20. mars 2023

Jæja góðir hálsar. Dagbókin snýr aftur eftir viku frí. Kem til leiks að nýju með 100% hleðslu á batteríunum og til í slaginn. Fyrstu dagar eftir frí eru alltaf öðruvísi en vanalega. Pósthólfið smekkfullt af póstum sem bregðast þarf við. Þó ég hafi fylgst með póstinum á meðan ég var í fríi og komið áfram því sem hægt var beið slatti af málum sem þarfnaðist athygli. Mánudagurinn fór því í að fara í gegnum þau auk fundar með framkvæmdaráði eins og vant er. Fundur byggðarráðs féll niður eins og venja er þegar fá mál eru á dagskrá. Það gerði það að verkum að ég gat tekið að mér að vera dómari í upplestrarkeppni 7. bekkjar í grunnskólanum. Ég hef stundum sagt að embættisverkin séu mis ánægjuleg en þetta var eitt af þeim allra skemmtilegustu. Krakkarnir stóðu sig frábærlega og voru augljóslega búin að leggja mikla vinnu í undirbúning. Ég er endalaust stolt af unga fólkinu okkar.

Seinni hluta mánudags átti ég svo fund með Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri vegna greiningar sem þau hafa tekið að sér að vinna á samfélagslegum áhrifum ástands Vatnsnesvegar. Niðurstaðan ætti að liggja fyrir um miðjan apríl. Þar á eftir brunaði ég ásamt formanni byggðarráðs á Blönduós þar sem verkefnaráð Holtavörðuheiðarlínu 3 fundaði um valkosti lagnaleiðar línunnar. Þeir valkostir sem eftir standa munu fara í umhverfismat og í framhaldinu metið hver þeirra er fýsilegur. Þessi framkvæmd er hluti af endurnýjun byggðalínunnar sem er fyrir löngu orðin úr sér gengin og því ekki aðeins mikilvæg framkvæmd fyrir sveitarfélagið heldur landið allt. Án hennar eru möguleikar til uppbyggingar ansi takmarkaðir. Á vef Landsnets er svæði með upplýsingum um verkefnið sem áhugasöm eru hvött til að kynna sér. Þar er meðal annars kortasjá þar sem hægt er að þysja inn á lagnaleiðirnar og sjá nokkuð nákvæmlega hvar áætlað er að þær liggi.

Á þriðjudeginum átti ég fund með Ólöfu starfsmanni SSNV um gerð loftslagsstefnu fyrir sveitarfélagið. Hún mun aðstoða okkur við að hrinda þeirri vinnu af stað. Loftslagsstefna er ein þeirra áætlana sem sveitarfélögum er gert að vinna. Að þeim fundi loknum hélt ég áfram að vinna mig í gegnum tölvupósta liðinnar viku með hléi í hádeginu þar sem ég borðaði með fulltrúum Landsnets á Sjávarborg. Það sem eftir lifði tengdust verkefnin m.a. grenjavinnslu, starfsmannamálum, fjármálum og fleir. Auk þess sem ég kynnti mér verkefnið Græn skref.

Á miðvikudeginum fór nokkur athygli á fyrirhugaðar ráðningar í sveitarfélaginu. Annars vegar ráðning nýs skólastjóra grunnskólans og hins vegar verkefnisstjóra umhverfismála. Bæði störfin hafa nú verið auglýst. Ég get staðfest að það er gott að vinna hjá sveitarfélaginu svo ég hvet áhugasöm til að sækja um. Ég birti líka auglýsingu um minkaveiði í Víðidal og hvet áhugasöm um það verkefni endilega að láta heyra í sér fyrir 29. mars. Um er að ræða veiði fram á sumar. Þar sem ég var fjarverandi á sveitarstjórnarfundi liðinnar viku átti ég eftir að vinna úr fundinum og senda tilkynningar um afgreiðslur. Það tók dágóðan tíma en mikilvægt er að tilkynna aðilum máls um afgreiðslur mála og tryggja að allar afgreiðslur og samskipti séu vistuð í skjalakerfi sveitarfélagsins.

Á fimmtudeginum fór ég yfir í Skagafjörð og sat fundi annarsvegar með framkvæmdaráði málefna fatlaðs fólks og hins vegar framkvæmdaráði Barnaverndar Mið-Norðurlands. Í framkvæmdaráðunum sitja framkvæmdastjórar samstarfssveitarfélaganna sem hafa það hlutverk að hafa eftirlit með rekstrinum. Báðir fundir gengu vel og er samstarfið í báðum málaflokkum til fyrirmyndar. Eftir að heim kom tók við ánægjulegt embættisverk þegar nýjar hverfahleðslustöðvar voru teknar í notkun á Hvammstanga, annars vegar við Félagsheimilið og hins vegar við Íþróttamiðstöðina. Stöðvarnar eru settar upp í samstarfi við Orku náttúrunnar og annaðist Tengill uppsetninguna. Þessar stöðvar eru fyrsta skrefið að bættu aðgengi að hleðslumöguleikum fyrir rafbílaeigendur í sveitarfélaginu bæði íbúa og gesti. Verkefnið var styrkt af Orkusjóði sem hefur það hlutverk að styðja við orkuskipti á landsvísu. Vert er að benda á að umsóknarfrestur nýrra verkefna í Orkusjóð er til 19. apríl nk.

Oddvitinn stingur fyrsta bílnum í samband.

Á föstudeginum hóf ég daginn á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og vant er. Fórum við yfir ýmis mál eins og alltaf. Bráðnauðsynlegir fundir fyrir mig til að upplýsa þá og eins fá línur um áherslur. Á föstudeginum rann út frestur til að skila inn umsóknum um styrki til viðhalds styrkvega. Ég var nú reyndar löngu búin að senda inn umsóknina en gott að nefna það þar sem verkefni af þessum toga eru hluti af þessum ósýnilegum verkefnum sem samt eru svo brýn. Á síðasta ári fékk sveitarfélagið 5 milljón króna styrk sem langur vegur er frá að dugi til nauðsynlegra framkvæmda. Föstudagurinn fór að öðru leyti í undirbúning byggðarráðsfundar, eftirfylgni með ýmsum málum og samskiptum við ráðuneyti, nokkur starfsmannamál, fjármál og fleira.

Ánægjuleg fyrsta vika eftir frí að baki. Þó ég hafi bara verið viku í burtu var eitt það ánægjulegasta við að koma til baka að sjá hversu mikið bjartara er orðið á morgnanna þegar ég geng til vinnu. Að labba í vinnuna í björtu kl. 7 að morgni er staðfesting á því að vorið er á næsta leyti og það léttir svo sannarlega lundina þó kalt sé.

Það var kuldalegt en fallegt um að litast þennan morguninn. Tekið um kl. 7 að morgni neðan við Selasetrið.

Var efnið á síðunni hjálplegt?