22. desember 2023

Desember 2023

Sveitarstjóri játar syndir sínar en ekki hefur verið sett inn dagbókarfærsla í desember. Tryggir lesendur eru beðnir afsökunar á því en það kemur til af önnum og fjarveru. Ég brá mér til Finnlands í boði Húnaklúbbsins í byrjun desember og heimsótti þar Pythaa samstarfssveitarfélag klúbbsins í verkefni sem miðar að aukinni samfélagsþáttöku barna og ungmenna. Afar ánægjuleg heimsókn þar sem skoðaðir voru áframhaldandi samstarfsfletir. Í framhaldinu sótti ég ráðstefnu í Helsinki þar sem umfjöllunarefnið var nýsköpun og það sem henni tengist. Brýnt viðfangsefni og gott að víkka út sjóndeildarhringinn.

Sveitarstjórar Húnaþings vestra og Pythaa.

Ég skrapp jafnframt í nokkurra daga frí fljótlega eftir að ég kom frá Finnlandi. Það má því segja að desembermánuður hafi verið óhefðbundinn að einhverju leyti þó önnur verkefni hafi verið hefðbundin. Byggðarráðsfundir, sveitarstjórnarfundir og framkvæmdaráðsfundir. Ferli endurskoðunar ársins hófst með fundi með endurskoðendum og fer á fulla ferð í janúar. Haldinn var upplýsingafundur um nýja nálgun þegar upp koma riðusmit, afar upplýsandi og góður fundur. Léttirinn við að nú loks sjáist til lands í baráttunni við riðuna er mikill. Þetta mun taka nokkur ár en með góðri samvinnu og samstöðu mun þetta takast. Til viðbótar sat ég mánaðarlegan samráðsfund sveitarstjóra á Norðurlandi vestra, fundaði með stjórnendum, stjórnaði jólabingói starfsmanna Ráðhússins, fundaði með mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins, fundaði með forsvarsmönnum Björgunarsveitarinnar Húna, var viðstödd afhendingu viðurkenningar USVH sem fyrirmyndarhéraðs ÍSÍ o.mfl.

Frá afhendingu viðurkenningarinnar til USVH.

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera kynnir á Jólahúnum þetta árið. Eins og ég sagði á samkomunni þá veit maður að við eigum frábært tónlistarfólk. Samt verði ég alltaf hissa yfir því hversu framúrskarandi það er. Það er óhætt að segja að tónleikarnir hafi verið frábærir. Skuli Einarsson heitinn á Tannstaðabakka var upphafsmaður tónleikanna en í ár sá Rannveig Erla Magnúsdóttir um skipulagninguna. Ég þakka öllum þeim sem að tónleikunum komu og ekki síst gestum tónleikanna fyrir ánægjulega kvöldstund. Allur ágóði tónleikanna mun renna í Velferðarsjóð Húnaþings vestra. Samtakamáttur samfélagsins okkar í hnotskurn.

Frá Jólahúnum. 

Talandi um hæfileikaríkt fólk. Ég fór á sýningu Leikflokksins á Þytur í laufi. Þvílíka meistarastykkið. Ég vil þakka öllum þeim sem að leiksýningunni komu fyrir alla sína vinnu og þá frábæru skemmtun sem við fjölskyldan höfðum af.

Á stysta degi ársins sat ég svo afar hátíðlega og fallega ljósamessu í Kirkjuhvammskirkju.

Jólahúnar og ljósamessan komu mér endanlega í jólaskapið. Þó ,,allt” sé eftir á heimilinu og skammur tími til jóla þá koma þau nú samt.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Var efnið á síðunni hjálplegt?