23. nóvember 2025

27. október -23. nóvember

Nú verður sveitarstjóri að játa á sig syndir því ekki hefur verið færð dagbók í tæpan mánuð. Kemur það til af önnum en aðrar eru málsbætur hennar ekki. Ég mun í þessari færslu drepa á því helsta sem á daga hefur drifið frá síðustu færslu í lok október í uptalningaformi. Svo er ekki annað en að lofa bót og betrun.

Dagarnir hafa verið annasamir, fjárhagsáætlun hefur tekið nokkurn tíma, samtal um hugsanlega sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar sömuleiðis ásamt hefðbundnum verkefnum.

Tökum þetta viku fyrir viku:

27. október – 2. nóvember

  • Undirritun samnings við nemendur 10. bekkjar vegna tæmingar á ruslafötum í grennd við grunnskólann. Fyrir verkið fá þau styrk í ferðasjóð. Duglegir krakkar sem vilja láta til sín taka við fegrun umhverfisins og fyrir það er ég þakklát.
  • Afhending ungbarnagjafar – það er alltaf jafn skemmtilegt að líta við hjá nýbökuðum foreldrum. Í þetta skiptið rúllaði ég í Víðidalinn og hitti yngsta íbúa sveitarfélagsins. Sjá nánar um ungbarnagjafirnar hér.
  • Byggðarráðsfundur 27. október. Meðal annars var fjallað um ráðningu nýs sviðsstjóra. Ingimar Ingimarsson mun taka við starfinu upp úr áramótum en hann hefur gengt samskonar starfi í Þingaeyjarsveit síðastliðin ár. Þorgils mun láta af störfum á næstunni og vil ég nota tækifærið og þakka honum kærlega fyrir gott samstarf og óska honum alls hins besta íkomandi verkefnum. Við tilnefndum jafnframt Heiðu Jack sem aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins og skipuðum starfshóp um húsnæðisþörf og þróun útisvæðis Leikskólans Ásgarðs. Í vetur verða 69 börn í leikskólanum en húsnæðið er ætlað fyrir um 70 börn. Fjölgun barna hefur verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir – og ekki ætla ég að kvarta yfir því. Það verður spennandi að sjá tillögur hópsins. Fundargerð byggðarráðsfundarins er aðgengileg hér.
  • Sveitarstjórar í landshlutanum funduðu með SSNV og ráðgjafa í tengslum við mótun samskiptastefnu fyrir landshlutann.
  • Við sveitarstjórar Húnaþings vestra og Dalabyggðar funduðum með Jöfnunarsjóði vegna sameiningarviðræðnanna.
  • Haldinn var kynningarfundur með sveitarfélögunum í landshlutanum um breytingar á leiðaáætlun landsbyggðavagna sem tekur gildi um áramót. Nokkrar breytingar verða á áætlun leiðar 57 milli Akureyrar og Reykjavíkur. Má nefna að vagninn hættir að keyra á Akranes, ferðum fækkar úr 2 á dag í eina en betur er reynt að stilla ferðina af í samræmi við þarfir menntaskólanema. M.a. verður sett upp stoppistöð við Menntaskólann á Akureyri o.fl. Hér má sjá þær breytingar sem gerðar verða. Við gerðum nokkrar athugasemdir m.a. við fækkun ferða og tímasetningu ferðar frá Akureyri en þær verða skoðaðar þegar reynsla er komin á breytinguna. Ef fólk hefur athugasemdir hvet ég þau til að hafa samband og koma þeim á framfæri.
  • Í vikunni var lokið endanlega við tvo útilistaverk en það var listamaðurinn Juan sem vann þau fyrir okkur. Stærstur hluti kostnaðar var greiddur með styrk frá styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótarfélags Íslands. Um er að ræða selamyndina við Brúarhvamm og listaverkið Veðurgluggann í fjörunni neðan við Selasetrið. Ég hvet fólk til að skoða þessi verk og njóta.
  • Þessa vikuna var vetrarfrí í grunnskólanum og ég leyfði mér að vera að mestu í fríi föstudeginum. Einnig þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur til tannlæknis á miðvikudeginum.
  • Aðrir fundir voru hefðbundnir. Framkvæmdaráð, föstudagsfundur með oddvita og formanni byggðarráðs. Innanhúss fundir aðrir m.a. vegna fráveitumála með sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs, vegna fjárhagsáætlunar o.m.fl.

