12. febrúar 2024

Vikurnar 29. janúar – 11. febrúar

Dagbók sveitarstjóra voru gerð góð skil í þorrablótsannál um helgina. Því er ómögulegt annað en að hefja færsluna á því að tala um messufall. Það varð sem sagt messufall í síðustu viku og verður því hér stiklað á stóru í verkefnum síðustu tveggja vikna.

Byggðarráð fundaði einu sinni á þessum tveimur vikum. Þar var farið yfir lokaútgáfu nýrrar stefnu og viðbragðáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Höfðu drög að áætluninni verið til samráðs á heimasíðu sveitarfélagsins í tvær vikur. Engar umsagnir bárust. Vísaði ráðið áætluninni til afgreiðslu svitarstjórnar þar sem hún var samþykkt. Áætlunin er aðgengileg hér. Verður hún kynnt starfsmönnum sveitarfélagins innan tíðar og farið yfir þær leiðir sem þar eru kynntar varðandi tilkynningar og meðferð mála. Ég er afar ánægð með þessa nýju stefnu sem er skýrari og aðgengilegri en hin fyrri. Einnig eru þar kynntar nýjar leiðir til tilkynningar mála sem eru klárlega til bóta. Á byggðarráðsfundinum var sömuleiðis fjallað um erindi frá Kvenfélaginu Björk þar sem þær afsala sér afnotum af Bjarkarási sem þær hafa haft til umráða um langt skeið. Hugmyndin er að nýta garðinn fyrir leikskólann og grunnskólann. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka kvenfélagskonum fyrr og nú fyrir eljuna og dugnaðinn í umsjón garðsins. Í barnsminni mínu er hann lystigarður, blómum þakinn. Við munum fara í vinnu við að skilgreina hvernig við viljum sjá garðinn þróast.

Á fundinum var einnig samþykkt tilboð frá artkitektum vegna fullnaðarhönnunar á áningar- og útsýnissvæði við Hvítserk. Verkefni sem er styrkt af landsáætlun. Kallað var eftir tilboðum frá nokkrum aðilum og bauð Nordic Office of Architecture best. Það er afar skemmtilegt að ”heimamaðurinn” Jón Rafnar Benjamínsson mun leiða vinnuna en hann hefur mikla reynslu af hönnun af þessu tagi og verkefni sem hann hefur unnið af hafa fengið alþjóðlegar viðurkenningar. Spennandi verkefni sem ég hlakka til að fylgjast með.

Fundargerð byggðarráðsfundarins er hér.

Ég fékk nokkrar góðar heimsóknir síðustu tvær vikurnar. M.a. kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur í heimsókn en hann var á Hvammstanga til að hitta nemendur í 10. bekk. Ekki margir vita að hann hittir 10. bekkinga um allt land ár hvert og talar við þau um ástríðu og heibrigt líf. Alltaf hvetjandi að hitta eldhuga eins og hann. Einnig fékk ég 15 börn úr 6-9 ára kirkjustarfi í heimsókn þar sem ég kynnti fyrir þeim verkefni sveitarfélaga og sveitarstjóra. Við áttum afar skemmtilegt spjall í fundarsal sveitarstjórnar. Hver veit nema einhver þeirra eigi eftir að sitja þar við störf í framtíðinni – mér finnst það líklegt.

Góðir gestir í Ráðhúsinu.

Í fyrri vikunni sem hér er fjallað um fór nokkur tími í undirbúning landbúnaðarráðs og veituráðs sem haldnir voru seinni vikuna. Sem og sveitarstjórnarfund. Í samvinnu við formann landbúnaðarráðs voru unnin drög að samningum um grenjavinnslu og umsögn um reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem nú er til samráðs á samráðsgátt stjórnvalda. Umsögnin er hér. Umsagnafrestur um málið er til 20. febrúar og ég vil hvetja þau sem hafa áhuga að skoða málið og senda inn umsögn. Landbúnaðarráð hafði eitt og annað við drögin að athuga.

Fyrir veituráðsfundinum lág m.a. skýrsla með niðurstöðu vinnslueftirlits ÍSOR með hitaveitu Húnaþings vestra. Skv. henni eru engar teljandi breytingar á efnainnihaldi vatns í þeim þremur veitum sem reknar eru, Laugarbakka, Reykjum í Hrútafirði og á Borðeyri. Vatnsnotkun eykst bæði í veitunni á Laugarbakka og Reykjum Hrútafirði en dregst aðeins saman á Borðeyri. Atburðir síðustu daga sýna svo ekki er um villst mikilvægi þess að þessir inniviðir séu í lagi. Eins og aðrir þá hef ég mikið hugsað til Grindvíkinga undanfarna mánuði og nú íbúa á Reykjanesinu öllu vegna heitavatnsleysi. Afrek þeirra sem tengdu lögnina að nýju er magnað og vonandi verða skemmdir ekki teljandi.

