitarfélaginu. Eftir hádegið fundaði byggðarráð. Þar voru teknar fyrir tvær lóðaumsóknir. Annars vegnar lóðin Höfðabraut 36 þar sem reisa á iðnaðarhúsnæði og hins vegar Lindarvegur 16 þar sem á að reisa einbýlishús. Það er ánægjulegt að húsbyggingar halda áfram í svipuðum takti og verið hefur undanfarin ár. Auk þess var niðurstaða útboða á akstri með eldri borgara og skólaakstur bókuð og einnig tilboð í lagnaefni vegna vatnslagnar frá Hvammstanga að Laugarbakka. Ráðið samþykkti að taka tilboði Set ehf. í 160 mm lögn sem mun geta þjónað Laugarbakka mjög vel á komandi áratugum. Fundargerð fundar byggðarráðs er hér.

Á þriðjudagsmorgun undirbjó ég fundargerðir veituráðs og landbúnaðarráðs. Auk þess að hefjast handa við að undirbúa fundarboð á fund byggðarráðs þriðjudaginn eftir páska. Þar eru á dagskrá umsagnir um þingmál sem þurfti að skoða. Slíkt yfirferð er alltaf nokkuð tímafrek þar sem athuga þarf vel hvort gengið sé á hagsmuni sveitarfélagsins. Eftir hádegi fór ég svo ásamt Sigríði Ólafsdóttur formanni landbúnaðarráðs á Laugarbakka þar sem við hittum fyrir fréttamann RÚV og ræddum riðutilfellið. Viðtalið var birt í kvöldfréttum sama dag. Veitráðsfundurinn fór svo fram í lok dags. Þar voru samþykktar reglur um úthlun eftirstöðva fjármagns til lagningar ljósleiðara í drefibýli. Reglurnar byggja á þeim reglum sem gengið var út frá í átakinu Ísland ljóstengt. Var þeim vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar. Fundargerð fundar veituráðs er hér. Á þriðjudaginn fór svo í loftið frétt um skráningar í vinnuskólann á komandi sumri. Ég hvet forráðamenn að skrá börn sín sem fyrst.

Formaður landbúnaðarráðs í sjónvarpsviðtali.

Miðvikudagsmorguninn hófst á undirbúningi fundar landbúnaðarráðs. Þar á eftir fundaði ég ásamt rekstrarstjóra með forsvarsmönnum Skólabúðanna á Reykjum vegna framkvæmdaáætlunar ársins um viðhald á húseignum. Gerð var þriggja ára áætlun á síðasta ári sem felur í sér miklar framkvæmdir. Hluta þeirra var lokið við í fyrra, að megninum til síðasta sumar en líka í jólafríinu. Er ásýnd húsanna orðin allt önnur við það og áfram verður haldið í ár og næsta ár. Í hádeginu átti ég stutt spjall við fréttamann RÚV um gjafir til nýfæddra íbúa sveitarfélagsins sem við kynntum fyrr í vikunni. Sjá hér. Fréttin mun birtast á vef RÚV næstu daga. Með gjöfinni vill sveitarfélagið undirstrika áherslu okkar á það fjölskylduvæna samfélag sem hér er.

Gjöf til nýfæddra íbúa.

Eftir hádegi á miðvikudeginum fundaði Landbúnaðarráð. Þar var fjallað um svæðaskiptingu grenjavinnslu, minkaveiði og fjallskil. Eðlilega var fjallað um riðutilfellið og bókaði ráðið áskorun til stjórnvalda. Fundargerðin er hér. Eftir fund landbúnaðarráðs tók ég eitt starfsviðtal og fundaði svo með aðila sem hefur hug á því að setja upp íþróttaviðburð á svæðinu. Vonandi verður eitthvað af þeim áformum og hægt að segja frá þeim fljótlega.

Þó miðvikudagurinn hafi verið hálfgerður föstudagur kíkti ég þó aðeins á skrifstofuna á fimmtudeginum. Ég náði að hreinsa aðeins til á verkefnalistanum og skoðaði ráðningamál en ráðning skólastjóra og verkefnisstjóra umhverfismála eru í fullum gangi. Ég tók líka saman yfirlit yfir það sem var á dagskrá í sveitarfélaginu yfir páskana og birti á facebooksíðu sveitarfélagsins. Vona að það hafi komið einhverjum að góðum notum.

Ég fór auðvitað á sýningu leikflokksins og var eins og aðrir stórhrifin. Mikið sem við eigum hæfileikaríkt fólk. Ég varð pínu meyr við að upplifa þetta og fylltist enn og aftur miklu stolti af samfélaginu okkar. Það var sama hvar bar niður – öll sýningin og umgjörð hennar var til fyrirmyndar, leikmynd, hljóðmynd, leikur, dans, söngur, lýsing, búningar, förðun o.s.frv. Ég vil þakka öllum þeim sem að sýningunni komu kærlega fyrir alla vinnuna sem þau lögðu í þetta verkefni til að skemmta okkur hinum. Þið eruð frábær. Sýningin fékk flotta umfjöllun í Landanum á RÚV páskadag. 

Á föstudaginn langa hóf ég lestur Passíusálma í Hvammstangakirkju. Hátíðleg og nærandi stund. Eftir lesturinn fór ég á bingó í Víðihlíð. Þar var troðfullt hús og góð stemming. Ekki fengum við mæðgin bingó en Guðni minn var einni tölu frá því að fá aðalvinninginn. Svona er þetta stundum. Að morgni annars í páskum var svo reið- og hestafimleikasýning í Þytsheimum. Þar sýndu ungir knapar listir sínar, annar hópurinn í að stökkva yfir hindarnir á hesti og hinn í munsturreið. Hestafimleikakrakkarnir sýndu þar á eftir listir sínar. Hestafimleikahópurinn hennar Kathrinar leyfi ég mér að segja er einstakur á landsvísu og metnaður hennar, Katrinar og Villu einstakur. Um páskana var þýskur keppnishópur í hestafimleikum í heimsókn sem krakkarnir fengu tækfæri til að æfa og sýna með. Æfingar fyrir sýninguna voru stífar yfir páskana enda afraksturinn frábær. Takk þið öll sem komuð að sýningunni fyrir ykkar ötulu störf.

Eins og sjá má hér að framan var nóg að gera um páskana. Menning, íþróttir og auðvitað samvera með fjölskyldunni. Allt þetta framboð af uppákomum fyllir mig stolti af samfélaginu okkar enn og aftur. Hér býr öflugt fólk sem leggur mikið á sig til að skapa hér einstakan samfélagsblæ. Takk öll fyrir það.

Til að toppa ánægjulega páskahelgi kom áburðarskipið með vorið með sér að morgni annars í páskum. Vorið er þá hér með komið.

Vorboðinn ljúfi.

Var efnið á síðunni hjálplegt?