20. nóvember 2023

Vikan 13.-19. nóvember 2023

Þegar þetta er skrifað er réttur mánuður til jóla. Jólaskreytingar eru komnar upp að hluta í sveitarfélaginu og jólalögin farin að hljóma í útvarpinu. Þegar nær líður jólum hægist á stjórnsýslunni og því gefst oft tími til að vinna að verkefnum sem bíða “dauða tímans” í desember. Sá tími er þó ekki kominn enn eins og verkefni vikunnar bera með sér.

Mánudagurinn hófst á starfsmananfundi með starfsmönnum ráðhússins. Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir helstu atriði nýsamþykktrar fjárhgsáætlunar, Græn skref voru kynnt en vinna við innleiðingu þeirra er að hefjast. Einnig var farið yfir fyrirhugaðar breytingar á innanhúss skipulagi í ráðhúsinu sem ég segi betur frá síðar í þessari færslu. Að starfsmannafundi loknum settist ég niður með verkefnisstjóra umhverfismála til að fara yfir helstu verkefni. Af nógu er að taka þar en á hennar borði eru m.a. styrkjaumsóknir og skýrslugerðir vegna fenginna styrkja sem við erum að vinna í þessa dagana. . Alla jafna hefði átt að vera byggðarráðsfundur eftir hádegið en honum var frestað eins og gert er þegar fá mál eru á dagskrá eins og tilfellið var í þetta skiptið. Fyrst hann féll niður sinnti ég ýmsum verkefnum. Meðal annars bar starfsmannamál á góma, yfirlestur fundargerða fagráða málefna fatlaðs fólks og Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands, undirbúningur fundar með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í lok vikunnar, sending auglýsingar til birtingar í Stjórnartíðindum, undirritun samninga um vetrarveiði á ref og margt fleira. Í lok dags fór ég svo af stað suður til Reykjavíkur en þar var ég við vinnu á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag.

Á meðan ég var fyrir sunnan sat ég ýmsa fundi og sinnti útréttingum auk þess að sitja afmælisráðstefnu SAF. Þar var ég í pallborði í umræðum um áhrif ferðaþjónustu á sveitarfélög. Virkilega góð og gagnleg umræða. SAF hefur nýverið birt mjög áhugavert mælaborð með gögnum um ferðaþjónustu sem brotin eru niður á sveitarfélög sem getur nýst við alls kynns stefnumótun og skipulag. Fyrir áhugasöm er það að finna hér. Ég sat einnig mjög góðan fund á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða HÍ og Félags forstöðumanna ríkisstofnana um ógnanir við starfsfólk. Því miður er það svo að starfsmenn hins opinbera verða í sí auknu mæli fyrir ógnunum við störf sín. Geta þær verið á formi reiðra þjónustuþega, netárása og netníðs á samfélagsmiðlum, skemmdaverka á eigum þeirra og hótunum í þeirra garð og jafnvel í garð fjölskyldna þeirra. Afar ógnvænleg þróun. Var farið yfir birtingarmynd þessara ógna og hvaða leiðir eru færar til að bregðast við.

Auk mín voru í pallborði á afmælisráðstefnu SAF Einar Þorsteinsson frá Reykjavík og Einar Freyr Elínarson frá Mýrdalshreppi.

Á milli funda og útréttinga sinnti ég ýmsum skrifborðsverkefnum, svo sem dagbókarskrifum, enda eru slík verkefni óháð staðsetningu. Ég er búin að koma mér upp góðum græjum svo ég get unnið hvar sem er þegar ég þarf að vera á ferðinni eins og í liðinni viku.

Ég var komin til baka upp úr miðjum degi á fimmtudegi og fór beint vinnustofu sveitarstjórnar með Landsneti vegna Holtavörðuheiðarlínu 3 sem haldin var á Hótel Laugarbakka. Var farið yfir helstu áhrif lagningu línunnar á sveitarfélagið en í mjög stuttu máli mun hún leiða til stóraukins aðgengis að orku auk bætts afhendingaröryggis. Hún hefur auðvitað einnig nokkur umhverfisáhrif og er verkefni Landsnets og þeirra ráðgjafa að vega og meta ólík áhrif. Kortasjá hefur verið sett upp um þá valkosti langnaleiðar sem teiknaðir hafa verið upp og ég hvet áhugsöm um að kynna sér hana.

