29. maí 2023

Þó blásið geti býsna kalt,
beint með súld af hafi,
blessuð sólin elskar allt,
ekki nokkur vafi.

Ég leyfi mér að hefja þessa fæslu á kveðskap Agnars J. Levý frænda míns í Hrísakoti sem birtur er í nýjasta Húna sem út kom á dögunum. Okkur er öll farið að þyrsta í sól og gott veður. Það er ekki nokkur vafi að hún elskar allt. Mér var sýndur sá heiður að skrifa inngang Húna þetta árið. Húni er afar merkilegt rit, stútfullt af fróðleik úr og um héraðið. Eitt af fáum ritum sem ég les spjaldanna á milli. Í inngangnum þakka ég ritnefndum fyrir þeirra merka framlag og ítreka þær þakkir hér. Útgáfa Húna er afar mikilvæg til að varðveita sögu okkar og menningu.

Þó Húni hafi nú stolið af mér nokkrum tíma í vikunni (utan vinnutíma auðvitað ;)) þá var engu að síður tími í ýmislegt annað vafstur. Á mánudagsmorgni tók ég á móti nýjum starfsmanni í Ráðhúsinu þegar Ólöf Rún Skúladóttir frá Sólbakka í Víðidal hóf störf sem verkefnisstjóri umhverfismála. Hennar fyrstu verk munu snúast um að koma vinnuskólanum af stað þetta árið. Skráning ungmenna er lokið í skólann og fínasta þátttaka. Hins vegar eru fáar umsóknir um störf flokksstjóra sem er líklega til marks um atvinnuástandið í sveitarfélaginu, það er næga vinnu fyrir unga fólkið okkar að fá. Við vonum nú að þetta leysist allt saman. Hlutirnir hafa tilhneigingu til þess. Áhugasöm um störf flokksstjóra sem þetta lesa hvet ég til að hafa samband við Ólöfu Rún.

Við Ólöf byrjuðum vel flesta daga vikunnar á því að setjast niður og fara yfir hitt og þetta sem tengist starfinu. Ína Björk sem gengdi því starfi sem starf Ólafar byggir á leit við og fór yfir nokkur atriði með okkur og Júlíus Guðni sem hélt utan um vinnuskólann í fyrra hitti Ólöfu sömuleiðis og fór yfir ýmis mál. Það er í mörg horn að líta í þessu starfi.

Eftir hádegi á mánudag var byggðarráðsfundur venju samkvæmt. Þar voru meðal annars samþykkt tilboð í lagningu vatnslagnar frá Hvammstanga að Laugarbakka og snjómokstur áranna 2023-2026. Agnar Sigurðsson var lægstbjóðandi af þeim tilboðum sem eftir stóðu í vatnslögnina en Kristján Ársælsson lægstbjóðandi í snjómoksturinn bæði á Hvammstanga og Laugarbakka. Á fundinum voru einnig tilnefnd í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum þau Þorgrímur Guðni Björnsson og Sigríður Ólafsdóttir til vara. Jafnframt var bókuð umsögn um frumvarp til laga um tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf sem byggðarráð setti nokkra varnagla við. Fundargerð byggðarráðs er hér.

Til viðbótar við framangreint snérust verkefni mánudagsins um Leigufélagið Bústað og útleigu á einni lausri íbúð þar, minka- og refaveiði, næsta fund sveitarstjórnar, skipulag fundar sveitarstjórnar með ráðgjöfum SSNV um atvinnumál, verkefnið fræðslustjóri að láni sem við ætlum að ganga inn í ásamt sveitarfélögunum í A-Hún og sviðsstjóri fjölskyldusviðs hefur haldið utan um fyrir okkar hönd, svaraði stuttri könnun um jafnréttismál og var í samskiptum við félagasamtök sem vilja minnast Vesturfara sem lögðu upp frá Borðeyri. Verkefni úr ýmsum áttum.

