6. - 13. október
Vikan hófst sem fyrr á framkvæmdaráðsfundi. Hann var í styttra lagi í þetta skiptið þar sem ég hafði verið boðuð á kynningarfund á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna fyrirhugaðra breytinga á sveitarstjórnarlögum. Fulltrúar ráðuneytisins komu til fundar og fóru yfir helstu breytingar. Fundurinn var afar upplýsandi og gott fóður inn í umsagnarskrif um málið. Þvínæst tóku við skrif dagbókar síðustu viku og í framhaldinu stuttur fundur með listamanninum Juan sem er að vinna hugmyndavinnu vegna listaverks á vegginn við Brúarhvamm. Leist okkur afar vel á tillögur hans og vonandi getur hann ráðist í að mála fljótlega. Að því loknu tók við fundur með kjörstjórnum Húnaþings vestra og Dalabyggðar vegna kosningar um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Á fundinum var farið yfir framkvæmd kosninganna en afar brýnt er að hún sé upp á punkt og prik.
Eftir hádegið var svo byggðarráðsfundur eins og alla jafna. Á fundinum var meðal annars skipað í samráðsvettvang Sóknaráætlunar, íbúð úthlutað og samningur um málefni fatlaðs fólks samþykktur auk yfirferðar yfir nokkrar umsagnir um þingmál.
Á þriðjudeginum lauk ég við undirbúning kynningar á sveitarfélaginu vegna heimsóknar fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var á dagskrá daginn eftir. Einnig fundaði ég með ráðgjafa sem er að vinna hótelgreiningu fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Markmið hennar er að skoða þörf fyrir gistingu í landshlutanum og hvar henni væri best fyrir komið. Þvínæst fundaði ég með landeiganda í sveitarfélaginu út af ýmsum málum. Að þeim fundi loknum lukum við undirbúningi fyrir sveitarstjórnarfund, dagskrá hans og fundarboð sem þarf að senda út eigi síðar en 48 klst fyrir fund. Að því loknu tók við yfirferð umsókna um starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs og í framhaldinu fundaði ég með ráðgjafa sem er okkur til aðstoðar í ráðningarferlinu. Við bárum saman bækur okkar og skipulögðum viðtöl síðar í vikunni. Næst tóku við málefni fráveitunnar á Hvammstanga en við erum að skoða mögulegar lausnir á fyrsta stigs hreinsun sem okkur ber að framkvæma. Þróun í slíkum lausnum hefur verið hröð undanfarin misseri og kostnaður við framkvæmdirnar hefur lækkað verulega með nýjum nálgunum. Í framhaldinu fengu atvinnumálin góða athygli með löngu símtali en eins og fram hefur komið í fyrri dagbókarskrifum eru nokkur spennandi verkefni á borðinu, stór og smá.
Á miðvikdagsmorgninum hófust leikar á fundi sameiningarnefndar vegna mögulegrar sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Megin efni fundarins var undirbúningur íbúafunda sem haldnir verða í vikunni. Í Dalabúð þriðjudaginn 14. október og Félagsheimilinu Hvammstanga 15. október. Ég hvet öll til að mæta á fundina og taka þátt í samtalinu um mótun sameinaðs sveitarfélags fari svo að af sameiningu verði. Afar mikilvægt er að fá fram sem flest sjónarmið, sama hvort fólki hugnast sameining eða ekki. Nú ver verið að draga saman lokaupplýsingar sem svo verða sett saman í álit sameiningarnefndar sem íbúar kjósa að lokum um eins og lög gera ráð fyrir.
