Vikurnar 12.maí – 1. júní 2025
Að þessu sinni er í dagbók sveitarstjóra stiklað á stóru í verkefnum þriggja vikna. Stundum er það þannig að tíminn hleypur frá manni og þá verður maður að sníða sér stakk eftir vexti í verkefnum. Þar sem langur tími er undir þessu sinni verður ekki farið ofan í hvern dag heldur farið yfir meginatriði í því sem á daga hefur drifið.
Fyrst ber að telja þá byggðarráðsfundi sem fram hafa farið á tímabilinu. Sá fyrri 12. maí. Þar bar hæst samning við Ungmennafélagið Kormák um umhirðu íþróttasvæðisins í Kirkjuhvammi. Kormákur hefur séð um umhirðuna um langt árabil. Í þetta sinn var gerður samningur til tveggja ára en í haust verður ráðist í byggingu aðstöðuhúss við fótboltavöllinn sem gert er ráð fyrir að verði komið í notkun í lok árs 2026. Með tilkomu þess er eðlilegt að endurskoða samkomulagið enda forsendur þá breyttar og þarf að taka rekstur hússins með í reikninginn. Samningurinn var undirritaður á dögunum. Á fundinum var einnig lögð fram niðurstaða starfshóps um uppbyggingu lífsgæðakjarna til umfjöllunar. Var sú vinna leidd af félagi eldri borgara og vann ég með þeirra fulltrúum í starfshópnum ásamt Boga skipulags- og byggingafulltrúa. Hugmyndirnar ganga út á uppbyggingu 15 íbúða fyrir 50 ára og eldri á svokölluðum Miðtúnsreit vestan við Nestún. Sjá á meðfylgjandi mynd. Var tillaga hópsins sú að ráðist yrði í deiliskipulags svæðisins út frá hugmyndunum. Byggðarráð vísaði málinu til skipulags- og umhverfisráðs og þaðan fer það til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Svæðið sem starfshópurinn leggur til að verði deiliskipulagt.
Síðari byggðarráðsfundurinn var haldinn 26. maí. Þar bar hæst viðauki við fjárhagsáætlun ársins vegna verkefna sem ákveðið var að ráðast í í ljósi góðrar afkomu sveitarfélagsins sem farið var yfir í síðustu dagbókarfærslu. Byggðarráð samþykkti viðaukann sem fól í sér eftirtalin verkefni:
- Endurgerð listaverksins Þróunar eftir Marinó Björnsson.
- Kaup á sturtuhúsi á tjaldsvæðið á Borðeyri.
- Endurbætur í Leikskólanum Ásgarði.
- Kaup á leiktækjum á tjaldsvæðið á Laugarbakka.
- Viðbót við styrk vegna endurbyggingar Norðurbrautar, fyrstu vegasjoppunar við Verslunarminjasafnið.
- Endurnýjun fótboltamarka á Kirkjuhvammsvelli.
- Viðbótarfralag til styrkvega og heiðagirðinga.
Samtals er gert ráð fyrir að verja um 19 milljónum til þessara verkefna.

