22. apríl 2024

Vikan 15.-21. apríl

Þegar þetta er skrifað, á mánudagsmorgni, ætla ég að leyfa mér að segja að vorið sé komið. Áburðarskipið í höfninni, krían komin og snjóhraukana tekur hratt upp.

Mánudagurinn var óhefðbundinn í þeim skilningi að hann hófst ekki á fundi framkvæmdaráðs eða fundi með verkefnisstjóra umhverfismála vegna fjarveru vegna fría og veikinda. Byggðarráðsfundur féll sömuleiðis niður eftir hádegið svo það gafst gott tóm til að vinna í ýmsum málum við skrifborðið. Starfsmannamál og fjármál bar þar hæst auk fréttaskrifa á heimasíðu. Síðari hluta dags var svo fundur fyrir stjórnendur sveitarfélagsins með starfshópi um verkefnið Gott að eldast sem sveitarfélagið er þátttakandi í. Þar á eftir var opinn fundur fyrir íbúa sem var ágætlega sóttur. Verkefnið er ákaflega spennandi og gengur út á að samþætta þjónustu við eldri borgara og sníða hana enn betur að ólíkum þörfum þessa ört stækkandi hóps. Að þessum fundum loknum funduðum við stuttlega með stjórnarfólki úr Félagi eldri borgara um húsnæðismál undir félagsstarf félagsins sem ríkur vilji er hjá sveitarfélaginu að leysa í samvinnu við félagið enda vinnur það mjög öflugt og mikilvægt starf.

Þriðjudagsmorgunn hófst á mánaðarlegum fundi með forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Á þessum fundum förum við yfir það sem hæst ber í hverri stofnun fyrir sig og hin ýmsu mál sem varða starfsstöðvar sveitarfélagsins sameiginlega. Að þeim fundi loknum þá fundaði Vatnasvæðanefnd í Ráðhúsinu. Vatnasvæðanefndum er ætlað að kortleggja ógnanir við svokölluð vatnshlot sem skráð eru á landinu. Á fundinum var farið yfir vatnasvæði í sveitarfélögunum og skoðað hvaða álag gæti verið á þeim. Sérstök vatnavefsjá er aðgengileg hér. Hluti fundarmanna var á staðnum en hluti í gegnum fjarfund. Að því loknu fór fram undirritun á viljayfirlýsingu milli sveitarfélagsins og Bríetar leigufélags vegna áforma um uppbyggingu leiguíbúða í sveitarfélaginu. Yfirlýsingin er tvíþætt, annars vegar að Bríet kaupi og/eða byggi í íbúðir til útleigu og hinsvegar svokölluð yfirtökuverkefni þar sem sveitarfélagið leggur eignir inn í Bríeti gegn hlut í félaginu. Markmið Bríetar er að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina og í samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Það er mikilvægt að halda því til haga að félagið er í opinberri eigu og er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Fyrirmynd að félaginu er sótt til Norðurlandanna þar sem öryggi leigjenda er mun meira en hér á landi. Með samstarfinu við Bríeti mun því verða til stærri og öruggari leigumarkaður í sveitarfélaginu. Er það hluti af þeirri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem áformuð er í sveitarfélaginu með það að markmiði að í boði verði fjölbreyttir búsetukostir sem henta ólíkum þörfum íbúa.

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar, Helgi Haukur Helgason framkvæmdastjóri Bríetar ásamt undirritaðri.

Miðvikudagurinn hófst á fundi með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðu kjaraviðræðna sem nú standa yfir. Upplýsandi og góður fundur. Ég vona sannarlega að samningar náist sem fyrst. Þar á eftir fundaði ég með verkefnisstjóra umhverfismála þar sem við fórum yfir helstu verkefni. Meðal annars undirbúning verkefna sumarsins, þar með talið vinnuskólans en nú er hægt að skrá ungmenni í vinnuskólann sjá hér. Í sumar verður boðið upp á breytta útfærslu af frístundastarfi sem hefur fengið heitið Krakkasveiflan. Verkefnið er afrakstur vinnu Farsældarteymis sveitarfélagsins í vetur og er ætlunin að bjóða upp á metnaðarfullt og fjölbreytt starf fyrir öll börn á aldrinum 6-13 ára (1.-7. bekkur) í sumar. Meðal annars verður boðið upp á viku í Reykjaskóla, kofasmíði, hestafimleika, sund, íþróttir, leikhús og margt fleira. Virkilega spennandi verkefni sem verður gaman að fylgjast með. Skráningarfrestur er til 5. maí og ég hvet foreldra til að skrá börn sín í tíma.

Eftir hádegið sat ég svo fjölmennan aðalfund Félags eldri borgara í Félagsheimilinu. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var farið yfir húsnæðismál. Sagði ég meðal annars frá hugmyndum um uppbyggingu lífsgæðakjarna á óbyggða svæðinu vestan við Nestún en það svæði býður upp á mikla mjöguleika og er einstaklega vel staðsett með þarfir eldri borgara í huga. Skipaður hefur verið starfshópur um verkefnið sem í sitja ásamt mér Guðmundur Haukur Sigurðsson og Guðmundur Sigurðsson (Gúndi). Höfum við hist nokkrum sinnum og erum að setja niður þau skref sem þarf að stíga til að þetta verkefni verði að veruleika. Það má því segja að eldri borgarar hafi verið rauður þráður í gegnum störf þessarar viku og er það vel. Eftir aðalfundinn kíktum við nokkur á neðri hæðina í Félagsheimilinu en hugmyndir hafa verið uppi um að félagið fái aðgang að rými þar undir félagsstarfið. Ekkert er þó ákveðið í þeim efnum en ljóst að rýmið er nægt í Félagsheimilinu.

Frá aðalfundi Félags eldri borgara.

Á fimmtudeginum fundaði téður starfshópur um uppbyggingu lífsgæðakjarna ásamt verkefnisstjóra fjárfestinga hjá SSNV en hann mun aðstoða okkur við að finna samstarfsaðila að verkefninu. Ég skrapp líka í Grunnskólann og fylgdist með störfum nemenda á umhverfisdegi skólans þar sem fjölbreytt verkefni voru á dagskrá. M.a. gróðursetning matjurta sem svo verða uppskorin í sumar í tómstundastarfinu. Einnig fengu þau fræðslu um plast og kíktu í heimsókn í Hirðu til að fræðast um starfið þar. Virkilega gaman að sjá áhuga krakkanna á umhverfismálum.

Krakkarnir á miðstigi undirbúa sáningu matjurta á umhverfisdegi.

Auk framangreinds undirbjó ég fund byggðarráðs í komandi viku og sendi út fundarboð, óvenju snemma þar sem ég var í fríi á föstudeginum. Vegna þess þá fluttist föstudagsfundurinn með formanni byggðarráðs og oddvita til fimmtudags.

Vikan var því stutt en fjölbreytt eins og jafnan.

Var efnið á síðunni hjálplegt?