Covid-19 Spurt & svarað

Fjölmargar spurningar vakna í því ástandi sem er uppi og reynum við að svara þeim eftir bestu getu.  Margir eru með sömu eða sambærilegar spurningar og því verða svörin birt hér á vefnum. 

Listinn er uppfærður eftir því sem nýjar spurningar berast.

Hvaða takmarkanir eru á því hvað ég má gera í úrvinnslusóttkví?

Í úrvinnslusóttkví gilda sömu reglur og um sóttkví, að þeirri undantekningu að einn af hverju heimili má ná í nauðsynjar, sem er ekki heimilt í hefðbundinni sóttkví. Þeir sem hafa sætt hefðbundinni sóttkví sæta henni áfram.  Það má því fara út að labba, viðra hundinn, fara með börnin út að leika, sinna dýrum og svo framvegis. Sé það gert verður að viðhalda almennar sóttvarnareglur og koma ekki nær öðrum en tvo metra. Nánari upplýsingar til almennings má finna hér - https://www.landlaeknir.is/koronaveira/thad-sem-thu-tharft-ad-vita/

Má ég fara í heimsókn til vina og ættingja?

Nei, það má ekki fara í heimsókn á önnur heimili. Börn sem eru í sameiginlegri forsjá mega ekki fara á milli heimila foreldra á meðan á úrvinnslusóttkví stendur. 

Hversu lengi mun þetta standa?

Þetta mun standa á meðan unnið er að smitrakningu. Það þýðir að kannað er með ferðir smitaðra og unnið úr nýjum sýnum. Það má búast við að það taki nokkra daga, en ekki er hægt að segja til um hversu margir þeir verða. Þessu verður aflétt eins fljótt og auðið er.

Má ég sækja nauðsynjar, eða fara í önnur erindi út fyrir Húnaþing Vestra?

Nei, tilgangurinn með úrvinnslusóttkví og takmörkunum á samkomum er að draga úr líkum á því að fólk beri smit á milli, bæði innan héraðs og í aðra landshluta. Sé um að ræða læknisþjónustu þarf að hafa samráð við heilsugæsluna áður en lagt er af stað. 

Má ég fara í vinnuna?

Nei, nema þú vinnir við starfsemi sem mundi teljast lífsnauðsynleg. Á vinnustöðum þarf að hafa í huga samkomubann og ættu því ekki fleiri en fimm að vera í sama rými auk allra almennra sóttvarnarreglna (þvo sér, spritta og 2m). Einyrkjum er heimilt að starfa áfram, svo lengi sem þeir umgangist ekki aðra einstaklinga á meðan á vinnu þeirra stendur. 

Ég kom sem gestur í Húnaþing Vestra, hvað á ég að gera?

Ef þú farinn til þíns heima, þá mælumst við til þess að þú farir í sjálfskipaða sóttkví heima hjá þér í 14 daga. Ef þú ert enn á svæðinu gilda að sjálfsögðu sömu reglur um þig og íbúa svæðisins. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?