26. apríl 2023

Nú verður sveitarstjóri að játa messufall í dagbókarbirtingum. Það verður að viðurkennast að síðustu tæpar tvær vikur hafa verið þær erilsömustu frá því ég hóf störf og því var tekin meðvituð ákvörðun um að láta allt bíða sem ekki teldist bráð nauðsynlegt. Dagbókin þar á meðal. Þau sem bíða svara við tölvupóstum eða fyrirspurnum bið ég afsökunar. Ég er að vinna mig niður úr óafgreiddum málum.

Það þarf engum að koma á óvart hvað var efst á baugi þennan tíma og lengst af það eina sem var á borðinu. Það verður líka að viðurkennast að dagbókarskrif vegna þessara síðustu tveggja vikna hafa verið eins og bolti sem ég hef ýtt á undan mér í gær og í dag. Ég satt að segja hef það varla í mér að líta um öxl og fara í smáatriðum ofan í það sem gekk á. Flest af því sem ég hef að segja hefur þegar verið sagt – ef ekki í fjölmiðlum þá á fjölsóttum fundi á Hótel Laugarbakka í síðustu viku.

Ég vil þó endurtaka eftirfarandi. Hugur minn hefur verið og verður áfram hjá fjölskyldunum á Bergsstöðum og Urriðaá. Það er erfitt að gera sér í hugarlund þær hörmungar sem þau hafa gengið í gegnum síðustu vikurnar. Mitt leiðarljós hefur verið að styðja við þau eins og nokkur kostur er en oft hefur mér fundist af veikum mætti. Ég vildi geta gert svo miklu meira. Ég hugsa líka til sveitunga þeirra sem eru uggandi um stöðuna í sínum hjörðum. Ég vil jafnframt leggja áherslu á að það er enginn ánægður með þá niðurstöðu að féð frá Urriðaá hafi orðið að urða. Hins vegar var fullreynt að nokkur önnur lausn væri möguleg. Við þá fullyrðingu get ég staðið kinnroðalaust.

Verkefni komandi vikna verða að draga saman lærdóminn af þessu öllu saman og knýja á um nauðsynlegar breytingar á þeim kerfum sem unnið er eftir. Kerfin eru mannanna verk og þeim er hægt að breyta. Það má ekki verða svo að einhverntíma í náinni framtíð standi aðrar fjölskyldur, sveitir og sveitarfélög í þessum sömu sporum. Margir hafa haft á orði sem í þessu hafa lent á undanförum árum að í kjölfarið hafi átt að ráðast í vinnu við að breyta kerfum. Svo hafi ekkert gerst. Nú er komið nóg. Kerfunum verður að breyta. Ég veit að það eru margir tilbúnir til að leggjast á árar í þeirri vinnu.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum síðustu tvær vikur til að leysa nær ómögulega stöðu. Stöðu þar sem enginn kostur var góður en sá sem ofan á varð sá skásti. Þið vitið hver þið eruð.

Frá fjölsóttum fundi um riðumálin á Hótel Laugarbakka þriðjudaginn 18. apríl. Um 300 manns sóttu fundinn.

Var efnið á síðunni hjálplegt?