Vikurnar 3.-16. nóvember

  • Á mánudeginum var ég í fríi fram að hádegi í vetrarfríi barnanna.
  • Byggðarráðsfundur var á sínum stað eftir hádegið. Þar bar fjárhagsáætlun hæst en ég mun fjalla um hana síðar þegar kemur að því að fjalla um síðari umræðu á sveitarstjórnarfundi. Einnig var á fundinum samþykktur samstarfssamningur og samstarfsyfirlýsing um stofnun farsældarráðs. Fundargerðin er aðgengileg hér.
  • Ég fór til Reykjavíkur á hið ágætasta námskeið í fundarstjórnun með Katrínu Jakobsdóttur. Gagnlegt og gott því þó ég hafi stýrt fjölda funda hef ég aldrei ”lært” það og kominn tími til.
  • Á leiðinni heim af námskeiðinu fundaði ég með ráðgjöfum KPMG vegna kynningarmála í tengslum við sameiningarkosningar. Það er afar mikilvægt að ná til sem flestra og að kosningaþátttaka verði sem allra mest. Fjalla nánar um það síðar hér í þessum pistli.
  • Forstöðumenn stofnana fóru í gegnum styrkleikaþjálfun þar sem við skoðuðum styrkleika okkar og hvernig þeir koma fram í okkar störfum og samskiptum. Virkilega gagnleg og skemmtileg þjálfun með mínum frábæru stjórnendum.
  • Landbúnaðarráð fundaði. Þar var farið yfir umsóknir um vetrarveiði á ref. Einnig var farið yfir uppgjör sumarvinnu fjallskiltadeilda og uppgjör refa og minkaveiða. Fundargerðin er hér.
  • Ég sat svo aðalfund Hæðarinnar á Höfðabraut 6 en sveitarfélagið á lítinn hlut í því félagi.
  • Á fimmtudeginum brá ég undir mig betri fætinum og skrapp til Lissabon þar sem ég sat ráðstefnu í vikunni á eftir. Ráðstefnan var í grunninn tækni ráðstefna þar sem mikið var fjallað um gervigreind, tækifærin og áskoranirnar sem í henni felast. Einnig var fjallað um stjórnun og leiðtogahæfni, stöðuna á alþjóðasviðinu o.m.fl. Það er nauðsynlegt að fá innblástur í störf sín öðru hvoru og fékk ég hann svo sannarlega á ráðstefnunni. Hún var afar fjölmenn, með yfir 70 þús gestum á risastóru ráðstefnusvæði. Fjöldi fyrirlestra sem var í boði var mikill og ekki vegur að sitja allt það sem mann langaði. Það eru hins vegar aðgengilegar upptökur af þeim sem ekki var hægt að sitja og hef ég verið að horfa á einn og einn slíkan. Af gefnu tilefni vil ég taka fram að ráðstefnugjald, flug, gistingu og uppihald greiddi ég úr eigin vasa og mun líklega fá styrk upp í þann kostnað frá mínu stéttarfélagi.
  • Þar sem ferðin til Portúgal var ekki beinlínis frí sinnti ég vinnu eftir föngum, svaraði póstum, vann nokkuð í tengslum við fjárhagsáætlunina o.m.fl.
  • Ég leit við á 20 ára afmælishátíð Selasetursins sem var haldin 15. nóvember. Fyrst um morguninn til að hlusta á leiklestur á Selnum snorra ásamt Sóldísi eldri ömmustelpunni minni. Seinna eftir hádegið þegar haldnar voru ræður og veittar viðurkenningar. Ég flutti stutta tölu og óskaði stjórn og starfsfólki til hamingju með áfangann. Hafandi verið framkvæmdastjóri selasetursins á árum áður þekki ég full vel að rekstur sem þessi er áskorun og þau eiga heiður skilinn fyrir störf sín.
  • Viðbragðsaðilar komu saman á minningardegi fórnarlamba umferðarslysa og flutti ég stutta tölu og þakkaði þeim fyrir sín mikilvægu störf. Við erum afar rík af góðu fólki sem sinnir þessum verkefnum í samfélaginu okkar. Ég er afar þakklát fyrir þau.

