12. júní 2023

Þá er komið að því. Síðasta dagbókarfærsla fyrir sumarfrí. Eins og oft síðustu dagana fyrir frí var mikið um að vera og verður hér farið yfir það helsta.

Á mánudeginum var byggðarráðsfundur eins og vanalega. Þar var ákveðið að selja húseignina Fífusund 3 og verður hún auglýst í komandi viku. Við hvetjum áhugasöm til að skoða eignina vel og gera í hana tilboð. Á fundinum var líka samþykkt uppfærð brunavarnaáætlun sem Kári fráfarandi slökkviliðsstjóri vann með miklum sóma. Á fundinum var svo samþykkt ráðning nýs slökkviliðsstjóra sem mun hefja störf með haustinu. Valur Freyr Halldórsson ætlar að taka starfið að sér en hann hefur starfað sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður frá árinu 2002, meðal annars sem aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar. Hann starfar nú sem verkefnisstjóri hjá Sjúkraflutningaskólanum og mun láta af því starfi til að koma til okkar. Hann hefur löggildingu til að starfa bæði sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður, hefur lokið BS námi í hjúkrunarfræði og hefur löggildingu til að starfa sem slíkur ásamt því að hafa lokið bráðatækninámi. Hann hefur því mjög mikla reynslu á þessu sviði sem mun klárlega nýtast vel í starfinu sem slökkviliðsstjóri. Fundargerð byggðarráðs er hér í heild sinni.

Ég fundaði einmitt með Val á mánudagsmorguninn til að ganga frá síðustu endum varðandi ráðninguna og handsala hana þar til hún yrði tekin fyrir á byggðarráðsfundi og staðfest á sveitarstjórnarfundi síðar í vikunni.

Á mánudeginum undirbjó ég nokkra fundi, fundi veituráðs og fund stjórnar leigufélagsins Bústaðar sem og hátíðarfund sveitarstjórnar sem haldinn var á fimmtudeginum.

Þriðjudagurinn hófst á stuttum fundi með Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna kjaradeilna. Slíkir fundir hafa verið haldnir reglulega síðustu vikur til upplýsingar um stöðuna. Þó áhrifa verkfalla hafi ekki gætt í Húnaþingi vestra eru kjaradeilur sem þessar ávallt mikið áhyggjuefni. Það var því sérstaklega ánægjulegt þegar samningar náðust í lok vikunnar. Fram að hádegi prófarkalas ég brunavarnaáætlun sveitarfélagsins áður en hún yrði send út með fundargögnum sveitarstjórnarfundar en það fundarboð fór út undir hádegið og var birt á heimasíðunni. Eftir hádegið fundaði stjórn Leigufélagsins Bústaðar þar sem einni íbúð var úthlutað og einnig var ársreikningur ársins 2022 samþykktur. Að honum loknum skaust ég til að vera við skólaslit grunnskólans sem mér finnst alltaf hátíðleg stund. Það var engin breyting á því þetta árið. Sérstaklega gaman að sjá 10. bekkinga taka við sínum prófskírteinum með stolti eftir 10 ára skólagöngu. Ég óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Að skólslitum loknum var veituráðsfundur á dagskrá. Á honum var úthlutað styrkjum til lagningar ljósleiðara á þremur stöðum í dreifbýlinu. Lokahnykkur í verkefninu Ísland ljóstengt. Með þessum styrkveitingum lýkur aðkomu Húnaþings vestra að ljósleiðaravæðingu í sveitarfélaginu. Afar árangursríkt og gleðilegt verkefni sem hefur breytt búsetuskilyrðum til sveita til mikilla muna. Á fundinum var einnig umræða um notkun blæðinga hitaveitunnar, mál sem mér var falið að skoða áfram. Fundargerð veituráðs er hér.

Miðvikudagurinn var svo einn af þessum fundalausu dögum. Að minnsta kosti framan af. Ég yfirfór verkefnalistann og forgangsraðaði hverju væri brýnt að ljúka fyrir frí. Það kenndi ýmissa grasa yfir daginn. Leigufélagið Bústaður fékk nokkra athygli og þá úrvinnsla stjórnarfundar deginum áður. Veiðiréttur kom til umræðu, minkaveiði sömuleiðis, fjarskiptamál, ég skrifaði dagbók liðinnar viku með allra seinna móti en vanalega og svo lauk ég við undirbúning hátíðarfundar sveitarstjórnar í tilefni af 25 ára afmæli sveitarfélagsins. Í lok dags var svo ákaflega áhugaverður fundur í Félagsheimilinu þar sem Vífill Karlsson kynnti niðurstöður rannsóknar sem hann vann á góðri útkomu Húnaþings vestra í íbúakönnunum samanborið við nágrannasveitarfélögin í Dölum og A-Hún. Ánægja íbúa í Húnaþingi vestra er þar með orðið rannsóknarefni. Vífill og hans samstarfsfólk gátu nú ekki bent á einhvern einn þátt sem mestu skiptir hvað þetta varðar en það er mjög líklegt að einn þessara þátta er sú staðreynd að hrepparnir 7 voru sameinaðir fyrir þetta löngu síðan. Sameiningin var einmitt í forgrunni á fimmtudeginum þegar hátíðarfundur í tilefni af því að 25 ár eru nú í júní liðin frá stofnun sveitarfélagsins.