Fimmtudaginn 1. febrúar var ég starfsmaður í þjálfun í Grunnskólanum. Átti ég þar mjög góðan dag með unga fólkinu okkar og frábæru starfsfólki grunn- og tónlistarskólans. Eydís Bára skólastjóri hafði útbúið fyrir mig stundaskrá sem ég fylgdi út í æsar. Ég fylgist með skemmtilegri samþættri verkefnavinnu nemenda á miðstigi sem gekk út á að skipuleggja afmælisveislu. Inn í verkefnið fléttuðust flestar námsgreinar og ég heyrði nokkra krakkana furða sig á hvað væri dýrt að halda afmæli. Þau voru ansi útsjónarsöm við að finna lausnir til að gera afmælið skemmtilegt en samt ekki of dýrt. Ég leit líka inn á bekkjarfund í fyrsta bekk þar sem þau fór meðal annars í hróshring og hrósuðu samnemendum sínum. Ég fylgdist með skólahreystivali á unglingastigi og hefði ég haft æfingafötin með mér er nokkuð ljóst að ég hefði sprungið vel áður en tímanum lauk – það var vel tekið á því. Engin furða að okkar fólk nær góðum árangri í Skólahreysti ár eftir ár. Maggi og Sara halda vel utan um undirbúninginn. Ég kíkti í tíma í sköpun, textíl, smíði og heimilisfræði á miðstigi. Ég fór í útigæslu og var boðið upp á fyrirtaks soðningu í hádeginu. Eftir hádegið sat ég æfingu hjá Húsbandinu, sem er val á unglingastigi. Sex stelpur mynda hljómsveit og langaði mig mest að taka tíma frá eftir hádegi á fimmtudögum til að geta verið með þeim í bandinu. Þvílíkir snillingar. Þær byrjuðu að æfa nýtt lag í tímanum og eftir 20 mínútur voru þær farnar að spila lagið því sem næst í gegn. Ég hélt að þær væru allar með áralangt tónlistarnám að baki en það var nú aldeilis ekki. Ef ég man rétt var bara ein þeirra sem hafði verið í einhvern tíma í tónlistarskólanum. Ég endaði daginn svo á því að vera í frístund. Ég þakka nemendum og kennurum fyrir frábærar móttökur. Eftir heimsóknir mínar í leik- og grunnskólann á síðustu vikum þá sé ég enn betur hvað við erum með afbragðs mannskap og eigum frábæra krakka.

Fimmtudaginn 1. febrúar var dagur kvenfélagskonunnar. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka kvenfélagskonunum okkar kærlega fyrir sitt ómetanlega framlag til samfélagsins okkar. Ég komst því miður ekki í kvenfélagskaffi í tilefni dagsins og færi þeim því kveðju og þakkir hér.

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 8. febrúar. Hann var með hefðbundnu sniði. Þar voru samþykktar breyttar reglur um heimadaga í grunnskólanum, stefna um einelti, áreitni og ofbeldi staðfest, kosinnn nýr varafulltrúi á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðalfulltrúi á ársþins SSNV í stað Friðriks Más sem baðst lausnar úr sveitarstjórn á síðasta ári. Einnig var á fundinum tekin ákvörðun um breytta tímasetningu og fundarstað næsta reglulega sveitarstjórnarfundar en hann verður þriðjudaginn 12. mars kl. 15 í Riis húsi á Borðeyri. Ég vil minna á að fundir sveitarstjórnar eru öllum opnir og vona ég að við fáum sem flesta gesti í Riis hús.

Ég sat áhugaverðan fund á vegum Nordregio sem er norræn rannsóknarmiðstöð um byggðaþróun. Kallaðir höfðu verið saman fulltrúar nokkurra sveitarfélaga til skrafs og ráðagerða um snjalla aðlögun (e. smart adaptation) samfélaga til að bregðast við fólksfækkun. Þó okkur hafi nú verið að fjölga á síðustu árum þá má ekki mikið út af bregða til að aftur fækki. Því mun ég fylgjast vel með þessu samtali sem fram fer á þessum vettvangi til að sjá hvort ekki fást þaðan góðar hugmyndir og ráð til eflingar okkar góða samfélags.

Ég sat einnig tvo fundi með stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en ég var skipuð í hana fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig sat ég fund stjórnar Eignarhaldsfélags Brunabótar en þar var ég skipuð í varastjórn á síðasta ári. Ég skaust suður á þann fund en fundir stjórnar framkvæmdasjóðisins eru á netinu svo þeir kalla ekki á ferðalög. Einnig sat ég samráðsfund sveitarstjóra á Norðurlandi vestra með SSNV en við hittumst mánaðarlega á Teams til að bera saman bækur.

Til viðbótar við þetta þá sat ég ýmsa fundi með stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins, framkvæmdaráð hélt sína reglubundnu vikulegu fundi, ég sinnti ýmsum skrifborðsverkefnum, svaraði fyrirspurnum og erindum, tilkynnti um afgreiðslur mála eftir sveitarstjórnarfundinn, samþykkti reikninga, lokaði slatta af gömlu en afgreiddum málum í skjalakefinu og margt fleira.

Á laugardaginn skellti ég mér svo á þorrablót Ungmennafélagsins Kormáks. Það var hin allra besta skemmtun og annállinn að vanda hárbeittur og fyndinn. Magnað hvað fólk getur hermt vel eftir sveitungum sínum. Ég dáist að því fólki sem leggur nótt við nýtan dag til að þorrablót eins og þetta verði að veruleika. Það er mikil vinna og ég þakka þeim öllum. Ekki bara þorrablótsnefnd blótsins á Hvammstanga heldur líka í Víðihlið, Ásbyrgi, Borðeyri og ekki síst Félags eldri borgara. Þakka ykkur öllum kærlega fyrir.

Myndin hér að neðan er þorrablótsnefnd til heiðurs – takk fyrir mig.

Sviðsett mynd.

Var efnið á síðunni hjálplegt?