28. nóvember – 4. desember
Eins og ég minntist á í lok síðustu dagbókarfærslur var vikan óhefðbundinn vegna ferðalags til Svíþjóðar. Tilgangur ferðarinnar var að skoða skógarplöntuframleiðslur. Ferðin var farin í tengslum við styrk sem Kaupfélag Vestur Húnvetninga fékk til að skoða möguleika á uppsetningu slíkrar starfsemi í sveitarfélaginu. Þar sem vinna þarf að skipulagsmálum í tengslum við verkefni af þessum toga þótti mikilvægt að fulltrúi sveitarfélagsins væri með í för. Ásamt mér fóru Björn Líndal kaupfélagsstjóri, Magnús Barðdal verkefnisstjóri fjárfestinga hjá SSNV og Hafberg Þórisson eigandi Lambhaga í ferðina. Hafberg hefur verið til ráðgjafar í undirbúningi verkefnisins enda gríðarlega reynslumikill í garðyrkju hvers konar.
Mánudagurinn var því eini dagurinn sem ég hafði á skrifstofunni í vikunni. Hann var hefðbundinn og hófst á starfsmannafundi þar sem starfsmenn Ráðhússins komu saman. Farið var yfir helstu atriði fjárhagsálætlunar og síðasta sveitarstjórnarfundar. Að honum loknum fundaði framkvæmdaráð. Eftir hádegi var fundur byggðarráðs og strax að honum loknum fundur starfshóps um eignir, jarðir og lendur sveitarfélagsins. Hópurinn er búinn að vera að safna að sér upplýsingum og ljóst að ekki var vanþörf á að ráðast í vinnu við að kortleggja eignir sveitarfélagsins og vinna framtíðarsýn um þær.
Sigurður Þór Ágústsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs kom til fundar við byggðarráð og fór yfir drög að reglum um skólaakstur og reglur um rjáðgjöf um líðan og sálfræðiþjónustu. Ráðið vísaði reglunum til viðeigandi fastanefnda og er þær nú komnar til umsagnar íbúa á heimasíðu sveitarfélagsins. Sjá hér. Ég hvet áhugasöm til að koma með athugasemdir. Ég er ánægð með að mál sem þessi fari í samráð og vona að við fáum tækifæri til að gera meira af slíku í framtíðinni. Einnig var tekin fyrir beiðni ungmennaráðs um að setja niður tvær frisbígolfkörfur á Bangsatúni. Ráðið fagnaði frumkvæði ráðsins og sömuleiðis stuðningi Húnaklúbbsins við verkefnið. Það er gaman að sjá kraftinn í unga fólkinu okkar og að það lætur sig samfélagið varða. Fundargerð byggðarráðsfundarins er hér.
Að vinnudegi loknum var haldið suður til að fara í flug eldsnemma á þriðjudagsmorgni. Við komu til Stokkhólms var haldið til Örebro þar sem við gistum í tvær nætur og ferðuðumst á þá staði sem búið að bóka heimsóknir til. Magnús Barðdal hjá SSNV skipulagði ferðina og var búinn að setja sig í samband við fulltrúa Svenska Skogsplantor. Þar eru ræktarðar skógarplöntur í mjög stórum stíl á nokkrum stöðum í Svíþjóð. Við byrjuðum á miðvikudeginum á því að skoða framleiðslu í Vibytorp þar sem framleiddar eru 26 milljónir plantna árlega í 15700 fm af gróðurhúsum. Síðari hluta dags á miðvikudeginum heimsóttum við svo risastóra frystigeymslu í Kumla þar sem tugmilljónir skógarplantna eru geymdar fjögurra gráðu frost vetrarlangt. Er plöntunum pakkað í kassa og raðað á pallettur fyrir geymsluna. Að vori eru þær svo teknar út og fluttar til kaupenda til gróðursetningar.
Á fimmtudeginum ókum við til Nyhammar, um 2ja klst akstur norður af Örebro. Þar skoðuðum við aðra gróðrastöð sem framleiðir 27 milljónir plantna árlega í 22500 fm af gróðurhúsum. Sú framleiðsla er líka flutt til vetrargeymslu í Kumla sem við skoðuðum deginum áður. Munur á framleiðslu pr. fermeter á þessum tveimur stöðum felst í framleiðslutækninni en í Vibytorp er hluti framleiðslunnar ræktaður í svokölluðum míkróbökkum og svo umpottað í stærri á vaxtartímanum sem gefur möguleika á meiri framleiðslu. Hins vegar krefst sú aðferð meiri tækjabúnaðar þar sem umpottunin fer fram í vélum. Svenska Skogsplantor er leiðandi í ræktun af þessum toga og hefur prófað sig áfram með ræktunaraðferðir enda henta minsmunandi leiðir ólíkum staðsetningum.
