Húnasjóður

Húnasjóð stofnuðu hjónin Ásgeir Magnússon og Unnur Ásmundsdóttir til þess að minnast starfs Alþýðuskóla Húnvetninga, sem Ásgeir stofnaði og rak á Hvammstanga árin 1913-1920.  Tilgangur sjóðsins er að stuðla að endurmenntun og fagmenntun í Húnaþingi vestra.  Samkvæmt skipulagsskrá fyrir Húnasjóð sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 12. október 2000 skal sveitarsjóður leggja sjóðnum árlega til fé skv. fjárhagsáætlun hverju sinni.  Árlegu framlagi Húnaþings vestra ásamt hálfum vöxtum höfuðstóls skal úthluta í styrki á ári hverju.

Húnaþing vestra auglýsir á hverju ári eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum sem er veittur síðsumars ár hvert og birtir auglýsingu þess efnis á heimasíðu Húnaþings vestra.

Umsóknareyðublað sjóðsins.

Mynd: Myndin er tekið af þinghúsinu á öðrum áratug síðustu aldar.
Á Hvammstanga var þinghús hreppsnefndar tekið í notkun árið 1909 og stækkað 1914. Þinghúsið varð strax miðstöð félagslífs í bænum. Í því var héraðsbókasafnið til húsa, haldnir voru fundir og samkomur utan dyra sem innan, leikrit voru sett upp í húsinu, haldin böll og á vetrum var messað í húsinu. Þar var einnig um tíma gullsmíðaverkstæði og í kjallara hússins rak Sigurður Davíðsson landsfræga verslun sína um áratugaskeið. Þar var barnaskóli Hvammstanga til húsa frá 1909 til 1962 en þá var nýtt skólahús tekið í notkun. Á árunum 1913-1920 starfsrækti Ásgeir Magnússon þar einnig unglingaskóla. Þar lærðu ungmenni eldri en 14. ára stærðfræði, eðlisfræði, sögu, ensku, þýsku, íþróttir og margt fleira. Eftir íþróttatíma voru nemendur látnir baða sig í sjónum neðan við húsið hvernig sem viðraði. Þinghúsið var rifið laust eftir 1970.

Var efnið á síðunni hjálplegt?