1160. fundur

1160. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 28. nóvember 2022 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon formaður, Friðrik Már Sigurðsson varaformaður og Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Afgreiðslur:
Sigurður Þór Ágústsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs kom til fundar við byggðarráð.
1. Drög að reglum um skólaakstur. Sviðsstjóri fer yfir drög að reglum um skólaakstur sem taka eiga gildi fyrir skólaárið 2023/2024. Yfirferð þeirra er hluti af undirbúningi útboðs á skólaakstri. Byggðarráð vísar reglunum til fræðsluráðs og ungmennaráðs til umsagnar. Jafnframt er samþykkt að reglurnar verði kynntar sem drög til athugasemda íbúa á heimasíðu sveitarfélagsins að lokinni yfirferð ráðanna.
2. Drög að reglum um ráðgjöf um líðan og sálfræðiþjónustu. Sviðsstjóri fer yfir drög að reglum um ráðgjöf um líðan og sálfræðiþjónustu. Í reglunum er kveðið á um þjónustuna og hvernig þjónustubeiðnir eru metnar og hvert þeim er vísað. Byggðarráð vísar reglunum til fræðsluráðs og félagsmálaráðs til umsagnar. Jafnframt er samþykkt að reglurnar verði kynntar sem drög til athugasemda íbúa á heimasíðu sveitarfélagsins að lokinni yfirferð ráðanna.
Sigurður Þór Ágústsson vék af fundi kl. 14:38.
3. 2211031 Samband íslenskra sveitarfélaga – kjarasamningsumboð og samkomulag um sameiginlega ábyrgð. Samband íslenskra sveitarfélaga fer með fullnaðarumboð til kjarasamningsgerðar fyrir hönd þeirra sveitarfélaga sem til þess veita umboð sitt. Húnaþing vestra er eitt þeirra sveitarfélaga. Gildistími allra kjarasamninga sveitarfélaga rennur út á næsta ári. Sambandið undirbýr nú kjaraviðræður við 62 stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga. Af þessu tilefni óskar Samband íslenskra sveitarfélaga eftir endurnýjuðu fullnaðarumboði til kjarasamningsgerðar fyrir hönd Húnaþings vestra. Umboðið felur m.a. í sér skuldbindingu sveitarfélagsins til að afhenda sambandinu upplýsingar um laun og önnur starfskjör starfsmanna sveitarfélagsins með rafrænum hætti, eða í gegnum svokallað gagnalón. Einnig heimilar sveitarfélagið að ópersónurekjanleg launagögn verði afhent viðkomandi heildarsamtökum launþega sem um það gera samkomulag við sambandið.
Byggðarráð samþykkir að veita Sambandi íslenskra sveitarfélaga fullnaðarumboð til kjarsamningsgerðar fyrir hönd Húnaþings vestra. Byggðarráð samþykkir einnig nauðsynlega upplýsingagjöf vegna kjarasamningsgerðarinnar í samræmi við beiðni Sambandsins svo fremi sem fyllstu persónuverndarsjónarmiða verði gætt.
4. 2211030 Ungmennaráð vegna frisbígolfkarfa á Bangsatúni. Lögð fram beiðni ungmennaráðs um að fá að setja niður tvær frisbígolfkörfur á Bangsatúni á Hvammstanga. Ráðið fékk styrk frá Húnaklúbbnum til að kosta verkefnið. Óskað er eftir að sveitarfélagið sjái um uppsetningu karfanna. Byggðarráð þakkar ungmennaráði frumkvæðið og Húnaklúbbnum stuðninginn. Ráðið samþykkir að körfurnar verði settar niður á Bangsatúni í samráði við rekstrarstjóra. Byggðarráð samþykkir einnig að sveitarfélagið kosti uppsetningu karfanna.
5. Umsagnarbeiðnir:
a. Tillaga til þingsályktunar um öruggt farsímasamband á þjóðvegum, 46. mál. Umsagnarfrestur til 2. desember nk. Byggðarráð leggur áherslu á að öruggt farsímasamband verði tryggt á þjóðvegum landsins en það er víða óviðunandi. Ótraust farsímasamband ógnar öryggi vegfarenda og brýnt að úr því verði bætt hið allra fyrsta.
b. Reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga, mál nr 215/2022 í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur til 5. desember nk. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
Bætt á dagskrá:
6. Tilkynning frá Vegagerðinni um afskráningu vega af vegaskrá. Lögð fram til kynningar afrit bréfa til landeiganda um fyrirhugaða afskráningu eftirfarandi vega af vegaskrá: Reynhólavegur nr. 7054-01, Óspaksstaðavegur nr. 7001-01, hluta Bjargsvegur nr. 7086-01 og Vigdísarstaðavegur nr. 7113-01. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er ekki föst búseta lengur á þessum jörðum og uppfylla vegirnir því ekki lengur skilyrði þess að teljast til þjóðvega.

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:05.

Var efnið á síðunni hjálplegt?