19. desember 2022

Nú eru jólasveinarnir flestir komnir til byggða. Stysti dagur ársins skammt undan. Áður en við vitum af verður dag farið að lengja að nýju.

Þessir síðustu dagar fyrir jól eru lítið eitt frábrugðnir öðrum dögum árs. Einkum vegna þess að margir sem ég er í samskiptum við eru í fríi og því hægist á gangverki stjórnkerfisins. En þó ekki – því mörg brýn mál eru í vinnslu og verður að ljúka fyrir áramót. Vikan hófst við skrifborðið við að sinna hinum ýmsu málum. Endurskoðandi sveitarfélagsins leit í heimsókn og fór yfir fyrirkomulag við endurskoðun ársins. Það er gott að vera tímanlega í því enda ekki lítið verk að fara yfir rekstur sveitarfélags. Í framhaldinu höfum við gengið frá ýmsum pappírum sem endurskoðuninni tengjast og bókað fyrstu fundi í janúar. Byggðarráð fundaði svo á sínum hefðbundna tíma. Það helsta frá þeim fundi var samþykkt samnings við Samtökin ’78 um reglubundna fræðslu samtakanna um hinsegin málefni fyrir starfsfólk grunnskóla, leikskóla og félagsmiðstöðvar, nemenda grunnskóla og til stjórnenda sveitarfélagsins til næstu þriggja ára. Afar ánægjulegt samkomulag sem ég hlakka til að undirrita. Fundargerð fundarins er hér.

Að vinnudegi loknum kom starfsfólk ráðhúss saman og átti huggulega stund. Uppljóstrað var um leynivini, tekist var á í skemmtilegri spurningakeppni og setið og spjallað góða stund. Ég er óskaplega heppin með vinnufélaga.

Leynivinirnir í Ráðhúsinu stóðu sig í stykkinu.

Þriðjudagsfundurinn hófst á fundi með forsvarsmönnum Björgunarsveitarinnar Húna. Til umræðu var fyrirkomulag flugeldasýningar og brennu í ár. Eins og kunnugt er hefur ekki verið brenna sl. tvö ár og flugeldasýningin farið fram á norðurgarði hafnarinnar. Mikil ánægja hefur verið með þá staðsetningu og vilji sveitarinnar stendur til þess að hafa sýninguna þar áfram. Það hins vegar gerir það að verkum að brennan við Höfða hefur minna aðdráttarafl. Fram kom tillaga um að hafa flugeldasýninguna áfram við höfnina um áramót og í stað áramótabrennu vera með þrettándabrennu við Höfða. Eftir samráð við nokkra aðila var ákveðið að reyna það fyrirkomulag í ár og meta hvernig það reynist. Allt er jú breytingum háð. Að fundi með björgunarsveitinni loknum tók við skrifborðsvinna fram yfir hádegi, orkumál, ljósleiðaramál, starfsmannamál, fjallskil og ýmislegt fleira kom við sögu. Eftir hádegið heimsótti ég Félag eldri borgara í VSP húsið. Þangað er alltaf gaman að koma en þau voru í óðaönn að spila félagsvist. Ég sat hjá þeim góða stund og spjallaði eins og hægt var á milli spila.

Frá heimsókn til Félags eldri borgara í VSP húsinu.

Ég tók mér svo frí á miðvikudeginum og sinnti erindum í bænum. Hitti meðal annars kærar vinkonur frá því í barna- og menntaskóla og átti með þeim góða og nærandi stund.

Á fimmtudeginum hóf ég daginn á að funda með oddvita og formanni byggðarráðs. Við fórum yfir helstu mál og það sem á döfinni er. Að þeim fundi loknum fór ég ásamt Boga skipulagsfulltrúa í heimsókn á Hótel Laugarbakka þar sem við fengum innsýn inn í starfsemi hótelsins og framtíðaráform. Það er gaman að því hversu vel starfsemi hótelsins hefur fest sig í sessi í samfélaginu. Að þeim fundi loknum tók við skrifborðsvinna. Góð stund fór í vinnu við endurskoðun húsnæðisáætlunar sveitarfélagsins sem verður tekin fyrir í byrjun janúar. Önnur verkefni eins og samþykkt reikninga og tölvupósturinn fengu athygli. Í lok dags hitti ég forsvarsmenn Pílufélags Hvammstanga vegna leigu þeirra á rými í Félagsheimilinu Hvammstanga undir sína starfsemi. Við náðum ekki að ljúka við samninginn en í næstu dagbók verða fréttir af frágangi hans. Pílufélagið var stofnað á síðasta ári og hefur sannarlega fest sig í sessi. Æfingar tvisvar í viku og regluleg mót. Vel að verki staðið hjá því unga fólki sem að félaginu stendur.

Föstudagurinn má segja að hafi að megninu til farið í jólasveinastörf við pökkun og útkeyrslu jólagjafa starfsmanna sveitarfélagsins. Það tók góða stund en var mjög ánægjuleg vinna. Starfsfólk Ráðhússins sá að mestu um pökkunina en ég fór með pakkana í stofnanir sveitarfélagsins. Í einhverjum tilfellum með sviðsstjóra með mér. Hefð hefur skapast fyrir því að gefa kjöt úr heimabyggð og var árið í ár engin undantekning á því, kryddaður lambahryggur frá SKVH. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir þeirra góðu störf og óska þeim gleðilegra jóla.

Dacia Duster hér í hlutverki jólasveinabíls.

Þann stutta tíma sem eftir lifði dags varði ég við skrifborðið og sinnti ýmsum málum. Eins og fram kom í upphafi eru nokkur mál sem brýnt er að afgreiða fyrir áramót. Má þar nefna málefni barnaverndar sem verið er að koma í nýjan farveg eftir lagabreytingar. Verið er að ganga frá samningum um svokölluð umdæmisráð og munum við taka þátt í ráði með megni sveitarfélaganna á landsbyggðinni. Hlutverk ráðsins verður að skera úr um í málum sem ekki næst samkomulag um. Einnig er verið að móta samstarf um barnaverndarþjónustu í samstarfi sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra ásamt Fjallabyggð. Samningur um það samstarf er á lokametrunum og verður afgreiddur fyrir jól. Þessu tengt þarf að gera breytingar á samþykktum sveitarfélagsins. Því til viðbótar eru vendingar í fjármögnun málefna fatlaðs fólks af hálfu hins opinbera sem kalla á bókun sveitarstjórnar. Því er nauðsynlegt að halda auka sveitarstjórnarfund fyrir áramót. Það eru því næg verkefnin þó svo að jólin séu á næsta leyti.

Var efnið á síðunni hjálplegt?