17.-21. nóvember

  • Byggðarráðsfundur féll niður og því gafst gott tóm til að undirbúa sveitarstjórnarfund sem að þessu sinni var haldinn á þriðjudegi.
  • Á þriðjudagsmorgninum var stjórnendafundur þar sem við fórum yfir niðurstöður könnunarinnar Sveitarfélag ársins sem við vorum að taka þátt í í fyrsta skiptið. Ég er hæst ánægð með að við lentum þar í 6. sæti af 22 sveitarfélögum sem tóku þátt. Það var gaman að fara yfir þær niðurstöður. Þó útkoman hafi verið góð voru þættir sem komu síður vel út einkum vinnuaðstaða og laun. Hið fyrra getum við lagað og ég bað stjórnendur um að taka upp samtal við sitt fólk um það sem brýnast er að laga svo við getum ráðist í það eins og fjármagn leyfir. Launin er hins vegar erfiðara að eiga við þar sem þau eru ákvörðuð af kjarasamningum. Við erum þó ekki eina sveitarfélagið sem skoraði lágt á launaþættinum, það virðist eiga við heilt yfir hjá þeim sveitarfélögum sem tóku þátt. Ég vil þakka þeim starfsmönnum sem tóku þátt í könnuninni. Ég á fastlega von á því að við höldum áfram að taka þátt í þessari könnun til að fá reglulega endurgjöf starfsmanna. Er þetta liður í aukinni áherslu á mannauðsmál á kjörtímabilinu en við höfum verið að endurskoða stefnur, áætlanir og reglur og gert mun betur í alls kyns námskeiðahaldi til að efla okkar frábæra starfsmannahóp enn frekar.
  • Ég fékk góða heimsókn á þriðjudagsmorgninum þegar nemendur úr skólahópi leikskólans komu og kynntu fyrir mér áform sín um að koma upp gróðurhúsi við leikskólann. Þau eru að vinna í umhverfistengdum verkefnum og settu niður hugmyndir sem þau svo kusu um og varð gróðurhúsapælingin hlutskörpust. Þau ætla að safna sér fyrir gróðurhúsinu en þau voru ekki að biðja um pening heldur að óska eftir því að við legðum þeim lið við að kynna verkefnið. Það er mér bæði ljúft og skylt. Það var virkilega gaman að fá þau í heimsókn. Ég bauð upp á djús og piparkökur sem þau kunnu augljóslega að meta. Umræður snérust að mestu um sparibauka krakkanna og að nokkrir áttu pening í bankanum. Í svona verkefnum felst mikið nám og virkilega gaman að sjá og finna þann metnað sem starfsmenn skólans hafa fyrir starfinu. Ég hlakka til að fara í heimsókn í skólann og skoða gróðurhúsið þegar það verður komið upp.
  • Eftir hádegið var sveitarstjórnarfundur á hverjum fjárhagsáætlun var afgreidd. Helstu lykiltölur áætlunarinnar eru aðgengilegar hér. Stóru tíðindin eru ákvörðun sveitarstjórnar um að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði, vatns- og fráveitugjöld. Einnig er gert ráð fyrir áframhaldandi innspýtingu í fjárfestingu. Gjaldfærð fjárfesting upp á 175 milljónir tæpar, þá helst endurbætur á veitum, malbiksframkvæmdir, lagfæringar á gangstéttum o.s.frv. Eignfærð fjárfesting er áætluð samtals 360 milljónir. Meðal annars stendur til að ráðast í endurnýjun tækja og frágang á skólalóð, áframhald á endurbótum á Félagsheimilinu Hvammstanga og lok á byggingu aðstöðuhússins í Kirkjuhvammi. