6. október 2025

1. september – 5. október

Annasöm vika er að baki. Viðvera í Ráðhúsi var með allra minnsta móti vegna Fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og funda sem skipulagðir voru í tengslum við hana.

Vikan hófst samt eins og vant er á fundi framkvæmdaráðs á mánudagsmorgni. Að honum loknum tóku við dagbókarskrif og í framhaldinu undirbúningur heimsóknar þingmanna kjördæmisins sem var á dagskrá daginn eftir sem og undirbúningur funda síðar í vikunni. Einnig hreinsaði ég upp gamlar syndir í tölvupóstinum, samþykkti reikninga o.fl.

Á þriðjudeginum komu þingmenn svo í heimsókn í kjördæmaviku. Sveitarstjórn átti með þeim rúmlega klukkutíma samtal um það helsta sem á okkur brennur og er á döfinni í sveitarfélaginu. Ég fór í gegnum kynninguna sem ég undirbjó deginum áður og að henni lokinni tók við almennt spjall. Í kynningum sem þessum byrja ég yfirleitt á að fara yfir íbúafjölda og í framhaldinu útsvar pr. íbúa sem því miður er með lægsta móti á landinu hjá okkur. Ég fer svo yfir niðurstöðu íbúakönnunar og þá þætti sem bæði eru okkur hagfelld en líka þau sem má laga. Þvínæst fer ég yfir þróun í húsbyggingum í sveitarfélaginu sem hefur aldeilis tekið kipp enda hefur sveitarstjórn lagt á það áherslu að bæta úr húsnæðisskorti. Að þessari almennu kynningu lokinni eru áherslumál rædd, samgöngur, raforkumál, atvinnumál o.s.frv. Í atvinnumálunum er óvenju mikið að gerast. T.d. er fyrirhuguð bygging 15 kúluhúsa við Víðihlíð á vegum fyrirtækisins Aurora Igloo og í vikunni hófust vinna við undirbúning tilraunaræktunar á þara í svokölluðum þaragarði norður af Heggstaðanesi á vegum Sjótækni. Ef allt gengur að óskum mun verkefnið skila fjölda starfa á komandi árum. Fleiri uppbyggingarverkefni eru í farvatninu tengd ferðaþjónustu og svo er enn unnið að Skógarplöntuverkefninu. Fyrirtækið Framhugsun er að prófa sig áfram með ræktun á hægsprottnum rabarbara, Fyrirtækið Hret vígerð er að hefja framleiðslu á víni úr rabarbara, stórfelld uppbygging er hafin í Skrúðvangi á Laugarbakka. Þessi upptalning er ekki tæmandi og nokkur verkefni til viðbótar eru á viðræðustigi. Það er því óhætt að segja að heilmargt sé í farvatninu í atvinnumálunum.

Ég vil vekja sérstaka athylgi á kynningarfundi sem Sjótækni stendur fyrir í Félagsheimilinu Hvammstanga 9. október kl. 18-20. Ég hvet öll til að koma á fundinn og kynna sér þetta áhugaverða verkefni frekar.

Þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar við Ráðhúsið.

Eftir vinnu á þriðjudeginum lá leið suður til Reykjavíkur. Á miðvikudagsmorgun vann ég skrifborðsvinnu, t.d. skrif á minnisblaði fyrir innviðaráðherra og þingmenn kjördæmisins vegna hugsanlegrar sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar en með þeim áttum við bókaða fundi á fimmtudeginum. Eftir hádegið tóku svo við fundir sveitarstjórnar með Vegagerðinni og þar á eftir með forsvarsmönnum RARIK. Við höfum haft þá venju að sækja þau heim daginn fyrir fjármálaráðstefnu til að fara yfir helstu áherslumál. Hjá Vegagerðinni voru það samgöngumálin, Hafnarmál og almenningssamgöngur sem fengu mesta athygli. Vegamál í breiðu samhengi í sveitarfélaginu og nauðsynlegar hafnarbætur sem verða enn brýnni þegar þaraverkefnið fer á fullt (ekki ef heldur þegar). Fréttir bárust fyrir nokkru um fækkun ferða leiðar 57 og komum við til fundar tilbúin til að mótmæla harðlega. Eftir yfirferð með sérfræðingum Vegagerðarinnar í almenningssamgöngum vorum við þó öllu rólegri enda augljóst að mikil vinna hafði verið lögð í að greina notkun á leiðinni. Ný áætlun mun henta skólafólkinu okkar á Sauðárkróki og Akureyri mun bætur, bæði á leið heim í helgarfrí og aftur á leið í skólann. Þessi hópur er stærsti hópur íbúa okkar sem nýta almenningssamgöngurnar og augljóst að tillit hafði verið tekið til þarfa þeirra í vinnunni.

Á fundinum með RARIK ræddum við bæði afhendingargetu og afhendingaröryggi. Nú styttist í að síðustu leggir jarðstrengjalagna verði spennusettir og er það mikill áfangi. Búið er að endurnýja búnað á línunni úr Hrútatungu verulega sem vonandi mun skila auknu öryggi. Óhöpp geta hins vegar alltaf átt sér stað eins og á þriðjudeginum þegar strengur slitnaði við jarðvinnu sem orsakaði rafmagnsleysi á Vatnsnesi. Við lögðum megin áherslu á fundinum á afhendingarstað raforku við Laugarbakka sem mun bæði bæta afhendingaröryggi og -getu. Það verkefni er á kerfisáætlun landsnets á árunum 2026 og 2027 og samhliða mun RARIK fara í endurnýjun á sínum búnaði. Gert er ráð fyrir að þessi framkvæmd verði á áætlun.