Að loknum fundi sameiningarnefndar fundaði ég ásamt sviðsstjórum fjármála- og stjórnsýslusviðs og umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs um stöðu framkvæmdaverkefna. Framkvæmdir í ár hafa verið umfangsmeiri en mörg undanfarin ár. Sumum verkefna er lokið, önnur farin af stað og enn önnur tafist eins og gengur. Heilt yfir er þó staðan nokkuð góð þau í einhverjum tilfellum hafi gengið upp og ofan að fá verktaka til að taka að sér verkefni. Það er einn þátturinn sem taka þarf tillit til þegar fjárfestingar eru ákvarðaðar. Það er ekki nóg að ákveð að setja fjárhæðir í verkefni heldur þarf líka að vera til staðar mannsskapur til að vinna þau. Af einstaka verkefnum þá urðu lagnaframkvæmdir við Höfðabraut mun umfangsmeiri en ætlað var eins og íbúar hafa tekið eftir. Í ljós kom að aðrar lagnir voru mun verr farnar en búist var við og nauðsynlegt að bæta þar úr þar sem við vorum hvort eð er búin að grafa skurði. Framkvæmdir við aðstöðuhúsið í Kirkjuhvammi eru hafnar og von á verktökum til að reisa húsið á næstu dögum. Malbikunarframkvæmdum er lokið (nema ef veður leyfi eitt áhlaup til) og gangstéttarframkvæmdir standa yfir. Allt er á fullu í Félagsheimilinu.Svo örfáar framkvæmdir séu nefndar.
Eftir hádegið fundaði sveitarstjórn svo með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Til umfjöllunar var samstarf Sambandsins og sveitarfélaganna, kynning á starfsemi Sambandsins og sömuleiðis kynntum við sveitarfélagið fyrir gestunum. Eftir það var ekki seinna vænna en að hefja skrif á skýrslu sveitarstjóra sem er alltaf á dagskrá sveitarstjórnarfunda.

Hluti fundargesta á fundi Sambandsins og sveitarstjórnar.
Á fimmtudagsmorgni fundaði ég ásamt Bjarka sveitarstjóra í Dalabyggð með Jóhönnu Fjólu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands um hugsanleg áhrif sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar á rekstur eininga stofnunarinnar í sveitarfélögunum. Við áttum afar gott spjall um Heilbrigðisstofnunina almennt og þjónustu hennar. Í mjög stuttu máli þá var niðurstaða fundarins sú að sameining hefði ekki áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Vegalengdir á milli þéttbýliskjarna eru það miklar að ekki er forsvaranlegt fyrir íbúar annars staðarins að sækja læknisþjónustu í hinn. Sömuleiðis veðrur ekki um áhrif á hjúkrunarheimili að ræða. Ræddum við sömuleiðis þróun í heilbrigðisþjónustu sem er að eiga sér stað og mun halda áfram sama hvort til sameiningar kemur eða ekki. Svo sem aukið samstarf og fjarlækningar sem eru í hraðri þróun. Einnig ræddum við vinnu ýmissa starfshópa svo sem um bráðaþjónustu. Mjög gagnlegt spjall sem veit á gott um framhald þess góða samstarfs sem við höfum átt við stofnunina, sama hvort af sameiningu verður eða ekki.
Að þeim fundi loknum tók við undirbúningur sveitarstjórnarfundar, yfirferð draga að fundargerð, skoðun fundargagna og lokafrágangur á skýrslu sveitarstjóra. Einnig sinnti ég tölvupóstum, samþykkti reikninga o.s.frv.
Sveitarstjórnarfundurinn var svo á dagskrá eftir hádegið. Þó dagskrárliðirnir hafi verið margir var fundurinn ekkert sérstaklega langur. Auk heðfbundinna afgreiðslna fundargerða varð geðheilsustefna fyrir starfsstöðvar sveitarfélagsins samþykkt, áfangi sem ég er afar stolt af. Nú hefst vinna við að vinna að þeim aðgerðum sem skilgreindar eru í stefnunni. Á fundinum fór svo fram fyrri umræða um þær gjaldskrár sem þurfa tvær umræður í sveitarstjórn sem og um fjárhagsáætlun ársins 2026 og þriggja ára áætlun. Auk þess voru gerðar nokkrar nauðsynlegar bókanir í tengslum við sameiningarkosningar. Fundargerð fundarins er hér.
Að sveitarstjórnarfundi loknum fundaði ég með oddvita og formanni byggðarráðs. Fundur sem við höldum vanalega á föstudagsmorgnum en við ákváðum að eiga strax í kjölfar sveitarstjórnarfundar. M.a. stilltum við upp dagskrá byggðarráðs komandi mánudags og ræddum ýmis mál sem eru í gangi. Að því loknu gekk ég frá eftir sveitarstjórnarfundinn og sendi nokkrar bókanir og afgreiðslur.