Föstudagurinn hófst með hefðbundnum föstudagsfundi, þó aðeins með formanni byggðarráðs í þetta skiptið. Undirbjuggum við byggðarráðsfund komandi viku. Strax í kjölfarið sátum við fund sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra um umsagnir þeirra um samgönguáætlun sem nú er í meðförum nefndarinnar. Eins og áður á slíkum fundum fórum við yfir helstu áherslumál. Umsögn okkar um áætlunina er að finna hér. Því næst lá leið á Sauðárkrók þar sem sveitarstjórar í landshlutanum byrjuðu á því að funda með lögreglustjóra og forvarnarfulltrúa embættisins um sameiginleg mál og strax í kjölfarið með ráðgjöfum og fulltrúum dómsmálaráðuneytisins um yfirstandandi endurskoðun á almannavarnakerfi landsins. Þörf og góð umræða skapaðist á báðum fundum.

Á laugardeginum byrjaði á útsendingu fundarboðs byggðarráðs. Að því loknu var ráðist í þær innanhússbreytingar í Ráðhúsinu sem ég nefndi hér að framan. Þörf hefur skapast fyrir fundar- og/eða næðisrými þar sem hægt er að sitja netfundi, auk hefðbundinna funda. Til að mæta því varð úr að ég og sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslusviðs minnkuðum við okkur skrifstofur og fluttum upp á efri hæðina. Sálfræðingur og yfirfélagsráðgjafi deila nú skrifstofu, enn sem komið er á efri hæð, en munu flytja sig í fyrrum skrifstofu sveitarstjóra á neðri hæð sem er rýmri og óþarflega stór fyrir einn aðila. Með þessu losnar ein skrifstofa sem breytt var í fundarherbergi fyrir allt að sex manns. Þar verður settur upp fjarfundabúnaður. Við fórum í þetta verkefni tvær, ég og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og nýttum tækifærið til að yfirfara ýmis gögn sem safnast höfðu upp í skápum og skúffum hjá okkur, sumt orðið ansi gamalt og frá því fyrir okkar tíð. Allt gekk þetta að óskum og fer ljómandi vel um okkur uppi. Lokið verður við breytingarnar á næstunni. Auk þess að með breytingunum fjölgar um eitt fundarherbergi í húsinu er öryggi aukið þar sem nýtt fundarherbergi hefur tvennar dyr. Jafnframt eru þessar breytingar upptaktur að frekari breytingum innanhúss en kaffistofa er orðin of lítil fyrir þá starfsmenn sem eru í húsi. Þó er ekki svo að starfsfólki hafi fjölgað snögglega heldur hefur sú þróun verið að eiga sér stað undanfarin ár t.d. með tilkomu sálfræðings, aðstoðarmanns byggingarfulltrúa og þess að slökkviliðsstjóri er nú staðsettur að hluta í ráðhúsinu en var áður eingöngu á slökkvistöð. Þegar fólk deilir skrifstofum í auknu mæli er nauðsynlegt að hafa afdrep til að eiga símtöl, taka á móti fólki og sitja fjarfundi o.s.frv. Vonandi gefst rými til að fara í frekari breytingar á innra skipulagi, t.d. stækka kaffistofu, á komandi árum en það mun ekki gerast fyrr en hagur sveitarfélagsins vænkast.

Öll fjarvera í vikunni gerði það að verkum að sunnudagurinn var nýttur til ýmissa skrifborðsverkefna. Eftirfylgni með ýmsum málum. Eitt af því sem ég fylgdi eftir var beiðni frá því í haust til Vegagerðarinnar um uppsetningu hraðavaraskilta á Laugarbakka líkt og eru við innkomu inn á Hvammstanga. Mér barst svar um hæl um að skiltin hefðu verið að koma í hús hjá Vegagerðinni og yrðu vonandi sett upp fyrir áramót. Hraðakstur hefur verið vandamál og skapað hættu fyrir íbúa á Laugarbakka. Það er von mín að skiltin verði áminning til ökumanna um að hægja á sér meðan ekið er í gegnum staðinn. Þangað til minni ég ökumenn á að slá af á leið sinni í gegnum Laugarbakka.

Var efnið á síðunni hjálplegt?