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða næsta árs fyrir A- og B-hluta verði kr. 1,4 milljónir. Lánaheimild í áætluninni er upp á kr. 335 milljónir. Á meðan afborganir langtímalána eru áætlaðar kr. 92 milljónir. Veltufjárhlutfall er áætlað 1,97 og skuldahlutfall 65,9%. Niðurstaðan fyrir A- og B-hluta er ásættanleg en vert er að benda á að A-hlutinn er rekinn í tapi. Slíkt getur ekki gengið til lengdar. Eins og fram kemur í bókun með fjárhagsáætluninni er reksturinn viðkvæmur fyrir ytri áhrifum. Er nefnt dæmi um að gert er ráð fyrir 3,4% verðbólgu og fjármagnskostnaði upp á kr. 51,4 milljónir. Verðbólga í október var hins vegar 4,3% og ef sú yrði raunin á árinu 2026 yrði fjármagnskostnaður 10 milljónum króna hærri. Það verður því áfram keppikefli okkar í stjórnsýslunni að halda þétt um reksturinn til að hægt verði að halda uppi góðu þjónustustigi í sveitarfélaginu. Fundargerð sveitarstjórnarfundarins er aðgengileg hér með ítarlegri bókun um áætlunina og fjárhagsáætlunin í heild sinni hér.
  • Íbúafundir vegna hugsanlegrar sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar voru haldnir bæði í Búðardal og á Hvammstanga. Fundirnir voru vel sóttir bæði á stað og á neti og umræður góðar. Upptökur af fundunum eru aðgengilegar inni á vefsvæði verkefnisins dalhun.is og þar eru einnig aðgengileg gögn sem tekin hafa verið saman í vinnu sameiningarnefndar. Það er gott að sjá að umræða um sameininguna er loksins komin af stað og eðlilega sýnist sitt hverjum, annað væri undarlegt. Ég hvet fólk til að kynna sér málið vel, mæta á kjörstað og taka afstöðu, sama hver hún er. Niðurstaða kosningar er bindandi og ekkert lágmark er á kjörsókn. Ef setið er heima þá taka aðrir þessa stóru ákvörðun. Fyrirkomulag kosninga er annað heldur en við erum vön í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum en kosið er yfir tveggja vikna tímabil, sjá nánar um kosninguna og framkvæmd hennar hér.
  • Í vikunni sat ég einnig fundi vegna endurskoðunar á rafmagnskaupum sveitarfélagsins, kynningu hjá fulltrúum SSNV á fyrirhugaðri vinnu við gerð kynningarmyndbanda fyrir svæðið, vikulegan fund með oddvita og formanni byggðarráðs, framkvæmdaráðsfund, fund út af samskiptakerfi fyrir starfsfólk en við erum að skoða leiðir til að koma upplýsingum til starfsmanna með markvissari hætti. Ég vann að frágangi á þjónustustefnu sveitarfélagsins sem samþykkt var á sveitarstjórnarfundi vikunnar. Hún er birt hér með fundargerð en verður birt á heimasíðunni innan tíðar betur uppsett. Ýmis samskipti átti ég vegna ljósleiðaralagningarinnar sem farið hefur fram í sumar en sækja þarf framlag frá ríkinu vegna þess verkefnis. Ég sat jafnframt ársfund stjórna ríkisfyrirtækja í Hörpu vegna starfa minna í stjórn Orkubús Vestfjarða. Sá tími sem fer í það verkefni er tekinn af mínum orlofsdögum sem því miður hafa tilhneigingu til að safnast upp. Ég veitti leyfi fyrir flugeldasýningu um áramótin og þrettándabrennu og gekk frá tilskilinni tryggingu vegna brennunnar. Björgunarsveitin Húnar sér um þessa viðburði samkvæmt samningi þar um og hafa gert afar vel um langt árabil. Vinna við slit á leigufélaginu Bústað sem byggði raðhúsið á Lindarvegi á sínum tíma stendur yfir og sinnti ég því í vikunni. Eins og ég hef áður fjallað um runnu eignir Bústaðar inn í Bríeti leigufélag og því engin starfsemi í félaginu og því verður því slitið. Ég fundaði einnig með verktakanum sem er að byggja húsið að Norðurbraut 15 en einingar í það munu byrja að koma á staðinn í komandi viku. Stefnt er að því að húsið verði risið fyrir jól og búið að klæða það í lok janúar – auðvitað eru þessar áætlanir háðar veðri og vindum. Ég vann einnig í því að koma íbúð að Hlíðarvegi 25 í sölumeðferð en ákveðið var að selja eignina fyrr í haust. Mun hún verða auglýst innan fárra daga.

