Ávarp í leikskrá Meistaraflokks Kormáks-Hvatar 2023

Af stolti og búsetu

Af afrekum undirritaðrar á fótboltavellinum fer ekki mörgum sögum. Það kann því að skjóta skökku við að sú hin sama riti pistil í leikskrá Meistaraflokksráðs í fótbolta. Og þó ekki. Allt íþróttastarf er nefnilega mikilvægur þáttur í þeim sterka sveitarfélagabrag sem einkennir sveitarfélagið okkar. Starf Meistaraflokksráðs Kormáks/Hvatar er þar síður en svo undanskilið. Flest höfum við mætt á leiki og hvatt okkar menn, jafnvel örgustu antisportistar. Sem undirrituð er auðvitað ekki þó ekki hafi hún hlaupið á eftir bolta á yngri árum. Hún á hins vegar ógleymanlegar stundir á íþróttavellinum sem barn, sem reyndar var þá við Höfða og á frjálsíþróttamótum á Reykjaskóla. Íþróttir eru einhvernveginn samofin minningum frá því ég bjó á Hvammstanga sem barn, íþróttir og raunar líka tónlist. Tónlistin er efni í pistil á öðrum vettvangi.

Íþróttirnar eru ekki bara eflandi fyrir einstaklingana sem þær stunda. Gott gengi okkar fólks á íþróttavellinum er mikilvægt til að efla stolt okkar af samfélaginu sewm við búum í. Við höfum séð unga fólkið okkar fara í atvinnumennsku í íþróttum til útlanda, vera valið í landsliðshópa í sínum íþróttagreinum og ganga vel á mótum innanlands. Allt þetta er magnað og við fyllumst við það stolti. Ég veit ekki með þig lesandi góður en ég vil búa í samfélagi sem ég er stolt af. Ég hef líka þá bjargföstu trú að fólk velur sér frekar búsetu í sveitarfélögum þar sem íbúarnir eru stoltir af samfélaginu sínu.

Þess vegna er starf Meistaraflokksráðs Kormáks Hvatar svo mikilvægt fyrir okkur. Þar standa í stafni einstaklingar sem brenna af áhuga fyrir því að gera samfélögin okkar betri og gera það af metnaði og fagmennsku svo eftir er tekið. Sjáið bara metnaðinn í þessari leikskrá. Með sterkri umgjörð hefur liðinu vegnað vel og unnið sig upp af öryggi. Leikmannahópurinn fyrir komandi tímabil er sterkur, skipaður firnasterkum heimamönnum, bæði reynslumiklum og minna reyndum, í bland við öfluga aðkomumenn. Það má líka svo sannarlega vera stoltur af þeirri staðreynd að þegar skoðaðar eru aðsóknartölur á leiki fyrir síðasta tímabil var Kormákur Hvöt næst best studda liðið í deildinni með um 70 áhorfendur að meðaltali á leik. Þó gott sé getum við stuðningsmenn liðsins gert betur og skora ég hér með á íbúa Húnavatnssýslna til að mæta á leiki. Setjum markið á efsta sætið í aðsókn á leiki og styðjum þannig okkar menn – til sigurs.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim sem leggja á sig ómælda vinnu við að halda úti starfi Meistaraflokks Kormáks Hvatar fyrir dugnaðinn, metnaðinn og eljuna í sínum störfum. Þeirra verk sýna svo ekki er um villst hvað hægt er þegar leikgleðin er höfð í fyrirrúmi.

Áfram bleikir, áfram Kormákur/Hvöt.

Myndin sýnir undirritaða með vöskum fótboltaköppum við völlinn á Reykjaskóla um miðjan áttunda áratug síðstu aldar.

Var efnið á síðunni hjálplegt?