Báðir þessir fundir voru ánægjulegir og gáfu góð fyrirheit. Að þeim loknum tók við ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þar á eftir settumst við Bjarki sveitarstjóri Dalabyggðar niður og fórum yfir nokkur mál tengd sameiningarsamtalinu.

Fjármálaráðstefnan sjálf hófst svo á fimmtudeginum með ávörpum, erindum og pallborðsumræðum. Ég verð að segja að ráðstefnan í ár var sérstaklega fróðleg og skemmtileg. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka þátt í pallborðsumræðum um húsnæðis- og innviðauppbyggingu. Fengnir voru sveitar- og bæjarstjórar nokkurra ólíkra sveitarfélaga til að segja frá stöðu í sínum sveitarfélögum. Ég er afar stolt að segja frá því sem er í gangi hjá okkur enda um að ræða umtalsverða uppbyggingu. Umræðunum stýrði Bogi Ágústsson fyrrverandi fréttastjóri og gerði það listavel. Hann stýrði líka pallborði með forsvarsmönnum stjórmálaflokkana á þingi sem var eitt skemmtilegasta pallborð sem ég hef hlustað á. Fagmaður fram í fingurgóma hann Bogi. Heilt yfir var stemmingin á þinginu létt og hugur í fólki.

Mynd sem sýnir vel stemminguna í pallborðinu. Bogi Ágústsson, Pétur bæjarstjóri Hveragerði, Gerður bæjarstjóri í Vesturbyggð, undirrituð, Regína bæjarstjóri Mosfellsbæ, Ásdís bæjarstjóri Kópavogs og Sigurjón bæjarstjóri Hornafirði.

Í hádeginu höfðum við boðið Innviðaráðherra í mat og spjall um sameiningarmál. Góður og gagnlegur fundur um þau mál sem brýnt er að kippa í liðinn fari svo að komi til sameiningar. Það þarf engan að undra að samgöngumál eru þar efst á blaði en fleiri atriði voru t.d. stuðningur við landbúnaðinn, löggæslumál o.fl. Síðar um dagin litu þingmenn kjördæmisins svo til samskonar fundar sem ég gat reyndar ekki setið vegna þátttöku minnar í pallborðinu.

Spekingar spjalla gæti verið heiti þessarar myndar.

Um kvöldið var annars vegar móttaka á vegum landshlutasamtakanna í NV kjördæmi og hins vegar hátíðarkvöldverður Sambandsins í tilefni af 80 ára afmæli þess á þessu ári. Ég leit við í móttöku landshlutasamtakanna en lét mig vanta í hátíðarkvöldverðinn og fór í Borgarleikhúsið að sjá sýninguna Moulin Rouge. Sýning sem ég mæli heilshugar með.

Öll umgjörð Moulin Rouge er hin glæsilegasta.

Á föstudagsmorgninum hélt ráðstefnan áfram með málstofum og erindum sem voru hvert öðru áhugaverðara. Við Bjarki í Dalabyggð funduðum að ráðstefnu lokinni áður en haldið var heim á leið, aftur voru sameiningarmálin í brennidepli. Við heimkomu fór ég beint niður á bryggju til að hitta á Sjótæknimenn sem voru á heimstíminu þegar ég renndi inn í bæinn. Allt gekk vel hjá þeim og þeir luku við að setja niður rammann fyrir garðana á laugardeginum. Þegar heim var komið lauk ég við að setja upp fundarboð byggðarráðsfundar mánudagsins og senda út boð til fundar.

Við eins mikla fjarveru og í síðustu viku safnast verkefni eðlilega upp. Ég fór því til vinnu á laugardagsmorgni og vann fram eftir degi. Undirbúningur byggðarráðsfundar tók þar mestan tíma og einkum skrif umsagna um þingmál sem fara nú að hellast yfir okkur með nýju þingi. Einnig fékk fjárhagsáætlun nokkra athygli en hún fer til fyrri umræðu í sveitarstjórn á komandi fimmtudegi. Fyrst þarf hún að fara fyrir framkvæmdaráð og því næst byggðarráð. Ekki náði ég að klára allt sem þurfti að klára á laugardeginum þar sem ég átti von á ömmustelpu í gistingu svo ég settist niður heima á sunnudeginum og fór í gegnum frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Gerði ég fyrstu drög að umsögn sem tók strax breytingum á mánudeginum með frekari upplýsingum. Um er að ræða nokkuð umfangsmiklar breytingar á lögunum sem margar hverjar eru til mikilla bóta. Aðrar eru ekki eins heppilegar að okkar mati eins og t.d. þvingaðar sameiningar með ákvörðun ráðherra. Ég fékk svo unga fólkið mitt og ömmustelpurnar í rammíslenskt lambalæri úr SKVH sem fór inn í ofn um 10 leytið um morgunin og hægeldaðist í tæplega 8 tíma. Lærið var algert lostæti og vakti mikla lukku hjá matargestum. Góður endir á annasamri en gagnlegri og gefandi viku.

Lýk þessu á fallegri mynd af sólstöfum yfir Heggstaðanesinu.

Var efnið á síðunni hjálplegt?