Á þessari mynd af Félagsheimilinu Hvammstanga sést listaverkið Þróun eftir Marinó Björnsson til vinstri. Til stendur að endurgera verkið úr áli sem mun standast tímans tönn. Ekki veit ég hvenær þessi mynd er tekin en munur á gróðri á svæðinu þá og nú er gríðarlegur.
Vinna við þessi verkefni er í undirbúningi en þau teljast ekki formlega samþykkt fyrr en sveitarstjórn hefur staðfest afgreiðslu viðaukans á næsta sveitarstjórnarfundi.
Fundargerðir byggðarráðsfundanna eru hér og hér.
Dagana 19. og 20. maí sat ég mannauðsráðstefnu í Vestmannaeyjum og nýtti tækifærið til að skoða útivistarsvæði og leikvelli Vestmannaeyinga. Það er nú einhvernveginn þannig að hvar sem maður kemur eru augun opin fyrir því hvað aðrir eru að gera vel og nýjum hugmyndum, síminn minn er uppfullur af myndum af leikvöllum, grænum svæðum, ruslatunnum, írþóttavöllum o.s.frv. Ráðstefnan var mjög áhugaverð en eins og fram hefur komið í fyrri færslum er sveitarstjóri mannauðsstjóri sveitarfélagsins. Hef ég lagt mig fram um að gera mannauðsmálunum hátt undir höfði og höfum við á þessu kjörtímabili stigið mörg góð skref í þeim málum þó ég segi sjálf frá. Það sem núna ber hæst í þeim málum er vinna við gerð geðheilbrigðisstefnu fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og samhliða því gerð verkfærakistu fyrir stjórnendur til að þau verði betur í stakk búin til að takast á við mál sem koma upp á sínum starfsstöðvum og tengjast geðheilbrigði. Gerum við þetta í framhaldi af geðheilbrigðisátaki meðal starfsfólks á fyrri hluta ársins. Ég er afar stolt af þessari vinnu sem við unnin er í samvinnu við Mental ráðgjöf. Þetta verkefni var meðal þeirra sem fékk nokkra athygli síðastliðnar 3 vikur.
Eftir mannauðsráðstefnuna tók ég mér frí í þrjá daga. Á þeim tíma sat ég þó áhugaverða kynningu Sverris Bergmanns á meistaraverkefni sínu sem fjallar um áhrif rafrænna samskipta á mörkin milli vinnu og einkalífs sveitarstjóra. Þó rafrænu samskiptin séu til mikilla hægðarauka þá geta þau þó verið krefjandi, ekki bara fyrir sveitarstjóra heldur okkur öll.
Laugardaginn 24. maí fóru úrslit Skólahreysti fram í Mosfellsbæ. Ég fylgdi okkar liði í keppninni að sjálfsögðu eftir en þau stóðu sig með stakri prýði og lentu í fimmta sæti um leið og þau bættu sig í öllum greinum. Þess utan var stuðningsmannaliðið okkur til mikils sóma eins og þeirra er von og vísa. Ég er óskaplega stolt af unga fólkinu okkar. Það er einhvernveginn sama hvað þau taka sér fyrir hendur, þeim gengur vel í því öllu og bera hróður sveitarfélagsins víða. Við sem eldri erum þurfum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni með þessu frábæra fólki.
Mánaðarlegur stjórnendafundur stjórnenda í stofnunum sveitarfélagsins fór fram á þessu tímabili. Þar fór Elín Jóna sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs yfir ársreikning sveitarfélagsins og einnig var farið í gegnum nauðsynleg atriði í tengsum við jafnlaunavottun sveitarfélagsins en úttekt á henni stendur nú yfir. Í því liggur nokkur vinna sem kallar á aðkomu stjórnenda og fleiri aðila.
Að stjórnendafundi loknum sat ég ásamt oddvita fund með umhverfis- og samgöngunefnd vegna umsagnar um frumvarp til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og samgöngumála, samgangna og byggðamála. Í mjög stuttu máli ganga þessi áform út á að steypa byggðaáætlun, samgönguáætlun, fjárskiptaáætlun og fleiri stefnum í eina stefnu. Í umsögn sinni lýsti byggðarráð yfir áhyggjum af áformunum og taldi þau til þess fallin að rýra gildi byggðaáætlunar. Áttum við gott spjall við nefndina um málið en í þetta skiptið sátum við fundinn í fjarfundi. Alla jafna reynum við að fara suður þegar við komum fyrir þingnefndir en í þetta skiptið var það ekki mögulegt. Umsögn byggðarráðs er aðgengileg hér. Ég vil nota tækifærið og minna lesendur á að allar umsagnir sveitarfélagsin um þingmál eru aðgengilegar á einum stað á heimasíðu sveitarfélagsins. Sjá hér. Á þessu kjörtímabili höfum við lagt mikla áherslu á veitingu umsagna. Það krefst mikillar vinnu en er afar brýnt verkefnið þegar litið er til hagsmuna sveitarfélagsins.