Á þriðjudeginum gerðust þau undur og stórmerki að engir fundir voru bókaðir. Er það afar sjaldgæft en gefur kærkominn tíma til að vinna á verkefnalistanum. Ég skrifaði þá meðal annars dagbókarfærslu síðustu viku – með seinni skipunum. Ég skrifaði frétt um gönguleiðir inn á heimasíðuna sem ég hef fengið mjög góð viðbrögð við. Ég hvet fólk til að skoða þessar leiðir og endilega koma til mín ábendingum um fleiri leiðir sem væri áhugavert að hafa á svona lista. Ég vann líka að samantekt um innviði sveitarfélagsins. Nokkuð sem brýnt er að eiga tiltækt þegar upp koma fyrirspurnir frá aðilum sem eru að skoða tækifæri til atvinnuuppbyggingar. Einnig hreinsaði ég til í innhólfinu í tölvupóstinum og svaraði nokkrum póstum þar sem ég skuldaði svar við.

Miðvikudagurinn var hins vegar þéttskipaður fundum. Eftir spjall við Ólöfu verkefnisstjóra umhverfismála átti ég stuttan fund með verkefnisstjóra hjá UNICEF vegna verkefnisis barnvænt sveitarfélag sem við gengum inn í á dögunum. Verkefnið er viðamikið og þarf að skipuleggja vel. Næsta skref er að tilnefna ábyrgðaraðila og stýrihóp. Svo er ekkert annað en að hefjast handa. Með haustinu vonast ég til að við verðum komin vel af stað. Í framhaldi af fundi UNICEF sat ég fund Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra en þar er ég varamaður Sigríðar Ólafsdóttur. Útgáfa starfsleyfa var þar í forgrunni. Eftir hádegið fundaði ég með sviðsstjóra og fleirum um málefni félagsþjónstunnar og að því loknu fengum við gesti frá Háskólanum á Akureyri. Kynntu þær fyrir okkur spennandi fagháskólanám i leikskólafræðum.

Fimmtudagurinn hófst á föstudagsfundi með oddvita og formanni byggðarráðs en ég óskaði eftir því við þá að flytja fundinn um einn dag þar sem ég var í Reykjavík á föstudeginum. Það var auðsótt. Í kjölfar þess fundar settist ég niður með sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs um mál tengd fjármálum. Voru þessir fundir einu bókuðu fundirnir þann daginn. Að þeim loknum flutti ég mig á heimaskrifstofuna þar sem ég var með veikt barn heima. Það er gott að geta sinnt vinnunni heiman í frá þó ekkert komi í staðinn fyrir að sitja á skrifstofunni. Þar hélt ég áfram að vinna í innviðasamantektinni frá því á þriðjudeginum og ýmsum fleiri verkefnum.

Ég fór suður seinnipartinn á fimmtudeginum enda var mér boðið í tvær útskriftir á föstudag og laugardag. Ég gat því nýtt föstudagsmorguninn í að vinna örlítið en hætti á hádegi til að vera viðstödd útskriftarathöfn MR en ég á eina vinkonu í útskriftarhópnum. Föstudagsmorguninn fór í undirbúning fyrir byggðarráðsfund, mál tengd Bústað leigufélagi, ég samþykkti nokkra reikninga og skoðaði öryggismál á ferðamannastöðum í sveitarfélaginu lítillega svo fátt eitt sé talið.

Ég leit stuttlega við á skrifstofunni á mánudagsmorgninum og rétt fram yfir hádegi til að grynnka enn á verkefnalistanum. Hann styttist einhvernveginn lítið, eða réttara sagt virðist eins og tvö ný atriði komi á hann þegar eitt er strikað út. Það er oft ágætt að taka stuttan tíma fyrir nýja vinnuviku til að skipuleggja sig og skerpa á megin viðfangsefnum vikunnar. Þá kemur maður inn í vikuna á hlaupum.

Var efnið á síðunni hjálplegt?