Á föstudeginum var megináhersla á atvinnuviðtöl við umsækjendur um starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs. Í kjölfarið fór ég yfir minnispunkta sem ég tók á meðan á viðtölum stóð og lagði mat á umsækjendur í samræmi við matskvarða sem stillt hafði verið upp. Ég mun svo funda með ráðgjafa okkar við ráðninguna eftir helgina til að bera saman bækur og ákvarða næstu skref. Ég hringdi í framhaldinu nokkur símtöl, gekk frá fundarboði byggðarráðsfundar og sendi út og hreinsaði upp ófrágengin mál eftir vikuna.
Á föstudagskvöldinu fór fram fundur á vegum Sjótækni þar sem þaragarðaverkefnið sem þau eru að hrida af stað var kynnt. Í framhaldinu var svo pallborð sem ég sat í fyrir hönd sveitarfélagsins og gestir spurðu spurninga. Fundurinn var vel sóttur og umræðurnar afar góðar. Verkefnið fékk jafnframt athygli daginn eftir þar sem verið var að setja út fyrsta áfanga tilraunagarðanna. Sérfræðingar frá Noregi komu og settu þarafrjó á línur sem svo voru settar niður í rammann sem Sjótækni setti niður helgina áður. Fékk ég ásamt hluta sveitarstjórnar að fara með í siglinguna og fylgjast með verkinu. Á þeim rúmu 11 árum sem ég hef verið viðloðandi sveitarstjórnarmál með einum eða öðrum hætti verð ég að segja að verkefnið um þaragarðana er eitt það mest spennandi sem ég hef komist í tæri við. Ef vel gengur þá eru allar líkur á að verkefnið muni skila tugum starfa á komandi árum. Verkefnið er ekki síst áhugavert fyrir þær sakir að það er sjálfbært og gengur ekki á neinar auðlindir. Samtalið við Sjótækni hefur verið afar gott og áhersla þeirra á miðlun upplýsinga til mikillar fyrirmyndar. Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindunni.

Þau sem tóku þátt í pallborðinu auk mín voru María Rut þingmaður norðvesturkjördæmis, Halldór Gunnar framkvæmdastjóri BioPol á Skagaströnd og stjórnarformaður Byggðastofnunar og Kjartan framkvæmdastjóri Sjótækni.
Ég leit stuttlega í tölvuna á sunnudeginum til að ganga frá drögum að umsögn um fumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnum og til að skrifa dagbókarfærslu vikunnar. Það er gott að vera amk. komin með drög að henni áður en mætt er til vinnu á mánudegi, sérstaklega þegar mikið er að gera eins og er þessa dagana.
Helginni lauk ég svo á því að fara í gusu hjá Saunasetrinu sem staðsett er í fjörunni við Selasetrið. Gusa er gufubað undir leiðsögn ef svo má segja en Sigrún Davíðsdóttir er eigandi fyrirtækisins og stjórnaði gusunni af mikilli snilld. Það er alveg óhætt að mæla með gusunni og strax ljóst eftir þessa fyrstu gusu hjá Saunasetrinu að ég á eftir að verða reglulegur gestur. Gusan er eitt dæmi um áhugaverða þróun og uppbyggingu í atvinnumálum. Þó hún skili kannski ekki mörgum beinum störfum þá er hún klárlega ný afþreying fyrir ferðamenn sem skiptir okkur miklu máli. Í mínum huga er þó aðalatriðið að hún er mikilvæg þjónustuviðbót fyrir heimamenn. Ég er stolt af því að verkefnið fékk styrk í Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra sem úthlutar einu sinni á ári. Næst verður auglýst úthlutun í janúar og ég hvet þau sem hafa hugmyndir að verkefnum að fylgjast vel með.
Ég vil að lokum ítreka hvatningu mína til íbúa um að mæta á fund um sameiningarsamtalið við Dalabyggð, hvort sem er í Dalabúð þriðjudaginn 14. október eða í Félagsheimilinu Hvammstanga miðvikudaginn 15. október. Báðir fundirnir hefjast kl. 17.

Útsýnið úr sánunni er engu líkt. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru ekki margir sánaklefar sem geta státað af viðlíka útsýni.