Síðar þennan sama dag heimsótti ég íbúa á sjúkrahúsinu sem þurfti örlitla aðstoð sem mér var sönn ánægja að veita. Það er alltaf gaman að kíkja á heimilisfólkið þar og spjalla við þau um gamla tíma og nýja.
Ég fundaði ásamt Boga skipulags- og byggingafulltrúa með Hólmfríði Jónsdóttur arkitekt sem hefur séð um hönnun á tengibyggingunni milli Verslunarminjasafnsins og Norðurbrautar. Ræddum við mögulegar lausnir með tilliti til lóarinnar en lega hennar felur í sér nokkrar áskoranir. Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þessu verkefni raungerast og ég hlakka til að sjá það þróast áfram. Norðurbraut er afar mikilvægur hlekkur í verslunarsögu héraðsins, og í raun landsins. Ég hlakka til að sjá þetta verkefni taka á sig frekari mynd á komandi misserum.
Það einstaka verkefni sem líklegast hefur fengið hvað mesta athygli undanfarnar vikur eru umsóknir í átakið Jarðhiti jafnar leikinn sem gengur út á stuðning við nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Alls skilaði Húnaþing vestra þremur umsóknum inn í verkefnið. Naut ég dyggrar aðstoðar Sigurðar Líndal hjá Eimi við gerð umsóknanna og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Ég er spennt að sjá hvernig þetta verkefni þróast og grunar að umsóknir um styrki verði fyrir margfalt hærra fé en til úthlutunar er. Enda er hér um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íbúa þeirra svæða sem ekki njóta kosta hitaveitu. Ég rifja í þessu sambandi líka upp verkefni sem við fengum styrk til af byggðaáætlun fyrr á árinu sem gengur út á að skoða varmadæluvæðingu á þeim svæðum sem ekki er mögulegt að tengjast hitaveitu. Þar erum við að horfa á nýstárlega leið í rekstri kerfanna, þ.e. að þau verði í eigu og rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra. Niðurstaða verkefnisins mun vonandi leiða í ljós hvort sú leið er fýsileg bæði fyrir notendur og veituna.
Framkvæmdir sumarsins eru að hefjast ein af annarri. Vinna við klæðningu Félagsheimilisins Hvammstanga er komin af stað og mun standa í sumar og inn í veturinn. Um er að ræða slétta álklæðningu sem verður hvít á lit en neðsti hluti hússins mun verða dökkgrár. Eins og kunnugt er þá er húsið orðið mjög illa farið og tel ég að í raun hefði varla mátt tæpara standa að ráðast í þetta verkefni nú. Malbikun gatna hefst í komandi viku en í þessari atrennu er leitast við að malbika þær götur sem verst eru farnar en kalla ekki á vinnu við lagfæringar lagna. Það verður nú að segjast eins og er að af nógu er að taka en ég er þess fullviss að við eigum eftir að sjá heilmikinn mun eftir þann áfanga sem ráðist verður í í vikunni.
Trúðapotturinn í sundlauginni var lagfærður á dögunum en fúgur voru orðnar svo djúpar að hætta var á að gestir hlytu skurði af flísunum. Einnig þurfti að brjóta flísar af bakka pottsins sem voru orðnar hættulegar. Þetta verkefni gekk vel en hittist svo óheppilega á að verktakarnir komu akkúrat í þeirri viku sem sólardagarnir glöddu okkur. Við því var því miður ekkert að gera og nú er potturinn tilbúinn í enn fleiri sólardaga í sumar.

