Húnaþing vestra í 25 ár

Borgarvirki. Mynd MXW Photo
Borgarvirki. Mynd MXW Photo

Í dag, 10. júní 2023 eru liðin 25 ár frá stofnun Húnaþings vestra.

Fyrsti fundur sameinaðs sveitarfélags í V-Húnavatnssýslu fór fram þann 10. júní 1998. Í þessari fyrstu sveitarstjórn nýs sveitarfélags sátu Ólafur B. Óskarsson, Ágúst Frímann Jakobsson, Elín Rannveig Líndal, Guðmundur Haukur Sigurðsson, Þorsteinn Helgason, Þorvaldur Böðvarsson og Gunnar Sveinsson. Var Elín R. Líndal kjörin oddviti. Fyrsti sveitarstjóri sameinaðs sveitarfélags var Brynjólfur Gíslason.

Í tilefni þessara tímamóta var haldinn hátíðarfundur sveitarstjórnar í Félagsheimilinu á Hvammstanga þann 8. júní sl. Sveitarstjórnarfulltrúum og sveitarstjórum frá stofnun sveitarfélagsins var sérstaklega boðið til fundar og þeim afhent gullmerki með þökkum fyrir framlag sitt til sveitarfélagsins. Frá upphafi hafa alls 31 aðilar verið kjörnir til setu í sveitarstjórn Húnaþings vestra og af þeim hafa 19 setið meira en eitt kjörtímabil. Konur hafa verið 35% fulltrúa en karlar 65%. Af þessum fulltrúum eru allir nema tveir enn búsettir í sveitarfélaginu og einn er látinn. Á hátíðarfundinum var Elínu R. Líndal færð sérstök viðurkenning fyrir lengstu setu í sveitarstjórn Húnaþings vestra en hún sat samfellt í fimm kjörtímabil á árunum 1998-2018.

Elínu R. Líndal var færð viðurkenning fyrir lengstu setu í sveitarstjórn Húnaþings vestra en hún sat samfellt í 20 ár frá 1998 til 2018.

Frá stofnun sveitarfélagsins hafa fimm aðilar gengt starfi sveitarstjóra. Skúli Þórðarson þeirra lengst eða samfellt í þrjú kjörtímabil.

Þó aðalmönnum í sveitarstjórnum frá upphafi ásamt sveitarstjórum haf verið færð viðurkenning á hátíðarfundinum er einnig full ástæða til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem verið hafa varamenn auk þeirra sem starfað hafa í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins.

Sveitarfélag er ekkert ef engir eru íbúarnir. Það er því full ástæða til að þakka þeim sömuleiðis fyrir þeirra framlag. Nýverið var haldinn fundur í Félagsheimilinu á Hvammstanga þar sem kynnt var niðurstaða rannsóknar á góðri útkomu Húnaþings vestra í íbúakönnunum samanborið við nágrannasveitarfélögin. Munnurinn er slíkur að hann þykir rannsóknarefni. Ekkert eitt skýrir að mati rannsakenda þá niðurstöður en ljóst að hér býr fólk sem lætur sig samfélagið varða og er tilbúið til að leggja ýmislegt á sig í þágu þess. Mjög líklega leikur sameining sveitarfélaganna árið 1998 hlutverk í þessari jákvæðu niðurstöðu. Það þurfti kjark og þor þeirra sem stóðu í stefni þegar sameiningin fór fram. Við búum klárlega að þeirra framsýni.

Fimm fulltrúar úr fyrstu sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags voru viðstaddir hátíðarfundinn. Frá vinstri: Gunnar Sveinsson, Guðmundur Haukur Sigurðsson, Elín R. Líndal, Ólafur B. Óskarsson og Þorvaldur Böðvarsson. Á myndina vantar Ágúst Frímann Jakobsson og Þorstein Helgason.

Núverandi sveitarstjórn ásamt starfsmönnum á hátíðarfundinum: Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri, Friðrik Már Sigurðsson, Magnús Magnússon, Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Elín Lilja Gunnarsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Magnús Vignir Eðvaldsson og Þorgrímur Guðni Björnsson.

Valdimar Gunnlaugsson ásamt systrunum Örnu Ísabellu og Steinunni Daníelu Jóhannesdætrum fluttu tvö lög á fundinum.

Að fundi loknum var boðið upp á kaffiveitingar að hætti kvenfélagskvenna.

Var efnið á síðunni hjálplegt?