Læt staðar numið hér. Eðlilega er þetta yfirlit ekki tæmandi listi yfir þau verkefni sem hafa verið á borðinu síðustu 4 vikurnar, ótalin eru dagleg verkefni, vinna við ýmis minnisblöð, pælingar, umsagnir og fleira. Eins og sjá má er í nokkur horn að líta og þannig viljum við hafa það.

Aðventan er í nánd með jólastressi og ati hjá mörgum. Ég óska þess að lesendur eigi notalega aðventu og nái að takmarka stressið en njóta þeim mun fleiri samverustunda með sínum nánustu í anda jólanna. Frídagarnir þessi jólin eru óvenju margir og um að gera að njóta þeirra í botn. Ég mun taka mér einhverja frídaga í desember til að saxa á orlofsdaga og hlaða batteríin eftir at síðustu vikna, baka nokkrar sortir og verja tíma með mínu besta fólki. Þrif á efri skápum, loftum og veggjum verða látin mæta afgangi – jólin koma jú samt.

Enda þetta á nokkrum myndum sem teknar voru síðustu vikur.

Veðurglugginn eftir Juan í fjörunni neðan við Selasetrið. Verkið er unnið í rekavið af Vatnsnesinu. Á stólpana er ritað með höfðaletri Húna - þing. 

Listamaðurinn Juan vinnur að myndverkinu við Brúarhvamm. Myndin er af landsel og engu líkara en að augu hans fylgi manni eftir þegar gengið er framhjá verkinu.

Þessa mynd tók ég á Hrútafjarðarhálsinum. Sannkölluð gullin stund (það sem á ensku er kalla "golden hour") og tunglið veður í skýjum.

Framkvæmdir við Félagsheimilið eru í fullum gangi og fylgist ég með þeim frá skrifstofuglugganum eins og um veruleikasjónvarp væri að ræða. Ég er afar stolt af því að hægt var að ráðast í þessar framkvæmdir en þær hafa verið styrktar af hinu opinbera sem ég er ekki síður stolt af að náðist í gegn og þakklát fyrir. Húsið mun verða bæjarprýði að nýju að framkvæmdum loknum. 

Aðstöðuhús er risið í Kirkjuhvammi. Ég er einkar ánægð með staðsetninguna. Það fellur vel að umhverfinu og skyggir ekki á fallaega aðkomuna í hvamminn. Platan var steypt í liðinni viku og gert er ráð fyrir að húsinu verði lokað fljótlega og svo lokið við það á árinu 2026.

Viðbragðasðilar komu saman á minningardegi fórnarlamba umferðarslysa. 

Heimsók elstu nemenda leikskólans. Stór og flottur hópur sem eins og sjá má er spenntur fyrir verkefninu að safna fyrir gróðurhúsi við skólann. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?