Það er skemmst frá því að segja að ég varð margs fróðari um starfsemi af þessum toga í ferðinni. Það sem kom mér mest á óvart var hversu tæknivædd starfsemin var. Nákvæmur tækinibúnaður sem til dæmis tekur myndir af plöntum í pökkunarferlinu og tekur frá gallaðar plöntur, þróaðar flæðilínur þar sem plöntubakkarnir ferðast á milli véla í pökkunarferlinu og svo geymsluaðferðirnar bæði úti og inni. Sáningin fer einnig fram með vélum, vökvun og áburðagjöf með löngum bómum. Allt úthugsað og augljóslega gríðarleg reynsla sem í fyrirtækinu býr. Móttökurnar sem við fengum voru frábærar og mikill vilji til að halda áfram að miðla upplýsingum. Ég heyrði á ferðafélögunum að þeir voru spenntir að vinna verkefnið áfram og eru næstu skref þeirra að setjast yfir mögulega uppsetningu slíkrar framleiðslu og vinna kostnaðar- og viðskiptaáætlun. Verkefni af þessum toga er gríðarlega kostnaðarsamt og tekur tíma að koma af stað. Ég ber hins vegar þá von í brjósti að innan örfárra ára verði starfsemi sem þessi komin af stað í sveitarfélaginu með á bilinu 10-15 störfum. Starfsemin passar vel inn í samfélagsgerðina hér, er umhverfisvæn og jákvæð á allan hátt. Það var gaman að sjá umfjöllun um þörf á ræktun af þessum toga á landinu í kvöldfréttum RÚV á laugardagskvöldið. Degi eftir að hópurinn kom heim úr ferðinni.
Nokkrar myndir úr Svíþjóðarferðinni.
Seinnipart á fimmtudegi ókum við svo sem leið lá til baka til Stokkhólms og héldum af stað heim á leið á föstudagsmorgni. Ég nánast hljóp út úr flugstöðinni til að ná í tæka tíð í jólahlaðborð starfsmannafélags Húnaþings vestra sem var á Hótel Laugarbakka á föstudagskvöldinu. Við áttum þar virkilega ánægjulega kvöldstund og nutum frábærra veitinga. Vinur minn, Felix Bergsson, sá um veislustjórn og gerði það listavel eins og hans er von og vísa. Hann hefur skemmt svo mikið í landshlutanum á undanförnum mánuðum að ég spurði hann hvort hann ætlaði ekki bara að flytja lögheimilið hingað :) Tónlistarflutningur var á heimsmælikvarða. Ásdís Aþena Magnúsdóttir söng tvö lög og svo söng tenórinn Gissur Páll nokkur lög. Hann var leynigestur og í raun afmælisgjöf starfsmanna hótelsins til eigenda þess sem áttu stórafmæli í ár og í fyrra. Heppin við hin að fá að njóta þessarar gjafar. Salurinn á Hótel Laugarbakka var í hátíðarbúningi og troðfullur. Ég þakka starfsmannafélaginu fyrir boðið á hlaðborðið, samstarfsfólki fyrir góða samveru og þeim á Hótel Laugarbakka fyrir frábærar veitingar og skemmtun. Að borðhaldi loknu var slegið upp balli en ég verð að viðurkenna að ég yfirgaf samkomuna áður en það hófst lítið eitt lúin eftir ferðalag vikunnar.
Grettissalur var svo sannarlega í hátíðarbúningi á jólahlaðborðinu. Tvíburasystkinin, börn Arnar og Hildar eigenda hótelsins, skemmta þarna gestum með dansatriði.
Á laugardeginum var jólamarkaður í Félagsheimilinu. Við Birta dóttir mín litum á það sem í boði var og versluðum meðal annars jólahangikjötið frá Hannesi og Bobbu, keyptum leikteppi fyrir Sóldísi ömmustelpuna mína af henni Ólöfu á Tannstaðabakka sem hefur selt listavel gerð bútasaumsteppi og gefið ágóðann í Velferðarsjóð um árabil - algerlega einstakt framtak þessarar mögnuðu konu. Við keyptum líka varning sem 10. bekkur Grunnskólans var að selja til fjáröflunar í ferðasjóð og líka sem nokkrir fótboltastrákar seldu til að afla fjár í sinn ferðasjóð. Við enduðum á því að kaupa kjól á ömmustelpuna á fatamarkaði í dreifnáminu sem var til styrktar Velferðarsjóðnum. Seinna um daginn fórum við Birta til að vera við tendrun jólaljósanna á jólatrénu við Félagsheimilið. 4. bekkur stýrði söngnum við athöfnina og skoraðist mín kona ekki undan því. Hátíðleg stund. Ég vil þakka þeim sem sáu um skipulagningu á stundinni fyrir sína góðu vinnu.
Frá tendrun jólaljósanna á jólatrénu við Félagsheimilið. Auðvitað var gengið í kringum jólatréð.
Það sem eftir lifði helgar varði ég svo með fjölskyldunni eftir fjarveru vikunnar. Jólaundirbúningurinn er hafinn af fullum krafti á heimilinu, bakaðar voru nokkrar sortir og við byrjuðum að pakka inn jólagjöfum. Miðað við þann hraða sem vikurnar þjóta áfram verða komin jól áður en við vitum af.