Steinakallinn í trúðapottinum (sem einu sinni var trúður en hefur ekki verið það lengi), fékk andlitslyftingu á meðan á lagfæringunum stóð. Sú andlitslyfting var löngu tímabær eins og myndin sýnir.
Á dögnum kom upp bilun í hitaveitu á gatnamótum Húnabrautar og Strandgötu. Reyndist nauðsynlegt að fara í nokkuð stærri viðgerð en útlit var fyrir í upphafi en í ljós kom að brunnur var orðinn ónýtur og þurfti að fjarlægja hann og setja niður loka í hans stað. Lagnir nokkra metra út frá honum voru einnig orðnar ónýtar og nauðsynlegt að endurnýja þær. Brunnarnir eru börn síns tíma og þegar þeir eru orðnir lélegir skapa þeir mikla hættu fyrir veitustarfsmenn. Hefur legið við alvarlegum slysum í vinnu í brunnum hjá okkur sem er ótækt. Við munum því skipta þeim elstu út jafnt og þétt á næstunni.
Vinnuskólinn er svo að fara af stað en innritun barna er lokið og búið að senda öllum þeim sem skráðu sig upplýsingar um starfið. Flokksstjórar eru þegar komnir til starfa. Umsjónarmaður vinnuskólans er verkefnisstjóri umhverfismála en nýverið var Heiða Jack ráðin í það hlutverk. Hún kemur til okkar frá Reykjavíkurborg þar sem hún vann á deild gatna, lóða og opinna svæða. Hún kemur því með mikla reynslu inn í þau verkefni sem bíða. Heiða er landslagsarkitekt frá Háskólanum í Edinborg og hefur einnig lokið námi í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands sem og í tækniteiknun frá Iðnskólanum. Ég býð Heiðu hjartanlega velkomna til starfa en hennar bíða ýmis verkefni sem lúta að ásýnd sveitarfélagsins sem er sameiginlegt verkefni okkar allra.
Starf leikskólastjóra var auglýst á dögunum og eftir framlengingu er umsóknarfrestur til 9. júní. Starf leikskólans er samfélaginu afar mikilvægt og því brýnt að við fáum öflugan aðila til þess að leiða starfið með því frábæra starfsfólki sem þar er. Auglýsingin er á heimasíðu sveitarfélagsins og á facebook. Ég biðla til þeirra sem geta og vilja að deila henni á samfélagsmiðlum til að hún nái augum sem flestra.
Þessi færsla er orðin í lengra lagi enda óvenju langur tími undir. Fjöldi funda og símtala verður ekki talinn upp hér vegna þessa en málin sem upp koma eru sem fyrr af fjölbreyttum toga. Ég vil minna lesendur á að vera endilega í sambandi við mig beint með hverjar þær hugmyndir eða athugasemdir sem þeir kunna að hafa um málefni sveitarfélagsis, jákvæðar eða leiðbeinandi. Ég tek öllum samtölum fagnandi. Hægt er að senda mér tölvupóst á netfangið unnur@hunathing.is, panta símtal hér eða hringja í mig beint (ég er í símaskránni).
Læt hér að lokum fylgja með nokkrar myndir frá Hvammstanga sem ég tók á göngutúr í góðviðri á dögunum með Bergveigu Unni yngri ömmustelpunni minni og Guðna mínum sem er alveg að fara að fermast.

Málning á regnbogagangstéttinni var endurnýjuð á uppbrotsdögum grunnskólans í góðviðrisvikunni.

Viðbygging grunnskólans er glæsileg bygging.

Sjúkrahúsið með sjómerki í forgrunni. Þau voru múruð og máluð í fyrrasumar. Þau eru enn í notkun og því mátti ekki færa þau í upprunalegt horf. Skiltin verða sett upp fljótlega.

Séð yfir Miðtúnsreitinn þar sem áform eru uppi um byggingu lífsgæðakjarna með íbúðum fyrir 50 ára og eldri.

Húsin í elsta hluta bæjarins eru mikil bæjarprýði. Í sumar verða sett upp skilti við nokkur þeirra með texta úr bók Þórðar Skúlasonar með góðfúslegu leyfi hans. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Verkefnið fékk styrk úr Sóknaráætlun landshlutans.

Stuðlar til vinstri og Holt til hægri.
Litaval þessar gömlu húsa lífgar svo sannarlega upp á bæinn.

Þetta sjónarhorn er vinsælt myndefni ferðamanna enda fallegt að líta upp eftir ánni. Sitt sýnist hverjum um Kerfilinn en hann gefur "mótífinu" óneitanlega svip.