Borðeyri

Borðeyri við vestanverðan Hrútafjörð er eitt fámennasta þorp landsins. Samkvæmt Vatnsdæla sögu þá var það Ingimundur gamli sem kenndi staðinn við rekaviðarborð sem hann sá er hann kom í Hrútafjörð á leið sinni norður í Vatnsdal og síðan hefur staðurinn borið Borðeyrarnafnið. Borðeyri varð löggiltur verslunarstaður 1846 og samfelld verslun þar á staðnum fram á 21. öld. Á síðari hluta 19. aldar var Borðeyri mikilvæg útskipunarhöfn er þaðan var flutt mikið af sauðfé sem selt var m.a. til Bretlands og þaðan fóru margir þeirra sem fluttu "vestur um haf" og gerðust vesturfarar í Ameríku. 

Í dag er þar rekinn leik- og grunnskóli fyrir sveitina í kring, bifreiðaverkstæði og ferðaþjónusta í Tangahúsi. Eitt elsta hús staðarins er Riis hús, reist 1862. Það hefur verið gert upp að utan og setur mikinn svip á staðinn. Með sameiningu Húnaþings vestra og Bæjarhrepps árið 2012 er Borðeyri nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi Húnaþings vestra. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?