Hátíðarfundurinn var haldinn í Félagsheimilinu og til hans var boðið öllum kjörnum aðalfulltrúum í sveitarstjórnum ásamt sveitarstjórum frá upphafi. Var þeim afhent gullmerki með þakklæti fyrir þeirra framlag til sveitarfélagsins. Auk þess var vinkonu minni henni Elínu R. Líndal færð sérstök viðurkenning fyrir lengsta setu í sveitarstjórn, eða heil 20 ár samfellt, frá árinu 1998 til ársins 2018. Ég var svo heppin að fá að starfa með henni þegar ég var oddviti sveitarstjórnar kjörtímabilið 2014-2018. Áttum við ákaflega gott samstarf sem var mjög lærdómsríkt fyrir mig enda Ella hokin af reyslu og með gríðarlega góð tengsl út um allt. Reyndist hún mér afar vel á þessum árum og æ síðan.

Að athöfn lokinni buðu kvenfélagskonur upp á kaffiveitingar eins og þeim er einum lagið.

Mér fannst ákaflega skemmtilegt að hafa náð því á fundinum að mynda allar sveitarstjórnir frá upphafi við þetta tilefni, þ.e. þá fulltrúa sem voru mættir. Ég hef saknað þess að ekki eru til myndir af sveitarstjórnunum í Ráðhúsinu og vonandi verður þetta til þess að allar sveitarstjórnir héðan af fari í formlega myndatöku og mynd hengd upp í ráðhúsinu. Að sjálfsögðu ætti að stilla þeim öllum upp við panelinn í forsalnum í Félagsheimilinu. Held það séu fáir íbúar í Húnaþingi vestra sem ekki eiga mynd af sér við vegginn þann.

Fyrsta sveitarstjórn Húnaþings vestra árin 1998-2002. Frá vinstri: Gunnar Sveinsson, Guðmundur Haukur Sigurðsson, Elín R. Líndal, Ólafur B. Óskarsson og Þorvaldur Böðvarsson. Á myndina vantar Ágúst Frímann Jakobsson og Þorstein Helgason.

Nánari upplýsingar um hátíðarfundinn er að finna hér.

Að hátíðarfundi loknum skaust ég vestur að Prestbakka til að skoða aðstæður en fyrr um daginn hafði borist tilkynning um hvalreka þar við ósinn. Reyndist þetta vera 8 metra hvalur sem lá þar í fjörunni. Þegar við komum var fjara svo við komumst alveg upp að honum.

Á föstudeginum hóf ég leika á því að funda með oddvita og formanni byggðarráðs eins og áður. Að því loknu fór ég í að skoða hvað gera þyrfti vegna hvalrekans. Ég hafði upplýst starfsfólk Hafró hér á Hvammstanga um atburðinn en þau taka sýni úr öllum hvölum sem reka á land. Ég hafði samband við Landhelgisgæsluna sem vísaði á Umhverfisstofnun. Niðurstaðan eftir þessi samtöl var sú að láta ætti hvalinn liggja og láta náttúruöflin sjá um að vinna á honum. Síðustu misseri hefðu hvalir sem reka á land verið látnir liggja svo fremi sem af þeim skapist ekki hætta eða óþægileg lyktarmengun. Með því verður fylgst og gripið til ráðstafana ef þurfa þykir.

Að þessu loknu skrapp ég í eftirlitsrúnt og fór m.a. að Hvítserk og á Laugarbakka. Við Hvítserk höfum við verið að skoða öryggismerkingar með landeiganda. Brýnt er að setja þær í framleiðslu og koma upp sem fyrst. Þegar á skrifstofuna var komið þá beið mín fulltrúi verkefnisins Römpum upp Ísland og fórum við í bíltúr um Hvammstanga og Laugarbakka til að skoða aðstæður og hvaða staðir kæmi til greina inn í verkefnið. Það gengur út á að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum. Aðeins einkaðilar geta tekið þátt í verkefninu en sveitarfélögin hafa skuldbundið sig til að aðstoða með tilliti til leyfisveitinga og slíks. Aðstæður verða jafnframt að vera með ákveðnum hætti til að hægt sé að fá úrbætur í gegnum þetta verkefni. Því miður reyndist ekki vera nema einn staður sem gæti passað inn í verkefnið í þessari lotu og vonandi fæst samþykki fyrir þeirri framkvæmd af hálfu verkefnisins og húseigenda. Að þessu öllu loknu settist ég niður til að vinna úr sveitarstjórnarfundinum frá deginum áður, senda tilkynningar um afgreiðslur og slíkt. Mér finnst það alltaf skemmtilegt verkefni því þá get ég lokað þónokkrum málum í skjalakerfinu sem eru merkt mér. Það er hins vegar alltaf fljótt að bætast við aftur svo oft er um skammgóðan vermi að ræða. Svona er þetta.

Ég kom á skrifstofuna á laugardeginum og átti stórgóðan sprett við skrifborðið. Þessir síðustu dagar fyrir frí er oft drjúgir og þessi laugardagur var þar engin undantekning. Með ánægjulegri embættisverkum þann daginn var að afhenda nýbökuðum foreldrum yngsta íbúa Húnaþings vestra gjöf frá sveitarfélaginu eins og ákveðið var að gert yrði á árinu 2023.

Gjöf til nýfæddra íbúa í sveitarfélaginu.

Vegna sumarleyfis verður nú gert hlé á dagbókarskrifum þangað til í júlí. Þangað til þá…njótið sumarsins. Kem fílefld til baka í júlí.

Var efnið á síðunni hjálplegt?